Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 60/2008

Nr. 60/2008 22. janúar 2008
REGLUR
um Æskulýðssjóð.

1. gr.

Hlutverk Æskulýðssjóðs er að styrkja eftirtalin verkefni á vegum æskulýðsfélaga og æskulýðs­samtaka, sbr. 9. gr. æskulýðslaga nr. 70/2007:

  1. Sérstök verkefni sem unnin eru fyrir börn og ungmenni og/eða með virkri þátt­töku þeirra.
  2. Þjálfun forystufólks, leiðbeinenda og sjálfboðaliða.
  3. Nýjungar og þróunarverkefni.
  4. Samstarfsverkefni æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka.

Hvorki er heimilt að styrkja árvissa eða fasta viðburði í félagsstarfi, svo sem t.d. þing, mót eða þess háttar viðburði né ferðir hópa.

2. gr.

Menntamálaráðherra úthlutar styrkjum úr Æskulýðssjóði að fengnum tillögum stjórnar Æskulýðssjóðs.

Stjórn Æskulýðssjóðs skal skipuð þremur fulltrúum til tveggja ára í senn, sbr. 8. gr. æskulýðslaga. Formaður Æskulýðsráðs er formaður sjóðsins, en ráðið tilnefnir tvo full­trúa og jafnmarga varamenn. Ráðherra skipar varaformann Æskulýðssjóðs úr hópi aðal­fulltrúa.

3. gr.

Tekjur Æskulýðssjóðs eru:

  1. Framlag ríkissjóðs eftir því sem ákveðið er í fjárlögum.
  2. Frjáls framlög.

4. gr.

Menntamálaráðuneyti auglýsir eftir umsóknum um styrki fjórum sinnum á ári. Ávallt skal tekið fram í auglýsingu ef ákveðin verkefni eiga að hafa forgang umfram önnur verkefni við úthlutun auk þess sem fram skal koma hvernig umsókn sé skilað. Í umsókn til Æskulýðssjóðs skulu koma fram upplýsingar um:

  1. Nafn og heimilisfang umsækjanda.
  2. Heiti, lýsing og markmið verkefnis, ásamt kostnaðar- og tímaáætlun.
  3. Áætlaðan fjölda þátttakenda.
  4. Samstarfsaðila eftir því sem við á.
  5. Kennitölu, bankareikning og reikningsnúmer er styrkurinn á að leggjast inn á ef viðkomandi hefur fengið úthlutað styrk.

5. gr.

Úthlutað er úr Æskulýðssjóði fjórum sinnum á ári: 1. febrúar, 1. apríl, 1. september og 1. nóvember. Heimilt er að veita styrki til ákveðinna tímabundinna átaksverkefna er æskulýðs­félög eða æskulýðssamtök taka þátt í. Sjóðstjórn skal haga starfi sínu í sam­ræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stjórn sjóðsins er heimilt að leita álits sérfróðra aðila við mat á umsóknum um styrki úr Æskulýðssjóði. Kostnaður við störf stjórnar Æskulýðssjóðs skal greiddur af árlegu ráðstöfunarfé sjóðsins. Upp­lýsingar um styrkveitingar skulu birtar á vefsíðu menntamálaráðuneytis.

6. gr.

Styrkþegum ber að skila inn greinargerð um framkvæmd og fjárhagslegt uppgjör eigi síðar en tveimur mánuðum eftir lok verkefnis. Heimilt er að krefja styrkþega um endurgreiðslu ef greinargerð berst ekki innan framangreinds frests eða ef verkefni hefur ekki verið framkvæmt í samræmi við umsókn. Heimilt er að skipta greiðslu styrkja. Ef ekki hefur borist fullnægjandi greinargerð vegna fyrri verkefna er sjóðstjórn heimilt að hafna nýrri umsókn.

7. gr.

Reglur þessar eru settar skv. 9. gr. æskulýðslaga nr. 70/2007 og öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 22. janúar 2008.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Guðmundur Árnason.

B deild - Útgáfud.: 25. janúar 2008