1. gr. Forsætisráðherra getur ákveðið, með samþykki ríkisstjórnar, að skipa ráðherranefndir til að fjalla um einstök mál eða málaflokka, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Hlutverk ráðherranefnda er að efla samráð og samstarf á milli ráðherra og ráðuneyta þeirra og tryggja samhæfingu ef málefnasvið skarast og til að undirbúa mál til framlagningar í ríkisstjórn. Forsætisráðherra stýrir fundum ráðherranefnda eða felur öðrum ráðherra að stýra fundum ráðherranefndar í sinn stað, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Forsætisráðherra, í samráði við viðkomandi ráðherranefnd, felur starfsmanni í Stjórnarráði Íslands að vera ritari ráðherranefndar. Ritari annast og stýrir undirbúningi ráðherranefndarfunda, undirbýr dagskrá og annast boðun funda samkvæmt fyrirmælum forsætisráðherra eða þess ráðherra sem stýrir fundi. Ritari skal leitast við að tryggja að mál sem borin eru upp á ráðherranefndarfundum séu vel undirbúin og að viðeigandi samráð milli ráðuneyta sé viðhaft eftir atvikum með því að boða starfsmenn viðkomandi ráðuneyta til undirbúningsfundar fyrir ráðherranefndarfund. 2. gr. Forsætisráðherra eða sá ráðherra annar sem stýrir fundi, boðar fundi ráðherranefndar. Fundi skal boða með dagskrá. Öllum ráðherrum í ríkisstjórn skal tilkynnt um fyrirhugaða fundi í ráðherranefndum og er sérhverjum ráðherra heimilt að sækja fund, óski hann eftir því, enda þótt hann eigi ekki fast sæti í viðkomandi ráðherranefnd. 3. gr. Í fundargerð ráðherranefndar skulu færðar niðurstöður, skýrt frá frásögnum og tilkynningum ráðherra, auk þess sem greint skal frá umræðuefni, ef ekki er á því formleg niðurstaða og bókuð afstaða samkvæmt sérstakri ósk, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Fundargerðir skulu staðfestar af forsætisráðherra og dreift til annarra ráðherra þegar staðfesting liggur fyrir. Komi fram athugasemd við fundargerð frá ráðherra skal hún skráð í fundargerð næsta fundar, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um Stjórnarráð Íslands. Trúnaðar- og þagnarskylda hvílir á ráðherrum og öðrum sem sitja ráðherranefndarfundi um öll gögn ráðherranefnda nema viðkomandi nefnd samþykki að aflétta trúnaði eða lög kveði á um annað. 4. gr. Þótt ráðherra hafi tekið mál upp í ráðherranefnd þá leysir það hann ekki undan skyldu til að bera mál upp í ríkisstjórn, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, ef um er að ræða mál sem þar skal bera upp skv. 6. gr. sömu laga og reglur um starfshætti ríkisstjórnar. Fundargerðum ráðherranefnda skal með reglulegu millibili dreift til allra ráðherra í ríkisstjórn. 5. gr. Ráðherra sem ber ábyrgð á máli skal tryggja eftirfylgni með samþykkt ríkisstjórnar. 6. gr. Reglur þessar, sem settar eru með stoð í 3. mgr. 10. gr. laga um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011 og að höfðu samráði við ríkisstjórn, öðlast þegar gildi. Forsætisráðuneytinu, 22. febrúar 2013. Jóhanna Sigurðardóttir. Ragnhildur Arnljótsdóttir. |