Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1004/2008

Nr. 1004/2008 18. september 2008
AUGLÝSING
um endurskoðaðar reglur um bílastæðakort íbúa í Reykjavík.

Borgarráð samþykkti eftirfarandi nýjar reglur um bílastæðakort íbúa með tilheyrandi yfirlitskorti yfir bílastæðasvæði á fundi sínum þann 18. september 2008, sem hlotið hafa samþykki lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu með tilvísun til 2. mgr. 83. gr. umferðar­laga nr. 50/1987, sbr. jafnframt reglur um notkun stöðureita í Reykjavík og gjald­töku frá febrúar 1988:

  1. Íbúar í Reykjavík með lögheimili þar sem bílastæði fyrir utan viðkomandi hús eru gjald­skyld og ekki hafa aðgang að bílastæði á lóð sinni, geta sótt um að fá keypt bílastæðakort íbúa (hér eftir nefnt „íbúakort“). Sama á við þar sem bílastæði fyrir utan viðkomandi hús hafa verið aflögð með samþykkt um umferð í götunni. Nú er um­sækjandi leigjandi íbúðar og skal umsækjandi þá framvísa þinglýstum húsa­leigu­samningi með umsókn um íbúakort sbr. 7. lið (um gildistíma íbúakorts). Nú stendur hús á horni, þannig að gjaldskylda er við aðra götuna sem liggur að horninu en gjaldfrjáls bílastæði eru við hina götuna og eiga þá íbúar viðkomandi húss ekki rétt á íbúakorti. Íbúakort veitir heimild til að leggja bifreið án endur­gjalds á stöðu- eða miðamælastæði innan þess svæðis, sem íbúakortið gildir fyrir.
  2. Gildissvæði íbúakorta eru átta, nánar tilgreind á sérstöku yfirlitskorti sem fylgir þessum reglum, sbr. fylgiskjal.
    Svæði A er vestan Kvosar. Svæði B afmarkast af Lækjargötu, Fríkirkjuvegi, Skothúsvegi, Hellusundi, Bergstaðastræti, Laugavegi og Bankastræti að Lækjar­götu að nýju. Svæði C afmarkast af Lækjargötu, Bankastræti, Laugavegi, Frakka­stíg og Sæbraut. Svæði D afmarkast af Bergstaðastræti, Bjargarstíg, Freyju­götu, Njarðargötu, Frakkastíg og Laugavegi. Svæði E afmarkast af Frakkastíg, Lauga­vegi, Snorrabraut og Sæbraut. Svæði F afmarkast af Frakkastíg, Bergþórugötu, Snorrabraut og Laugavegi. Svæði G afmarkast af Snorrabraut, Laugavegi, Höfðatúni og Sæbraut. Svæði H afmarkast af Snorrabraut, Njálsgötu, Rauðar­ár­stíg, Stórholti, Skipholti, Nóatúni og Laugavegi. Kortin gilda ekki á stæðum á gjaldsvæði I. Íbúakortið gildir á svæðinu þar sem umsækjandi býr. Íbúar á gjaldsvæði I geta þó valið á milli þeirra íbúakortasvæða sem liggja næst viðkomandi húsi.
  3. Umsækjandi þarf að vera skráður eigandi eða umráðamaður bifreiðarinnar sem sótt er um kort fyrir samkvæmt ökutækjaskrá. Skal bifreiðin vera á íslenskum skráningarnúmerum. Sé umsækjandi meðeigandi bifreiðar sem sótt er um íbúakort fyrir gildir umsókn viðkomandi ekki nema aðrir meðeigendur eigi sama lögheimili og umsækjandinn. Sé bifreiðin í eigu fyrirtækis en til einkanota þarf umsækjandi að vera skráður umráðamaður í ökutækjaskrá. Óheimilt er að gefa út íbúakort fyrir bifreiðar sem að einhverju leyti eða öllu eru eða geta verið atvinnutæki svo sem sendibifreiðar eða vörubifreiðar skv. ökutækjaskrá. Óheimilt er að gefa út íbúakort fyrir bifreiðar sem eru, hvort heldur sem er, lengri en 5,2 m eða breiðari en 1,9 metrar. Umsækjandi skal vera skuldlaus við Bílastæðasjóð.
  4. Heimilt er að gefa út 1 kort pr. íbúð. Óheimilt er að gefa út nema eitt íbúakort pr. nafn. Það á jafnframt við þó umsækjandi sé skráður eigandi fleiri en einnar íbúðar. Upplýsingum um íbúð skal bera saman við skrá Fasteignamats ríkisins um íbúðarhúsnæði.
  5. Á íbúakort er skráð bílnúmer, raðtala korthafa og gildistími. Því skal komið fyrir á innanverðri framrúðu bifreiðar bílstjóramegin svo vel sé læsilegt utanfrá. Óheimilt er að framselja íbúakort eða nota fyrir aðra bifreið en þá sem það er gefið út fyrir. Með óheimilu framsali er jafnframt átt við ef bifreið með íbúakorti er lánuð einstaklingi með lögheimili utan íbúakortssvæðis um lengri tíma t.d. meðan á dvöl handhafa kortsins vegna náms eða atvinnu erlendis stendur.
  6. Sótt er um kortin hjá Bílastæðasjóði Reykjavíkur, Borgartúni 12-14, á þar til gerðu umsóknareyðublaði. Þar eru jafnframt önnur eyðublöð sem varðað geta umsókn um íbúakort, svo sem umsókn um endurnýjun íbúakorts. Umrædd eyðublöð eru einnig á heimasíðu Bílastæðasjóðs, www.bilastaedasjodur.is.
  7. Íbúakortið er gefið út til 12 mánaða í senn og gildir því í eitt ár frá lokum útgáfumánaðar. Íbúakort kostar 6.000 kr. Sama gildir um endurnýjun korta og endur­útgáfu vegna breytinga á bílnúmeri. Sækja þarf um endurnýjun með að minnsta kosti viku fyrirvara áður en kort rennur út. Breytist aðstæður korthafa, svo sem vegna flutnings, kaups og/eða sölu bifreiðar eða af öðrum ástæðum sem valda því að skilyrði til útgáfu íbúakorts eru ekki lengur uppfyllt ber að skila kort­inu til útgefanda.
  8. Misnotkun kortsins, svo sem ef kort er flutt milli bifreiða eða svæða, varðar missi kortsins án endurgreiðslu á eftirstandandi gildistíma þess. Nú verða eigendaskipti að bifreið með íbúakorti án þess að íbúkortinu sé skilað til Bílastæðasjóðs og hefur þá viðkomandi handhafi kortsins fyrirgert rétti sínum til að fá úthlutað íbúakorti í 2 ár.
  9. Reglur þessar taka gildi við birtingu í Stjórnartíðindum, og falla úr gildi eldri reglur sbr. auglýsingu nr. 12/2003 um endurskoðaðar reglur um bílastæðakort íbúa.

Reykjavík, 18. september 2008.

Borgarstjórinn í Reykjavík,

e.u. Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 31. október 2008