Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 655/2010

Nr. 655/2010 9. ágúst 2010
REGLUR
um forval og fast forval í talsímanetum.

1. gr.

Markmið og gildissvið.

Reglur þessar gilda um möguleika áskrifenda fjarskiptafyrirtækis sem hefur umtals­verðan markaðsstyrk í tengingum við almenna talsímanetið á að fá aðgang að þjónustu allra samtengdra fyrirtækja sem veita almenna fjarskiptaþjónustu. Slíkur aðgangur getur verið í formi forvals, fasts forvals eða fasts forvals með einum heildstæðum reikningi.

Markmið þessara reglna er að kveða á um skilvirkan aðgang, auka neytendavernd notenda í talsímaþjónustu, koma í veg fyrir óþarfa tafir og stuðla að góðri samvinnu um ofangreindan aðgang milli fjarskiptafyrirtækis sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk í tengingum við almenna talsímanetið og starfandi fjarskiptafyrirtækja á markaði.

Reglur þessar skulu ná til fjarskiptafyrirtækja með almenna heimild til reksturs fjarskipta­neta og/eða fjarskiptaþjónustu og notenda slíkrar þjónustu.

2. gr.

Orðskýringar.

Eftirfarandi orðskýringar eiga við í þessum reglum:

  1. Forval: Möguleiki sem gerir notendum í talsímaþjónustu kleift að velja milli mis­munandi þjónustuveitenda fyrir ákveðin símtöl þrátt fyrir að þeir séu fast­tengdir talsímaneti tiltekins fjarskiptafyrirtækis.
  2. Fast forval: Möguleiki sem áskrifendum í talsímaþjónustu er boðinn og gefur þeim kost á að velja að ákveðnum flokkum símtala sé beint til ákveðins þjónustuveitanda, sem valinn er fyrirfram, án þess að nota þurfi forskeyti viðkom­andi þjónustuveitanda.­
  3. Fast forval með einum heildstæðum reikningi: Sérstök þjónustuleið á föstu forvali þar sem þjónustuveitendur fasts forvals gera viðskiptavinum sínum einn heild­stæðan reikning fyrir bæði aðgengi og símnotkun. Fjarskiptafyrirtæki með umtals­verðan markaðsstyrk sendir þá ekki áskrifanda reikning fyrir aðgengi.
  4. Fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk: Fjarskiptafyrirtæki sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur skilgreint með umtalsverðan markaðsstyrk.
  5. Forskeyti: Númer sem notandi verður að velja á undan símanúmeri til að fá aðgang að þjónustuaðila.
  6. Áskrifandi: Einstaklingur eða lögaðili sem er aðili að samningi við seljanda almennrar fjarskiptaþjónustu um afhendingu slíkrar þjónustu.
  7. Notandi: Einstaklingur eða lögaðili sem notar eða sækir um að nota almenna fjarskiptaþjónustu.
  8. Þjónustuveitandi: Fjarskiptafyrirtæki sem hefur almenna heimild til reksturs fjar­skiptaneta og/eða fjarskiptaþjónustu og hefur tilkynnt það til Póst- og fjarskipta­stofnunar.
  9. A-notandi: Notandi sem efnir til uppkalls.
  10. B-notandi: Notandi sem uppkalli er beint til.
  11. Rétthafi: Er sá einstaklingur eða lögaðili sem fengið hefur úthlutað númeri frá fjarskiptafyrirtæki á sitt nafn og fer með réttindi og skyldur vegna notkunar þess númers.
  12. Rétthafabreyting: Yfirfærsla sem fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðs­styrk samþykkir á samningi um talsímaþjónustu frá einum áskrifanda (fyrri rétthafi) til annars (nýr rétthafi). Nýr áskrifandi tekur við heimtaug og síma­númeri fyrri áskrifanda án breytinga á símtengingu. Þjónusta, þ.m.t. læsingar, helst óbreytt nema hinn nýi áskrifandi óski breytinga á þjónustu. Nánar er fjallað um rétthafabreytingu í 10. gr. reglna um númera- og þjónustuflutning í almennum fjarskiptanetum nr. 949/2008, með síðari breytingum.
  13. Númeraleynd: Þjónusta sem gerir A-notanda kleift að koma í veg fyrir að símanúmer hans birtist B-notanda.
  14. Leyninúmer: Símanúmer sem áskrifandi að númerinu hefur óskað eftir að sé óskráð í símaskrá og öðrum listum yfir áskrifendur tal- eða farsímaþjónustu.
  15. Læsingar á aðgangi: Fjarskiptafyrirtæki sem falin hefur verið alþjónusta skulu að beiðni áskrifanda læsa fyrir ákveðnar tegundir símtala eða fyrir símtöl í ákveðnar númeraraðir, honum að kostnaðarlausu.

3. gr.

Skyldur fjarskiptafyrirtækja með umtalsverðan markaðsstyrk.

Fjarskiptafyrirtæki sem hafa umtalsverðan markaðsstyrk í tengingum við almenna fasta talsímanetið skulu gera áskrifendum sínum mögulegt að fá aðgang að þjónustu allra samtengdra fyrirtækja sem veita almenna talsímaþjónustu í samræmi við ákvæði 53. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 og reglur þessar.

Fyrirkomulag þessa aðgangs getur verið annaðhvort þannig að notandi velji forskeyti á undan hverju símtali eða með föstu forvali. Fjarskiptafyrirtæki sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk í tengingum við almenna fasta talsímanetið skal ennfremur veita öðrum þjónustuveitendum fasts forvals möguleika á að geta gert viðskiptavinum sínum einn heildstæðan reikning fyrir bæði aðgengi og símnotkun. Fyrrnefnda fyrirtækið sendir viðskiptavinum sínum þá ekki reikning fyrir aðgengið.

Þörf notenda fyrir forval eða fast forval í öðrum netum eða á annan hátt en skv. 1. mgr. skal Póst- og fjarskiptastofnun meta á grundvelli markaðsgreiningar.

4. gr.

Tegundir símtala í forvali.

Áskrifendur skulu eiga rétt til að velja í forvali eða föstu forvali þjónustuveitanda fyrir aðra hvora eða báðar eftirfarandi tegundir sjálfvirkra símtala:

  1. Símtöl til útlanda.
  2. Símtöl innanlands.

Áskrifendur skulu ýmist geta valið sama eða mismunandi þjónustuveitanda fyrir 1. og 2. lið.

Áskrifendur skulu geta valið með forvali öll forskeyti sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur úthlutað í númeraröðinni 1000 til og með 1100 í þeim tilgangi að fá þjónustu sem veitt er í þessum númerum.

Áskrifendur geta einnig valið þá þjónustuleið að fá einn heildstæðan reikning fyrir fast forval. Gilda þá ekki ákvæði 1. – 3. mgr. um mismunandi tegundir símtala í forvali.

Undanþegin föstu forvali eru símtöl í neyðarnúmerið 112.

Ákvæði um fast forval eiga ekki við um almenningssíma sem starfræktir eru af fjarskiptafyrirtækjum. Ákvæði um fast forval gilda ekki þegar fyrirframgreitt símakort er notað.

5. gr.

Réttur þjónustuveitenda og val á tæknilegri lausn.

Fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk, sbr. 2. gr., skulu verða við öllum sanngjörnum beiðnum þjónustuveitenda um forval sem gerir notendum kleift að velja þjónustu þjónustuveitenda fyrir einstök símtöl eða áskrifendum kleift að kjósa fast forval fyrir öll símtöl, sbr. 1. og/eða 2. tl. 1. mgr. 3. gr.

Fjarskiptafyrirtæki sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk í tengingum við almenna fasta talsímanetið er heimilt að beita tæknilegum lausnum við veitingu aðgangs samkvæmt reglum þessum að eigin vali enda séu ákvæði fjarskiptalaga og annarra reglna á grundvelli þeirra uppfyllt. Ekki er þó heimilt að velja tæknilega lausn sem felur í sér óhagræði og óhóflegan kostnað fyrir önnur fjarskiptafyrirtæki að laga sig að.

6. gr.

Umsóknir, tilkynningar og verkferlar.

Áskrifandi sem óskar eftir að fá talsímaþjónustu með forvali skal skrá sig hjá viðkomandi þjónustuveitanda. Þjónustuveitanda er heimilt að vísa frá símtölum frá áskrifendum sem ekki hafa skráð sig.

Áskrifandi sem óskar eftir föstu forvali á símtölum sínum í öðrum hvorum eða báðum flokkum 1. mgr. 3. gr. skal gera viðskiptasamning við þjónustuveitanda sem áskrifandinn vill beina símtölum sínum til. Áskrifandi getur óskað eftir viðskiptasamningi skriflega, á rafrænu formi eða munnlega. Í síðasttalda tilfellinu skal þjónustuveitandi senda viðkomandi áskrifanda staðfestingu skriflega eða á rafrænu formi.

Þjónustuveitandi skal tilkynna ákvörðun áskrifanda um fast forval til fjarskiptafyrirtækis sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk í tengingum við almenna fasta talsímanetið og áskrifandinn er fasttengdur. Tilkynningin má vera á rafrænu formi.

Óheimilt er með öllu að tilkynna fjarskiptafyrirtæki sem hefur umtalsverðan markaðs­styrk í tengingum við almenna fasta talsímanetið um fast forval áskrifanda nema beiðni áskrifandans liggi fyrir skv. 1. mgr.

Fjarskiptafyrirtæki setja sér verkferla um framkvæmd forvals, fasts forvals og fasts for­vals með heildstæðri reikningagerð samkvæmt reglum þessum. Skulu verkferlar þessir m.a. kveða á um form flutningsbeiðna, fyrirkomulag og framkvæmd umrædds aðgangs, nákvæma upplýsingagjöf til notenda um aðgangsferlið og að leiðréttingar á mistökum njóti forgangs við afgreiðslu flutningsbeiðna hjá hlutaðeigandi fjarskipta­fyrirtækjum.

7. gr.

Tímasetning á föstu forvali.

Fjarskiptafyrirtæki sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk í tengingum við almenna fasta talsímanetið skal koma á föstu forvali fyrir þjónustuveitanda innan 5 virkra daga frá því að fyrirtækinu berst skrifleg umsókn þar að lútandi. Föstu forvali fyrir hvern einstakan áskrifanda skal komið á innan 2 virkra daga frá þeim degi þegar fyrirtækinu berst tilkynning um fast forval áskrifanda.

Við ofangreindan aðgang samkvæmt reglum þessum skulu fjarskiptafyrirtækin sem hlut eiga að máli gera allar ráðstafanir til að rétthafi númers/tengingar verði ekki fyrir truflunum í símanotkun sinni.

8. gr.

Aðferð við að velja símanúmer.

Notandi síma þar sem gerður hefur verið samningur við þjónustuveitanda um fast forval á símtölum skal sleppa forskeyti viðkomandi þjónustuveitanda þegar símtal er valið. Ef valið er símtal til útlanda skal velja 00, landsnúmer og símanúmer viðtakanda símtals í þessari röð. Ef valið er símtal innanlands skal einungis valið símanúmer viðtakanda.

9. gr.

Framhjáhlaup.

Áskrifendur síma sem hafa gert samning um fast forval geta gengið fram hjá forvalinu með því að velja forskeyti annars þjónustuveitanda í upphafi símtals. Við val á símtali til útlanda skal þá velja forskeyti þjónustuaðila, 00, landsnúmer og símanúmer viðtakanda símtals í þessari röð. Við val á símtali innanlands skal velja forskeyti þjónustuveitanda og síðan símanúmer viðtakanda símtals. Bjóði þjónustuaðili einungis símtöl til útlanda má sleppa að velja 00 á eftir forskeyti þjónustuaðila.

Ákvæði þetta gildir ekki um þá áskrifendur sem hafa valið þjónustuleiðina fast forval með einum heildstæðum reikningi.

10. gr.

Læsingar fyrir símtöl.

Þjónustuveitandi sem gerir samning við áskrifanda fjarskiptafyrirtækis sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk í tengingum við almenna fasta talsímanetið um fast forval skal upplýsa áskrifanda um að læsingar sem hafa verið á síma hans kunni að verða óvirkar þegar föstu forvali er komið á. Þjónustuveitandi skal bera ábyrgð á að læsingar séu í samræmi við þær óskir áskrifenda sem hann hefur móttekið skriflega eða með rafrænum hætti.

11. gr.

Sending á A-númeri.

Fjarskiptafyrirtæki sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk í tengingum við almenna fasta talsímanetið skal gera ráðstafanir til þess að númer A-notanda sendist með símtalinu til þjónustuveitanda til þess að gera gjaldtöku mögulega. Þjónustuveitandi skal tryggja að númer A-notanda verði ekki sent áfram til B-notanda ef A-notandi hefur valið þann kost að númer hans eigi ekki að birtast B-notanda. Þjónustuveitanda ber að virða ákvæði 45. gr. laga um fjarskipti, nr. 81/2003 um skrár yfir áskrifendur og gera ráðstafanir til þess að tryggja að númeraleynd áskrifenda sem óska þess að vera óskráðir sé viðhaldið. Sérstaklega skal þess gætt að upplýsingar um símanúmer slíkra áskrifenda séu einungis veittar þeim starfsmönnum þjónustuveitanda sem þurfa nauðsynlega á slíkum upp­lýsingum að halda.

12. gr.

Kostnaður af kerfisaðgerðum o.fl.

Fjarskiptafyrirtæki sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk í tengingum við almenna fasta talsímanetið skal bera kostnað af uppsetningu á forvali í kerfi sínu.

Fjarskiptafyrirtæki sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk í tengingum við almenna fasta talsímanetið skal bera kostnað af breytingum á símakerfi hans sem hlýst af því að gera fast forval mögulegt. Það sama á við um kostnað fyrirtækisins við að gera öðrum þjónustuveitendum fasts forvals mögulegt að geta gert viðskiptavinum sínum einn heildstæðan reikning, nema kostnaðargreining sem Póst- og fjarskiptastofnun samþykkir gefi til kynna að kostnaður fyrirtækisins sé meiri en það sem sparast við að þurfa ekki að hafa samskipti við umrædda áskrifendur. Ef kostnaður er meiri en umræddur sparnaður er heimilt að skipta honum á milli fyrirtækisins og annarra þjónustuveitenda í hlutfalli við fjölda áskrifenda. Smásöludeild fyrirtækisins skal taka þátt í kostnaðinum í samræmi við fjölda sinna áskrifenda.

Kostnað sem fjarskiptafyrirtæki sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk í tengingum við almenna fasta talsímanetið hefur af því að skrá í símstöðvakerfi sín forskeyti þjónustuveitanda í fast forval skal hinn síðarnefndi bera. Kostnað sem fjarskiptafyrirtæki sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk í tengingum við almenna fasta talsímanetið hefur af því að skrá í kerfi sín fast forval hvers einstaks áskrifanda skal þjónustuveitandi bera.

Póst- og fjarskiptastofnun skal tryggja að gjöld fyrir aðgang og samtengingu sem tengjast framboði á forvali, föstu forvali og föstu forvali með heildstæðri reikningagerð séu í samræmi við kostnað fjarskiptafyrirtækis sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk í tengingum við almenna fasta talsímanetið, ásamt hæfilegri álagningu, sbr. 3. mgr. 53. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003.

13. gr.

Rétthafabreyting.

Við rétthafabreytingu á símanúmeri sem er í föstu forvali skal fast forval haldast óbreytt nema hinn nýi áskrifandi tilkynni þjónustuveitanda að hann óski eftir að fast forval sé aftengt. Þjónustuveitandi skal þá senda beiðni þar að lútandi til fjarskiptafyrirtækis sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk í tengingum við almenna fasta talsímanetið.

14. gr.

Aðgerðarleysi áskrifanda.

Áskrifendur talsíma sem ekki gera samning við þjónustuaðila sbr. 5. gr. eru taldir vilja skipta áfram við fjarskiptafyrirtæki sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk í tengingum við almenna fasta talsímanetið sem þeir eru fasttengdir við um öll símtöl.

15. gr.

Tryggingar.

Fjarskiptafyrirtæki sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk í tengingum við almenna fasta talsímanetið má ekki krefja fjarskiptafyrirtæki um bankaábyrgðir í tengslum við aðgang þann sem reglur þessar fjalla um nema með sérstöku leyfi Póst- og fjarskiptastofnunar.

16. gr.

Ágreiningur og upplýsingaskylda.

Póst- og fjarskiptastofnun sker úr ágreiningi um framkvæmd forvals og fasts forvals.

Vegna eftirlits Póst- og fjarskiptastofnunar og í þeim tilgangi að leysa úr ágreiningsmálum varðandi aðgang þann sem fjallað er um í reglum þessum, mæla gæði fjarskipta­þjónustu, bæta upplýsingagjöf og auka gagnsæi á fjarskiptamarkaði skulu fjarskipta­fyrirtæki veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar um framkvæmd forvals, fasts forvals og fasts forvals með heildstæðri reikningagerð.

17. gr.

Heimildarákvæði og gildistaka.

Reglur þessar eru settar með tilvísun til 53. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003 og taka gildi við birtingu í Stjórnartíðindum. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 280/2002 um forval og fast forval í talsímanetum.

Póst- og fjarskiptastofnun, 9. ágúst 2010.

F.h. forstjóra,

Björn Geirsson.

Óskar Hafliði Ragnarsson.

B deild - Útgáfud.: 12. ágúst 2010