Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 71/2011

Nr. 71/2011 5. janúar 2011
REGLUGERÐ
um stjórnun leitar- og björgunaraðgerða á leitar- og björgunarsvæði Íslands vegna sjófarenda og loftfara.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið og markmið.

Reglugerð þessi tekur til stjórnunar leitar- og björgunaraðgerða á leitar- og björg­unar­svæði (SRR) Íslands vegna sjófarenda og loftfara eins og það er skilgreint á hverjum tíma.

Markmið reglugerðarinnar er að koma á samræmdri yfirstjórn leitar- og björgunar­þjónustu á sjó- og flugbjörgunarsvæði Íslands í samræmi við þjóðréttarlegar skuld­bindingar sem Ísland hefur undirgengist á þessu sviði.

2. gr.

Leitar- og björgunarsvæði.

Leitar- og björgunarsvæði Íslands vegna sjófarenda og loftfara afmarkast á hverjum tíma í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist og tilkynntar hafa verið til Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) og Alþjóðaflugmála­stofnunarinnar (ICAO).

Leitar- og björgunarsvæðið afmarkast af eftirfarandi hnitum:

730000N 0200000V,

730000N 0000000V,

610000N 000000A/V,

610000N 0300000V,

583000N 0300000V,

583000N 0430000V,

633000N 0390000V,

700000N 0200000V,

730000N 0200000V.

3. gr.

Orðskýringar.

Björgunarstjórnstöð (Rescue Coordination Centre, RCC): Eining sem er ábyrg fyrir skilvirkri skipulagningu leitar- og björgunarþjónustu og samhæfingu framkvæmdar leitar- og björgunaraðgerða innan leitar- og björgunarsvæðis.

Björgunarstjórnstöð fyrir sjófarendur (Maritime Rescue Coordination Centre, MRCC): Eining sem er ábyrg fyrir skilvirkri skipulagningu leitar- og björgunarþjónustu fyrir sjófarendur og fyrir samhæfingu framkvæmdar leitar- og björgunaraðgerða innan leitar- og björg­unarsvæðis.

Björgunarstjórnstöð fyrir loftför (Aeronautical Rescue Coordination Centre, ARCC): Eining sem er ábyrg fyrir skilvirkri skipulagningu leitar- og björgunarþjónustu fyrir loftför og fyrir samhæfingu framkvæmdar leitar- og björgunaraðgerða innan leitar- og björgunarsvæðis.

Björgunarstjórnstöð sjófarenda og loftfara (Joint Rescue Coordination Centre, JRCC): Sameiginleg eining MRCC og ARCC sem er ábyrg fyrir skilvirkri skipulagningu leitar- og björgunarþjónustu fyrir sjófarendur og loftför og fyrir samhæfingu fram­kvæmdar leitar- og björgunaraðgerða innan leitar- og björgunarsvæðis. Slík stöð verður að hafa 24 klukkustunda vakt allt árið um kring.

Cospas-Sarsat: Alþjóðlegt leitar- og björgunarkerfi sem notar gervihnetti til að nema og staðsetja neyðarmerki frá neyðarsendum sem staðsettir eru t.d. í skipum og flugvélum. Kerfið sendir neyðarskeyti til opinbers móttakanda í hverju landi fyrir sig (SAR Points of Contact).

Leitar- og björgunarsvæði (Search and Rescue Region, SRR): Afmarkað svæði tengt björgunarstjórnstöð þar sem leitar- og björgunarþjónusta er veitt.

II. KAFLI

Skipan sjóbjörgunar og flugbjörgunar á leitar- og björgunarsvæði (SRR) Íslands.

4. gr.

Stjórnun björgunaraðgerða.

Landhelgisgæslan fer með yfirstjórn og ber ábyrgð á leitar- og björgunarþjónustu á íslenska leitar- og björgunarsvæðinu vegna sjófarenda. Landhelgisgæslan sér um að samhæfa leitar- og björgunarstörf allra tiltækra björgunaraðila á og yfir hafinu.

Landhelgisgæslan ber ábyrgð á og stjórnar leit og björgun vegna loftfara sem óttast er um, lenda í flugslysum eða er saknað. Landhelgisgæslan ber ábyrgð á vettvangsstjórn ef slysstaður er á hafinu. Isavia annast viðbúnaðarþjónustu vegna loftfara.

Sé um að ræða flugslys á landi, stjórnar lögreglustjóri aðgerðum. Þá gildir eftir atvikum, reglugerð um leit og björgun á landi og samstarf lögreglu og björgunarsveita.

Stjórnandi leitar- og björgunaraðgerða skal hafa mikla reynslu af stjórnun og búa yfir víðtækri þekkingu á stjórn og skipan björgunarmála.

5. gr.

Björgunarstjórnstöð sjófarenda og loftfara.

Landhelgisgæslan starfrækir björgunarstjórnstöð vegna leitar og björgunar sjófarenda (MRCC- Ísland) og vegna leitar og björgunar loftfara (ARCC-Ísland) í stjórnstöð sinni sem kallast björgunarstjórnstöð sjófarenda og loftfara (JRCC-Ísland) og sér um sam­skipti við erlendar björgunarstjórnstöðvar vegna leitar- og björgunaraðgerða á leitar- og björgunarsvæði Íslands skv. 2. gr.

Björgunarstjórnstöð sjófarenda og loftfara (JRCC-Ísland) skal vera opinber móttakandi neyðarskeyta frá Cospas-/Sarsat-kerfinu (SAR Point of Contact) vegna sjó- og flugbjörgunarsvæðis Íslands og hafa vakt allan sólarhringinn. JRCC-Ísland skal tryggja að verklag og starfsreglur uppfylli kröfur alþjóðasamnings um leit og björgun á sjó frá 1979 (International Convention on Maritime Search and Rescue (SAR)), alþjóðasamnings um öryggi mannslífa á hafinu frá 1974 (International Convention for the Safety of Life at Sea (SOLAS)) og kröfur viðauka 12 við samþykkt um alþjóðaflugmál frá 7. desember 1944 (Chicago-samninginn), miðað við síðustu uppfærslu á hverjum tíma. Skipulag leitar og björgunar skal þannig vera í samræmi við kröfur og leiðbeiningar Alþjóða­siglingamálastofnunarinnar og Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um leit og björgun (nú IAMSAR: International Aeronautical and Maritime Search and Rescue Manual, ICAO Doc. 9731), þ. á m. til fjarskiptabúnaðar, búnaðar og tækja til staðsetningar og leitar og samvinnu milli þeirra aðila sem koma að leit og björgun.

Björgunarstjórnstöð sjófarenda og loftfara (JRCC-Ísland) skal útbúa og gefa út viðbúnaðaráætlun sem setja skal í gang ef truflun eða rof verður í framkvæmd leitar- og björgunarþjónustu og stuðningsþjónustu hennar innan þess leitar- og björgunarsvæðis sem Ísland ber ábyrgð á og samræma þessar viðbúnaðaráætlanir við aðliggjandi björgunarstjórnstöðvar.

Beiðnir frá öðrum þjóðum um aðgang að leitar- og björgunarsvæði sem Ísland ber ábyrgð á fyrir loftför, tæki eða mannskap vegna leitar að sjófarendum og eða loftfari í neyð, eða til að bjarga eftirlifandi úr sjóslysi eða flugslysi, skal berast til björgunar­stjórnstöðvar sjófarenda og loftfara (JRCC Ísland).

Þjóð sem óskar eftir aðgangi skv. 4. mgr. skal gera björgunarstjórnstöð sjófarenda og loftfara (JRCC-Ísland) nákvæma grein fyrir áætluninni og nauðsyn beiðninnar.

Björgunarstjórnstöð sjófarenda og loftfara (JRCC-Ísland) skal strax og beiðni skv. 4. mgr. berst staðfesta móttöku beiðninnar. Björgunarstjórnstöð sjófarenda og loftfara (JRCC-Ísland) skal eins fljótt og kostur er gefa til kynna skilyrði, ef einhver eru, fyrir komu inn á íslenska leitar- og björgunarsvæðið.

6. gr.

Vettvangsstjórn á sjó.

Vettvangsstjórn á sjó skal fara fram frá þeirri einingu sem best er til þess fallin sam­kvæmt ákvörðun björgunarstjórnstöðvar sjófarenda og loftfara (JRCC-Ísland) hvort sem um er að ræða loftfar, skip eða hafstöð og getur björgunarstjórnstöð sjófarenda og loftfara (JRCC-Ísland) sent vettvangsstjóra um borð til að stjórna björgunaraðgerðum. Skal stjórnandi þar veita honum fullt samstarf og aðstöðu við þau störf.

7. gr.

Samhæfingar- og stjórnstöð.

Þegar nauðsyn ber til að samhæfa leitar- og björgunaraðgerðir, m.a. vegna þess að fleiri björgunaraðilar koma að þeim, skal Landhelgisgæslan, þegar hún fer með yfirstjórn og ber ábyrgð á leit og björgun, virkja samhæfingar- og stjórnstöðina (SST) í Björgunar­miðstöðinni Skógarhlíð. Hvílir sama skylda á ríkislögreglustjóra þegar lögreglu­stjóri fer með yfirstjórn og ber ábyrgð á leit og björgun.

III. KAFLI

Skýrsla um framkvæmd leitar og björgunar og rýnifundir.

8. gr.

Skýrsla um framkvæmd leitar og björgunar.

Sá sem bar ábyrgð á leit og björgun, skal að lokinni leitar- og/eða björgunaraðgerð skila skriflegri skýrslu um framkvæmd hennar til rannsóknarnefndar flugslysa eða sjóslysa eftir því sem við á. Einnig skal gert yfirlit yfir slíkar aðgerðir. Komi fleiri björgunaraðilar að leitar- og björgunaraðgerðum, ber þeim að skila skýrslu um sinn þátt til þess sem bar ábyrgð á aðgerðum, sé þess óskað.

9. gr.

Rýnifundir o.fl.

Í kjölfar umfangsmikilla leitar- og björgunaraðgerða skal ávallt efna til rýnifundar með fulltrúum þeirra aðila sem tekið hafa þátt í aðgerðunum. Skal sá aðili, er fór með yfirstjórn í umrætt sinn, bera ábyrgð á því að boða til fundarins. Hafi ekki verið um umfangsmikla björgunar- eða leitaraðgerð að ræða, skal samt sem áður boða til rýnifundar hafi misbrestur orðið á samskiptum eða samvinnu aðila sem og ef samstarfs­aðilar við björgun óska sérstaklega eftir því.

Landhelgisgæslan skal árlega, eða oftar ef ástæða þykir til, efna til fundar með fulltrúum þeirra aðila sem veita aðstoð, sinna viðbúnaðarþjónustu eða annast leit og björgun svo og fulltrúum annarra aðila sem fara með öryggismál vegna sjófarenda og loftfara. Fjallað skal um helstu björgunaraðgerðir og hvaða lærdóm megi af þeim draga með það að markmiði að auka öryggi sjófarenda og loftfara.

IV. KAFLI

Lögregla og aðrir björgunar- og viðbragðsaðilar.

10. gr.

Hlutverk lögreglu og ábyrgðarskil gagnvart Landhelgisgæslunni.

Lögreglustjórar, hver í sínu umdæmi, bera ábyrgð á leit og björgun á landi. Sama á við um leit og björgun við strendur landsins og innan hafna. Um björgun sem heyrir undir skipulag almannavarna gilda sérstök lög. Sé atvik á sjó, við ströndina eða innan hafna, skulu Landhelgisgæslan og lögreglan hafa gott samstarf. Björgunarstjórnstöð sjófarenda og loftfara (JRCC-Ísland) skal tryggja fjarskipti og upplýsingaflæði milli lögreglu og Landhelgisgæslu við slíkar aðstæður. Þegar leit að loftfari yfir eða nálægt landi stendur yfir, skal fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra ávallt tilkynnt um málsatvik.

Þegar slys verða innan hafna eða við strendur landsins, skammt frá landi, fer lögreglan með yfirstjórn og ábyrgð á leitar- og björgunaraðgerðum. Samhæfing aðgerða fer fram í samhæfingarstöðinni (SST) í Björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð þegar nauðsyn ber til.

11. gr.

Hlutverk ríkislögreglustjóra.

Ríkislögreglustjóri veitir lögreglustjórum aðstoð vegna leitar- og björgunaraðgerða og annast viðfangsefni sem eðli málsins samkvæmt eða aðstæðna kalla á miðstýringu eða samhæfingu lögregluliða. Ríkislögreglustjóri mælir fyrir um skipulag samstarfs lögregluliða við leitar- og björgunaraðgerðir. Ríkislögreglustjóri annast samstarf við lögreglu í öðru landi. Hann er tengiliður við erlend lögregluyfirvöld varðandi björgun og rannsókn slysa.

12. gr.

Hlutverk björgunarsveita.

Hlutverk björgunarsveita og björgunarsveitarmanna, skv. lögum um björgunarsveitir og björgunarsveitarmenn, er að starfa í þágu almannaheilla með þátttöku við leit og björgun á hafinu í samvinnu við Landhelgisgæsluna og á ábyrgð hennar, hvað skipulag varðar. Samkvæmt sömu lögum starfa björgunarsveitirnar í landi á ábyrgð lögreglu­yfirvalda.

Björgunarsveitum er skylt að hefja leit og björgun á hafinu þegar Landhelgisgæslan óskar þess.

Landhelgisgæslan fer með heildarstjórn en samræmd stjórn björgunarsveita (Landstjórn) fer með tæknilega stjórn eigin liðsafla við aðgerðir. Landstjórn er tengiliður björgunar­sveita við Landhelgisgæsluna. Á aðgerðastað eru svæðisstjórnir björgunar­sveita tengiliðir vettvangsstjóra við björgunareiningar. Þó skal tryggt að björgunar­stjórnstöð sjófarenda og loftfara (JRCC-Ísland) geti ávallt verið í beinu sambandi við björgunareiningar.

13. gr.

Upplýsingar um neyðarköll og/eða aðstoðarbeiðnir.

Hverjum þeim sem berast upplýsingar um neyðaratvik, neyðarköll og/eða aðstoðar­beiðnir frá sjó eða yfir sjó eða landi er skylt að tilkynna það tafarlaust til björgunar­stjórnstöðvar sjófarenda og loftfara (JRCC-Ísland), lögreglu eða vaktstöðvar sam­ræmdrar neyðarsvörunar.

Móttakandi tilkynningar skv. 1. mgr. skal tafarlaust framsenda tilkynninguna til björgunarstjórnstöðvar sjófarenda og loftfara (JRCC-Ísland). Sé um að ræða atvik innan hafna eða flugatvik yfir eða nálægt landi skal fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra einnig gert viðvart.

Þegar neyðarkall berst björgunarstjórnstöð sjófarenda og loftfara (JRCC-Ísland), lögreglu eða vaktstöð samræmdrar neyðarsvörunar um að fólk hafi farið í sjóinn, svo sem á kajak, sæþotu, skektu eða seglbretti, skal bæði tilkynna það til björgunarstjórnstöðvar sjófarenda og loftfara (JRCC-Ísland) og fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra. Leiki vafi á um hvort Landhelgisgæslan eða lögreglan fer með forræði máls, skal ávallt tilkynna um atvik til beggja aðila.

Þegar neyðarkall berst til veitenda flugleiðsöguþjónustu, lögreglu eða vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar vegna flugatvika skal tafarlaust gera björgunarstjórnstöð sjófarenda og loftfara (JRCC-Ísland) og Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík viðvart. Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra skal einnig tilkynnt um málsatvik ef óttast er um loftfar yfir eða nálægt landi.

14. gr.

Skylda til að aðstoða við leit og björgun á sjó, þagnarskylda.

Skipstjórum og öðrum sem aðstoð geta veitt er skylt að aðstoða Landhelgisgæsluna við björgun mannslífa þegar þess er óskað ef það er unnt án þess að þeir stofni lífi, heilbrigði, velferð eða verulegum hagsmunum sínum í hættu.

Þeir aðilar sem teljast ekki til eiginlegra björgunaraðila, en komu að leitar- og björgunaraðgerðum skulu virða þagnarskyldu um þau atvik sem þeim verða kunn. Tekur þetta til hvers konar upplýsinga um einkahagi manna og annarra upplýsinga sem leynt eiga að fara vegna lögmætra einka- og almannahagsmuna.

Björgunaraðilar skulu hafa samráð við Landhelgisgæsluna eða eftir atvikum lögreglu um upplýsingagjöf til fjölmiðla meðan á aðgerðum stendur. Björgunarsveitum skal þó heimilt að gera grein fyrir aðkomu sinni að aðgerðunum, þ.e. varðandi mannaforráð, tækjakost o.þ.h.

V. KAFLI

Ýmis ákvæði.

15. gr.

Tilkynningar um slys til rannsóknarnefndar sjóslysa og rannsóknarnefndar flugslysa
og varðveisla rannsóknargagna.

Landhelgisgæslunni, veitendum flugleiðsöguþjónustu, lögreglunni, björgunarsveitum, neyðar­svörunarfyrirtækjum og öðrum sem verða áskynja um sjóslys eða flugslys, ber skylda til að tilkynna og ganga úr skugga um án undandráttar, að rannsóknarnefnd sjóslysa eða rannsóknarnefnd flugslysa fái vitneskju um slys og allir framangreindir aðilar skulu gæta þess að raska ekki rannsóknargögnum sbr. lög um rannsókn sjóslysa og lög um rannsókn flugslysa.

16. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 3. mgr. 13. gr. og 28. gr. laga nr. 52/2006 um Landhelgisgæslu Íslands og samkvæmt heimild í 132. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 752/2010 um stjórnun leitar- og björgunaraðgerða á leitar- og björgunarsvæði Íslands vegna sjófarenda og loftfara.

Innanríkisráðuneytinu, 5. janúar 2011.

Ögmundur Jónasson.

B deild - Útgáfud.: 28. janúar 2011