Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 192/2012

Nr. 192/2012 13. febrúar 2012
REGLUR
um breytingu á reglum nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.

1. gr.

117. gr. orðast svo:

Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild veitir kennslu sem hér segir:

  1. Til BA-prófs: Tómstunda- og félagsmálafræði og þroskaþjálfafræði.
  2. Til BS-prófs: Íþrótta- og heilsufræði.
  3. Til M.Ed.-prófs: Íþrótta- og heilsufræði, tómstunda- og félagsmálafræði og þroskaþjálfafræði.
  4. Til MA-prófs: Þroskaþjálfafræði.
  5. Til MS-prófs: Íþrótta- og heilsufræði.
  6. Til doktorsprófs: Á fagsviðum þar sem deild metur að nauðsynleg aðstaða og sérþekking sé fyrir hendi.

Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild er skipað í þrjár námsbrautir, sbr. ákvæði 21. greinar þessara reglna: Námsbraut í íþrótta- og heilsufræði, námsbraut í tóm­stunda- og félagsmálafræði og námsbraut í þroskaþjálfafræði.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Deildin ákvarðar kennslugreinar og skiptingu þeirra í námskeið og um vægi þeirra.

Deildinni er heimilt að skipuleggja stuttar hagnýtar námsleiðir í grunnnámi, sbr. ákvæði 55. gr. reglna þessara. Deildinni er enn fremur heimilt að gefa kost á viðbótarnámi að loknu fullgildu háskólanámi.

Námið við íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild er ýmist skipulagt sem staðnám, fjarnám eða sveigjanlegt nám sem er samofið staðnámi og fjarnámi og setur deildin nánari reglur um námið og skulu þær koma fram í kennsluskrá. Þar skal kveðið á um markmið, inntak og meginviðfangsefni námsins, að meðtalinni starfsþjálfun á vett­vangi þar sem það á við. Einnig skal þar gerð grein fyrir tilhögun náms, kennslu­háttum og námsmati.

Heimilt er að skipuleggja þær greinar sem tilgreindar eru sem aðalgreinar, auk annarra greina íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfafræða, sem aukagreinar samkvæmt nánari ákvörðun deildarinnar.

Framhaldsnám til meistara- og doktorsprófs er skipulagt samkvæmt þessum reglum og nánari reglum sem íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild setur og háskólaráð staðfestir, sbr. 66. - 69. gr. þessara reglna. Lýsing á náminu skal koma fram í kennslu­skrá.

Til BA-prófs í þroskaþjálfafræði er krafist minnst 180 eininga.

Nám í þroskaþjálfafræði er skipulagt með hliðsjón af lögum og reglum um starfs­réttindi.

Til BS-prófs í íþrótta- og heilsufræði er krafist minnst 180 eininga.

Til BA-prófs í tómstunda- og félagsmálafræði er krafist minnst 180 eininga og er stúdent heimilt að ljúka 120 einingum í aðalgrein og 60 í aukagrein.

Til M.Ed.-prófs er krafist 120 eininga náms að loknu BA-, B.Ed.- eða BS-prófi í náms­leiðum deildarinnar eða skyldum greinum. Slíkt nám má skipuleggja sem rannsóknar­nám þar sem lokaverkefni er minnst 30 einingar.

Til MA- og MS-prófs er krafist 120 eininga náms að loknu BA-, B.Ed.- og BS-prófi. Slíkt nám er skipulagt sem rannsóknarnám þar sem lokaverkefni er minnst 30 einingar.

Til doktorsprófs er krafist minnst 180 eininga í samræmi við ákvæði þessara reglna.

Diplómanám í þroskaþjálfafræði er sjálfstætt 30 eininga framhaldsnám. Að loknu námi geta nemendur sótt um áframhaldandi meistaranám til MA-prófs í þroskaþjálfafræði, hafi þeir lokið náminu með I. einkunn (7,25).

Diplómanám í heilbrigði og heilsuuppeldi er 30 eininga sjálfstætt framhaldsnám. Að loknu námi geta nemendur sótt um áframhaldandi meistaranám til MS- eða M.Ed.-prófs í íþrótta- og heilsufræði, hafi þeir lokið náminu með I. einkunn (7,25).

Heimilt er að taka nemendur inn í sérstaklega skipulagt framhalds- og viðbótarnám annað hvert ár.

2. gr.

2. mgr. 118. gr. orðast svo:

Heimilt er stúdent í BA-námi í tómstunda- og félagsmálafræði að sækja nám í auka­grein til annarra deilda, að fengnu samþykki íþrótta-, tómstunda- og þroska­þjálfa­deildar og þeirrar deildar sem námið er sótt til.

3. gr.

Við upptalningu í b-lið 1. mgr. 119. gr., á eftir orðunum „náms- og kennslufræði“, bætist: kennslufræði grunnskóla.

4. gr.

Reglur þessar, sem samþykktar hafa verið í háskólaráði Háskóla Íslands, eru settar á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og öðlast þegar gildi.

Háskóla Íslands, 13. febrúar 2012.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 29. febrúar 2012