Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 750/2008

Nr. 750/2008 18. júní 2008
REGLUGERÐ
um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni („REACH“).

1. gr.
Hlutverk Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun gegnir hlutverki sem lögbært yfirvald skv. 121. grein reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1907/2006 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir, að því er varðar efni (REACH), sbr. fylgiskjal 1.

Umhverfisstofnun getur krafist þess að upplýsingar sem sendar eru til Efnastofnunar Evrópu, í samræmi við ákvæði EB reglugerðar nr. 1907/2006 verði einnig sendar til Umhverfisstofnunar.

2. gr.
Skráningarskylda.

Framleiðandi eða innflytjandi efnis, hvort sem það er hreint, í efnablöndu eða í hlutum, sem framleiðir eða flytur inn efni til markaðssetningar á Evrópska efnahagssvæðinu í meira magni en einu tonni á ári, skal skrá efnið hjá Efnastofnun Evrópu, nema EB reglugerð nr. 1907/2006 kveði á um annað.

Greiða skal skráningargjald til Efnastofnunarinnar samkvæmt gjaldskrá hennar.

3. gr.
Markaðsleyfi.

Framleiðandi eða innflytjandi efnis sem háð er markaðsleyfi skal sækja um slíkt leyfi til Efnastofnunar Evrópu í samræmi við VII. bálk EB reglugerðar nr. 1907/2006. Sama gildir um eftirnotanda ef notkun hans á efninu er ekki innan heimils notkunarsviðs samkvæmt markaðsleyfi sem gefið hefur verið út til handa innflytjanda eða framleiðanda efnisins. Greiða skal gjald til Efnastofnunar Evrópu samkvæmt gjaldskrá hennar.

Framkvæmdastjórn EB tekur ákvörðun um veitingu markaðsleyfis. Umhverfisstofnun staðfestir slíka ákvörðun innan 30 daga eftir að hún hefur verið birt með því að birta stutta samantekt um hana í Lögbirtingablaðinu. Umhverfisstofnun skal halda lista yfir útgefin markaðsleyfi á heimasíðu sinni.

4. gr.
Öryggisblöð.

Afhenda skal öryggisblöð með efnum og efnablöndum í samræmi við 7. gr. laga nr. 45/2008 um efni og efnablöndur og í samræmi við ákvæði 31. greinar EB reglugerðar nr. 1907/2006.

Öryggisblöð skulu vera á íslensku. Heimilt er að afhenda öryggisblöð með efni eða efnablöndu á ensku eða Norðurlandamáli öðru en finnsku til viðtakenda efna sem stunda rannsóknir og þróun enda sé um að ræða afmarkaðan hóp manna sem með sanngirni má ætlast til að skilji annað erlent mál vegna menntunar eða annarrar sérhæfingar. Heimild þessi gildir þó einungis ef magn efnis eða efnablöndu sem er afhent er minna en 1 kg á ári á hvern viðtakanda.

5. gr.
Eftirlit.

Um eftirlit með reglugerð þessari fer samkvæmt 9. og 10. gr. laga nr. 45/2008 um efni og efnablöndur.

6. gr.
Viðurlög.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt 12. gr. laga nr. 45/2008 um efni og efnablöndur.

7. gr.
Sérstök ákvæði.

Við 10. tölulið 3. greinar í EB reglugerð nr. 1907/2006 bætist eftirfarandi: „eða inn á yfirráðasvæði EFTA-ríkjanna".

8. gr.
Gildistaka tiltekinna gerða Evrópubandalagsins.

Eftirfarandi reglugerð sem vísað er til í XV. kafla, II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, skal öðlast gildi hér á landi með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af II. viðauka samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum samningsins:

a. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1907/2006 frá 18. desember 2006 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir, að því er varðar efni (REACH), stofnun Efnastofnunar Evrópu (European Chemicals Agency), breytingu á tilskipun 1999/45/EB og um niðurfellingu á reglugerð ráðsins (EBE) nr. 793/93 og reglugerð fram-kvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1488/94, sem og tilskipun ráðsins 76/769/EBE og tilskipunum framkvæmdastjórnarinnar 91/155/EBE, 93/67/EBE, 93/105/EB og 2000/21/EB, sem vísað er til í tölulið 12r, XV. kafla, II. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 25/2008, frá 14. mars 2008. Reglugerðin er birt í fylgiskjali 1 við reglugerð þessa.

9. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 2. mgr. 4. gr., 2. mgr. 5. gr., 3. mgr. 6. gr. og 6. mgr. 7. gr. laga nr. 45/2008 um efni og efnablöndur.

Reglugerðin öðlast þegar gildi utan eftirfarandi ákvæða:

a. Ákvæði 135. gr. EB reglugerðar nr. 1907/2006 tekur gildi 1. ágúst 2008.

b. Ákvæði í VIII. bálki og í XVII. viðauka við EB reglugerð nr. 1907/2006 taka gildi 1. júní 2009.

10. gr.
Brottfall reglugerða.

Við gildistöku reglugerðar þessarar falla eftirfarandi reglugerðir úr gildi:

a. Reglugerð nr. 1027/2005 um öryggisblöð.

b. Reglugerð nr. 161/1998 um gildistöku tiltekinna gerða Evrópubandalagsins um mat og eftirlit með áhættu af skráðum efnum, ásamt síðari breytingum.

c. Reglugerð nr. 815/1998 um tilkynningaskyldu varðandi ný efni, ásamt síðari breytingum.

Þann 1. júní 2009 falla eftirfarandi reglugerðir úr gildi:

a. Reglugerð nr. 447/1996 um notkun og bann við notkun kadmíums og efnasambanda þess.

b. Reglugerð nr. 323/1998 um innflutning, notkun og förgun PCB, PCT og umhverfisskaðlegra staðgengilsefna.

c. Reglugerð nr. 615/1999 um takmörkun á markaðssetningu lampaolíu, skrautmuna, leikfanga og spaug- og gabbvarnings með tilteknum efnum.

d. Reglugerð nr. 857/1999 um bann við notkun tiltekinna eiturefna og hættulegra efna, ásamt síðari breytingum.

e. Reglugerð nr. 619/2000 um bann við notkun gróðurhindrandi efna sem í eru kvikasilfursambönd, arsensambönd og lífræn tinsambönd, ásamt síðari breytingum.

f. Reglugerð nr. 870/2000 um takmarkanir á innflutningi, notkun og meðhöndlun asbests.

g. Reglugerð nr. 464/2001 um takmörkun á nikkeli í tilteknum vörum, ásamt síðari breytingum.

h. Reglugerð nr. 903/2002 um notkun og bann við notkun tiltekinna efna í málningu og viðarvörn, ásamt síðari breytingum.

i. Reglugerð nr. 635/2003 um takmörkun á notkun stuttkeðju klórparaffína.

j. Reglugerð nr. 744/2003 um notkun og bann við notkun tiltekinna efna við meðhöndlun á textíl- og leðurvörum, ásamt síðari breytingum.

k. Reglugerð nr. 872/2003 um takmörkun á notkun og markaðssetningu nónýlfenóls og nónýlfenóletoxýlata.

l. Reglugerð nr. 806/2004 um takmörkun á krómi í sementi.

m. Reglugerð nr. 424/2007 um þalöt í leikföngum og öðrum vörum fyrir börn.

n. Reglugerð nr. 1248/2007 um takmörkun á notkun fjölhringa arómatískra vetniskolefna í mýkingarolíu og hjólbörðum.

Umhverfisráðuneytinu, 18. júní 2008.

Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Magnús Jóhannesson.


Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 28. júlí 2008