Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 360/2006

Nr. 360/2006 18. apríl 2006
FJALLSKILASAMÞYKKT
fyrir Vestur-Skaftafellssýslu.

I. KAFLI
Um stjórn fjallskilamála.

1. gr.

Samkvæmt lögum nr. 6 frá 1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl. er Vestur-Skaftafellssýsla eitt fjallskilaumdæmi.

Mýrdalshreppur skiptist í tvær fjallskiladeildir. Í Skaftárhreppi eru fjórar fjallskiladeildir.

2. gr.

Héraðsnefnd hefur á hendi yfirstjórn allra afrétta- og fjallskilamála í sýslunni.

3. gr.

Hvor sveitarstjórn hefur á hendi framkvæmd og stjórn fjallskilamála.

Þó má sveitarstjórn kjósa, og/eða láta kjósa innan deildanna, fjallskilanefnd fyrir hverja fjallskiladeild sem sér þá um framkvæmd þeirra mála í umboði sveitarstjórna, hvor á sínu svæði. Fjallskilanefndir geta tekið ákvarðanir um fjallskil í einstökum atriðum, hver á sínu fjallskilasvæði, svo fremi að þær brjóti eigi í bága við samþykkt þessa.

4. gr.

Sveitarstjórn er heimilt að stofna sjóð, er nefnist fjallskilasjóður, og renna þá til hans eftirtaldar tekjur:

  1. Andvirði óskilafjár.
  2. Niðurjöfnuð fjallskil.
  3. Sektir fyrir brot á samþykkt þessari.
  4. Aðrar tekjur, er sveitarstjórn eða almennur sveitarfundur samþykkir að renni í sjóðinn. Tekjum fjallskilasjóðs má sveitarstjórn aðeins verja til þeirra verkefna, er heyra undir framkvæmd ákvæða samþykktar þessarar. Sjóðurinn er í ábyrgð sveitarstjórnar, sem leggur fram reikning hans árlega og lætur fylgja reikningum sveitarsjóðs.

II. KAFLI
Notkun afrétta og annarra beitilanda.

5. gr.

Allt land sem fjallskilasamþykkt þessi tekur til, skiptist í afrétti og heimalönd. Það skulu vera afréttir sem að fornu hafa verið. Þó getur sveitarstjórn tekið upp nýja afrétti og breytt þannig afréttarmörkum eftir því sem hagkvæmt þykir og um semst við landeigendur, með samþykki héraðsnefndar.

6. gr.

Sveitarstjórnum er skylt, í samráði við gróðurverndarnefnd og Landgræðslu ríkisins, að hafa eftirlit með því að gróðurlendi á afréttum og heimalöndum sé ekki íþyngt með of miklu beitarálagi.

7. gr.

Enginn fjáreigandi má sleppa fé sínu í annað afréttarsvæði en það sem jörð hans á upprekstrarrétt til, né lána manni úr annarri fjallskiladeild ítölu sína í afrétt, nema með leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar, enda sé afréttarland viðurkennt nægilegt.

Enginn má heldur leyfa öðrum sumarbeit fyrir búfé í heimalandi sínu, þar sem hætta er á að íþyngt yrði óréttilega öðrum sambeitarmönnum eða nágrönnum, án leyfis þeirra og sveitarstjórnar.

8. gr.

Sveitarstjórn getur í samráði við Landgræðslu ríkisins og/eða gróðurverndarnefnd sett reglur um hvenær má reka fé til afréttar, enn fremur á hvaða svæði á afrétti fé skuli rekið eða flutt.

Ekki skal upprekstur leyfður fyrr en gróður er nægur að mati sveitarstjórnar samanber lög um afréttarmálefni fjallskil o.fl. nr. 6, 21. mars 1986, III. Kafla.

9. gr.

Sveitarstjórn er heimilt, ef eigendur og/eða ábúendur jarða telja sig verða fyrir tilfinnanlegum ágangi búpenings í heimalandi eða löndum, sem ekkert leyfi eða heimild er fyrir, að fyrirskipa smölun á viðkomandi svæði ef þurfa þykir, og færa þann fénað til réttar. Þar er eigendum skylt að hirða fénað sinn.

Skepnur sem eru sérstaklega áleitnar við löglegar girðingar t.d. um tún, akra, skógrækt, matjurtargarða og skrúðgarða og valda tjóni, skal eigandi hirða, þegar tilsagðar eru, setja í örugga vörslu eða farga þeim. Sýni hann hirðuleysi í því efni ber honum að bæta allt það tjón er skepna þessi eða skepnur hafa valdið eða valda, sbr. þó ákvæði í 34. gr. afréttarlaga nr. 6/1986.

10. gr.

Enginn má reka fénað sinn í annarra lönd án leyfis þeirra eða skilja þar eftir af rekstri sínum eða flutningum. Annarra fé mega menn ekki láta fara í rekstra sína til og frá afrétti og réttum.

11. gr.

Telji einhver ábúandi jarðar sig verða fyrir óhæfilegum ágangi búfjár nágranna síns, vegna þess að sá síðarnefndi hafi girt stærra eða minna svæði af beitarlandi sínu og verji það að meira eða minna leyti með því að sleppa hlutfallslega of mörgu af fénaði sínum utan girðingar í þann hluta landsins, sem liggur ógirt að landi eða löndum nágranna hans, getur sá sem telur sig verða fyrir áganginum kært málið til sveitarstjórnar. Henni er þá skylt að rannsaka málið, þyki henni ástæða til, og getur hún fyrirskipað þeim sem hefur nokkuð af landi sínu afgirt, að hafa ákveðinn hluta af fé sínu í hinu afgirta landi, eða reka í afrétt.

Heimilt er hlutaðeigendum að skjóta úrskurði sveitarstjórnar til héraðsnefndar, sem fellir úrskurð um slík mál. En skylt er hlutaðeigendum að hlýða úrskurði sveitarstjórnar, þótt málinu hafi verið vísað til héraðsnefndar, uns hún hefur fellt úrskurð sinn.

12. gr.

Ef ábúendur jarða er næst leggja afrétti, verða fyrir ágangi afréttarfénaðar, er þeim heimilt að krefjast girðingar er varni áganginum. Um kostnað við girðinguna og viðhald hennar fer eftir gildandi girðingarlögum. Sama máli gegnir um girðingar sem fyrir eru, ef til samninga kemur, samkvæmt 5. gr.

13. gr.

Eftir að vorsmölun er lokið og fénaður rekinn á afrétt og allt til fyrstu gangna, má enginn smala né valda afréttarpeningi ónæði á einn eða annan hátt, nema leyfi viðkomandi sveitarstjórnar komi til.

Safnist fé óeðlilega mikið við afréttargirðingar ber sveitarstjórn að sjá til þess að því sé smalað. Skylt er fjáreigendum að standa að slíku og hirða fénað sinn.

III. KAFLI
Um göngur og réttir.

14. gr.

Sveitarstjórnir skipa fyrir um smölun afrétta, hvor á sínu svæði. Skulu leitir vera tvennar hið fæsta á hverju hausti. Þó getur sveitarstjórn ákveðið þrjú lögsöfn á þeim svæðum sem talin er þörf á og hefð er fyrir að leita þrisvar. Skal göngum undantekningalaust vera lokið í síðasta lagi fyrir fyrsta vetrardag.

Fjallskilaseðill skal hafa borist öllum fjallskilaskyldum aðilum í hendur minnst tíu dögum fyrir fyrsta safn, á honum skal tilgreint hverjir leggja skuli menn á hvert smölunarsvæði, raða niður gangnadagsverkum og öðrum áætluðum fjallskilakostnaði, nefna til fjallkónga og réttarstjóra svo og þá er sækja fé í aðrar skilaréttir, þar sem það á við.

15. gr.

Fjallskilaskyldur er hver fjáreigandi og umráðamaður lögbýlis, sama gildir um ábúendur sauðlausra jarða og eigendur eyðijarða og leggja til fjallskila á þann hátt sem sveitarstjórn ákveður. Öllum fjallskilaskyldum aðilum skal gefinn kostur á að leggja menn í göngur.

Skyldur er húsbóndi að inna af hendi fjallskil fyrir heimamenn sína sem eiga hjá honum fjallskilaskyldan fénað.

Fjallskilakostnaði skal jafna niður í hlutfalli við tölu fjallskilaskylds búpenings 60% og 40% á lögbýli eða landverð jarða, að frádregnu verði ræktaðs lands og hlunninda.

Sveitarstjórn ákveður fjölda gangnamanna og deilir þeim niður á fjallskilaskylda aðila í hlutfalli við tölu vetrarfóðraðs fjár samkvæmt forðagæsluskýrslum og jarðeignum.

16. gr.

Sveitarstjórn getur ákveðið að sérstakir kostnaðarliðir sem af fjallskilum hljótast greiðist úr sveitasjóði.

Fjallskil skulu innt af hendi í vinnu eftir því sem við verður komið, ella goldin í peningum eftir mati sveitastjórna. Þeim kostnaði í fjallskilum sem ekki verður inntur af hendi með skylduvinnu og óvissar tekjur hrökkva ekki fyrir, skal jafna niður eftir fyrirmælum 15. gr.

17. gr.

Enginn fjáreigandi er undanþeginn fjallskilum þó hann hafi sleppt fé sínu í heimaland. Þó getur sveitarstjórn fellt niður fjallskil sem lögð er á eftir fjártölu ef fjáreigandi sleppir öllu fé sínu í heimaland sitt enda sé slíkt land girt þannig að öruggt megi telja að fénaður renni ekki í afrétt eða lönd annarra og lega lands þannig að dómi sveitarstjórnar, að ekki sé um slíkt að ræða, enda verði svo í reynd.

Nú liggja beitilönd tveggja eða fleiri jarða saman og eru afmörkuð eins og fyrr er sagt, er þá þeim er óskar niðurfellingar fjallskila skylt að leggja fram skriflegt samþykki þeirra er beitiland eiga innan hins afmarkaða landsvæðis ella girði hann beitiland sitt af fjárheldri girðingu.

18. gr.

Hver bóndi er skyldur að smala land sitt á hausti samhliða leitum, ef sveitarstjórn mælir svo fyrir. Sama gildir um eigendur eyðibýla þó þeir eigi þar ekki fjárvon. Hlýði umráðamaður lands ekki fyrirmælum sveitarstjórnar ber honum að greiða smölunarkostnað eftir mati sveitarstjórnar. Ekki verður eigandi lands þó krafinn um þátttöku í smölunarkostnaði, sé honum meinað að nýta land sitt til sumarbeitar eða leigja það öðrum til slíkra nota, og skal sá er slíkt bann setur þá bera allan fjallskilakostnað af því landsvæði.

19. gr.

Skyldur er hver að inna þau fjallskil af hendi, sem á hann eru lögð, og eru í samræmi við það sem öðrum íbúum sveitarfélagsins er skylt að leysa af hendi. Sá er órétti þykist beittur, á rétt á að kæra málið fyrir sveitarstjórn og héraðsnefnd, en enginn getur með áfrýjun skotið sér undan hlýðni við þá fyrirskipun, sem hann kærir yfir. Ef úrskurður gengur honum í vil, skal endurgreiða honum fjallskilin samkvæmt úrskurðinum.

20. gr.

Hverjum sem ekki framkvæmir fjallskilin samkvæmt fyrirmælum sveitarstjórnar, skal skylt að greiða andvirði fjallskila til sveita eða fjallskilasjóðs með 50% álagi, eða annars sem því svarar samkvæmt fyrirmælum sveitarstjórnar. Sama máli gegnir, ef einhver sendir þann mann í göngur, sem fjallkóngur og meirihluti gangnamanna álíta ekki liðgengan eða svo illa búinn á einhvern hátt, að hann sé óhæfur í göngurnar.

21. gr.

Fjallkóngur skal skipa fyrir hvernig haga skuli göngum, í samræmi við fyrirskipanir sveitarstjórnar. Hann skal sjá um að söfnin séu rekin til réttar í góðri reglu. Gangnamenn eru skyldir að hlýða fjallkónginum meðan á leitum stendur og allt til þess að safnið er afhent réttarstjóra eða öðrum ábyrgum aðila. Óhlýðni varðar sektum.

Geri fjallkóngur sig sekan um vítavert kæruleysi eða óreglu í starfi skal hann sæta sektum.

22. gr.

Sveitarstjórn skal sjá um að til sé viðunandi húsakostur fyrir gangnamenn, hesta þeirra og fjárbyrgi þar sem þeirra er þörf. Kostnaður við byggingu þeirra og viðhald greiðist úr sveita- eða fjallskilasjóði.

23. gr.

Hver eigandi eða umráðamaður lands er skyldur til að smala heimaland sitt eigi síðar en viku fyrir auglýstan hrútafellingardag og það eins þó landeigandi eða umráðamaður eigi þar ekki fjárvon sjálfur.

Vanræki einhver að smala heimaland sitt, getur sveitarstjórn látið smala það á hans kostnað, og greiðir hann að auki sekt samkv. ákvæðum 20.gr.

24. gr.

Þeir sem víðáttumikil heimalönd hafa að smala, sem notast að sumrinu sem beitiland fyrir afréttarpening, eiga rétt á að sú smölun sé metin til fjallskila, enda framkvæmdi landeigandi smölunina á sinn kostnað í sambandi við smölun afréttarins og eftir fyrirmælum sveitarstjórnar.

25. gr.

Skyldur er hver ábúandi að hirða fé það er finnst í landi hans eftir að almennum smölunum er lokið og tilkynna það fjáreigendum.

IV. KAFLI
Búfjármörk.

26. gr.

Búfjármörk eru: örmerki, frostmerki, brennimörk, plötumerki og eyrnamörk.

Skylt er hverjum búfjáreiganda að hafa glöggt mark á búfé sínu. Búfé skal draga eftir mörkum.

Mark helgar markeiganda grip nema sannist að annar eigi. Við sönnun á eign á búfé er örmerki rétthæst, þar næst frostmerki, síðan brennimark, þá plötumerki og síðast eyrnamark. Um fjármörk og merkingar á búfé fer að öðru leyti eftir IX. Kafla laga nr. 6, 21. mars 1986 um afréttarmálefni, fjallskil o.fl., reglugerð um búfjármörk, markaskrá og takmörkun á sammerkingum búfjár nr. 200, 16. mars 1998 með breytingum nr. 30/2000, 221/2002 og 1105/2005, og reglugerð um merkingu búfjár nr. 289/2005 með breytingum nr. 972/2005.

V. KAFLI
Um réttir og réttahald.

27. gr.

Sveitarstjórn sér um að almenningsréttum sveitarfélagsins með tilheyrandi dilkum og fjárbyrgjum sé vel við haldið og þær séu í góðu ástandi til notkunar. Byggingar og viðhaldskostnaður almenningsrétta greiðist úr sveita- eða fjallskilasjóði. Skyldur er hver landeigandi að leggja til land undir rétt, þó ekki tún eða engi, né heldur land sem líkur eru til að verði tekið til ræktunar. Valdi réttarbygging spjöllum á nytjalandi, skal bæta það landeiganda, ef krafist er, eftir mati tveggja manna er dómkvaddir séu af sýslumanni.

Telst slíkur kostnaður með byggingarkostnaði réttarinnar. Rétt á landeigandi á árlegu uslagjaldi fyrir átroðning vegna réttarhaldsins.

28. gr.

Réttarstjóri skipar fyrir um hvernig fjárdrætti skuli haga og heldur mönnum til starfs. Óhlýðni við skipun hans varðar sektum.

Enginn má hleypa fé úr dilk nema réttarstjóri leyfi. Hann skal gæta þess vandlega að allir ómerkingar og vafalömb, sem koma fyrir í réttinni, séu dregin í sérstakan dilk, þar sem ekki er annað fé fyrir, og mönnum gefinn kostur á að láta lambsmæður helga sér lömbin, undir eftirliti réttarstjóra eða þess sem hann setur í sinn stað.

29. gr.

Komi kindur fyrir í réttinni sem farið hafa yfir varnarlínu, skal réttarstjóri sjá til þess að þær séu sem fyrst teknar úr réttinni, settar í einangrun og færðar til slátrunar svo fljótt sem við verður komið.

VI. KAFLI
Um meðferð ómerkinga og óskilafjár.

30. gr.

Hver sá er innir fjallskil af hendi, hvort heldur er við smölun afrétta eða heimalanda, skal leitast við að handsama svo fljótt sem verða má, ómerkinga sem vart kann að verða, og auðkenna þá ef þeir fylgja móður.

Nú koma ómerkingar eða annað óskilafé til réttar, og skal þá draga það í sérstakan dilk, þar sem menn eiga kost á að leiða mæður til ómerkinga og sanna eignarrétt sinn.

31. gr.

Óskilafé er það fé sem enginn finnst eigandi að, svo og ómerkingar sem ær helga sér ekki.

Ómerkingar og óskilafé sem kemur fyrir í skilaréttum og öðrum réttum, og ekki finnast eigendur að, skal þegar lógað í sláturhúsi, og sér sveitarstjóri um að svo sé gert.

Áður en slíku fé er lógað, skal skrifa nákvæma lýsingu á því þar sem getið er marks og annarra einkenna er eigendur gætu helgað sér það eftir.

Óskilafé sem fram kemur eftir réttir og ekki finnast eigendur að, eða ekki kemst til eigenda vegna fjarlægðar, skal fara með á sama hátt.

Andvirði óskilafjár, sem fargað er, skal lagt inn á reikning, þannig að greiða megi út verð hverrar kindar ef eigandi finnst.

32. gr.

Fyrir árslok skal sveitarstjóri birta í Lögbirtingablaði tilkynningu um förgun óskilafjár, eða um sölu, ef um óskilahross eða nautgripi er að ræða. Skal í tilkynningu greint frá marki og auðkenni hverrar skepnu, eftir því sem kostur er, og skorað á rétta eigendur að gefa sig fram og sanna eignarrétt sinn innan tiltekins tíma.

33. gr.

Af sláturverði ómerkinga og annars óskilafjár, andvirði seldra hrossa og nautgripa greiðist áfallinn kostnaður. Eftirstöðvar andvirðis greiðist eiganda, ef hann sannar eignarrétt sinn innan tiltekins tíma, ella í sveita- eða fjallskilasjóð þess sveitarfélags sem óskilapeningurinn kom fyrir í.

VII. KAFLI
Um sveltistöku og eftirleitir.

34. gr.

Verði gangnamenn eða aðrir varir við fé í ógöngum eða svelti, skal tilkynna það fjallkóngi eða fjallskilanefnd viðkomandi svæðis. Skal þá leitast við að fá færa menn til að bjarga fénu, en rétt er þó að fela landeiganda heimalands og fjáreiganda, ef kunnur er sveltistöku.

Sé björgun óframkvæmanleg eða of hættuleg að dómi björgunarmanna eða aðstæður það örðugar að tvöfalt verð fjárins hrökkvi ekki fyrir björgunarkostnaði, er skylt að skjóta féð, sé það unnt.

35. gr.

Séu færðar líkur fyrir því að fé leynist að loknum lögsöfnum, skal það sótt á kostnað sveita- eða fjallskilasjóðs.

Í eftirleit er mönnum heimilt að fara eftir að lögsöfnum er lokið. Ber sveita- eða fjallskilasjóður engan kostnað af þeim ferðum nema sérstaklega sé um það samið við sveitarstjórn áður en farið er.

Fyrir fé sem finnst í slíkum leitum mega finnendur fara fram á fundarlaun, sem nemur 1/3 af verði fullorðins fjár og ½ af verði lambs, samkvæmt skattmati til eignar. Ber eigendum að greiða fundarlaun, fari eftirleitarmenn fram á slíkt, enda séu færðar sönnur á að féð hafi fundist í afrétti.

VIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.

36. gr.

Um smalanir að vori skulu ábúendur vera frjálsir. Sveitarstjórn er þó skylt að samræma vorsmölun, ef meirihluti fjáreigenda á samliggjandi smölunarsvæði óskar eftir því.

37. gr.

Hvar sem vart verður við fé sem farið hefur yfir varnarlínu (línubrjóta) hvort sem er í smölun afrétta heimalanda eða í réttum, skal handsamað hið fyrsta, sett í einangrun og komið í sláturhús svo fljótt sem við verður komið.

38. gr.

Stranglega er bannað að svelta fénað, umfram það sem nauðsyn krefur, hundbeita hann að óþörfu eða misþyrma honum á nokkurn hátt við fjárréttir, í rekstrum eða gæslu, fjallgöngum eða við smölun heimalands. Sannist að hundur bíti fé til skaða skal eigandi hans bæta tjónið að fullu.

39. gr.

Rétt er hverjum sláturleyfishafa að hafa markglöggan mann í sláturrétt, meðan á slátrun stendur. Skal hann gæta þess að misdráttur eða ruglingur eigi sér ekki stað á sláturfé. Telji hann eignarheimild á fénaði vafasama, skal hann leita nánari upplýsinga þar um.

40. gr.

Að öðru leyti en greint er í fjallskilasamþykkt þessari fer um fjallskilamálefni eftir því sem segir í lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl. nr. 6/1986, með síðari breytingum, og lögum og reglugerðum um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra.

41. gr.

Brot gegn ákvæðum þessarar fjallskilasamþykktar varðar sektum og renna sektir í sveita- eða fjallskilasjóð viðkomandi fjallskiladeildar. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

Samþykkt þessi sem héraðsnefnd Vestur-Skaftafellssýslu hefur samið og samþykkt, staðfestist hér með samkvæmt 3. gr. laga nr. 6, 21. mars 1986 um afréttarmálefni, fjallskil o.fl., til þess að öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felld fjallskilasamþykkt fyrir Vestur-Skaftafellssýslu nr. 174/1992 með viðauka nr. 524 frá 1. september 1997.

Landbúnaðarráðuneytinu, 18. apríl 2006.

Guðni Ágústsson.

Atli Már Ingólfsson.

B deild - Útgáfud.: 9. maí 2006