Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 993/2009

Nr. 993/2009 30. nóvember 2009
REGLUR
um efni viðmiðunartilboðs fyrir opinn aðgang að heimtaugum.

I. KAFLI

Markmið, gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um efni viðmiðunartilboðs um aðgang að heimtaugum og tengdri aðstöðu.

2. gr.

Markmið.

Markmið þessara reglna er að kveða skýrt á um þau atriði sem ávallt skal fjallað um í viðmiðunartilboði um aðgang að heimtaug og tengdri aðstöðu og stuðla þannig að auknu gagnsæi.

Birting viðmiðunartilboðs gefur öllum markaðsaðilum kost á að sjá hvað er í boði og tryggir að þeir verði ekki krafðir um greiðslu fyrir þjónustu sem þeim er ekki nauðsynleg. Því skal viðmiðunartilboð vera sundurliðað með fullnægjandi hætti. Gagnsæi skilmála og skilyrða fyrir aðgangi að heimtaugum og tengdri aðstöðu þjónar þeim tilgangi að flýta fyrir samningaviðræðum, koma í veg fyrir ágreining og stuðla að tiltrú markaðsaðila á því að ekki sé um að ræða mismunun við veitingu þjónustunnar. Nauðsynlegt er að tæknileg ákvæði sem gilda um heimtaugarleigu séu skýr og gagnsæ enda getur það verið sérstaklega mikilvægt til að tryggja rekstrarsamhæfi.

3. gr.

Skilgreiningar.

 1. Aðgangur: Að veita öðru fjarskiptafyrirtæki aðgang að fjarskiptaneti, aðstöðu eða fjarskiptaþjónustu samkvæmt fastsettum skilmálum í þeim tilgangi að veita fjarskiptaþjónustu.
 2. Aðstöðuleiga (hýsing): Þjónusta sem gerir leigutaka kleift að koma búnaði fyrir í húsnæði leigusala.
 3. Áskrifandi: Einstaklingur eða lögaðili sem er aðili að samningi við seljanda almennrar fjarskiptaþjónustu um afhendingu slíkrar þjónustu.
 4. Fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk: Fjarskiptafyrirtæki sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur skilgreint með umtalsverðan markaðsstyrk.
 5. Fullur aðgangur: Leigutaki leigir heimtaugina í heild, þ.e. bæði neðra tíðnisvið fyrir talsíma og efra tíðnisvið fyrir gagnaflutning.
 6. Heimtaug: Koparlína sem tengir tengigrind eða samsvarandi aðstöðu í aðgangs­netinu við húskassa hjá áskrifanda.
 7. Heimtaugahluti (subloop): Sá hluti heimtaugarinnar sem nær frá tengiskáp í götu í húskassa hjá áskrifanda.
 8. Húskassi: Nettengipunktur hjá áskrifanda.
 9. Leigusali: Fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk á heildsölumarkaði fyrir aðgang að heimtaugum.
 10. Leigutaki: Fjarskiptafyrirtæki sem óskar eftir að leigja heildsöluaðgang að heim­taugum af leigusala.
 11. Nágrennistenging: Tenging leigutaka við tengigrind leigusala frá hýsingu í nágrenni símstöðvar sem ekki er á vegum leigusala.
 12. Nettengipunktur: Efnislegur tengipunktur þar sem áskrifanda er veittur aðgangur að almennu fjarskiptaneti.
 13. Samhýsing: Aðgangur að rými og tækniþjónustu sem er nauðsynlegur til að koma viðeigandi búnaði leigutaka fyrir með góðu móti og tengja hann.
 14. Skiptur aðgangur: Skipting heimtaugarinnar milli tveggja leigutaka þar sem annar veitir talsímaþjónustu á neðra tíðnisviðinu og hinn gagnaflutningsþjónustu á efra tíðni­sviðinu. Hugtakið á einnig við um þau tilvik þar sem aðeins annað tíðnisviðið er í notkun.
 15. Sýndaraðstöðuleiga: Aðstöðuleiga sem er valkostur við hefðbundna aðstöðuleigu og nágrennistengingu, þar sem: 1) búnaði leigutaka er komið fyrir í húsakynnum leigusala sem sér um uppsetningu, umsjón og viðhald búnaðarins, eða 2) þar sem leigusali á sinn kostnað sér um tengingu milli þess staðar sem leigutaki óskaði eftir aðstöðu og næsta tiltæka staðar þar sem leigusali getur komið búnaði sínum fyrir á.
 16. Viðmiðunartilboð: Opinbert tilboð sem fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðs­styrk á heildsölumarkaði fyrir heimtaugar (leigusali) skal birta. Skal það inni­halda sundurliðaða lýsingu á opnum aðgangi að heimtaugum og aðstöðu er slíkum aðgangi tengist, þ. á m. skilmála aðgangs, tæknikröfur og gjaldskrá.

II. KAFLI

Efni viðmiðunartilboðs um aðgang að heimtaugum.

4. gr.

Skylda til að birta viðmiðunartilboð og tilgangur þess.

Fyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk skulu birta viðmiðunartilboð sem hefur að geyma sundurliðaða lýsingu á aðgangi að heimtaugum og tengdri aðstöðu, ásamt skil­málum og skilyrðum, þ. á m. gjaldskrám. Viðmiðunartilboð og breytingar á því skal leggja fyrir Póst- og fjarskiptastofnun til samþykktar fyrir birtingu. Póst- og fjarskipta­stofnun getur krafist breytinga á viðmiðunartilboði, þ.m.t. verði.

5. gr.

Efni viðmiðunartilboðs.

Að lágmarki skal viðmiðunartilboð fyrir opinn aðgang að heimtaugum og tengdri aðstöðu lýsa framboði þjónustunnar og tilheyrandi skilyrðum, skilmálum og gjaldskrá er þjón­ustunni tengist. Að lágmarki skal getið um eftirfarandi atriði:

 1. Almennar upplýsingar um heimtaugaleigusamning, sbr. 6. gr.
 2. Vörulýsing, sbr. 7. gr.
 3. Almennir skilmálar, sbr. 8. gr.
 4. Upplýsingar um staðsetningu símstöðva, tengigrinda og aðstöðu fyrir tengiskápa, sbr. 9. gr.
 5. Lýsing á aðstöðuleigu, sbr. 10. gr.
 6. Aðgangur að heimtaug og tengdri þjónustu, sbr. 11. gr.
 7. Bilanatilkynningar, sbr. 12. gr.
 8. Verðskrá, sbr. 13. gr.
 9. Reikningar og greiðslur, sbr. 14. gr.
 10. Öryggi neta og tilkynningar um breytingu á tilhögun netsins, sbr. 15. gr.
 11. Gæði þjónustu og bætur vegna vanefnda leigusala, sbr. 16. gr.
 12. Rof tengingar í neyðartilvikum, sbr. 17. gr.
 13. Vanefndir, sbr. 18. gr.
 14. Upplýsingaskylda og höfundaréttarákvæði, sbr. 19. gr.
 15. Þagnarskylda, sbr. 20. gr.
 16. Greiðslutryggingar, sbr. 21. gr.
 17. Tæknileg færni leigutaka, sbr. 22. gr.
 18. Framsal réttinda og skyldna til þriðja aðila, sbr. 23. gr.
 19. Endurskoðun, sbr. 24. gr.
 20. Óviðráðanleg atvik, sbr. 25. gr.
 21. Gildistaka, gildistími og uppsögn samnings, sbr. 26. gr.
 22. Misræmi milli samnings og viðauka hans, sbr. 27. gr.
 23. Fulltrúar aðila, sbr. 28. gr.
 24. Tækniskilmálar og tæknikröfur, sbr. 29. gr.
 25. Lögsaga og lausn ágreiningsmála, sbr. 30. gr.

6. gr.

Almennar upplýsingar um heimtaugaleigusamning.

Í viðmiðunartilboðinu skal geta um almenn atriði er snúa að samningi leigusala og leigutaka um heimtaugaleigu. Hér skal m.a. getið um aðila samningsins og markmið hans, hugtakaskilgreiningar og viðmiðanir (staðla).

7. gr.

Vörulýsing.

Geta skal um það vöruframboð sem leigusali býður upp á. Það skal að lágmarki saman­standa af eftirfarandi þjónustuþáttum:

 

a)

Fullum aðgangi að neðra og efra tíðnisviði heimtaugar.

 

b)

Skiptum aðgangi þar sem einn leigutaki leigir neðra tíðnisviðið og annar efra tíðnisviðið eða einungis annað tíðnisviðið er í notkun.

 

c)

Aðgangi að heimtaugarhluta (subloop).

 

d)

Aðgangi að línubókhaldi.

 

e)

Aðgangi að línumælingum.

 

f)

Aðgangi að rekstrarstuðningskerfum.

 

g)

Aðgangi að stoðkerfum, upplýsingakerfum eða gagnagrunnum fyrir a) upplýsinga­öflun áður en pantað er, b) pantanir, c) afhendingar, d) viðhalds- og viðgerðar­beiðnir og e) reikningagerð.

 

h)

Aðstöðuleigu.

 

i)

Nágrennistengingu.

 

j)

Sýndaraðstöðuleigu (óáþreifanleg aðstöðuleiga).

 

k)

Aðgangur að samhýsingu og/eða samnýtingu, t.d. bygginga og kapalstokka.

 

l)

Aðgangi að tengigrind.

8. gr.

Almennir skilmálar.

Geta skal um almenna skilmála og skilyrði sem sett eru af hálfu leigusala varðandi aðgang að heimtaugum og tengdri aðstöðu. Þar skal m.a. getið um eftirfarandi:

 

a)

Viðeigandi staðla.

 

b)

Upplýsingagjöf leigutaka um búnað, þekkingu og þjálfun starfsmanna.

 

c)

Eignarhald heimtaugarinnar.

 

d)

Takmörkun á fullum aðgangi þar sem annar leigutaki hefur skiptan aðgang.

 

e)

Viðbrögð við bilunum og frest leigusala til viðgerða.

 

f)

Upplýsingaskyldu leigutaka vegna breytinga á nýtingu heimtaugar.

 

g)

Efnisval á strengjum og tengilistum til uppsetningar á tengigrind.

 

h)

Kostnaðarskipting vegna rýmingar eða breytingar á húsnæði leigusala.

 

i)

Reglur um úthlutun rýmis þar sem rými fyrir aðstöðuleigu er takmarkað.

9. gr.

Upplýsingar um staðsetningu símstöðva, tengigrinda og aðstöðu fyrir tengiskápa.

Veita skal upplýsingar um staðsetningu símstöðva, tengigrinda og aðstöðu fyrir tengi­skápa í aðgangsnetinu þar sem unnt er að fá aðgang að heimtaugum og heim­tauga­hlutum (subloop).

10. gr.

Lýsing á aðstöðuleigu.

Veita skal upplýsingar um ýmis atriði sem mikilvæg eru í tengslum við aðstöðuleigu. Þar skal a.m.k. getið um eftirfarandi:

 

a)

Kröfur til búnaðar leigutaka varðandi samræmi við tækniskilmála og staðla.

 

b)

Umgengni leigutaka við tækjaskápa í aðstöðuleigu.

 

c)

Frágang leigutaka á raflögnum.

 

d)

Breytingar á húsnæði í tengslum við aðstöðuleigu og kostnað við þær.

 

e)

Reglur um kostnaðarskiptingu milli leigutaka og leigusala vegna slíkra breytinga.

 

f)

Lagnir og lagnaleiðir innanhúss og kostnað vegna þeirra.

 

g)

Lagnaleiðir fyrir nágrennisaðstöðuleigu og kostnað vegna þeirra.

 

h)

Tilhögun vegna rafmagns (AC og DC rafmagn), varaafls og jarðtenginga og kostnað þar að lútandi.

 

i)

Loftræsting/kæling og rakastig.

 

j)

Brunaviðvörunarkerfi.

 

k)

Öryggisreglur og aðgengi leigutaka að búnaði.

 

l)

Rétt umsækjanda um aðstöðuleigu til að skoða staði þar sem unnt er að fá aðstöðu­leigu eða staði þar sem synjað hefur verið um aðstöðuleigu sökum pláss­leysis.

11. gr.

Aðgangur að heimtaug og tengdri þjónustu.

Geta skal um ýmis atriði er varða aðgang að heimtaug og tengdri þjónustu eins og nánari grein er gerð fyrir hér að neðan.

Leigutaki sem óskar eftir aðgangi að heimtaug skal senda skriflega eða rafræna umsókn til leigusala þar að lútandi. Eftirfarandi upplýsingar skulu fylgja umsókn:

 

a)

Nafn leigutaka sem sækir um aðgang.

 

b)

Nafn notanda, heimilisfang og íbúðarnúmer.

 

c)

Auðkenni á heimtaug (símanúmer eða leigulínunúmer).

 

d)

Tegund þjónustu (t.d. ADSL, ADSL2, ADSL2+, VDSL, SHDSL, POTS eða ISDN).

 

e)

Hvers konar aðgangi óskað er eftir (fullur eða skiptur aðgangur).

 

f)

Hvort heimtaugin er í notkun eða ný (ef umsækjanda er kunnugt um það).

 

g)

Hvenær óskað er eftir aðgangi.

 

h)

Hvort óskað sé eftir að heimtaug sé mæld áður en afhending fer fram.

 

i)

Nafn og símanúmer þess starfsmanns leigutaka, sem hefur með umsókn að gera.

 

j)

xDSL tengipunkt ef tengja þarf xDSL vegna VoIP þjónustu.

Leigutaki sem óskar eftir aðstöðuleigu skal senda skriflega eða rafræna umsókn til leigu­sala þar að lútandi. Eftirfarandi upplýsingar skulu fylgja umsókn:

 

a)

Stærð búnaðar (breidd x dýpt x hæð) og upplýsingar um svæði sem þarf kringum búnaðinn.

 

b)

Áætluð þörf fyrir rafmagn.

 

c)

Áætluð kæliþörf.

 

d)

Óskir um öryggiskerfi/viðvörunarboð.

 

e)

Óskir um lagningu strengja að búnaði og aðra aðstöðu.

 

f)

Aðrar óskir sem leigutaki vill taka fram.

Leigutaki sem óskar eftir nágrennistengingu, sýndarnetsaðstöðuleigu, aðgangi að tengi­grind, stoðkerfum eða upplýsingakerfum skal senda skriflega eða rafræna umsókn til leigusala þar að lútandi.

Kveðið skal sérstaklega á um það í viðmiðunartilboði hvernig staðið skuli að afgreiðslu umsókna. Þar skal a.m.k. getið um eftirfarandi:

 

a)

afgreiðslufrest,

 

b)

afhendingu heimtauga eða tengdrar aðstöðu,

 

c)

tafir á afhendingu,

 

d)

lágmarksleigutíma,

 

e)

afturköllun umsóknar,

 

f)

mælingar heimtauga,

 

g)

reglur fyrir úthlutun þar sem rými er takmarkað og

 

h)

jafnræði milli leigutaka.

12. gr.

Bilanatilkynningar.

Kveða skal á um það til hvaða aðila áskrifandi getur snúið sér varðandi tilkynningu um bilun og verkaskiptingu á milli leigutaka og leigusala þar að lútandi og varðandi bilanaleit.

13. gr.

Verðskrá.

Birta skal verðskrá fyrir sérhvern þjónustuþátt er lýtur að aðgengi að heimtaug og tengdri þjónustu. Verð skulu miðast við kostnað ásamt hæfilegum hagnaði. Leigusala er óheimilt að taka gjald fyrir þjónustu er tengist aðgengi að heimtaug eða tengdri þjónustu sem ekki er getið um með krónutölu, einingarverði eða öðrum gagnsæjum hætti.

Kveða skal á um hvernig staðið skuli að verðskrárbreytingum. Verðbreytingar öðlast ekki gildi nema með fyrirfram samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar.

14. gr.

Reikningar og greiðslur.

Kveðið skal á um reikninga og greiðslur þeirra. Þar skal a.m.k. kveðið á um reiknings­tímabil, útgáfudag reikninga, virðisaukaskatt á reikningsfjárhæð, gjalddaga og eindaga. Einnig dráttarvexti ef slíkt á við.

15. gr.

Öryggi neta og tilkynningar um breytingar á tilhögun netsins.

Kveðið skal á um öryggi neta og tilkynningar um breytingar á tilhögun netsins. Getið skal um lengd tilkynningarfrests vegna slíkra breytinga.

16. gr.

Gæði þjónustu og bætur vegna vanefnda leigusala.

Kveðið skal á um viðunandi viðmið varðandi gæði þjónustu leigusala og að hann skuli upp­fylla umrædd viðmið, m.a. varðandi tímafresti og tæknilegar kröfur.

Kveðið skal á um að leigusali greiði leigutaka hæfilegar bætur fyrir brot á gæða­viðmiðum, t.d. varðandi tímafresti.

Kveðið skal á um að leigusali skuli gæta jafnræðis varðandi þjónustu við tengda sem ótengda aðila, t.d. að því er varðar tímafresti, gæði þjónustu og upplýsingagjöf um fyrirhugað vöruframboð sem er í þróun. Þá skal kveðið á um hvernig leigusali skuli sýna fram á að jafnræðis sé gætt, t.d. með reglulegum birtingum á upplýsingum um hvernig gæðaviðmiðum er mætt annars vegar gagnvart tengdum aðilum og hins vegar gagnvart ótengdum aðilum.

17. gr.

Rof tengingar í neyðartilvikum.

Kveðið skal á um heimild leigusala til að rjúfa tengingu að heimtaug fyrirvaralaust ef slíkt reynist nauðsynlegt vegna öryggis fjarskipta og rekstraröryggis.

18. gr.

Vanefndir.

Kveðið skal á um vanefndir og afleiðingar þeirra. Fjallað skal um rétt til úrbóta, riftun og skaðabætur.

19. gr.

Upplýsingaskylda og höfundaréttarákvæði.

Kveðið skal á um gagnkvæma upplýsingaskyldu leigusala og leigutaka varðandi tæknileg atriði sem nauðsynleg eru við framkvæmd samningsins.

Kveðið skal á um tilkynningarskyldu aðila gagnvart áskrifanda um það hvenær viðskipti hefjast formlega og hvenær viðskiptaleg ábyrgð gagnvart honum hefst.

Kveðið skal á um hvort höfundaréttur að tæknilegum lausnum, hugbúnaði eða öðru færist á milli aðila og þá í hvaða tilvikum og með hvaða hætti það gerist.

20. gr.

Þagnarskylda.

Kveðið skal á um hvernig aðilar skuli umgangast trúnaðarupplýsingar sem þeir hafa mót­tekið frá gagnaðila, t.d. varðandi stjórnunarlegar, fjárhagslegar eða tæknilegar aðstæður gagnaðila.

21. gr.

Greiðslutryggingar.

Kveðið skal á um hvort og með hvaða hætti leigusali geti óskað eftir tryggingu frá leigu­taka í tengslum við gerð samnings um aðgang að heimtaug eða tengdri þjónustu.

22. gr.

Tæknileg færni leigutaka.

Kveðið skal á um hvort leigusali krefjist tæknilegrar færni þeirra manna sem setja upp fjarskiptabúnað sem leigutaki sér um rekstur á og kann að hafa áhrif á fjarskiptabúnað leigusala. Einnig með hvaða hætti slíkar kröfur eru útfærðar.

23. gr.

Framsal réttinda og skyldna til þriðja aðila.

Kveðið skal á um hvort réttindi og skyldur samkvæmt samningnum verða framseldar og þá með hvaða hætti.

24. gr.

Endurskoðun.

Kveðið skal á um hvort og við hvaða aðstæður aðilum sé heimilt að krefjast endur­skoðunar á samningnum, t.d. ef forsendur hafa breyst verulega eða lögum hefur verið breytt þannig að samningurinn uppfylli ekki lengur fyrirmæli laganna.

25. gr.

Óviðráðanleg atvik.

Kveðið skal á um hvort og með hvaða hætti aðili geti losnað undan samnings­skuld­bindingum sínum ef óviðráðanleg atvik koma upp.

26. gr.

Gildistaka, gildistími og uppsögn samnings.

Kveðið skal á um gildistöku samnings, breytingar á samningi vegna nýs viðmiðunar­tilboðs, gildistíma samnings og uppsögn leigutaka á samningi.

27. gr.

Misræmi á milli samnings og viðauka hans.

Kveðið skal á um hvernig fara skuli með ef misræmi er á milli ákvæða samningsins og viðauka við hann.

28. gr.

Fulltrúar aðila.

Kveðið skal á um tilnefningu hvors aðila um sig á fulltrúa til að koma fram fyrir sína hönd í tengslum við framkvæmd samningsins og með hvaða hætti slík samskipti á milli samningsaðila fari fram.

29. gr.

Tækniskilmálar og tæknikröfur.

Í viðmiðunartilboðinu eða viðauka með því skal kveðið á um ýmsa tækniskilmála og tækni­kröfur sem tengjast aðgangi að heimtaugum og tengdri þjónustu og nauðsynlegar verða að teljast svo leigutaki geti áttað sig á hinum ýmsu tæknilegu atriðum í tengslum við slíkan aðgang.

Geta skal m.a. um tækniskilmála fyrir skiptan og fullan aðgang, þ.m.t. skilgreiningar, högun netsins, flutningseiginleika, tíðnisvið, tengingar, tæknilegar kröfur til búnaðar og takmarkanir ef um þær er að ræða.

Geta skal m.a. um tæknikröfur um ADSL búnað til tengingar yfir POTS, þ.m.t. tilvísanir í staðla, skýringar á kröfum til búnaðar, kröfur til ADSL merkis á koparlínu, kröfur um flutning POTS merkja gegnum deila og mæliaðferðir sem mælt er með fyrir tíðniþéttleika og heildarafl á ADSL línumerki.

Geta skal m.a. um tæknikröfur um ADSL búnað til tengingar yfir ISDN, þ.m.t. tilvísanir í staðla, skýringar á kröfum til búnaðar, tæknikröfur til búnaðar, kröfur um flutning ISDN U-sniðs merkja gegnum deila, mæliaðferð sem mælt er með fyrir tíðniþéttleika og heildarafl á ADSL línumerki.

Geta skal m.a. um tæknikröfur um búnað við fullan aðgang, þ.m.t. tilvísanir í staðla, skýringar á kröfum til búnaðar, yfirlit yfir tækjabúnað sem tengja má koparlínu við fullan aðgang, takmarkanir á notkun, almennar kröfur til endabúnaðar, kröfur til endabúnaðar sem þarf takmarkaða bandbreidd, kröfur til (G)SHDSL endabúnaðar, kröfur til ADSL endabúnaðar og mæliaðferð fyrir tíðnirófsþéttleika og heildarafl á ADSL línumerki.

30. gr.

Lögsaga og lausn ágreiningsmála.

Kveðið skal á um lögsölu og lausn ágreiningsmála.

III. KAFLI

Ýmis ákvæði.

31. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 1. mgr. 34. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003 og öðlast gildi við birtingu í Stjórnartíðindum.

Póst- og fjarskiptastofnun, 30. nóvember 2009.

Hrafnkell V. Gíslason.

Óskar Hafliði Ragnarsson.

B deild - Útgáfud.: 14. desember 2009