Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 90/2007

Nr. 90/2007 24. janúar 2007
REGLUGERÐ
um þráðlausan búnað og notendabúnað til fjarskipta og gagnkvæma viðurkenningu á samræmi þeirra.

I. KAFLI

Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um fjarskiptatæki eins og þau eru skilgreind í 3. gr. og kveður á um reglur er gilda um markaðssetningu, frjálsan flutning og það að taka slík tæki í notkun hér á landi.

Fjarskiptatæki sem er óaðskiljanlegur hluti eða aukahlutur búnaðar sem kveðið er á um í neðangreindum lögum og reglugerðum fellur undir gildissvið reglugerðar þessarar með fyrirvara um beitingu neðangreindra laga og reglugerða:

 1. Lög nr. 16/2001, um lækningatæki, með síðari breytingum, sbr. tilskipun 93/42/EBE, um lækningatæki, og reglugerð nr. 476/1994, um gildistöku tilskipunar Evrópubandalagsins um virk, ígræðanleg lækningatæki, sbr. tilskipun 90/385, um virk ígræðanleg lækningatæki og
 2. Reglugerð nr. 822/2004, um gerð og búnað ökutækja, með síðari breytingum, sbr. tilskipun 72/245/EBE, um rafseglulsviðssamhæfi í ökutækjum, og umferðarlög nr. 50/1987, með síðari breytingum, sbr. tilskipun 92/61/EBE, um gerðar­viðurkenn­ingar bifhjóla.

Reglugerðin gildir ekki um:

 1. Þráðlausan búnað sem radíóáhugamenn nota og fellur undir 53. skilgreiningu í 1. gr. reglna Alþjóðafjarskiptasambandsins um þráðlaus fjarskipti, nema verslað sé með búnaðinn á frjálsum markaði. Ekki er litið svo á að íhlutasamstæður, sem radíóáhugamenn setja saman, og búnaður, sem er verslunarvara en er breytt af radíó­áhugamönnum eða fyrir þá, sé búnaður sem verslað er með á frjálsum markaði.
 2. Búnað sem fellur undir gildissvið laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, og reglu­gerðar nr. 589/2004, um skipsbúnað, sbr. tilskipun 96/98/EB, með síðari breytingum.
 3. Kapla og leiðslur.
 4. Þráðlausan búnað til móttöku sem er eingöngu ætlaður til að taka á móti hljóð­varps- og sjónvarpssendingum.
 5. Vörur, búnað og íhluti í skilningi laga nr. 60/1998, um loftferðir, sbr. 2. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 3922/91, um samræmingu á tæknikröfum og stjórnsýslumeðferð á sviði flugmála.
 6. Búnað sem eingöngu er notaður í tengslum við starfsemi sem varðar almanna­öryggi, varnarmál, öryggi ríkisins og starfsemi ríkisins á sviði hegningar­laga.

2. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er:

 1. Að samræma reglur aðildarríkjanna innan Evrópska efnahagssvæðisins um fjar­skipta­tæki.
 2. Að efla opinn og samkeppnishæfan markað fyrir fjarskiptatæki, sem stuðlar að fram­boði ódýrs og fjölbreytts búnaðar, með því að heimila frjálsa markaðs­setningu hans, að því tilskildu að hann sé í samræmi við nánar tilgreindar kröfur, sem ætlað er að stuðla að verndun heilsu og öryggis notenda og skil­virkrar notkunar tíðnisviðsins.
 3. Að tryggja að fjarskiptatæki hafi ekki truflandi áhrif á rafsegulumhverfið eða sé ekki móttækilegur fyrir slíkum truflunum.

3. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

 1. Fjarskiptatæki: Allur búnaður, sem er annaðhvort notendabúnaður til fjarskipta eða þráðlaus búnaður, eða hvort tveggja.
 2. Notendabúnaður til fjarskipta: Búnaður, eða viðeigandi íhlutur í honum, sem gerir samskipti möguleg og er ætlaður til að tengjast á einhvern hátt, beint eða óbeint, við skilfleti almennra fjarskiptaneta.
 3. Þráðlaus búnaður: Búnaður, eða viðeigandi íhlutur í honum, sem gerir samskipti möguleg með því að gefa frá sér og/eða taka á móti fjarskiptatíðnum á tíðnisviði sem er úthlutað til þráðlausra fjarskipta um jarðlæg kerfi eða geimstöðvar.
 4. Fjarskiptatíðnir: Rafsegulbylgjur á tíðninni frá 9 kHz til 3000 GHz, sem berast áfram í geimnum án tilbúinnar stýringar.
 5. Skilflötur: Nettengipunktur sem er efnislegur tengipunktur þar sem notanda er veittur aðgangur að almennu fjarskiptaneti, og/eða skilflötur í lofti sem ákvarðar þráðlausa tengingu fjarskiptatækja, og tæknilegar forskriftir fyrir þá.
 6. Flokkur fjarskiptatækja: Flokkur, sem í eru tilteknar tegundir fjarskiptatækja, sem samkvæmt reglugerð þessari eru taldar svipaðar, og einnig skilfletir sem fjar­skipta­tækið er hannað fyrir. Fjarskiptatæki getur talist til fleiri en eins flokks.
 7. Skjalasafn um tæknismíði: Skjöl sem í er lýsing á fjarskiptatæki og upplýsingar og útskýringar á því hvernig gildandi grunnkröfur eru uppfylltar.
 8. Samhæfðir staðlar: Tækniforskriftir sem viðurkenndar staðlastofnanir hafa viður­kennt í umboði framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins með það fyrir augum að ákveða evrópskar kröfur. Ekki er skylt að fara eftir þeim. Staðlaráð Íslands staðfestir Evrópustaðla, sbr. lög nr. 36/2003.
 9. Skaðleg truflun: Truflun sem hætta er á að trufli virkni þráðlausra leiðsögutækja eða annarrar öryggisþjónustu eða sem á annan hátt dregur úr, hindrar eða truflar ítrekað þráðlausa fjarskiptaþjónustu sem er starfrækt í samræmi við gildandi reglur hér á landi eða á Evrópska efnahagssvæðinu.
 10. Fyrirhugaður tilgangur: Sá tilgangur sem fjarskiptatæki er sagt þjóna samkvæmt upplýsingum sem framleiðandinn, eða sá einstaklingur sem setur fjarskiptatækið á markað, gefur í merkingum eða leiðbeiningum.
 11. Viðurkenndur fulltrúi: Einstaklingur eða lögaðili með staðfestu á Evrópska efna­hags­svæðinu sem er sérstaklega tilnefndur af framleiðanda og kemur fram fyrir hans hönd enda geti yfirvöld og aðilar með staðfestu á Evrópska efnahags­svæðinu snúið sér til hans í stað framleiðandans að því er varðar skyldur þess síðarnefnda samkvæmt reglugerð þessari.
 12. Markaðssetning: Að flytja inn og/eða bjóða fram fjarskiptatæki, gegn greiðslu eða ókeypis, í því skyni að dreifa og/eða nota það á markaði innan Evrópska efnahags­svæðisins. Innflutningur til eigin nota telst markaðssetning um leið og fjarskipta­tæki kemur inn á Evrópska efnahagssvæðið. Fjarskiptatæki sem flutt er inn frá ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins og hefur ekki hlotið tollafgreiðslu telst ekki hafa verið markaðssett.
 13. Að taka í notkun: Sá tímapunktur þegar fjarskiptatæki er notað í fyrsta sinn innan Evrópska efnahagssvæðisins.
 14. Opinber markaðsgæsla: Skipulögð viðleitni stjórnvalda til að tryggja að vörur á markaði uppfylli grunnkröfur og formkröfur reglugerðar þessarar. Opinber mark­aðsgæsla greinist í markaðseftirlit og töku stjórnvaldsákvarðana til að fram­fylgja reglum um öryggi.
 15. Markaðseftirlit: Skipulagt eftirlit með vörum á markaði. Það greinist í skoðun vöru annars vegar og skipulagða öflun upplýsinga um vörur á markaði hins vegar, m.a. með því að taka á móti ábendingum um vörur sem taldar eru hættulegar. Með skoðun vöru er átt við rannsókn á vöru og ákvörðun um hvort hún samræmist grunnkröfum II. kafla eða formkröfum um merkingar og leiðbeiningar. Skoðanir geta verið úrtaksskoðanir eða skoðanir vegna sérstaks átaks eða ábendinga.
 16. Stjórnvaldsákvarðanir: Ákvarðanir stjórnvalda til að framfylgja formkröfum og/eða reglum um öryggi, t.d. veiting leiðbeininga, ábendingar um úrbætur eða ákvörðun um tímabundið eða varanlegt sölubann eða innköllun vöru.
 17. Tilkynntur aðili: Aðili sem hefur verið metinn hæfur til að framkvæma sam­ræmis­mat sem um getur í 13. gr.
 18. CE-samræmismerki: Merki til staðfestingar á að vara fullnægi öllum skilgreindum grunnkröfum í ESB-gerðum og samhæfðum stöðlum á Evrópska efnahags­svæðinu.
 19. Samræmisyfirlýsing: Yfirlýsing framleiðanda um ábyrgð hans á að vara sé í sam­ræmi við staðla eða önnur kröfuskjöl.

Að öðru leyti gilda skilgreiningar þær sem fram koma í 3. gr. laga nr. 81/2003, um fjar­skipti, eftir því sem við á.

II. KAFLI

Grunnkröfur.

4. gr.

Grunnkröfur sem gilda um öll fjarskiptatæki.

Eftirfarandi grunnkröfur eiga við um öll fjarskiptatæki:

 1. Um verndun heilsu og öryggis notanda og annarra aðila, þ. á m. markmið um öryggiskröfur sem sett eru fram í reglugerð nr. 264/1971, um raforkuvirki, sbr. tilskipun 73/23/EBE, ef fjarskiptafyrirtæki fellur innan gildissviðs þeirrar reglu­gerðar, en ekki eru sett nein mörk fyrir spennu.
 2. Um að tæki í notkun hafi ekki truflandi áhrif á rafsegulumhverfið í samræmi við kröfur um vernd sem settar eru fram í reglugerð nr. 146/1994, um rafsegulsviðs­samhæfi, sbr. tilskipun 89/336/EBE, ef fjarskiptatæki fellur innan gildissviðs þeirrar reglugerðar.

Að auki skal þráðlaus búnaður gerður með tilliti til þess að nýta á sem skilvirkastan hátt tíðnisvið sem ætlað er þráðlausum fjarskiptum á jörðu og í geimnum og stöðu sem honum er úthlutað á baugum umhverfis jörðu án þess að valda skaðlegum truflunum.

Í samræmi við málsmeðferð sem kveðið er á um í 15. gr. tilskipunar 1999/5/EB má setja skilyrði um að ákveðnir flokkar tækja eða einstök tæki séu þannig gerð að þau:

 1. megi starfrækja með öðrum tækjum með milligöngu neta og að hægt sé að tengja þau við rétta skilfleti hvar sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins,
 2. valdi ekki tjóni á netum, starfsemi þeirra eða virkni og orsaki þannig óviðeigandi rýrnun þjónustu,
 3. hafi innbyggðar varnir til verndar persónuupplýsingum og friðhelgi einkalífs áskrif­enda og notenda,
 4. hafi möguleika á útfærslu sem hindrar svik,
 5. hafi möguleika á útfærslu sem tryggir aðgang að neyðarþjónustu,
 6. hafi möguleika sem auðveldar fötluðum notkun þeirra.

5. gr.

Sérstök skilyrði varðandi ákveðna flokka tækja eða einstök tæki.

Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. hafa eftirfarandi skilyrði verið sett um ákveðna flokka tækja:

 1. Þráðlaus búnaður sem starfræktur er í strandstöðvarþjónustu, eins og hún er skilgreind í grein S1.28 í fjarskiptareglum Alþjóðafjarskiptasambandsins, eða farstöðvarþjónustu við skip um gervitungl, eins og hún er skilgreind í grein S1.29 sömu reglna, sem ætlaður er til uppsetningar í hafskipum sem falla ekki undir ákvæði IV. kafla alþjóðasamningsins um öryggi mannslífa á hafinu frá 1974 (SOLAS), og er ætlað að vera hluti af hinu alþjóðlega neyðar- og öryggiskerfi fjarskipta á sjó (GMDSS-kerfinu) eins og mælt er fyrir um í IV. kafla SOLAS-samþykktarinnar, skal þannig gerður að tryggt sé að hann virki rétt við siglingar á sjó, uppfylli allar kröfur um starfhæfni í GMDSS-kerfinu í neyðartilvikum og geri skýr og traust boðskipti möguleg, sem eru einnig mjög áreiðanleg, að því er varðar hliðrænt eða stafrænt fjarskiptasamband.
 2. Þráðlaus búnaður sem starfræktur er í strandstöðvarþjónustu, eins og hún er skilgreind í grein S1.28 í fjarskiptareglum Alþjóðafjarskiptasambandsins, eða farstöðvarþjónustu við skip um gervitungl, eins og hún er skilgreind í grein S1.29 sömu reglna, skal hafa möguleika á útfærslu sem tryggir aðgang að neyðar­þjónustu, sbr. e-lið 3. mgr. 4. gr. reglugerðar þessarar. Slíkur búnaður skal hannaður með þeim hætti að hann virki rétt miðað við fyrirhugaðan tilgang í strand­stöðvum eða um borð í hafskipum sem falla ekki undir ákvæði IV. kafla alþjóða­samningsins um öryggi mannslífa á hafinu frá 1974 (SOLAS) og uppfylla kröfur Sjálfvirka upplýsingakerfisins (Automatic Identification System; AIS).
 3. Neyðarsendar sem ætlaðir eru til starfrækslu á 406 MHz tíðnisviðinu í samræmi við Cospat-Sarsat kerfið skulu hannaðir með þeim hætti að þeir virki rétt með tilliti til viðurkenndra starfhæfniskrafna búnaðar að teknu tilliti til þess umhverfis sem þeim er ætluð starfræksla á. Í neyðartilvikum skal búnaðurinn gera skýr og traust boðskipti möguleg, sem eru einnig mjög áreiðanleg, með því að uppfylla allar kröfur Cospat-Sarsat kerfisins.
 4. Snjóflóðaýlur, sem nota tíðnina 457 kHz og eru ætlaðar til að staðsetja fólk sem hefur grafist í snjóflóði, skulu hannaðar þannig að þær geti starfað með nýjum ýlum og ýlum sem eru í notkun og byggjast á staðlinum ETS 300 718. Snjó­flóða­ýlur skulu þannig úr garði gerðar að þær starfi örugglega þótt þær lendi í snjó­flóði og haldi áfram að starfa þótt þær séu grafnar þar í langan tíma eftir snjó­flóðið.

6. gr.

Vísun í staðla.

Grunnkröfurnar í þessum kafla skulu teljast uppfylltar um fjarskiptatæki sem eru í samræmi við viðeigandi íslenska staðla, sem teknir hafa verið upp á grundvelli sam­hæfðra Evrópustaðla og staðfestir af Staðlaráði Íslands sbr. lög nr. 36/2003.

III. KAFLI

Markaðssetning, notkun og markaðseftirlit.

7. gr.

Markaðssetning.

Óheimilt er að setja á markað önnur fjarskiptatæki en þau sem bera CE-merkingu samkvæmt 15. gr. og uppfylla grunnkröfurnar í 4. gr. og þau skilyrði sem fram koma í 5. gr. þegar þau eru rétt upp sett og við haldið og notuð í samræmi við tilgang.

Þegar ákvarðað er að fjarskiptatæki í tilteknum flokki þurfi að uppfylla tiltekin skilyrði í samræmi við 3. mgr. 4. gr. má halda áfram að markaðssetja tæki sem ekki uppfyllir hin nýju skilyrði fram að gildistöku ákvörðunarinnar.

Framleiðandi, eða einstaklingur sem setur fjarskiptatæki á markað, skal sjá til þess að fjarskiptatækinu fylgi notendaupplýsingar um fyrirhugaða notkun þess ásamt yfirlýsingu um að það sé í samræmi við grunnkröfurnar skv. II. kafla. Þegar um er að ræða notenda­búnað til fjarskipta skulu slíkar upplýsingar vera nægar til að gefa til kynna við hvaða skilfleti almenna fjarskiptanetsins fyrirhugað er að tengja búnaðinn. Þegar um er að ræða þráðlausan búnað skulu slíkar upplýsingar vera nægar til að gefa til kynna, á umbúðum og í notkunarleiðbeiningum með búnaðinum, það land eða landsvæði þar sem nota á búnaðinn og vekja skal athygli notandans á hugsanlegum takmörkunum eða kröfum um leyfi til að nota búnaðinn í tilteknum löndum með merkingu á búnaðinum skv. II. viðauka. Um allan búnað gildir að slíkar upplýsingar skulu vera á áberandi stað.

Framleiðandi, eða umboðsmaður hans, sem hyggst setja á markað þráðlausan búnað í tíðnisviðum þar sem notkun hefur ekki verið samræmd á Evrópska efnahagssvæðinu skal tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um þessa fyrirætlun minnst fjórum vikum áður en markaðssetning hefst. Sama á við um einstakling sem ber ábyrgð á markaðssetningu búnaðarins. Einnig skal senda stofnuninni upplýsingar um eiginleika búnaðarins, þ.m.t. tíðnisvið hans, bil milli rása, mótunaraðferð, hátíðniafl og kenninúmer tilkynnts aðila, sem um getur í I. viðauka. Telji Póst- og fjarskiptastofnun hættu á því að þráðlaus búnaður komi í veg fyrir skilvirka nýtingu á tíðnisviðinu, geti truflað aðra þjónustu í viðkomandi tíðnisviði eða geti stofnað öryggi manna í hættu getur stofnunin bannað notkun hans, bannað eða takmarkað markaðssetningu hans og/eða krafist þess að búnaður sé tekinn af markaðnum.

8. gr.

Notkun.

Taka má fjarskiptatæki í notkun í samræmi við fyrirhugaðan tilgang ef það uppfyllir grunn­kröfurnar í II. kafla og önnur viðeigandi ákvæði þessarar reglugerðar.

Póst- og fjarskiptastofnun getur takmarkað að þráðlaus búnaður sé tekinn í notkun af ástæðum sem tengjast almannaheilbrigði, skilvirkri og réttri notkun tíðnisviðs fyrir þráðlausar sendingar eða til að komast hjá skaðlegum truflunum.

9. gr.

Vörusýningar, kynningar o.fl.

Heimilt er á kaupstefnum, vörusýningum, kynningum eða á sambærilegum vettvangi að sýna fjarskiptatæki sem falla undir reglugerð þessa en fullnægja ekki ákvæðum hennar, að því tilskildu að vel sýnilegt merki gefi greinilega til kynna að slík fjarskiptatæki megi ekki setja á markað eða taka í notkun fyrr en þau hafa verið færð til samræmis við grunn­kröfurnar skv. II. kafla og merkt með viðeigandi hætti skv. 15. grein og fullnægi þannig kröfum skv. ákvæðum þessarar reglugerðar.

10. gr.

Öryggisákvæði.

Komi í ljós að fjarskiptatæki kunni að tefla heilsu og/eða öryggi notenda eða annarra aðila í hættu eða valda skaðlegum truflunum á rafsegulumhverfinu, skal Póst- og fjarskiptastofnun gera allar viðeigandi ráðstafanir til að taka slíkt fjarskiptatæki af markaði, takmarka frjálsan flutning á því eða banna eða hindra að það sé sett á markað eða tekið í notkun. Póst- og fjarskiptastofnun skal upplýsa Eftirlitsstofnun EFTA um allar slíkar ráðstafanir, tilgreina ástæðurnar fyrir ákvörðun sinni og þá einkum hvort ósam­ræmi stafi af því að:

 1. Grunnkröfunum sem um getur í II. kafla sé ekki fullnægt þegar fjarskiptatækið er ekki í samræmi við staðlana sem um getur í 6. gr.
 2. Stöðlunum sem um getur í 6. gr. sé ekki rétt beitt, ef því er haldið fram að stöðl­unum hafi verið beitt.
 3. Stöðlunum sjálfum sé ábótavant.

Póst- og fjarskiptastofnun skal gera viðeigandi ráðstafanir, sbr. 66. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003 og 11. gr. reglugerðar þessarar, gegn hverjum þeim sem sett hefur CE-merki á fjarskiptatæki sem ekki uppfyllir kröfur reglugerðar þessarar. Tilkynna skal slíkar ráðstafanir Eftirlitsstofnun EFTA.

11. gr.

Markaðseftirlit.

Póst- og fjarskiptastofnun fer með markaðseftirlit með fjarskiptatækjum. Stofnuninni er heimilt að fela öðrum hæfum aðilum tiltekna hluta þess eftirlits sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun. Stofnunin skal að eigin frumkvæði eða eftir ábendingu taka til meðferðar mál er varða markaðseftirlit með fjarskiptatækjum.

Áður en Póst- og fjarskiptastofnun tekur íþyngjandi ákvörðun samkvæmt reglugerð þessari skal framleiðandi, eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins, fá tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri nema það sé ekki unnt sökum þess hve ráðstafanirnar sem gera þarf eru aðkallandi. Í þeim tilvikum sem stofnunin kann að taka ákvarðanir vegna bráðrar eða yfirvofandi hættu skal stjórn­valds­ákvörðun tekin til bráðabirgða. Stofnuninni ber að gæta hófs við beitingu íþyngjandi réttarrúrræða samkvæmt reglugerð þessari. Um málsmeðferð og réttarúrræði Póst- og fjarskiptastofnunar fer að öðru leyti eftir IV. og V. kafla laga nr. 134/1995 um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, eftir því sem við á.

Aðila sem markaðseftirlit beinist að ber að heimila eftirlitsaðila aðgang að starfsstöð sinni, viðkomandi fjarskiptatæki og listum yfir seld tæki og stuðla að snurðulausri framkvæmd markaðseftirlits. Framleiðendur, innflytjendur, seljendur, eigendur og notendur fjarskiptatækja skulu veita þá aðstoð og upplýsingar sem óskað er eftir hverju sinni. Eftirlitsaðilar geta tekið sýni og gert þær athuganir og prófanir sem nauðsynlegar eru taldar í því skyni að forðast tjón eða truflanir af völdum fjarskiptatækis og geta þeir framkvæmt skyndikannanir á starfsstöðvum þessara aðila. Einnig er eftirlitsaðila heimilt að framkvæma ítarlegri kannanir á fjarskiptatækjum og aðrar sannprófanir og ef nauð­syn krefur er þeim heimilt að leggja hald á tæki til frekari rannsóknar.

Póst- og fjarskiptastofnun getur með rökstuðningi afturkallað, tekið af markaði eða bannað sölu eða afhendingu fjarskiptatækis ef það uppfyllir ekki formskilyrði, m.a. um merkingar, leiðbeiningar, samræmisyfirlýsingar o.fl., enda sé ekki unnt að beita öðrum og vægari úrræðum. Sama á við torveldi framleiðandi eða dreifingaraðili sannanlega rannsókn stofnunarinnar og skoðun vöru eða hefur ekki tiltæk gögn um öryggi hennar.

Póst- og fjarskiptastofnun getur, ef rökstuddur grunur leikur á að fjarskiptatæki uppfylli ekki grunnkröfur II. kafla, ákveðið tímabundið bann við sölu eða afhendingu þess á meðan rannsókn fer fram. Telji stofnunin að fjarskiptatæki sé sérstaklega hættulegt getur hún krafist tafarlausrar afturköllunar þess. Stofnunin skal afturkalla, taka af markaði eða banna sölu eða afhendingu fjarskiptatækja ef ljóst þykir að þau uppfylli ekki grunnkröfurnar enda sé ekki unnt að beita öðrum og vægari úrræðum.

Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt í tengslum við sölubann, afturköllun eða þegar fjarskiptatæki eru tekin af markaði að skylda framleiðendur og dreifingaraðila til að láta eyða umræddum fjarskiptatækjum með öruggum hætti, ef nauðsyn þykir eðli máls samkvæmt. Stofnuninni er einnig heimilt að skylda framleiðenda eða dreifingaraðila til að lagfæra fjarskiptatæki þannig að það uppfylli settar reglur, afhenda kaupanda sams konar hættulaust fjarskiptatæki eða greiða kaupanda andvirði tækisins.

Póst- og fjarskiptastofnun skal, eftir því sem unnt er, hafa samvinnu við framleiðendur eða dreifingaraðila um málsmeðferð, svo sem öflun gagna, skoðun og prófun fjarskiptatækja, svo og undirbúning og töku ákvarðana eins og stöðvun sölu og afturköllun fjarskiptatækja. Hafi stofnunin afturkallað, tekið af markaði eða bannað sölu fjar­skipta­tækja á grundvelli þess að þau uppfylli ekki grunnkröfur II. kafla er fram­leiðanda og dreifingaraðila heimilt að krefjast þess að tækið skuli prófað af til­kynntum aðila. Stofnuninni ber að endurskoða ákvörðun ef breyttar aðstæður eru fyrir hendi.

Starfsmenn Póst- og fjarskiptastofnunar og þeir aðilar sem Póst- og fjarskiptastofnun kann að gera samning við um markaðseftirlit eru bundnir þagnarskyldu um atriði er fram koma við rannsókn fjarskiptatækja og viðskiptaleynd hvílir yfir. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi. Þetta hefur hvorki áhrif á skyldur stjórnvalda og tilkynntra aðila til að skiptast á upplýsingum og gefa út viðvaranir né heldur skyldur viðkomandi aðila til að gefa upplýsingar fyrir dómstólum.

12. gr.

Réttur til tenginga.

Sé notendabúnaður til fjarskipta í samræmi við gildandi grunnkröfur skal Póst- og fjar­skipta­stofnun tryggja að fyrirtæki sem starfrækir almennt fjarskiptanet neiti ekki, af tækni­legum ástæðum, að tengja slíkan búnað við rétta skilfleti.

Valdi notendabúnaður, sem lýst hefur verið yfir að sé í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar, að mati Póst- og fjarskiptastofnunar alvarlegu tjóni á neti eða skaðlegum rafsegultruflunum eða skaði kerfið eða virkni þess, getur stofnunin heimilað fjarskipta­fyrirtæki að neita tengingu, aftengja búnað eða taka hann úr notkun.

Fjarskiptafyrirtæki getur í neyðartilvikum aftengt notendabúnað ef það reynist nauð­syn­legt til að vernda netið og ef hægt er að bjóða notandanum aðra lausn þegar í stað honum að kostnaðarlausu. Viðkomandi fjarskiptafyrirtæki skal þá þegar í stað greina Póst- og fjarskiptastofnun frá slíkri ákvörðun.

IV. KAFLI

Reglur um samræmismat.

13. gr.

Aðferðir við samræmismat.

Framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu innan Evrópska efnahags­svæðisins skal beita einni af neðangreindum aðferðum við samræmismat til að sýna fram á að grunnkröfum II. kafla sé fullnægt:

 1. Varðandi línutengdan notendabúnað til fjarskipta og þráðlausan búnað fyrir mót­töku skal velja eina af þeim samræmismatsaðferðum sem getið er um í III., V. eða VI. viðauka reglugerðar þessarar.
 2. Varðandi þráðlausan búnað þar sem framleiðandi hefur beitt samhæfðum stöðlum sbr. 6. gr. skal velja eina af þeim samræmismatsaðferðum sem getið er um í IV., V. eða VI. viðauka reglugerðar þessarar.
 3. Varðandi þráðlausan búnað þar sem framleiðandi hefur ekki beitt samhæfðum stöðlum sbr. 6. gr. skal velja annaðhvort þá samræmismatsaðferð sem getið er um í V. eða VI. viðauka reglugerðar þessarar.

Framleiðandi, eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu innan Evrópska efnahags­svæðisins, getur sýnt fram á að fjarskiptatæki uppfylli grunnkröfurnar, sem til­greindar eru í a-lið 1. mgr. 4. gr. reglugerðar þessarar, með því að beita samræmismats­­aðferðum þeim sem um er getið í 1. mgr. þessarar greinar eða með því að beita aðferðum þeim sem fram koma í reglugerð nr. 264/1971, um raforkuvirki, með síðari breytingum, ef fjarskiptatæki fellur innan gildissviðs þeirrar reglugerðar.

Framleiðandi, eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu innan Evrópska efnahags­svæðisins, getur sýnt fram á að fjarskiptatæki uppfylli grunnkröfurnar, sem tilgreindar eru í b-lið 1. mgr. 4. gr. reglugerðar þessarar, með því að beita samræmis­mats­aðferðum þeim sem um er getið í 1. mgr. þessarar greinar eða með því að beita aðferðum þeim sem fram koma í reglugerð nr. 146/1994, um rafsegulsviðs­samhæfi, með síðari breyt­ingum, ef fjarskiptatæki fellur innan gildissviðs þeirrar reglugerðar.

V. KAFLI

Tilkynntir aðilar og merkingar.

14. gr.

Tilkynntir aðilar.

Faggildingarsvið Einkaleyfastofu annast, skv. 3. gr., sbr. 1. mgr. 13. gr., laga um fag­gildingu o.fl. nr. 24/2006, mat á þeim aðilum, sem óska eftir því að sjá um samræmis­mat samkvæmt reglugerð þessari og skulu þeir uppfylla þau skilyrði, sem sett eru fram í I. viðauka. Aðilar, sem uppfylla matsskilyrði, sem kveðið er á um í viðkomandi sam­ræmdum stöðlum teljast einnig uppfylla skilyrðin í I. viðauka.

Samgönguráðherra tilkynnir, skv. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 24/2006, um faggildingu o.fl., þá aðila sem faggildingarstofa Einkaleyfastofu hefur viðurkennt skv. 1. mgr. til Eftir­lits­stofnunar EFTA og annarra aðildarríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins ásamt þeim sérstöku verkefnum sem þessum aðilum hefur verið falið að leysa af hendi. Skrá yfir tilkynnta aðila ásamt þeim kenninúmerum sem þeim hefur verið úthlutað og þeim verkefnum sem þeim hafa verið falin skal birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

Uppfylli tilkynntur aðili ekki lengur skilyrði þau sem sett eru fram í I. viðauka eða brjóti af sér eða fullnægi ekki lengur þeim skilyrðum sem starfsleyfi hans byggist á getur samgönguráðherra ákveðið að afturkalla tilnefningu sína á tilkynntum aðila til Eftir­lits­stofnunar EFTA, framkvæmdastjórnar ESB og aðildarríkja Evrópska efnahags­svæðisins, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 24/2006, um faggildingu o.fl.

15. gr.

CE-merki.

Fjarskiptatæki sem talin eru uppfylla grunnkröfurnar í II. kafla skulu bera CE-sam­ræmismerki þegar þau eru sett á markað. Áfesting merkisins er á ábyrgð fram­leiðandans, viðurkennds fulltrúa hans með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu eða þess einstaklings sem sér um markaðssetningu fjarskiptatækjanna.

Þegar aðferðir þær sem um er getið í IV., V. og VI. viðauka eru notaðar við samræmis­mat, skal kenninúmer tilkynnta aðilans, sem um er getið í 14. gr., fylgja merkinu.

Þráðlaus búnaður sem starfræktur er í tíðnisviðum þar sem notkun hefur ekki verið samræmd á Evrópska efnahagssvæðinu skal auk CE-samræmismerkisins merktur með kennimerki viðkomandi flokks notendabúnaðar, sbr. viðauka II.

Framleiðandi skal auðkenna fjarskiptatæki með upplýsingum um gerð, framleiðslunúmer og/eða raðnúmer, ásamt upplýsingum um nafn framleiðanda og viðurkennds fulltrúa framleiðanda með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Fjarskiptatæki sem hefur verið breytt til samræmis við grunnkröfur reglugerðar þessarar skal merkt á þann hátt að ekki verði ruglast á því og tæki sem ekki hefur verið breytt til samræmis.

Bannað er að setja á merki eða áletranir sem líklegt er að villi um fyrir þriðja aðila varðandi þýðingu eða útlit CE-samræmismerkisins.

Þegar fjarskiptatæki falla einnig undir önnur lög eða reglugerðir sem grundvallast á tilskipunum Evrópusambandsins um önnur atriði þar sem einnig er kveðið á um að merkja skuli með CE-merkinu, táknar merkið að tækin fullnægi einnig þeim lögum og reglugerðum.

Gefi slík lög eða reglugerðir hins vegar framleiðanda kost á að velja á aðlögunartímabili fyrirkomulag sem hann óskar að beitt verði táknar CE-merkið að tækin uppfylli aðeins ákvæði þeirra reglna sem framleiðandi beitir. Þegar svo háttar til verður að veita upplýsingar um einstök atriði slíks fyrirkomulags í skjölum, tilkynningum og leið­beiningum, sem fylgja tækjunum.

VI. KAFLI

Ýmis ákvæði.

16. gr.

Refsiákvæði.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varðar viðurlögum í samræmi við ákvæði 74. gr. laga um fjarskipti, nr. 81/2003.

17. gr.

Kæruheimild.

Um kæruheimildir fer samkvæmt 13. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun.

VI. KAFLI

Gildistaka o.fl.

18. gr.

Heimild.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 3. mgr. 66. gr. og 75. gr. laga um fjarskipti, nr. 81/2003, að höfðu samráði við iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti hvað varðar þátt Neytendastofu á sviði opinberrar markaðsgæslu, sbr. lög nr. 62/2005, um Neyt­endastofu og talsmann neytenda, og faggildingarsviðs Einkaleyfastofu á sviði fag­gildingar, samræmismats o.fl., sbr. lög nr. 24/2006, um faggildingu o.fl., til inn­leiðingar á tilskipun nr. 1999/5/EB, um þráðlausan búnað og endabúnað til fjarskipta og gagnkvæma viðurkenningu á samræmi þeirra, sem vísað er til í 1. lið X. kafla II. við­auka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 48/2000.

19. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 589/1994, um viðurkenningu notendabúnaðar á grundvelli sameiginlegra tæknilegra reglugerða á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. reglugerðir nr. 377/1995, 119/1996, 437/1997, 604/1998 og 800/1998 um breytingu á reglugerð nr. 589/1994.

Ákvæði til bráðabirgða.

Fjarskiptatæki sem var í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 589/1994, um viður­kenningu notendabúnaðar á grundvelli sameiginlegra tæknilegra reglugerða á Evrópska efnahagssvæðinu, með síðari breytingum, var gjaldgengt til markaðssetningar á Evrópska efnahagssvæðinu til 8. apríl 2001.

Samgönguráðuneytinu, 24. janúar 2007.

Sturla Böðvarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 12. febrúar 2007