Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1109/2006

Nr. 1109/2006 21. desember 2006
REGLUR
um innanhússfjarskiptalagnir.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar taka til frágangs á innanhússlögnum fyrir fjarskipti, þ.m.t. húskassa, í íbúðar- og atvinnuhúsnæði og heimilda til aðgangs að lögnunum.

2. gr.

Markmið.

Markmið með reglunum er að tryggja vernd fjarskipta með því að stuðla að vönduðum frágangi innanhússlagna sem koma á í veg fyrir misnotkun á fjarskiptaþjónustu og að tryggja jafnræði fjarskiptafyrirtækja að því er varðar aðgang að innanhússlögnum.

3. gr.

Orðskýringar.

Greinikassi: Kassi staðsettur milli húskassa og séreignar eða annars afmarkaðs svæðis í byggingu þar sem fjarskiptalögn er greind í tvær eða fleiri greinar.

Hefðbundin útvarpsmerki: Merki sem ætluð eru til móttöku í hefðbundnum sjónvarps- og hljóðvarpsviðtækjum, án þess að breyta þurfi merkjunum.

Húskassi: Kassi sem staðsettur er við inntak heimtauga eða annarra fjarskiptastrengja sem tengja áskrifendur í ákveðinni byggingu við hið almenna fjarskiptanet og þar sem tenging á sér stað milli hins almenna fjarskiptanets og innanhússlagna.

Innanhússlagnir: Hvers konar lagnir innanhúss þ.m.t. strengir, rör, stokkar, kapalstigar, kapalbakkar, húskassar, greinikassar og tenglar fyrir almenna fjarskiptaþjónustu þ.m.t. hljóð- og sjónvarp.

Inntak: Staður þar sem strengur í almennu fjarskiptaneti er tekinn inn í byggingu.

Nettengipunktur: Efnislegur tengipunktur þar sem áskrifanda er veittur aðgangur að almennu fjarskiptaneti. Staðsetning nettengipunkts að því er varðar þessar reglur er fyrsti tengipunktur fyrir innan útvegg sem skal vera í húskassa, nánar tiltekið í tengingu milli tengilista á strengenda fjarskiptafyrirtækja og tengilista fyrir innanhússlagnir.

4. gr.

Ábyrgð á lögnum.

Húseigendur eru ábyrgir fyrir innanhússlögnum fyrir fjarskipti frá nettengipunkti. Byggingarfulltrúi samþykkir teikningar af fjarskiptalögnum og hefur eftirlit með því að lagnir séu í samræmi við samþykktar teikningar. Húseigendur bera ábyrgð á öllu viðhaldi, breytingum og endurnýjun innanhússlagna. Húseigendur bera ábyrgð á því að heildstæði almennra fjarskiptaneta raskist ekki af tengingu þeirra við innanhússlagnir.

5. gr.

Jafnræði.

Við hönnun og uppsetningu innanhússlagna skal þess gætt að öll fjarskiptafyrirtæki geti átt þess jafnan kost að veita notendum þjónustu og að notendur geti valið mismunandi fjarskiptafyrirtæki til að veita sér þjónustu.

6. gr.

Frágangur fjarskiptalagna.

Frágangur innanhússlagna skal vera í samræmi við viðurkennda staðla s.s. ÍST 150.

Í raðhúsum og parhúsum skal vera sérstakt inntak fyrir hverja húseiningu og í fjölbýlishúsum fyrir hvern stigagang.

Fjarskiptastrengir frá inntaki að húskassa, tenging frá endabúnaði þráðlausra sambanda í húskassa og strengir frá húskassa að séreign hvort sem þeir eru í rörum, festir á kapalstiga eða liggja í bökkum skulu vera í sameignarhluta allra bygginga þar sem eru fleiri en einn áskrifandi að fjarskiptaþjónustu.

Ef lagnir í eldri byggingum liggja frá húskassa til séreignar um aðra séreign skal ganga frá ídráttar- og tengidósum með því að skrúfa á þær lok og innsigla. Öðrum en fjarskiptafyrirtækjum, iðnmeisturum sem hafa réttindi til að vinna við fjarskiptalagnir og starfsfólki þeirra er óheimilt að opna slíkar dósir.

Strengir frá húskassa að greinikössum eða að fyrsta tengli í séreign skulu vera í samfelldum rörum. Ef nota þarf millidráttardósir í löngum strengjalögnum skulu dósirnar vera staðsettar í veggjum í sameign. Ef strengir eru hengdir á kapalstiga skulu stigarnir vera í aflokuðu og læstu rými.

Lagnir fyrir innanhússdreifingu útvarpsmerkja, þ.e. loftnetskerfi, skulu aðgreindar frá öðrum fjarskiptalögnum að öðru leyti en því að nota má sama kapalstiga og bakka. Ljósleiðara fjarskiptafyrirtækis má tengja í húskassa en tengja skal hefðbundin útvarpsmerki sem flutt eru á ljósleiðaranum yfir í annan kassa og þaðan til séreigna um útvarpskerfi byggingarinnar.

Fjarskiptalagnir, aðrar en ljósleiðaralagnir, skulu ávallt vera aðskildar frá raflögnum og lögnum fyrir dyrasíma og annað innanhússeftirlit og stýringar.

Þegar símstöð eða annar búnaður sem tilheyrir almennu fjarskiptaneti er staðsettur í byggingu þar sem einnig eru notendur fjarskiptaþjónustu skal húskassi staðsettur notendamegin við þann búnað sem tilheyrir almennu fjarskiptaneti og ekki í sama rými.

7. gr.

Húskassar.

Í hverri byggingu með inntaki fjarskiptastrengja og/eða með endabúnaði fyrir þráðlaus sambönd skal vera húskassi. Það er á ábyrgð húseiganda að setja upp húskassann.

Húskassar skulu vera staðsettir í sameign nálægt inntaki fjarskiptastrengja, á traustum vegg sem að jafnaði skal vera burðarveggur eða einangraður útveggur. Í húskassa má ekki tengja aðra strengi en fjarskiptastrengi að því undanteknu að leggja skal raflögn að húskassanum svo að hægt sé að koma fyrir í honum virkum fjarskiptarásum. Húskassar skulu vera jarðtengdir.

Í húskössum skulu vera skinnur til þess að festa á tengilista bæði fyrir strengenda innanhússlagna og strengenda fjarskiptafyrirtækja. Í húskassanum skal vera pláss fyrir a.m.k. 3 lista fyrir strengenda fjarskiptafyrirtækja. Fjarskiptafyrirtækin leggja til lista fyrir strengenda sína. Þeim skal vera heimilt að setja lok yfir listann með læsingu eða innsigli. Áskrifendur tengjast fjarskiptafyrirtækjum með línuslaufu milli viðkomandi lista.

Stærð húskassa skal vera í samræmi við staðalinn ÍST 150 og í samræmi við fjölda íbúða eða fjölda afmarkaðra athafnasvæða í atvinnubyggingum. Í byggingum þar sem eru fleiri en einn áskrifandi fjarskiptaþjónustu skal vera lok á húskassanum sem hægt er að innsigla.

8. gr.

Greinikassar.

Þegar nauðsynlegt er að nota greinikassa vegna mikils fjölda íbúða eða mikils fjölda afmarkaðra athafnasvæða í byggingu skulu þeir vera staðsettir í sameign. Greinikassar skulu vera með loki sem hægt er að innsigla.

9. gr.

Aðgangur að innanhússlögnum.

Húseigendur skulu heimila starfsmönnum fjarskiptafyrirtækja eða iðnmeistara sem hafa réttindi til að vinna við fjarskiptalagnir, aðgang að sameign þar sem eru innanhússlagnir fyrir fjarskipti ef aðili í viðkomandi byggingu hefur óskað eftir þjónustu þeirra. Húseigandi getur krafist þess að starfsmaður fjarskiptafyrirtækis eða iðnmeistara framvísi skilríkjum.

Fjarskiptafyrirtækjum er heimilt að setja tengilista í húskassa byggingar ef fyrir liggur pöntun frá aðila í byggingunni á þjónustu fyrirtækisins. Ef ekki er hægt að setja upp fleiri tengilista vegna plássleysis skulu fjarskiptafyrirtæki koma sér saman um samnýtingu lista sem fyrir eru.

Fjarskiptafyrirtækjum sem hafa gert samning við áskrifanda skal heimill aðgangur að húskassa til þess að tengja milli tengilista síns og tengilista fyrir innanhússstrengi. Óheimilt er að frátengja annað fjarskiptafyrirtæki frá línu áskrifanda nema skrifleg beiðni áskrifandans þar að lútandi liggi fyrir. Fjarskiptafyrirtæki sem tengir nýjan áskrifanda skal einnig heimill aðgangur að greinikössum, kapalstigum, kapalbökkum og strengjum ef þess gerist þörf vegna uppsetningar á samböndum og þjónustu við áskrifanda. Bera skal beiðni um slíkan aðgang upp við húseiganda eða stjórn húsfélags. Óheimilt er að breyta lögnum nema með skriflegu samþykki húseigenda.

Fjarskiptafyrirtæki, iðnmeistarar sem hafa réttindi til að vinna við fjarskiptalagnir og starfsmenn þeirra sem að beiðni húseiganda eða einstakra áskrifenda annast viðhald innanhússlagna, þ.m.t. húskassa, skulu eiga rétt á aðgangi að sameign þar sem eru lagnir, húskassar og greinikassar.

10. gr.

Innsiglun húskassa og greinikassa.

Í fjölbýlishúsum og atvinnuhúsnæði þar sem fleiri en einn áskrifandi er staðsettur í sama húsi skulu húskassar og greinikassar vera innsiglaðir. Engum er heimilt að rjúfa slík innsigli nema fjarskiptafyrirtæki, iðnmeistara sem hefur réttindi til að vinna við fjarskiptalagnir eða starfsmönnum þeirra sem hafa lögmæta ástæðu til aðgangs að innanhússlögnum í samræmi við reglur þessar. Þegar viðkomandi hefur lokið vinnu við kassann skal hann innsigla hann aftur tafarlaust.

Við innsiglun húskassa og greinikassa skal nota númerað innsigli sem merkt er viðkomandi fjarskiptafyrirtæki eða iðnmeistara og á þeim skal vera texti um að óviðkomandi sé bannaður aðgangur að kassanum og að rof á innsigli geti varðað viðurlögum samkvæmt ákvæðum fjarskiptalaga og/eða almennra hegningarlaga. Á innsiglinu skal einnig koma fram hvenær innsiglun átti sér stað.

Ef kassar eru með skrúfuðu loki en ekki með lykkjum til að draga innsigli í gegnum, skal líma innsigli yfir a.m.k. eina skrúfu í lokinu og hið sama skal gilda um lok á ídráttar- og tengidósum. Fjarskiptafyrirtæki eða iðnmeistari sem opna skrúfuð lok skulu að verki loknu setja nýjan límmiða yfir eina eða fleiri skrúfur.

11. gr.

Vinnuseðlar.

Allir aðilar sem inna af hendi vinnu við innanhússlagnir og opna hús- og greinikassa eða ídráttar- og tengidósir skulu útfylla vinnuseðla um unnin verk. Vinnuseðlana skal geyma í að minnsta kosti tvö ár. Komi upp mál er varðar aðgang að innanhússlögnum skal afhenda Póst- og fjarskiptastofnun að beiðni hennar afrit af vinnuseðlum sem geta snert málið.

12. gr.

Upplýsingaskylda húseigenda.

Húseigendur skulu að fenginni beiðni veita fjarskiptafyrirtækjum og iðnmeisturum sem hafa réttindi til að vinna við fjarskiptalagnir, upplýsingar um lagnirnar þ.m.t. teikningar, ef fyrir liggur beiðni aðila í húsinu um fjarskiptaþjónustu eða viðhald innanhússlagna.

13. gr.

Leynd fjarskipta.

Öllum sem starfa við innanhússlagnir fyrir fjarskipti er skylt að virða ákvæði 47. gr. laga um fjarskipti, nr. 81/2003.

14. gr.

Viðurlög.

Brot á reglum þessum varða viðurlögum samkvæmt 74. gr. laga um fjarskipti, nr. 81/2003.

15. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 60. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003 og öðlast þegar gildi.

Póst- og fjarskiptastofnun, 21. desember 2006.

Hrafnkell V. Gíslason.

Sigurjón Ingvason.

B deild - Útgáfud.: 29. desember 2006