Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 497/2011

Nr. 497/2011 3. maí 2011
REGLUR
um breytingu á reglum nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.

1. gr.

97. gr. ásamt fyrirsögn orðast svo:

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Hjúkrunarfræðideild veitir kennslu sem hér segir:

 1. Til BS-prófs í hjúkrunarfræði.
 2. Til kandídatsprófs í ljósmóðurfræði (cand. obst.).
 3. Til diplómaprófs á meistarastigi í hjúkrunarfræði.
 4. Til meistaraprófs í hjúkrunarfræði.
 5. Til meistaraprófs í ljósmóðurfræði.
 6. Til doktorsprófs í hjúkrunar- og ljósmóðurfræði á fræðasviðum þar sem nauðsyn­leg aðstaða er fyrir hendi.
 7. Til meistara- og doktorsprófs í lýðheilsuvísindum og öðrum þverfræðilegum greinum í samvinnu við aðrar háskóladeildir, þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi.

Hjúkrunarfræðideild veitir kennslu í hjúkrunarfræði og ljósmóðurfræði. Ljósmóðurfræði er skipað í námsbraut, sbr. ákvæði 21. gr. þessara reglna.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Almennt grunnnám í hjúkrunarfræði er fjögur námsár, samtals 240 einingar, og lýkur með BS-prófi. Deildinni er heimilt að bjóða hjúkrunarfræðingum sérskipulagt grunnnám til BS-prófs.

Ljósmóðurfræði er tveggja ára bóklegt nám og starfsþjálfun, 120 einingar, að loknu BS-prófi í hjúkrunarfræði. Próftitilinn candidatus obstetriciorum (cand. obst.) ber sá er lokið hefur kandídatsprófi í ljósmóðurfræði frá hjúkrunarfræðideild.

Meistaranám í ljósmóðurfræði er 55 eininga nám að loknu kandídatsprófi í ljós­móður­fræði frá hjúkrunarfræðideild.

Diplómanám á meistarastigi í hjúkrunarfræði er 40 til 90 eininga nám að loknu BS-prófi í hjúkrunarfræði eða öðru sambærilegu háskólaprófi. Deildin setur nánari reglur um diplómanám á meistarastigi sem háskólaráð staðfestir.

Meistaranám í hjúkrunarfræði er 120 eininga nám og telst ársnám 60 einingar. Deildin setur nánari reglur um nám til meistaraprófs sem háskólaráð staðfestir, sbr. ákvæði 66. og 69. gr. þessara reglna.

Doktorsnám í hjúkrunarfræðideild er 180 eininga rannsóknatengt nám að loknu meist­ara­prófi og þar skulu námskeið vera a.m.k. 60 einingar. Deildin setur nánari reglur um nám til doktorsprófs sem háskólaráð staðfestir, sbr. ákvæði 67.-69. gr. þessara reglna.

Deildin stendur fyrir viðbótarnámi og endurmenntun fyrir hjúkrunarfræðinga eftir því sem fjárveitingar og aðrar aðstæður leyfa.

2. gr.

105. gr. ásamt fyrirsögn orðast svo:

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Sálfræðideild veitir kennslu sem hér segir:

 1. Til BS-prófs í sálfræði.
 2. Til kandídatsprófs í sálfræði (cand. psych.).
 3. Til MS-prófs í sálfræði.
 4. Til MS-prófs í félags- og vinnusálfræði.
 5. Til doktorsprófs í sálfræði þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi. Ennfremur til meistara- og doktorsprófs í lýðheilsuvísindum og öðrum þverfræðilegum greinum í samvinnu við aðrar háskóladeildir, þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi. Deildin setur nánari reglur um nám til meistara- og doktorsprófs, sam­kvæmt reglum þessum, sem háskólaráð staðfestir, sbr. 66.-69. gr. þessara reglna.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Deildin ákvarðar kennslugreinar og skiptingu þeirra í námskeið og um vægi þeirra.

Allar breytingar á vægi námskeiða skal tilgreina í kennsluskrá eða tilkynna á annan hátt eigi síðar en við upphaf kennsluárs.

Námskeið skal meta til eininga og telst fullt nám að jafnaði vera 60 einingar á námsári. Skipan BS-námsins miðast við að það taki þrjú ár, og er heildarnámið minnst 180 námseiningar. Einnig er unnt að ljúka BS-prófi í sálfræði með 120 eininga aðalgrein í sálfræði og 60 einingar í aukagrein úr annarri deild, enda samþykki sálfræðideild og viðkomandi deild aukagreinina.

Prófgráðan MS er veitt fyrir 120 eininga meistaranám að loknu BS-prófi í sálfræði.

Kandídatspróf í sálfræði (cand. psych.) er 120 eininga nám í sálfræði að loknu BS-prófi í sálfræði. Námið er fræðilegt nám og starfsþjálfun og tekur til klínískrar sálfræði fullorðinna og klínískrar sálfræði barna og skólasálfræði. Námið miðast við að sá sem hefur lokið því uppfylli skilyrði laga til að kalla sig sálfræðing. Starfsþjálfun stúdenta í kandídatsnámi fer eftir reglum sem deildin setur. Til að útskrifast með prófgráðuna cand. psych. verður vegin meðaleinkunn, í þeim námskeiðum þar sem einkunn er gefin, að vera 7,0 eða hærri.

Nám til doktorsprófs í sálfræði er 180 eininga nám að loknu meistaraprófi sem lýtur sérstökum reglum, sbr. 2. mgr. þessarar greinar.

3. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 109. gr.:

a. 1. mgr. orðast svo:

Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda veitir kennslu sem hér segir:

 1. Til BA-prófs: Austur-Asíufræði, danska, enska, finnska, frönsk fræði, gríska, ítalska, japanska, kínversk fræði, latína, norska, rússneska, spænska, sænska og þýska. Auk þess er heimilt að taka upp kennslu í aukagreinum eftir nánari ákvörðun deildar.
 2. Til MA-prófs: Danska, enska, frönsk fræði, menning, bókmenntir og miðlun, hagnýt þýska í ferðaþjónustu og miðlun, Norðurlandafræði, spænska og þýska. Ennfremur til MA-prófs í dönskukennslu, enskukennslu, frönskukennslu, spænsku­kennslu og þýskukennslu og til MA-prófs í nytjaþýðingum, ráðstefnu­túlkun og þýðingarfræði í samvinnu við íslensku- og menningardeild, sbr. 1. mgr. 113. gr.
 3. Til doktorsprófs: Á fagsviðum þar sem deild metur að nauðsynleg aðstaða og sérþekking sé fyrir hendi.

b. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein svohljóðandi:

Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda er skipað í eftirtaldar námsbrautir, sbr. ákvæði 21. gr. þessara reglna: Enska; þýska, Norðurlandamál, kínverska og rússneska; japanska og rómönsk mál.

4. gr.

1. mgr. 111. gr. orðast svo:

Guðfræði- og trúarbragðafræðideild veitir kennslu sem hér segir:

 1. Til BA-prófs í guðfræði.
 2. Til BA-prófs í almennum trúarbragðafræðum.
 3. Til BA-prófs í guðfræði djákna.
 4. Til meistaraprófs sem er annaðhvort embættispróf í guðfræði, (Mag.theol.), óstarfstengt rannsóknarnám í guðfræði og almennum trúarbragðafræðum (MA) eða nám til kennslu í kristinfræði og trúarbragðafræði (MA).
 5. Til doktorsprófs í guðfræði á fræðasviðum þar sem deildin metur að nauðsynleg aðstaða og sérþekking sé fyrir hendi.

5. gr.

Við upptalningu í 1. málslið b. liðar 1. mgr. 113. gr., á eftir orðinu íslenskukennsla, bætist: ritlist.

6. gr.

1. mgr. 115. gr. orðast svo:

Sagnfræði- og heimspekideild veitir kennslu sem hér segir:

 1. Til BA-prófs: Fornleifafræði, heimspeki og sagnfræði. Auk þess er heimilt að taka upp kennslu í aukagreinum eftir nánari ákvörðun deildar.
 2. Til MA-prófs: Fornleifafræði, heimspeki, sagnfræði, hagnýt menningarmiðlun, hagnýt siðfræði (heilbrigðis- og lífsiðfræði, starfstengd siðfræði, umhverfis- og náttúrusiðfræði og viðskiptasiðfræði), miðaldafræði, heimspekikennsla og sögu­kennsla.
 3. Til doktorsprófs: Á fagsviðum þar sem deild metur að nauðsynleg aðstaða og sér­þekking sé fyrir hendi.

7. gr.

128. gr. ásamt fyrirsögn orðast svo:

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Líf- og umhverfisvísindadeild veitir kennslu og þjálfun sem hér segir:

 1. Til BS-prófs í ferðamálafræði, landfræði, líffræði og sjávar- og vatnalíffræði, auk lífefna- og sameindalíffræði í samstarfi við raunvísindadeild.
 2. Til meistaraprófs, MS-prófs, í ferðamálafræði, landfræði og líffræði.
 3. Til doktorsprófs, Ph.D.-prófs, í ferðamálafræði, landfræði og líffræði.

Ennfremur veitir deildin kennslu til meistaraprófs í umhverfis- og auðlindafræði og öðrum þverfræðilegum greinum í samvinnu við aðrar háskóladeildir, þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi. Lýsing á náminu í deildinni skal koma fram í kennsluskrá háskól­ans.

Líf- og umhverfisvísindadeild er skipað í tvær námsbrautir, sbr. ákvæði 21. gr. þessara reglna; námsbraut í líffræði og námsbraut í land- og ferðamálafræði.

Líf- og umhverfisvísindadeild og raunvísindadeild standa saman að námsleið til BS-prófs í lífefna- og sameindalíffræði, sem vistuð er í raunvísindadeild, innan námsbrautar í lífefna- og sameindalíffræði. Fyrstu tvö námsárin byggjast á sameiginlegum skyldunámskeiðum, en á þriðja ári sérhæfa nemendur sig með því að velja kjörsvið, annaðhvort lífefnafræði eða sameindalíffræði. Nemandi skráir sig á kjörsvið í upphafi náms en getur skipt um kjörsvið í síðasta lagi í lok fjórða misseris. Nemandi, sem velur kjörsviðið lífefnafræði, brautskráist frá raunvísindadeild en nemandi, sem velur kjörsviðið sameindalíffræði, brautskráist frá líf- og umhverfisvísindadeild.

Ákvæði 21. gr. reglna þessara gilda um námsbraut í lífefna- og sameindalíffræði að öðru leyti en því að kennarar, sem sæti eiga með atkvæðisrétt í námsbraut innan raun­vísindadeildar eða líf- og umhverfisvísindadeildar, geta einnig átt sæti með atkvæðis­rétt í þessari námsbraut, samkvæmt ákvörðun forseta fræðasviðs.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Deildin tekur ákvarðanir um skiptingu kennslugreina í námskeið, um vægi þeirra og skiptingu þeirra í námsáfanga.

Heimilt er að skipuleggja þær greinar, sem tilgreindar eru aðalgreinar til BS-prófs, sem aukagreinar samkvæmt nánari ákvörðun deildarinnar. Ennfremur er deildinni heimilt að gefa kost á viðbótarnámi til 60 eininga að loknu BS-prófi, sem viðurkennt er með sérstöku prófskírteini.

Námsbrautir gera í kennsluskrá grein fyrir námsskipan og skyldunámskeiðum innan aðalgreinar. Samval námskeiða er háð samþykki námsbrautar.

Til BS-prófs er krafist minnst 180 eininga.

Til MS-prófs er krafist 120 eininga náms að loknu BS-prófi frá deildinni.

Til doktorsprófs er krafist minnst 180 eininga.

Framhaldsnám til meistara- og doktorsprófs er skipulagt samkvæmt þessum reglum og nánari reglum sem líf- og umhverfisvísindadeild setur og háskólaráð staðfestir, sbr. 66.-69. gr. þessara reglna.

8. gr.

132. gr. ásamt fyrirsögn orðast svo:

Kennslugreinar, prófgráður og námseiningar.

Raunvísindadeild veitir kennslu og þjálfun sem hér segir:

 1. Til BS-prófs í eðlisfræði, efnafræði, lífefnafræði og stærðfræði, auk lífefna- og sameindalíffræði í samstarfi við líf- og umhverfisvísindadeild.
 2. Til meistaraprófs, MS-prófs, í eðlisfræði, efnafræði, lífefnafræði og stærðfræði.
 3. Til meistaraprófs, M.Paed.-prófs, í eðlisfræði, efnafræði, lífefnafræði, stjarn­eðlis­fræði, stærðfræði og vísindasögu.
 4. Til doktorsprófs, Ph.D.-prófs, í eðlisfræði, efnafræði, lífefnafræði og stærðfræði.
 5. Ennfremur veitir deildin kennslu til meistaraprófs í umhverfis- og auðlindafræði og öðrum þverfræðilegum greinum í samvinnu við aðrar háskóladeildir, þar sem nauðsynleg aðstaða er fyrir hendi.

Lýsing á náminu í deildinni skal koma fram í kennsluskrá háskólans.

Auk kennslu stendur deildin fyrir rannsóknum á fræðasviðum deildarinnar.

Raunvísindadeild er skipað í fjórar námsbrautir, sbr. ákvæði 21. gr. þessara reglna; náms­braut í eðlisfræði, námsbraut í efnafræði og námsbraut í stærðfræði, auk náms­brautar í lífefna- og sameindalíffræði, sem deildin stendur að ásamt líf- og umhverfis­vísinda­deild.

Líf- og umhverfisvísindadeild og raunvísindadeild standa saman að námsleið til BS-prófs í lífefna- og sameindalíffræði, sem vistuð er í raunvísindadeild, innan námsbrautar í lífefna- og sameindalíffræði. Fyrstu tvö námsárin byggjast á sameiginlegum skyldunámskeiðum, en á þriðja ári sérhæfa nemendur sig með því að velja kjörsvið, annaðhvort lífefnafræði eða sameindalíffræði. Nemandi skráir sig á kjörsvið í upphafi náms en getur skipt um kjörsvið í síðasta lagi í lok fjórða misseris. Nemandi, sem velur kjörsviðið lífefnafræði, brautskráist frá raunvísindadeild en nemandi, sem velur kjörsviðið sameindalíffræði, brautskráist frá líf- og umhverfisvísindadeild.

Ákvæði 21. gr. reglna þessara gilda um námsbraut í lífefna- og sameindalíffræði að öðru leyti en því að kennarar, sem sæti eiga með atkvæðisrétt í námsbraut innan raun­vísinda­deildar eða líf- og umhverfisvísindadeildar, geta einnig átt sæti með atkvæðis­rétt í þessari námsbraut, samkvæmt ákvörðun forseta fræðasviðs.

Deildin tekur ákvarðanir um skiptingu kennslugreina í námskeið, um vægi þeirra og skiptingu þeirra í námsáfanga.

Námsbrautir gera í kennsluskrá grein fyrir námsskipan og skyldunámskeiðum innan aðalgreinar. Samval námskeiða er háð samþykki námsbrautar.

Heimilt er að skipuleggja þær greinar, sem tilgreindar eru aðalgreinar til BS-prófs, sem aukagreinar samkvæmt nánari ákvörðun deildarinnar. Ennfremur er deildinni heimilt að gefa kost á viðbótarnámi til 60 eininga að loknu BS-prófi, sem viðurkennt er með sérstöku prófskírteini.

Til BS-prófs er krafist minnst 180 eininga.

Til MS-prófs er krafist 120 eininga náms að loknu BS-prófi frá deildinni.

Til M.Paed.-prófs er krafist 90 eininga að loknu BS-prófi og skulu 60 einingar teknar í raunvísindadeild og 30 einingar í uppeldis- og menntunarfræðideild menntavísindasviðs, samkvæmt nánari reglum sem raunvísindadeild setur og háskólaráð staðfestir. Í upp­eldis- og menntunarfræðideild tekur nemandi námskeið samkvæmt ákvörðun upp­eldis- og menntunarfræðideildar sem birt er í kennsluskrá. Nemandi lýkur loka­verkefni í raunvísindadeild og nemur það 10-60 einingum samkvæmt nánari ákvörðun hlutaðeigandi námsbrautar. Að öðru leyti tekur nemandinn námskeið í raun­vísindum til 60 eininga.

Til doktorsprófs er krafist minnst 180 eininga.

Framhaldsnám til meistara- og doktorsprófs í kennslugreinum deildarinnar er skipulagt samkvæmt þessum reglum og nánari reglum sem raunvísindadeild setur og háskólaráð staðfestir, sbr. 66.-69. gr. þessara reglna.

9. gr.

Reglur þessar, sem samþykktar hafa verið í háskólaráði Háskóla Íslands, eru settar á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Reglurnar öðlast þegar gildi.

Háskóla Íslands, 3. maí 2011.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 18. maí 2011