Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 879/2010

Nr. 879/2010 1. nóvember 2010
REGLUGERÐ
um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi.

I. KAFLI

Markmið og gildissvið.

1. gr.

Markmið.

Einstaklingi, sem hefur aflað sér faglegrar menntunar og hæfis til starfs í einu af aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, er heimilt að stunda það starf hér á landi með sömu réttindum og skyldum og íslenskir þegnar. Sækja þarf um viðurkenningu til að gegna starfi til hlutaðeigandi stjórnvalds hér á landi. Við afgreiðslu umsóknar skal gengið úr skugga um að fagleg menntun og hæfi umsækjanda uppfylli skilyrði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir þegar lagt er mat á hvort ríkisborgari á Evrópska efnahagssvæðinu uppfyllir skilyrði um menntun og starfsreynslu til þess að gegna lögvernduðu starfi hér á landi.

Reglugerðin á einnig við þegar aðili óskar eftir að veita þjónustu á sviði sem fellur innan lögverndaðs starfs.

Heimilt er að beita ákvæðum reglugerðarinnar gagnvart ríkisborgurum annarra ríkja en aðildarríkja samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

3. gr.

Skilgreiningar.

Merking orða í reglugerð þessari er sem hér segir:

 1. Lögverndað starf: Atvinnustarfsemi eða flokkur atvinnustarfsemi þar sem heimild til þess að starfa innan hennar eða notkun starfsheitis er háð fyrirmælum laga eða stjórnvaldsfyrirmæla um sérstaka faglega menntun og hæfi.
 2. Fagleg menntun og hæfi: Menntun og hæfi sem hefur verið staðfest með sérstökum vitnisburði, hæfnisvottorði, sbr. 10. gr., og/eða starfsreynslu.
 3. Vitnisburður um formlega menntun og hæfi: Prófskírteini, vottorð og annar opinber vitnisburður sem staðfestir að faglegu námi hafi verið lokið á fullnægjandi hátt.
 4. Lögbært stjórnvald: Hvert það yfirvald eða stofnun sem hefur með höndum útgáfu eða móttöku á prófskírteinum og öðrum skjölum eða upplýsingum sem varða umsókn um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi.
 5. Lögvernduð menntun: Hver sú menntun sem er sérstaklega sniðin að því að leggja stund á tiltekið starf og tekur til náms eða námskeiða sem fela jafnframt í sér, eftir því sem við á, faglegt nám, starfa á reynslutíma eða starfsreynslu.
 6. Starfsreynsla: Raunveruleg og lögmæt stundun viðkomandi starfs.
 7. Aðlögunartími: Að leggja stund á lögverndað starf hér á landi á ábyrgð aðila sem viðurkenndur er hæfur í því starfi, auk hugsanlega frekari þjálfunar.
 8. Hæfnispróf: Prófun á fagþekkingu umsækjanda, lagt fyrir af til þess bærum aðila hér á landi með það fyrir augum að meta hæfni umsækjanda til að leggja stund á lögverndað starf.
 9. Stjórnandi fyrirtækis: Einstaklingur í fyrirtæki sem hefur starfað sem stjórnandi fyrirtækisins eða útibús þess eða verið staðgengill eiganda eða stjórnanda fyrirtækisins þegar stöðunni fylgir ábyrgð sem samsvarar ábyrgð eigandans eða stjórnandans. Hann gæti enn fremur hafa gegnt stjórnunarstöðu sem felur í sér skyldustörf á sviði viðskipta og/eða tækni og ábyrgð á einni eða fleiri deildum fyrirtækisins.
 10. Tilskipunin: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi með síðari breytingum og viðaukum.

4. gr.

Áhrif viðurkenningar.

Viðurkenning sem veitt er hér á landi gerir rétthafa kleift að fá aðgang að sama starfi og hann hefur gegnt í heimalandi sínu og að leggja stund á það með sömu skilyrðum og ríkisborgarar Íslands.

Starf, sem umsækjandi óskar eftir að leggja stund á hér á landi, er hið sama og hann hefur gegnt í heimalandi sínu, ef starfsemin sem um ræðir er sambærileg.

II. KAFLI

Frelsi til að veita þjónustu.

5. gr.

Þjónustuveitendur.

Ekki er heimilt að takmarka frjálsa þjónustustarfsemi hér á landi og bera við skorti á faglegri menntun og hæfi umsækjanda, nema slíkt leiði af ákvæðum 4. og 5. gr. laga nr. 26/2010, fyrirmælum reglugerðar þessarar og tilskipuninni.

Þegar þjónustuveitandi flytur til Íslands skal hann fylgja þeim lögum og stjórnvalds­fyrirmælum sem gilda um starfið er varða faglega menntun og hæfi með beinum hætti. Hér er átt við skilgreiningu á starfinu, notkun á starfsheitum og ákvæðum um alvarlega vanrækslu í starfi, sem beinlínis hafa verið sett til verndar neytendum. Hann er einnig bundinn af ákvæðum um viðurlög sem gilda gagnvart fagstéttum hér á landi.

6. gr.

Undanþágur.

Þjónustuveitendur frá öðrum EES-ríkjum eru undanþegnir kröfum sem gerðar eru til innlendra sérfræðinga og varða:

 1. starfsleyfi frá, skráningu hjá eða aðild að fagsamtökum eða sérfræðistofnun,
 2. skráningu hjá Sjúkratryggingum Íslands í þeim tilgangi að gera upp reikninga hjá vátryggjanda vegna starfsemi tryggðra aðila.

Þjónustuveitandi skal þó gera stofnuninni fyrirfram grein fyrir þeirri þjónustu sem hann veitir, eða eftir á, sé um neyðartilfelli að ræða.

7. gr.

Yfirlýsing gefin fyrirfram ef þjónustuveitandi flytur.

Þjónustuveitandi, sem starfar skv. 4. gr. laga nr. 26/2010, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, skal nota starfsheiti heimalands síns ef unnt er þegar þjónusta er veitt. Starfsheitið skal tilgreint á opinberu tungumáli eða einu af opinberu tungumálum heimalandsins þannig að komist verði hjá ruglingi við starfsheitið hérlendis. Ef slíkt starfsheiti er ekki til skal þjónustuveitandinn tilgreina formlega menntun sína og hæfi. Í undantekningartilvikum skal þjónustan veitt undir því starfsheiti sem notað er hér á landi.

Í fyrsta sinn sem þjónusta er veitt á sviði sem fellur innan lögverndaðs starfs, sem snertir lýðheilsu og almannaöryggi og nýtur ekki sjálfkrafa viðurkenningar, getur stjórnvald hér á landi kannað faglega menntun og hæfi þjónustuveitandans áður en þjónusta er veitt. Slík forathugun er aðeins leyfileg þegar tilgangur athugunarinnar er að koma í veg fyrir að heilsa eða öryggi þjónustuþega bíði alvarlega hnekki vegna ófullnægjandi starfsmenntunar og hæfis þjónustuveitandans og hún gengur ekki lengra en nauðsynlegt er í því skyni.

Lögbært stjórnvald skal leitast við að láta þjónustuveitanda vita hvort til standi að kanna menntun hans og hæfi eða um niðurstöðu úr slíkri athugun. Skal hann upplýstur um þetta eigi síðar en mánuði eftir viðtöku yfirlýsingarinnar og meðfylgjandi skjala. Komi upp vandkvæði sem gætu leitt til tafar skal lögbæra stjórnvaldið tilkynna þjónustuveitanda um ástæður tafarinnar innan fyrsta mánaðar og jafnframt hvenær ákvörðunar er að vænta. Ákvörðun skal þó lögð fram fyrir lok annars mánaðar eftir viðtöku allra skjala.

Þegar mikill munur er á faglegri menntun og hæfi þjónustuveitandans og þeirri menntun sem krafist er hér á landi, að því marki að hann geti verið skaðlegur lýðheilsu og almannaöryggi, skal þjónustuveitandanum gefið tækifæri til að sýna, einkum með hæfnisprófi, að hann hafi aflað sér þeirrar þekkingar eða hæfni sem á skortir. Undir öllum kringumstæðum verður að vera mögulegt að veita þjónustuna innan mánaðar frá því að ákvörðun er tekin í samræmi við fyrri undirgrein.

Komi engin viðbrögð frá lögbæra stjórnvaldinu innan þess frests sem vísað er til í fyrri undirgreinum er heimilt að veita þjónustuna. Í þeim tilvikum þegar búið er að staðfesta menntun og hæfi samkvæmt þessari málsgrein skal þjónustan veitt undir því starfsheiti sem er notað hér á landi.

8. gr.

Samvinna stjórnvalda.

Lögbær stjórnvöld hér á landi geta, í hvert sinn sem þjónusta er boðin, beðið lögbær stjórnvöld heimalands umsækjanda um að láta í té hvers kyns upplýsingar um lögmæti staðfestu þjónustuveitandans og góða starfshætti hans, sem og upplýsingar um að hann hafi ekki sætt agaviðurlögum eða refsiréttarlegum viðurlögum.

Lögbærum stjórnvöldum ber að tryggja að skipst sé á öllum upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að fylgja kvörtunum þjónustuþega vegna þjónustuveitanda eftir með réttum hætti. Greina skal þjónustuþega frá niðurstöðum kvörtunarinnar.

9. gr.

Upplýsingar sem ber að veita þjónustuþegum.

Ef þjónusta er veitt undir því starfsheiti sem notað er í öðru EES-ríki eða á grundvelli formlegrar menntunar og hæfis þjónustuveitandans geta lögbær stjórnvöld hér á landi krafist þess að þjónustuveitandinn láti þjónustuþega í té upplýsingar um eftirfarandi:

 1. ef þjónustuveitandi er skráður í viðskiptaskrá eða aðra opinbera skrá, hvaða skrá hann er skráður í, skráningarnúmer hans eða samsvarandi auðkenni hans í þeirri skrá,
 2. ef starfsemin er háð starfsleyfi í öðru EES-ríki, nafn og heimilisfang lögbærs eftirlitsstjórnvalds,
 3. þau fagfélög eða sambærilega aðila sem þjónustuveitandinn er skráður hjá,
 4. starfsheiti eða, ef starfsheiti er ekki fyrir hendi, vitnisburð um formlega menntun og hæfi þjónustuveitanda og aðildarríkið sem gaf hann út,
 5. upplýsingar um vátryggingavernd eða aðra persónulega eða sameiginlega vernd fyrir starfsmenn með tilliti til starfsábyrgðar.

III. KAFLI

Almennt kerfi til viðurkenningar á vitnisburði um nám.

10. gr.

Þrepaskipting menntunar og hæfis.

Við meðferð umsókna um viðurkenningu á menntun og hæfi, sbr. 12. gr., skal stuðst við eftirfarandi flokkun:

 1. hæfnisvottorð gefið út á grundvelli:
  1. annaðhvort náms sem fellur ekki undir vottorð eða prófskírteini í skilningi b-, c-, d- eða e-liðar eða sérstaks prófs án undangengins náms eða að umsækjandi hafi verið í fullu starfi í þrjú ár eða í samsvarandi tíma í hlutastarfi á næstliðnum tíu árum eða
  2. almenns grunnskóla- eða framhaldsskólanáms, sem staðfestir að handhafi hafi öðlast almenna þekkingu,
 2. vottorð sem staðfestir að lokið hafi verið á fullnægjandi hátt námi á framhaldsskólastigi:
  1. annaðhvort almennu námi, þar sem við bætist nám eða faglegt nám annað en það sem um getur í c-lið, og/eða starfi á reynslutíma eða starfsreynslu sem krafist er til viðbótar því námi eða
  2. tæknilegu eða faglegu námi, þar sem bætist við, ef við á, nám eða faglegt nám sem um getur í næsta tölulið á undan og/eða starfi á reynslutíma eða starfsreynslu sem krafist er til viðbótar því námi,
 3. prófskírteini sem vottar að lokið hafi verið á fullnægjandi hátt:
  1. annaðhvort eins árs námi eftir framhaldsskólastigið, öðru en því sem um getur í d- og e-lið, eða samsvarandi tíma í hlutanámi, þar sem eitt inntökuskilyrðið er að lokið hafi verið á fullnægjandi hátt því námi á framhaldsskólastigi sem krafist er við inntöku í háskóla eða æðri menntastofnun eða að lokið hafi verið samsvarandi námi á öðru stigi í framhaldsskóla, auk faglega námsins sem hugsanlega er krafist til viðbótar námi eftir framhaldsskólastigið eða
  2. þegar um lögverndað starf er að ræða, námi sem er byggt upp á sérstakan hátt á samsvarandi námsstigi og kveðið er á um í næsta tölulið á undan sem tryggir sambærileg fagleg gæði og undirbýr nemann undir sambærilega ábyrgð og verkefni,
 4. prófskírteini sem vottar að handhafi hafi á fullnægjandi hátt lokið a.m.k. þriggja en mest fjögurra ára námi eftir framhaldsskólastigið eða samsvarandi tíma í hlutanámi við háskóla eða æðri menntastofnun eða aðra stofnun á sama skólastigi og hafi, eftir atvikum, lokið því faglega námi sem krafist er til viðbótar námi eftir framhaldsskólastigið,
 5. prófskírteini sem vottar að handhafi hafi á fullnægjandi hátt lokið a.m.k. fjögurra ára námi eftir framhaldsskólastigið eða samsvarandi hlutanámi við háskóla eða æðri menntastofnun eða aðra stofnun á sama stigi og hafi, eftir atvikum, lokið því faglega námi sem krafist er til viðbótar námi á framhaldsskólastigi.

11. gr.

Jöfn staða prófskírteina.

Litið skal á hvern vitnisburð um formlega menntun og hæfi eða safn slíkra vitnisburða, sem gefnir eru út af lögbæru stjórnvaldi í aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahags­svæðið, sem vitnisburð um formlega menntun og hæfi af því tagi sem um getur í 10. gr., þ.m.t. sama þrep. Vitnisburðurinn skal votta að handhafi hafi á fullnægjandi hátt lokið námi sem aðildarríkið metur á samsvarandi stigi og veiti rétt til aðgangs að eða stundunar starfs eða búa sig undir að stunda viðkomandi starf.

Litið skal á faglega menntun og hæfi sem veitir handhafa áunnin réttindi þó svo hann uppfylli ekki þær kröfur sem settar eru í gildandi lögum, eða stjórnsýslufyrirmælum, aðildarríkis fyrir því að fá aðild að, eða stunda starfsgrein, sem vitnisburð um formlega menntun og hæfi samkvæmt sömu skilyrðum og segir í a-lið 10. gr. Þetta á einkum við ef viðkomandi ríki eykur kröfur um menntun vegna aðgangs að og iðkunar starfs og ef einstaklingur, sem hefur áður lokið námi sem uppfyllir ekki nýju skilyrðin um menntun og hæfi, getur nýtt sér áunnin réttindi á grundvelli laga eða stjórnsýslufyrirmæla í aðildarríkinu. Í því tilviki er fyrra nám metið sambærilegt nýja námsþrepinu við mat á því hvort skilyrði 12. gr. séu uppfyllt.

12. gr.

Skilyrði fyrir viðurkenningu.

Ef réttur til að starfa á sviði lögverndaðs starfs hér á landi er háður skilyrðum um sérstaka faglega menntun og hæfi skal lögbært stjórnvald veita þeim heimild til að starfa á þeim vettvangi, sem hefur undir höndum hæfnisvottorð eða vitnisburð um þá formlegu menntun og hæfi sem krafist er.

Hæfnisvottorð eða vitnisburður um formlega menntun og hæfi skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 1. þau skulu gefin út af lögbæru stjórnvaldi í aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið,
 2. þau skulu staðfesta að fagleg menntun og hæfi samsvari a.m.k. næsta þrepi á undan því sem krafist er hér á landi, eins og lýst er í 10. gr.,
 3. þau skulu votta að handhafi hafi fengið undirbúning til að stunda það starf sem um ræðir.

Einnig skal veita umsækjendum, sem hafa stundað þá starfsemi sem um getur í a- og b-lið 2. mgr. í fullu starfi í tvö ár á næstliðnum 10 árum í öðru aðildarríki sem lögverndar ekki þá starfsgrein, heimild til að og stunda þá starfsemi sem lýst er í þeirri málsgrein. Áskilið er að þeir hafi undir höndum eitt eða fleiri hæfnisvottorð eða vitnisburði um formlega menntun og hæfi. Ekki er heimilt að krefjast tveggja ára starfsreynslu þegar vitnisburður umsækjanda um formlega menntun og hæfi vottar lögverndaða menntun

Þrátt fyrir b-lið 2. mgr. skal heimilaður aðgangur að og stundun lögverndaðrar starfsemi þar sem aðgangur að starfinu er bundinn skilyrði um menntun og hæfi sem sýnir fram á að fjögurra ára námi á æðra skólastigi eða háskólastigi hafi verið lokið með fullnægjandi hætti og að umsækjandinn búi yfir þeirri menntun og hæfi sem um getur í c-lið 10. gr.

13. gr.

Uppbótarráðstafanir.

Heimilt er að krefjast þess að umsækjandi ljúki allt að þriggja ára aðlögunartíma eða taki hæfnispróf ef:

 1. sá námstími, sem hann leggur fram vitnisburð um að hafa lokið er a.m.k. einu ári styttri en krafist er hér á landi,
 2. námið sem hann hefur stundað er að inntaki verulega frábrugðið inntaki þess sem sá vitnisburður um formlega menntun og hæfi, sem krafist er hér á landi, tekur til,
 3. starfið sem er lögverndað á Íslandi nær til einnar eða fleiri tegunda lögverndaðrar atvinnustarfsemi sem er ekki að finna í samsvarandi starfi í heimalandi umsækjanda og sá munur birtist í sérstöku námi sem krafist er hér og er að inntaki verulega frábrugðið námi umsækjanda.

Umsækjanda skal veittur réttur til að velja milli aðlögunartíma og hæfnisprófs.

Þrátt fyrir meginregluna um rétt umsækjanda til að velja, eins og mælt er fyrir um í 2. mgr., getur stjórnvald kveðið á um annaðhvort aðlögunartíma eða hæfnispróf ef um er að ræða störf þar sem nákvæm þekking á landslögum er nauðsynleg og þar sem ráðgjöf eða aðstoð í tengslum við landslög er mikilvægur og stöðugur þáttur atvinnustarfseminnar.

Í þeim tilvikum, sem um getur í a-lið 10. gr., má krefjast þess að umsækjandi ljúki aðlögunartíma eða gangist undir hæfnispróf ef hann hyggst stunda slíka atvinnustarfsemi á eigin vegum eða sem stjórnandi fyrirtækis þar sem krafist er þekkingar og beitingar á sértækum landsbundnum, gildandi reglum. Þetta gildir því aðeins að þegar lögbær stjórnvöld hér á landi veita eigin ríkisborgurum aðgang að slíkri starfsemi sé krafist þekkingar á og beitingar þessara reglna.

Að því er varðar beitingu b- og c-liðar 1. mgr. er með „verulega frábrugðnu námsefni" vísað til þess námsefnis sem hefur grundvallarþýðingu í starfi og að verulegur munur er á inntaki og lengd náms umsækjanda og því námi sem krafist er hér á landi með tilliti til þessa.

Áður en þess er krafist að umsækjandi ljúki aðlögunartíma eða taki hæfnispróf verður hlutaðeigandi stjórnvald að staðfesta hvort þekking sú sem umsækjandi hefur aflað sér með starfsreynslu sinni í aðildarríki eða í þriðja landi sé þess eðlis að það nái fyllilega eða að hluta til yfir þann verulega mismun sem um getur í 3. mgr.

14. gr.

Um aðlögunartíma og hæfnispróf.

Við ákvörðun aðlögunartíma skal sá tími sem unninn er undir eftirliti metinn. Nánari reglur um aðlögunartíma og mat á honum, svo og á stöðu umsækjanda sem vinnur undir eftirliti, skulu ákveðnar af hlutaðeigandi ráðherra. Reglurnar skulu einnig kveða á um stöðu viðkomandi hér á landi á þeim tíma sem hann vinnur undir eftirliti, einkum að því er varðar búseturétt og skuldbindingar, félagsleg réttindi og bætur, greiðslur og endurgjald.

Við mat á þörf fyrir hæfnispróf skal leggja fram yfirlit yfir þá námsþætti sem talið er að sé ábótavant í menntun umsækjanda. Miða skal hæfnisprófið við þá staðreynd að umsækjandinn er fullgildur fagmaður í heimalandi eða aðildarríkinu sem hann kemur frá. Það má eingöngu ná til þeirra námsþátta sem yfirlitið tekur til og nauðsynlegt er að kunna skil á til þess að geta lagt stund á umrætt starf hér á landi. Enn fremur má prófið reyna á þekkingu á reglum sem gilda um viðkomandi starfsemi hér á landi.

15. gr.

Niðurfelling uppbótarráðstafana.

Kröfur um uppbótarráðstafanir, hæfnispróf eða aðlögunartíma, má fella niður ef samtök tiltekinna fagstétta í Evrópu koma sér saman um að ákveðnir grunnþættir í námi fullnægi skilyrðum um faglega menntun og hæfi til þess að gegna þeim störfum sem þær fagstéttir sinna.

IV. KAFLI

Málsmeðferð o.fl.

16. gr.

Frestir til afgreiðslu umsóknar og málsmeðferð.

Lögbært stjórnvald skal staðfesta viðtöku umsóknar innan eins mánaðar frá því að hún berst og láta umsækjanda vita ef skjöl vantar. Ef vafi leikur á öryggi eða trúverðugleika gagna er stjórnvaldi heimilt að kalla eftir staðfestingu lögbærs stjórnvalds í heimalandi umsækjanda á áreiðanleika gagnanna. Lögbært stjórnvald getur óskað eftir áliti til þess bærs fagaðila á þeim gögnum sem fylgja með umsókn sem lögð eru fram með umsókn um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi.

Afgreiða skal umsókn svo skjótt sem auðið er og eigi síðar en þremur mánuðum eftir þann dag sem fullgerð umsókn umsækjanda var lögð fram. Heimilt er að framlengja frest til afgreiðslu umsóknar um einn mánuð þegar fjallað er um viðurkenningu á vitnisburði um nám og starfsreynslu.

Um málsmeðferð að öðru leyti, þ. á m. um heimild til þess að kæra ákvörðun eða drátt á ákvörðun, fer samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

17. gr.

Notkun starfsheita.

Ef notkun starfsheitis sem tengist starfi er lögverndað hér á landi skulu ríkisborgarar annarra aðildarríkja, sem hafa heimild til að leggja stund á lögverndað starf hér á landi, nota starfsheiti þess starfs og mögulega skammstöfun.

18. gr.

Tungumálakunnátta.

Einstaklingar, sem fá viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, skulu búa yfir þeirri tungumálakunnáttu sem nauðsynleg er til að geta lagt stund á starfið á Íslandi.

19. gr.

Notkun námstitla.

Heimilt er að krefjast þess að námstitli fylgi upplýsingar um heiti og heimilisfang stofnunarinnar eða prófanefndarinnar sem veitti hann. Ef líklegt má telja að námstitli verði ruglað saman við námstitil hér á landi, sem krefst viðbótarnáms hér sem viðkomandi einstaklingur hefur ekki lokið, er heimilt að krefjast þess að hann noti námstitil heima­landsins á viðeigandi formi.

20. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 9. gr. laga nr. 26/2010 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi og öðlast þegar gildi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 1. nóvember 2010.

Katrín Jakobsdóttir.

Ásta Magnúsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 16. nóvember 2010