Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 331/2012

Nr. 331/2012 11. apríl 2012
REGLUR
um breytingu á reglum nr. 903/2004, um mat á tjónaskuld og gagnaskil í því sambandi.

1. gr.

7. gr. reglnanna verði svohljóðandi:

Fari tjónaskuld undir viðmiðunarmörk samkvæmt 2.-4. mgr. þessarar greinar skal vátryggingafélagið gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir ástæðum þess.

Við ákvörðun viðmiðunarmarka í langtímagreinum skv. 1. og 2. tl. 6. gr. skal í báðum tilvikum miða við þá fjárhæð sem fæst með því að margfalda bókfærð tjón síðastliðins árs með stuðlinum 3,0. Heimilt er þó að miða við meðaltal bókfærðra tjóna síðustu þriggja ára hafi bókfærð tjón öll árin verið að minnsta kosti 50% af bókfærðum iðgjöldum.

Í vátryggingagreinum skv. 3.-6. tl. 6. gr. skulu vátryggingafélög í samræmi við umfang starfsemi sinnar í viðkomandi vátryggingagrein skilgreina hvað teljist nægileg tjónaskuld. Vátryggingafélög skulu gera grein fyrir viðmiði sínu og samanburði við núverandi tjónaskuld í greinargerð sinni skv. 2. tl. 9. gr.

Sé í tiltekinni langtímagrein hlutfall bókfærðra tjóna af bókfærðum iðgjöldum lægra en 20% skal miða við að tjónaskuld í greininni sé ekki lægri en sem nemur 95% af bókfærðum iðgjöldum í eigin hlut að frádregnum bókfærðum tjónum og rekstrarkostnaði í greininni. Þó skal ekki draga frá þann hluta rekstrarkostnaðar sem telja má til stofnkostnaðar vátryggingafélags.

Hafi félag hvorki greitt tjón né innheimt iðgjöld í greininni á rekstrarárinu telst starfsemi í greininni lokið og er því félagið undanþegið kröfu um upplýsingaskyldu til Fjármálaeftirlitsins samkvæmt 1. mgr.

Fallist Fjármálaeftirlitið ekki á skýringar vátryggingafélags skv. 1. mgr. kemur til álita að draga það sem vantar upp á mörk tjónaskuldar frá gjaldþoli í samræmi við 5. mgr. 86. gr. laga nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi. Áður en slík ákvörðun er tekin mun Fjármálaeftirlitið leggja eigið mat á tjónaskuld vátryggingafélagsins og eftir atvikum eiga viðræður við stjórnendur félagsins um verklag við mat á tjónaskuld í viðkomandi grein.

2. gr.

Reglur þessar eru settar með heimild í 2. mgr. 63. gr. laga nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi og öðlast gildi þegar í stað.

 

Fjármálaeftirlitinu, 11. apríl 2012.

 

Unnur Gunnarsdóttir.

Lúðvík Þorgeirsson.

B deild - Útgáfud.: 11. apríl 2012