Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 772/2010

Nr. 772/2010 24. september 2010
REGLUGERÐ
um upplýsingaþjónustu flugmála.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að kveða á um sameiginlegar kröfur um veitingu upplýsingaþjónustu flugmála í þeim tilgangi að efla örugga, reglulega og markvissa framvindu flugumferðar.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til upplýsingaþjónustu flugmála sem veitt er hér á landi, í lofthelgi Íslands og í því loftrými sem Íslandi hefur verið falið að veita þjónustu samkvæmt skuldbindingum og samningum á sviði þjóðaréttar.

Reglugerðin gildir um eftirtalda aðila:

 

a)

veitendur flugleiðsöguþjónustu;

 

b)

rekstraraðila flugvalla og þyrluvalla, sem hafa birt verklagsreglur fyrir blindflug og sérlegt sjónflug að/frá flugvellinum/þyrluvellinum í Flugmálahandbók Íslands (AIP);

 

c)

opinbera aðila eða einkaaðila sem veita eða framleiða, m.t.t. reglugerðar þessarar:

 

i)

þjónustu fyrir framleiðslu og útgáfu könnunar/landmælingagagna,

 

ii)

þjónustu vegna hönnunar flugferla,

 

iii)

rafræn landslagsgögn,

 

iv)

rafræn hindranagögn.

Ákvæði reglugerðarinnar eiga við um flugmálaupplýsingar og/eða gögn sem afhent eru til þess aðila sem hyggst nota þær, í eftirfarandi tilvikum:

 

a)

þegar um er að ræða dreifingu flugmálaupplýsinga, þó ekki rafræna, er það tíminn eftir að flugmálaupplýsingar og/eða gögn hafa verið afhent þeim aðila sem ábyrgur er fyrir handvirkri dreifingarþjónustu,

 

b)

þegar um er að ræða rafræna dreifingu flugmálaupplýsinga með beinni tengingu milli veitanda upplýsingaþjónustu flugmála og þeim sem móttekur flugupplýsingarnar og/eða gögnin, gildir ýmist:

 

tíminn eftir að næsti notandi nálgast gögnin og/eða kallar fram flugmálaupplýsingar og/eða gögn frá veitanda upplýsingaþjónustu flugmála, eða

 

tíminn eftir að flugmálaupplýsingar og/eða gögn eru send, af veitanda upplýsingaþjónustu flugmála, inn í kerfi notandans.

3. gr.

Orðskýringar.

Í texta þessara reglna er hugtakið „þjónusta“ notað sem sértækt nafnorð er táknar starfsemi eða veitta þjónustu.

Þegar eftirfarandi hugtök eru notuð í reglum þessum hafa þau þá merkingu sem hér greinir:

ADS-C-samkomulag (ADS-C agreement): ADS-C-tilkynningaáætlun sem ákvarðar skilyrðin fyrir ADS-C-tilkynningum (þ.e. að áður en ADS-þjónusta hefst þarf að liggja fyrir samkomulag um hvaða upplýsingar flugumferðarþjónustudeildin gerir kröfu um og hver tíðni ADS-C-tilkynninga skal vera). Hugtakið „ADS-samkomulag“ er notað ýmist til að tákna ADS-samninga til tilkynninga sérstakra atburða, þarfa jarðkerfis/loftfars, ákveðinna tímabila eða vegna neyðarástands. Jarðkerfi geta samið sín á milli um skilyrði framsendinga ADS-skeyta.

ADS-útvörpun (ADS-B) (Automatic dependent surveillance – broadcast): Aðferð þar sem loftför, flugvallafarartæki og aðrir hlutir senda út og/eða taka sjálfvirkt við gögnum svo sem auðkenni, staðsetningu og viðbótargögnum, eins og við á, með aðferð einhliða útvörpunar um gagnasamband.

Afurð upplýsingaþjónustu flugmála (AIS product): Samþættar flugmálaupplýsingar þar með talið flugkort, að undanskildum NOTAM og forflugstilkynningum (PIB). Afurð má jafnframt birta rafrænt.

Alþjóðaflugvöllur (International airport): Flugvöllur, tilgreindur af því aðildarríki sem flugvöllurinn tilheyrir sem komu- og brottfararflugvöllur í millilandaflugi, þar sem tilfallandi formsatriði er snúa að tollafgreiðslu, innflutningi fólks, lýðheilsu, sóttkví dýra og jurta og þess háttar verkferlum eru afgreidd.

Alþjóðalandmælingarkerfi (World geodetic system 1984, WGS-84): Stærðfræðileg viðmiðunarsporvala sem nálgar sporöskjulaga lögun jarðkringlunnar. Kerfið er notað sem grundvallar viðmiðunarkerfi fyrir landmælingar og fyrir lýsingu á staðsetningum á jörðu.

Alþjóðleg NOTAM-skrifstofa (International NOTAM office (NOF)): Skrifstofa tilnefnd af Flugmálastjórn Íslands til að annast alþjóðleg NOTAM-samskipti.

Athafnasvæði (Movement area): Sá hluti flugvallar, sem ætlaður er fyrir flugtök, lendingar og akstur loftfara, þ.e. umferðarsvæði og hlöð.

Auðkenningarsvæði loftvarna (Air defence identification zone (ADIZ)): Svæði af skilgreindri stærð, til auðkenningar vegna loftvarna þar sem loftförum er ætlað að fylgja sérstöku verklagi vegna auðkenningar og/eða tilkynninga til viðbótar því verklagi sem á við um veitingu flugumferðarþjónustu.

ASHTAM: NOTAM með sérstakri uppsetningu, í V-númeraröð, sem tilkynnir um breytingu á virkni eldfjalla, um eldgos eða eldfjallaösku og varðar flugöryggi.

Áhættugögn (Critical data): Gögn með heilleikastig líkt og skilgreint er í grein 3.2.8 í viðauka 15.

Áskráningarfang (Log on address): Sérhæfður kóði notaður til innskráningar gagnasambands (gagnagrein) við flugstjórnardeild.

Bannsvæði (Prohibited area). Tiltekið loftrými innan lofthelgi ríkis þar sem flug loftfara er bannað.

Beinn gegnumflutningur (Direct transit arrangements): Ákveðin ráðstöfun, samþykkt af viðeigandi yfirvöldum, þar sem umferð sem stoppar í stutta stund á leið sinni um aðildarríki að Chicago-samningnum, má vera áfram undir beinni stjórn þeirra.

Birting (Portrayal): Framsetning upplýsinga fyrir fólk (ISO 19117).

Bylgjulögun jarðsporvölu (Geoid undulation): Fjarlægð jarðsporvölu yfir (pósitíf) eða undir (negatíf) stærðfræðilegu viðmiðunarsporvölunni. Með tilliti til þeirrar sporvölu sem skilgreind er samkvæmt alþjóðalandmælingakerfinu WGS-84 sýnir mismunurinn milli hæðar WGS-84 sporvölunnar og réttrar (orthometric) hæðar, bylgjulögun WGS-84 sporvölunnar.

Breytubil (Post spacing): Hornafræðileg eða línuleg vegalengd milli tveggja nærliggjandi landhæðarpunkta.

Chicago-samningurinn (Chicago Convention): Stofnsáttmáli Alþjóðaflugmála­stofnunarinnar (ICAO) um alþjóðlegt almenningsflug (Convention on international civil aviation) sem var undirritaður í Chicago 7. desember 1944 (ICAO-skjal 7300/06). Í sáttmálanum voru fyrstu tvö stig flugréttinda samþykkt og með honum var lagður grunnur að stofnun Alþjóðaflugmálastofnunarinnar árið 1947.

Fitja (Feature): Óhlutstæð birting raunfyrirbrigða (real world phenomena) (ISO 19101).

Fitjueigind (Feature attribute): Eiginleiki eða einkenni fitju (ISO 19101).

Fitjutegund (Feature type): Flokkur raunfyrirbrigða (real world phenomena) sem búa yfir sömu eiginleikum (ISO 19110).

Fitjuvensl (Feature relationship): Vensl sem tengja eintök einnar fitjutegundar við eintök sömu eða annarrar fitjutegundar (ISO 19101).

Fitjuvirkni (Feature operation): Aðgerð sem hver fitjutegund getur framkvæmt (ISO 19110).

Flugmálagögn (Aeronautical data): Formleg framsetning staðreynda, hugtaka eða fyrirmæla er varða flug á því formi sem hentar fyrir fjarskipti, túlkun eða úrvinnslu.

Flugmálahandbók (AIP - Aeronautical information publication): Handbók sem gefin er út í umboði ríkis og inniheldur varanlegar flugmálaupplýsingar sem nauðsynlegar eru við flugleiðsögu.

Flugmálaupplýsingar (Aeronautical information): Upplýsingar sem fengist hafa með samsöfnun, greiningu og framsetningu gagna er varða flugmál.

Flugumferðarþjónusta (Air traffic services (ATS)): Yfirhugtak sem nær til flugupplýsingaþjónustu, viðbúnaðarþjónustu, ráðgjafarþjónustu, flugstjórnarþjónustu (aðflugsstjórnarþjónustu, flugstjórnarsvæðisþjónustu og flugturnsþjónustu).

Forflugstilkynning (Pre-flight information bulletin (PIB)): Kynning á gildandi NOTAM-upplýsingum sem eru mikilvægar fyrir flug.

Fullgilding (Validation): Staðfesting á því, með framlagningu hlutlægra sannana, að tilteknar kröfur vegna tiltekinna fyrirhugaðra nota hafi verið uppfylltar (ISO 9000).

Fyrirvaradreifing (AIRAC - Aeronautical information regulation and control): Kerfi sem notað er til að dreifa með fyrirvara flugmálaupplýsingum er krefjast verulegra breytinga varðandi rekstrarlega þætti flugs. Kerfið byggir á fyrirfram ákveðnum samræmdum gildistökudögum.

Gagnaafurð (Data product): Gagnaflokkur eða röð gagna sem samræmist forskrift gagnaafurðar (ISO 19131).

Gagnagrunnur (Database): Ein eða fleiri gagnaskrár með upplýsingum sem byggðar eru þannig upp að unnt er með viðeigandi aðgerðum að draga upplýsingarnar fram og uppfæra þær.

Gagnagæði (Data quality): Mælikvarði á tiltrú þess að gögn uppfylli kröfur notanda gagnanna með tilliti til nákvæmni, upplausnar og heilleika.

Gagnamengi (Data set): Greinanlegt samansafn gagna í samræmi við ISO 19101.

Gagnamengisröð (Data set series): Mengi gagnasafna með sömu afurðalýsingu (ISO 19115).

Gregorískt tímatal (Gregorian calendar): Tímatal sem er almennt notað; fyrst kynnt til sögunnar árið 1582 til að skilgreina ár sem er nær árstíðaárinu en Júlíanska tímatalið (ISO 19108). Samkvæmt Gregoríska tímatalinu er árinu skipt í 12 mánuði og eru 365 dagar í venjulegu ári og 366 dagar í hlaupári.

Gróðurhæð (Canopy): Hæð yfirborðs jarðar að viðbættri hæð gróðurs.

Grunngögn (Essential data): Gögn með heilleikastig líkt og skilgreint er í gr. 3.2.8 í viðauka 15.

Gæðastjórnun (Quality management): Samhæfð starfsemi til að stýra og stjórna fyrirtæki með tilliti til gæða (ISO 9000).

Gæðastýring (Quality control): Sá hluti af gæðastjórnun, er beinist að því að uppfylla gæðakröfur (ISO 9000).

Gæðatrygging (Quality assurance): Sá hluti af gæðastjórnun, er beinist að því að veita tiltrú að gæðakröfur muni uppfylltar (ISO 9000).

Gæði (Quality): Það að hvaða marki safn tiltekinna eðlislægra eiginleika uppfyllir kröfur (ISO 9000).

Haftasvæði (Restricted area): Loftrými af skilgreindri stærð í lofthelgi ríkis þar sem flug loftfara er háð tilteknum höftum.

Heilleiki (flugmálagagna) (Integrity (aeronautical data)): Ákveðin trygging fyrir því að flugmálagögn hafi ekki týnst eða verið breytt frá því að gögnin urðu til eða breyting þeirra var heimiluð.

Hindranasöfnunarflötur (Obstacle/terrain data collection surface): Skilgreint yfirborð ætlað til að safna saman hindranaupplýsingum.

Hindrun (Obstacle): Allir hlutir, fastir eða hreyfanlegir (hvort heldur til bráðabirgða eða frambúðar) eða hlutar þeirra, sem:

a) eru staðsettir á svæði ætluðu til hreyfinga loftfara á jörðu niðri; eða
b) ná hærra en skilgreindur flötur sem á að vera hindranalaus til verndar loft­förum á flugi; eða,
c) eru utan þessara skilgreindu flata og hafa verið ákvarðaðir sem áhættu­þáttur í flugi.

Hæð (Height): Lóðrétt fjarlægð að yfirborði, stað eða hlut með staðsetningu, mælt frá ákveðnu hæðarviðmiði.

Hættusvæði (Danger area): Tiltekið loftrými þar sem starfsemi sem hættuleg er flugumferð, getur átt sér stað á tilteknum tíma.

Hönnun flugferla (Procedure design): Samþætting flugmálagagna og sérstakra flugleiðbeininga til að skilgreina blindaðflugs- og/eða blindfráflugsverklag sem tryggir viðunandi flugöryggi.

Jarðsporvala (Geoid): Jafnmættisflötur í þyngdarsviði jarðar sem fellur saman við ótruflað meðalsjávarmál (MSL) og samfellda framlengingu þess gegnum meginlöndin.

Krafa (Requirement): Þörf eða vænting sem er yfirlýst, almennt undirskilin eða skyldu­bundin (ISO 9000).

Kögunarkerfi flugumferðarþjónustu (ATS surveillance system): Samheiti sem notað er um ADS-B, PSR, SSR eða hvaða annað sambærilegt jarðkerfi sem leyfir auðkenningu loftfara.

Sambærilegt jarðkerfi er kerfi sem sýnt hefur verið fram á, með samanburðarmati eða annarri aðferðafræði, að sé jafngott eða betra en einpúlsa (monopulse) svarratsjá að því er varðar öryggisstig og afköst.

Kögunarþjónusta flugumferðarþjónustu (ATS surveillance service): Hugtak notað um þjónustu sem veitt er með beinni notkun kögunarkerfis flugumferðarþjónustu.

Landfræðileg vegalengd (Geodesic distance): Skemmsta vegalengd milli tveggja punkta á stærðfræðilega skilgreindu sporvöluyfirborði.

Landslag (Terrain): Náttúrulegt yfirborð jarðar svo sem fjöll, hæðir, hryggir, dalir, vatnasvæði, jöklar og snjór, fyrir utan hindranir. Í daglegu máli merkir „landslag“, samfellt yfirborð jarðar án gróðurs.

Lágmarksflughæð yfir hindrun (Minimum obstacle clearance altitude (MOCA)): Lágmarkshæð afmarkaðs hluta flugleiðar sem tryggir aðskilnað frá hindrunum sem gerð er krafa um.

Lágmarksleiðarflughæð (Minimum en-route altitude (MEA)): Flughæð á hluta flugleiðar sem tryggir fullnægjandi móttöku frá viðeigandi leiðsögubúnaði og fjarskipti vegna flugumferðarþjónustu, fylgir formgerð loftrýmis og tryggir aðskilnað frá hindrunum sem gerð er krafa um.

Leiðaráfangi (Route stage): Leið eða hluti af leið sem flogin er án lendinga.

Leiðsöguforskrift (Navigation specification): Kröfur er snúa að loftfari og flugliðum sem gerðar eru vegna hæfisbundinnar leiðsögu innan ákveðins loftrýmis. Til eru tvær gerðir leiðsöguforskrifta:

RNP-forskrift (Required navigation performance (RNP) specification): Forskrift fyrir leiðsögu sem byggð er á svæðisleiðsögu og felur í sér kröfu um vöktun á frammistöðu og viðvörun, gefið til kynna með forskeytinu RNP, t.d. RNP 4, RNP APCH.
RNAV-forskrift (Area navigation (RNAV) specification): Forskrift fyrir leiðsögu sem byggð er á svæðisleiðsögu og felur ekki í sér kröfu um vöktun á frammistöðu og viðvörun, gefið til kynna með forskeytinu RNAV, t.d. RNAV 5, RNAV 1.

Lotubundin viðaukaprófun (Cyclic redundancy check (CRC)): Stærðfræðilegt algrím sem beitt er við stafræn gögn og veitir nokkra tryggingu gegn tapi eða breytingu gagna.

Lóðhæð (Orthometric height): Hæð staðsetningar yfir jarðsporvölu, yfirleitt sýnt sem hæð yfir meðalsjávaryfirborði (m.y.s.).

Lýsigögn (Metadata): Gögn um gögn (ISO 19115).

Mannvirki (Culture): Allir manngerðir hlutir á yfirborði jarðar svo sem borgir, brautar­teinar og skurðir.

Meginreglur mannþáttafræði (Human factors principles): Meginreglur sem gilda um hönnun, vottun, þjálfun, rekstur og viðhald kerfa og miða að öruggri tengingu milli mannsins og annarra kerfisþátta með því að taka viðeigandi tillit til mannlegrar getu.

Misvísun fjölstefnuvita (Station declination): Misvísunarstilling milli núllstefnu fjölstefnuvita og réttvísandi norðurs, þegar fjölstefnuvitinn er kvarðaður.

Nákvæmni (Accuracy): Stig samræmis milli áætlaðs eða mælds gildis og raungildis.

Nákvæmnistig (Precision): Minnsti munur sem má greina með áreiðanlegu móti með mælingum. Með vísan í landmælingar, þá er nákvæmnistig mælikvarði á fínleika í mælingum eða mælikvarði á fullkomnun tækjabúnaðar og aðferða sem notaðar eru við mælingarnar.

Náttúrulegt yfirborð jarðar (Bare earth): Yfirborð jarðar þ.m.t. vötn, jöklar og snjór, að undanskildum gróðri og mannvirkjum.

NOTAM (NOTices to AirMen): Tilkynning sem komið er áleiðis með fjarskiptum varðandi upplýsingar um stofnsetningu, ástand eða breytingar á flugleiðsöguaðstöðu, þjónustu, framkvæmd eða hættuástandi, þar sem nauðsynlegt er að koma upplýsingum sem fyrst til viðkomandi starfsmanna vegna starfrækslu flugs.

Notkun (Application): Meðhöndlun og vinnsla gagna í samræmi við kröfur notenda (ISO 19104).

Næsti ætlaði notandi (Next intended user): Sá aðili sem fær flugmálagögnin frá veitanda upplýsingaþjónustu flugmála.

Rekjanleiki (Traceability): Það að geta rakið sögu, notkun eða staðsetningu þess sem um er að ræða (ISO 9000).

Samskipti flugumferðarstjóra og flugmanns um gagnatengingu (Controller/pilot data link communications (CPDLC)). Sá máti að nota gagnatengingu fyrir samskipti milli flugumferðarstjóra og flugmanns við stjórnun flugumferðar.

Samþættar flugmálaupplýsingar (Integrated aeronautical information package): Upplýsingar um flugmál sem samanstanda af eftirfarandi þáttum:

a) Flugmálahandbók (AIP) og uppfærslur við hana (AIP AMDT);
b) Viðbætur við Flugmálahandbók (AIP SUP);
c) NOTAM og forflugstilkynningar (PIB);
d) Upplýsingabréf flugmála (AIC); og
e) Gátlistar og listar yfir gildandi tilkynningar til flugliða (NOTAM).

Sannprófun (Verification): Staðfesting á því, með framlagningu hlutlægra sannana, að tilgreindar kröfur hafi verið uppfylltar (ISO 9000).

Sjálfvirk skilyrt kögun (Automatic dependent surveillance (ADS)): Kögun í gegnum gagna­samband, þar sem loftför senda sjálfvirkt frá sér gögn frá leiðsögu- og staðsetn­ingartækjum um borð, svo sem kallmerki, fjórvíddar staðarákvörðun (stað­setning og tími) og viðeigandi viðbótargögn.

Sjálfvirkt flugvallarútvarp (Automatic terminal information service (ATIS)): Sjálfvirk upplýsingaþjónusta sem veitir loftförum í að- og brottflugi venjubundnar og gildandi upplýsingar.

Flugvallarútvarp um gagnatengingu (D-ATIS): Veiting ATIS-þjónustu í gegnum gagnasamband.
Flugvallarútvarp með tali (Voice-ATIS): Veiting ATIS-þjónustu með samfelldri og endurtekinni útvörpun á tali.

Skilgreind gagnaafurð (Data product specification): Lýsing í smáatriðum á gagnasafni eða röð gagnasafna ásamt viðbótarupplýsingum sem munu gera öðrum aðila kleift að búa til, útvega og nota gagnasafnið eða röð gagnasafna (ISO 19131).

Smölun (Assemble): Vinnsla við að sameina gögn frá mörgum heimildum í gagnagrunn og ákvarða grunnlínu fyrir frekari vinnslu. Smölunarstigið felur í sér að gögnin eru skoðuð og villur og úrfellingar/yfirsjónir, sem greindar eru, leiðréttar og lagfærðar.

SNOWTAM: NOTAM með sérstakri uppsetningu (í S-númeraröð) sem tilkynnir um ákomu eða hreinsun, vegna háskalegra aðstæðna af völdum snævar, íss, kraps eða vatnspolla með snjó, ís eða krapi á athafnasvæði flugvalla.

Sporvöluhæð (Geodetic/ellipsoid height): Hæð miðuð út frá viðmiðunarsporvölu, þar sem hæð punktsins sem um ræðir er mæld sem hornrétt vegalengd frá yfirborði viðmiðunarsporvölu.

Staðsetning (landfræðileg) (Position (geographical)): Sett af hnitum (eftir breidd og lengd) miðað út frá stærðfræðilegri viðmiðunarsporvölu sem skilgreinir staðsetningu punkts á yfirborði jarðar.

Stafrænt landhæðalíkan (Digital elevation model (DEM)): Framsetning á landslags­yfirborði með hæðarupplýsingum í punktum skilgreindrar gagnagrindar sem tekur mið af sameiginlegu viðmiðunarkerfi.

Stafrænt NOTAM (Digital NOTAM): Rafrænar og mótaðar gagnaskrár, með NOTAM-upplýsingum, framsettar þannig að þær séu að fullu lesanlegar af sjálfvirku tölvukerfi án mannlegs inngrips.

Svæðisleiðsaga (Area navigation (RNAV)). Leiðsaga sem leyfir starfrækslu loftfars eftir hvaða flugslóð (flight path) sem er innan drægis leiðsögubúnaðar á jörðu eða gervihnattaleiðsögubúnaðar, eða innan getumarka búnaðar um borð í loftfarinu eða samsetningu af framansögðu.

Tímatal (Calendar): Afmarkað tímaviðmiðunarkerfi sem gefur grunninn fyrir skil­greiningu á einum sólarhring (ISO 19108).

Umferðarsvæði (Manoeuvring area): Sá hluti flugvallar, sem ætlaður er fyrir flugtök, lendingar og akstur loftfara, þó ekki hlöð.

Uppfærslur við Flugmálahandbók (AIP Amendment (AMDT)): Varanlegar breytingar á upplýsingum í Flugmálahandbók.

Upphleypt sýn (Relief): Mismunur í hæðum á yfirborði jarðar sýnt á flugleiðsögukortum með jafnhæðarlínum, hæðarlitbrigðum, skyggingu eða punkthæðum.

Upplausn (Resolution): Fjöldi eininga eða talna sem mælt eða reiknað gildi er birt með og notað.

Upplýsingabréf flugmála (AIC - Aeronautical information circular): Tilkynning er varðar flugöryggi, flugleiðsögu, tækni-, laga- eða stjórnunarleg málefni sem hvorki eiga heima í Flugmálahandbók (AIP) né henta til útgáfu sem tilkynning til flugliða (NOTAM).

Upplýsingaþjónusta flugmála (AIS - Aeronautical information service): Þjónusta innan skilgreinds svæðis sem er ábyrg fyrir að miðla flugmálaupplýsingum sem nauðsynlegar eru til að tryggja öryggi, reglufestu og skilvirkni í flugleiðsögu.

Veitandi upplýsingaþjónustu flugmála (AISP - Aeronautical information service provider): Stofnun eða fyrirtæki sem ber ábyrgð á að veita upplýsingaþjónustu fyrir flug og hefur hlotið vottun í samræmi við reglugerð um starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu.

Viðauki 15 (ICAO Annex 15, Aeronautical Information Services): Þegar vísað er í viðauka 15 í reglugerð þessari þá er átt við viðauka 15 við Chicago-samninginn.

Viðbætur við Flugmálahandbók (AIP Supplement): Tímabundnar breytingar á efni Flugmálahandbókar birtar á sérstökum síðum.

Viðmið (Datum): Skilgreiningasafn eða -söfn stærða sem geta þjónað sem viðmið eða grundvöllur fyrir útreikninga á öðrum stærðum (ISO 19104).

Viðmið í landmælingu (Geodetic datum): Minnsta sett af breytum sem þarf til að skilgreina stað og staðsetningu viðmiðunarkerfis í hnattrænu samhengi.

VOLMET: Veðurupplýsingar fyrir loftför á flugi.

VOLMET-útvörpun (VOLMET broadcast): Sífelld útvörpun á gildandi veðurupplýsingum frá flugvöllum (METAR, SPECI, TAF), ásamt viðvörunum um markveður (SIGMET) á viðkomandi svæði.

VOLMET um gagnatengingu (D-VOLMET): Sífelld gagnasending á gildandi veður­upplýsingum frá flugvöllum (METAR, SPECI og TAF), og flugleiðum (AIRMET) ásamt viðvörunum um markveður (SIGMET) á viðkomandi svæði.

Þyrluvöllur (Heliport): Flugvöllur eða afmarkað svæði á mannvirki eingöngu eða að hluta til ætlað til afnota við komu, brottför og hreyfingar þyrlu á jörðu niðri.

4. gr.

Leiðbeiningarefni.

Víða í reglugerð þessari er vísað til krafna og leiðbeiningarefnis í viðaukum við Chicago-samninginn og leiðbeinandi efnis útgefið af Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO) og krafna og leiðbeiningarefnis Evrópustofnunar um öryggi í flugleiðsögu (Eurocontrol).

Leiðbeiningarefnið hefur að geyma viðeigandi og tækar leiðir til að fullnægja skilyrðum þeim sem í reglugerð þessari er lýst eða er þeim til frekari uppfyllingar. Fylgja skal þessu leiðbeiningarefni til að uppfylla kröfur reglugerðarinnar, nema til komi a.m.k. jafngildar aðferðir sem ekki eru taldar skerða flugöryggi að mati Flugmálastjórnar Íslands. Til að samþykkja aðferðir sem jafngildar, þarf umsækjandi að sýna á fullnægjandi hátt fram á að flugöryggi skerðist ekki með sérfræðiáliti sem Flugmálastjórn Íslands metur viðunandi.

Helsta leiðbeiningarefni sem vísað er til:

 1. Staðarauðkenni Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO Location Indicators, Doc 7910);
 2. Handbók um upplýsingaþjónustu flugmála (ICAO Aeronautical Information Services Manual, Doc 8126);
 3. Verklagsreglur flugleiðsöguþjónustu, ICAO-skammstafanir og kóðar (ICAO Abbreviations and Codes, Doc 8400);
 4. Handbók um WGS-84 landmælingakerfi (ICAO World Geodetic System - 1984 (WGS-84) Manual, Doc 9674);
 5. Kröfur iðnaðarins um upplýsingaþjónustu flugmála (Industry Requirements for Aeronautical Information, RTCA Doc DO-201A and European Organization for Civil Aviation Equipment (EUROCAE) Doc. ED-77); og
 6. Reglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um gjöld fyrir flugvelli og flug­leiðsögu­þjónustu (ICAO’s Policies on Charges for Airports and Air Navigation Services, Doc 9082).

5. gr.

Eftirlit.

Flugmálastjórn Íslands fer með eftirlit skv. reglugerð þessari. Flugmálastjórn Íslands skal tryggja viðeigandi eftirlit, einkum að því er varðar öruggan og skilvirkan rekstur veitenda upplýsingaþjónustu flugmála innan þess loftrýmis sem er á ábyrgð íslenska ríkisins.

6. gr.

Afturköllun.

Flugmálastjórn Íslands getur afturkallað eða takmarkað starfsleyfi upplýsingaþjónustu flugmála sem veitt er rekstraraðila flugleiðsöguþjónustu skv. ákvæðum loftferðalaga og reglugerðar um starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu, ef skilyrði fyrir starfsleyfinu eru ekki lengur uppfyllt, þ.m.t. ef gæði upplýsingaþjónustu flugmála teljast ekki fullnægjandi eða birtingu upplýsinga er ábótavant og ekki eru gerðar úrbætur innan þess frests sem ákveðinn er af Flugmálastjórn Íslands.

7. gr.

Málskotsréttur.

Ákvarðanir Flugmálastjórnar Íslands sæta kæru samkvæmt almennum reglum stjórnsýslulaga.

8. gr.

Refsiákvæði.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.

9. gr.

Handbækur.

Veitanda upplýsingaþjónustu flugmála er skylt að gera handbók með leiðbeiningum til starfsmanna um framkvæmd þjónustunnar. Leiðbeiningarnar skulu vera hluti af rekstrarhandbók viðkomandi flugleiðsöguþjónustu. Fyrirmæli í handbók upplýs­ingaþjónustu flugmála binda viðkomandi upplýsingaþjónustu og starfsmenn hennar um framkvæmd þjónustunnar. Handbókin skal vera hlutaðeigandi starfsmönnum aðgengi­leg. Breyting á handbók skal kynnt þeim starfsmönnum er hana varðar svo fljótt sem auðið er ásamt gildistöku breytinga. Handbók upplýsingaþjónustu flugmála þarf staðfest­ingu Flugmálastjórnar Íslands. Um breytingar á handbókinni fer skv. reglugerð um starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu og reglugerð um eftirlit með flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar.

Viðauki sem fylgir reglugerð þessari skal vera hluti hennar.

10. gr.

Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi viðauki 15 um upplýsingaþjónustu flugmála (Aeronautical Information Services) við stofnsáttmála Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um alþjóðlegt almenningsflug (Convention on International Civil Aviation) (Chicago-samningurinn).

11. gr.

Viðauki.

Viðauki sem fylgir reglugerð þessari skal vera hluti hennar.

Viðauki við reglugerð þessa byggir að miklu leyti á köflum 3 til 10 í viðauka 15 við Chicago-samninginn.

12. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 57. gr. a., sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 24. september 2010.

Ögmundur Jónasson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 14. október 2010