Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 124/2014

Nr. 124/2014 22. desember 2014
LÖG
um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, brottfall laga nr. 97/1987, um vörugjald, breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og breytingu á fleiri lögum (kerfisbreyting á virðisaukaskatti, brottfall laga og hækkun barnabóta).

HANDHAFAR VALDS FORSETA ÍSLANDS
   samkvæmt 8. gr. stjórnarskrárinnar
forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar,
gjöra kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og vér staðfest þau með samþykki voru:

I. KAFLI

Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt:

 1. Í stað orðanna „tannlækningar og önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta“ í 1. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna kemur: tannlækningar, önnur eiginleg heilbrigðisþjónusta og sjúkra­flutningar.
 2. 5. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna orðast svo: Íþróttastarfsemi. Aðgangseyrir að íþrótta­mótum, íþróttakappleikjum og íþróttasýningum. Jafnframt aðgangseyrir og aðrar þóknanir fyrir afnot af íþróttamannvirkjum til íþróttaiðkunar, svo sem íþrótta­sölum, íþróttavöllum, sundlaugum og skíðalyftum ásamt íþróttabúnaði mann­virkjanna. Enn fremur aðgangseyrir að líkamsræktarstöðvum.
 3. 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna orðast svo: Almenningssamgöngur, þ.e. fastar ferðir á ákveðinni leið innan lands samkvæmt fyrirframbirtri áætlun, jafnt á landi, í lofti og á legi. Undanþágan nær einnig til skipulagðrar ferðaþjónustu fatlaðs fólks og skipulagðs flutnings skólabarna. Sama gildir um akstur leigubifreiða. Að því leyti sem fólks­flutn­ingar eru undanþegnir samkvæmt ákvæði þessu nær undan­þágan til farangurs farþega og flutnings ökutækja sem er í beinum tengslum við flutning farþega.
 4. 13. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna fellur brott.
 5. Í stað hlutfallstölunnar „79,68%“ í 1. mgr. 10. gr., í 3. mgr. 13. gr. og þrisvar sinnum í 5. mgr. 13. gr. laganna kemur: 80,65%; og í stað hlutfallstölunnar „93,46%“ í 3. mgr. 13. gr. og þrisvar sinnum í 5. mgr. 13. gr. laganna kemur: 90,09%.
 6. Við 11. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
      Til skattskyldrar veltu telst þjónusta ferðaskrifstofa, ferða­skipuleggjenda og ferða­félaga, jafnt innlendra sem erlendra, að því leyti sem hún varðar sölu á vöru eða þjónustu sem ferðamaður nýtir á Íslandi.
 7. Við 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þjónusta ferða­skrifstofa og ferðaskipuleggjenda telst veitt utan Íslands samkvæmt þessum tölulið að því leyti sem hún varðar fólksflutninga milli landa og vöru eða þjónustu sem ferðamaður nýtir utan Íslands.
 8. Á eftir orðinu „Vöruflutningar“ í 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna kemur: og fólks­flutningar.
 9. Í stað hlutfallstölunnar „25,5%“ í 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: 24%; og í stað hlutfallstölunnar „7%“ í 2. mgr. 14. gr. laganna kemur: 11%.
 10. 1. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna orðast svo: Fólksflutningar sem falla ekki undir ákvæði 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. Hér undir falla afnot af búnaði sem skipuleggjandi ferðar leggur farþegum til vegna ferðarinnar.
 11. 3. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna orðast svo: Þjónusta ferðaskrifstofa, ferða­skipuleggjenda og ferðafélaga við milligöngu um sölu eða afhendingu á þjónustu sem fellur undir aðra töluliði þessarar málsgreinar eða undir ákvæði 3. mgr. 2. gr.
 12. Við 2. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Aðgangseyrir að baðhúsum, baðstöðum, gufubaðsstofum og heilsulindum sem falla ekki undir ákvæði 5. tölul. 3. mgr. 2. gr.
 13. Í stað hlutfallstölunnar „20,32%“ í 2. og 8. mgr. 16. gr., í 1. mgr. 20. gr. og í 6. mgr. 42. gr. laganna kemur: 19,35%; og í stað hlutfallstölunnar „6,54%“ í 1. mgr. 20. gr. laganna kemur: 9,91%.
 14. 5. mgr. 28. gr. laganna orðast svo:
      Vanræki skattskyldur aðili að færa tilskilið bókhald samkvæmt ákvæðum VIII. kafla laga þessara eða nota tilskilið söluskráningarkerfi samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim eða ef söluskráningarkerfi er verulega áfátt skal ríkisskattstjóri eða skattrannsóknarstjóri ríkisins með ábyrgðarbréfi eða á annan sannanlegan hátt beina til hans fyrirmælum um úrbætur. Ef fyrirmælum þessum er ekki sinnt innan 15 daga getur skattrannsóknarstjóri ríkisins eða ríkis­skattstjóri látið lögreglu stöðva atvinnurekstur viðkomandi á sama hátt og greinir í 3. mgr. þessarar greinar og þar til fullnægjandi úrbætur hafa verið gerðar. Sama gildir hafi skattaðili vanrækt tilkynningarskyldu skv. 5. gr., skilaskyldu skv. 24. gr. eða sætt áætlun virðisaukaskatts skv. 25. eða 26. gr. í tvö uppgjörstímabil eða fleiri á næstliðnum tveimur árum frá yfirstandandi uppgjörstímabili skv. 24. gr.

II. KAFLI

Brottfall laga nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum.

2. gr.

    Lög nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum, falla brott.

III. KAFLI

Breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á A-lið 68. gr. laganna:

 1. Í stað fjárhæðanna „167.564 kr.“, „199.455 kr.“, „279.087 kr.“ og „286.288 kr.“ í 1. og 2. málsl. 4. mgr. kemur: 194.081 kr.; 231.019 kr.; 323.253 kr.; og: 331.593 kr.
 2. Í stað hlutfallstalnanna „3%“, „5%“ og „7%“ í 5. málsl. 4. mgr. kemur: 4%; 6%; og: 8%.
 3. Í stað fjárhæðarinnar „100.000 kr.“ og hlutfallstölunnar „3%“ í 7. málsl. 4. mgr. kemur: 115.825 kr.; og: 4%.
 4. Í stað fjárhæðarinnar „2.000 kr.“ í 2. málsl. 8. mgr. kemur: 5.000 kr.

IV. KAFLI

Breyting á lögum nr. 129/2009, um umverfis- og auðlindaskatta.

4. gr.

    Í stað orðanna „og laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.“ í 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: um innfluttar vörur og ákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, um innlendar framleiðsluvörur.

V. KAFLI

Breyting á lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, með síðari breytingum.

5. gr.

    Í stað orðanna „laga nr. 97/1987, um vörugjald“ í 4. mgr. 9. gr. laganna kemur: tollalaga, nr. 88/2005, um innfluttar vörur, og ákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, um innlendar framleiðsluvörur.

VI. KAFLI

Breyting á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki,
með síðari breytingum.

6. gr.

    Orðin „svo og ákvæði laga um vörugjald“ í 2. mgr. 11. gr. laganna falla brott.

VII. KAFLI

Breyting á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum,
með síðari breytingum.

7. gr.

    Liður 1.3 í 3. mgr. 84. gr. laganna fellur brott.

VIII. KAFLI

Breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.,
með síðari breytingum.

8. gr.

    Orðin „og laga nr. 97/1987, um vörugjald“ í 1. mgr. 27. gr. laganna falla brott.

IX. KAFLI

Breyting á lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum
einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, með síðari breytingum.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:

 1. Í stað fjárhæðarinnar „9,35 kr.“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: 14,41 kr.
 2. 4. málsl. 1. mgr. fellur brott.
 3. 2. mgr. fellur brott.

10. gr.

    Á eftir 4. gr. laganna koma fimm nýjar greinar, svohljóðandi:

    a. (5. gr.)

    Skylda til að greiða skilagjald samkvæmt lögum þessum hvílir á þessum aðilum:

 1. Öllum þeim sem flytja til landsins skilagjaldsskyldar vörur hvort sem er til eigin nota eða endursölu.
 2. Öllum þeim sem framleiða, vinna að eða pakka skilagjaldsskyldum vörum innan lands.
 3. Öllum þeim sem hafa fengið leyfi tollstjóra til að selja farþegum og áhöfnum millilandafara við komu til landsins vörur úr tollfrjálsri verslun, sbr. 3. mgr. 1. gr.

    Aðilar sem eru gjaldskyldir skv. 1. mgr., aðrir en þeir sem flytja vörur til landsins, skulu ótilkvaddir og eigi síðar en 15 dögum áður en gjaldskyld starfsemi hefst tilkynna atvinnu­rekstur sinn eða starfsemi til skráningar hjá tollstjóra. Breytingu sem verður á starf­semi eftir að skráning hefur farið fram skal tilkynna eigi síðar en 15 dögum eftir að breyting átti sér stað.

    b. (6. gr.)

    Tollstjóri skal reikna skilagjald af gjaldskyldum vörum sem aðilar flytja til landsins og annast álagningu skilagjalds vegna innlendrar framleiðslu.

    c. (7. gr.)

    Hvert uppgjörstímabil aðila sem skráðir eru skv. 2. mgr. 5. gr. er tveir mánuðir, janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október, nóvember og desember. Gjalddagi hvers uppgjörstímabils er 28. dagur annars mánaðar eftir lok þess.
    Þeir sem flytja inn skilagjaldsskyldar vörur til landsins til endursölu skulu eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils ótilkvaddir greiða innheimtumanni ríkissjóðs skilagjald af gjaldskyldum vörum sem voru tollafgreiddar á uppgjörstímabilinu. Aðilar sem flytja skila­gjalds­skylda vöru til landsins skulu greiða skilagjald við tollafgreiðslu.
    Innlendir framleiðendur skulu eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils ótilkvaddir greiða innheimtumanni ríkissjóðs skilagjald af gjaldskyldum vörum sem voru seldar eða afhentar á tímabilinu.
    Gjaldskyldir aðilar skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr. 5. gr. skulu eigi síðar en á gjalddaga hvers uppgjörstímabils skila skilagjaldsskýrslu í því formi sem tollstjóri ákveður vegna vara sem greiða ber skilagjald af á uppgjörstímabilinu. Tollstjóri skal áætla skilagjald af viðskiptum þeirra aðila sem ekki skila skýrslu innan tilskilins tíma eða senda enga skýrslu. Sama á við ef skýrslu eða fylgigögnum er ábótavant. Áætlun skal vera svo rífleg að eigi sé hætt við að gjaldfjárhæð sé áætluð lægri en hún er í raun og veru. Tollstjóri skal tilkynna gjaldskyldum aðila og öðrum innheimtumönnum um áætlanir og leið­réttingar sem gerðar hafa verið. Þó skal tollstjóri ávallt leiðrétta augljósar reikn­ings­skekkjur án sérstakrar tilkynningar til gjaldenda.
    Sé skilagjald ekki greitt á tilskildum tíma skal aðili sæta álagi til viðbótar því skilagjaldi sem honum ber að standa skil á. Sama gildir ef skilagjaldsskýrslu hefur ekki verið skilað eða henni er ábótavant og skilagjald því áætlað. Álag skal vera 1% af þeirri upphæð sem vangreidd er fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 10%.
    Sé skilagjald ekki greitt innan mánaðar frá gjalddaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum.

    d. (8. gr.)

    Heimilt er að kæra álagningu skilagjalds innan 30 daga frá því að gjaldið var ákveðið. Kæru skal beint til tollstjóra. Henni skal fylgja skriflegur rökstuðningur. Innsend fullnægjandi skilagjaldsskýrsla skal tekin sem kæra þegar um er að ræða áætlanir skv. 4. mgr. 7. gr. Tollstjóri skal kveða upp skriflegan rökstuddan úrskurð um kæruna og tilkynna hann í ábyrgðarbréfi innan 30 daga frá lokum kærufrests.
    Gjaldskyldur aðili getur skotið úrskurði tollstjóra skv. 1. mgr. til yfirskattanefndar sem kveður upp fullnaðarúrskurð. Um kærufrest og málsmeðferð fer eftir ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

    e. (9. gr.)
    Að því leyti sem eigi er ákveðið í lögum þessum um gjaldskyldu, álagningu, tilhögun bókhalds, eftirlit, viðurlög og aðra framkvæmd varðandi skilagjald skulu gilda, eftir því sem við geta átt, ákvæði tollalaga, nr. 88/2005, um innfluttar vörur og laga nr. 50/1988, um virðis­auka­skatt, um innlendar framleiðsluvörur.
    Vegna eftirlits með skilum á skilagjaldi skal tollstjóri hafa sömu heimildir til eftirlits og skatt­yfirvöldum eru veittar í 38. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

11. gr.

    Lög þessi öðlast gildi og koma til framkvæmda sem hér segir:

 1. Ákvæði a–d-, f–h- og j–l-liðar 1. gr. öðlast gildi 1. janúar 2016.
 2. Ákvæði e-, i-, m- og n-liðar 1. gr. öðlast gildi 1. janúar 2015.
 3. Ákvæði 2. gr. öðlast gildi 1. janúar 2015 en brottfelld ákvæði laga nr. 97/1987, um vörugjald, gilda þó áfram vegna sölu og afhendingar gjaldskyldrar vöru sem á sér stað fyrir 1. janúar 2015.
 4. Ákvæði 3. gr. öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda við ákvörðun barnabóta í fyrirframgreiðslu og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2015.
 5. Ákvæði 4.–10. gr. öðlast gildi 1. janúar 2015 og gilda um sölu og afhendingu gjaldskyldrar vöru sem á sér stað eftir 1. janúar 2015. Breytt og brottfelld ákvæði gilda þó áfram um sölu og afhendingu gjaldskyldrar vöru sem á sér stað fyrir 1. janúar 2015.

Gjört í Reykjavík, 22. desember 2014.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Einar K. Guðfinnsson.

Markús Sigurbjörnsson.

(L. S.)

Bjarni Benediktsson.

A deild - Útgáfud.: 30. desember 2014