Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 629/2008

Nr. 629/2008 30. maí 2008
REGLUR
um fyrirkomulag númerabirtingar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar taka til númerabirtinga, svarnúmerabirtinga og takmarkana þar á. Reglurnar gilda um símtöl og, þegar það á við, smáskilaboðasendingar úr símtækjum (SMS) innan fjarskiptanets og milli tveggja fjarskiptaneta hvort sem er innanlands eða milli landa.

2. gr.

Orðskýringar.

Vísað er til skilgreininga í lögum nr. 81/2003, um fjarskipti, en auk þess hafa neðangreind hugtök eftirfarandi merkingar:

1. Almenn símaþjónusta: Þjónusta sem er aðgengileg almenningi í þeim tilgangi að senda frá sér eða móttaka innlend eða alþjóðleg símtöl úr tal-, far- eða netsíma, og veitir gjaldfrjálst samband við neyðarþjónustu, með notkun númers sem úthlutað hefur verið samkvæmt tilmælum Al­þjóða­fjar­skipta­sam­bands­ins (ITU) til fjarskiptafyrirtækis.

2. Áskrifandi: Einstaklingur eða lögaðili sem er aðili að samningi við seljanda almennrar símaþjónustu um að sá síðarnefndi láti slíka þjónustu í té.

3. Notandi: Einstaklingur eða lögaðili sem notar almenna símaþjónustu.

a. A-notandi: Notandi sem stofnar til símtals.

b. B-notandi: Notandi sem símtali er beint til.

c. C-notandi: Notandi sem móttekur áframsent símtal frá B-notanda.

4. Númer: Röð tölustafa sem áskrifendur almennrar símaþjónustu fá úthlutað hjá fjarskiptafyrirtæki vegna tengingar við fjarskiptanet þess og eru notuð til að auðkenna áskrifendur og tengja við aðra notendur fjarskiptaþjónustu.

5. Númerabirting: Þegar númer A-notanda er sýnilegt á númerabirti B- eða C-notanda.

6. Númeraleynd: Þegar númer A-notanda er gert ósýnilegt á númerabirti B- eða C-notanda.

7. Samningur (sá er vísað er til í 2. tl.): Samningsbundin tengsl milli áskrifenda og þjónustuveitanda er geta falið í sér eingreiðslu eða reglubundnar greiðslur fyrir þjónustuna sem veitt er eða fyrirhugað er að veita. Fyrirframgreidd kort teljast einnig vera samningur.

8. Símtal: Tenging sem komið er á með símaþjónustu sem er öllum aðgengileg og leyfir tvíátta fjarskipti á rauntíma.

9. Svarnúmerabirting: Þegar númer B- eða C-notanda er sýnilegt á númerabirti A-notanda.

10. Svarnúmeraleynd: Þegar númer B- eða C-notanda er gert ósýnilegt á númerabirti A-notanda.

11. Þjónustuveitandi: Fjarskiptafyrirtæki sem rekur almenna tal­síma­þjónustu.

3. gr.

Númerabirting.

Fjarskiptafyrirtæki sem reka almenna símaþjónustu samkvæmt reglum þessum skulu bjóða notendum gjaldfrjálsa númerabirtingu.

Óheimilt er að nota röng auðkenni eða númer í þeim tilgangi að blekkja móttakanda símtals eða SMS-sendingar.

4. gr.

Númeraleynd.

A-notandi skal, með einföldum hætti og sér að kostnaðarlausu, eiga kost á að koma í veg fyrir númerabirtingu fyrir hvert símtal um sig. Gildir þetta um sérhverja línu sem áskrifandi hefur aðgang að.

B- eða C-notandi skal, með einföldum hætti og sér að kostnaðarlausu, miðað við eðlilega notkun þessa möguleika, eiga kost á að útiloka númerabirtingu á mótteknum símtölum.

5. gr.

Svarnúmeraleynd.

Þar sem í boði er svarnúmerabirting ber þjónustuveitanda B- eða C-notanda að tryggja að hann eigi þess kost, með einföldum hætti og sér að kostnaðarlausu, að hindra svarnúmerabirtingu til A-notanda.

6. gr.

Svarsynjun.

B- eða C-notandi skal eiga kost á því, eftir því sem er tæknilega framkvæmanlegt, með einföldum hætti og áður en símtal er afgreitt, að synja móttöku hringinga með númeraleynd.

7. gr.

Áframsending símtala.

Fjarskiptafyrirtæki skulu tryggja að C-notandi geti fengið birt númer A-notanda við áframsendingu símtala gegnum B-notanda.

8. gr.

Upplýsingaskylda.

Upplýsingar um möguleika númerabirtingar, númeraleyndar, svarnúmerabirtingar og svarnúmeraleyndar hjá hverju fjarskiptafyrirtæki sem rekur almenna símaþjónustu, skulu vera aðgengilegar almenningi með einföldum hætti.

9. gr.

Undantekningar.

Verði notandi fyrir ónæði eða óþægindum af völdum símtals, getur hann farið þess á leit við fjarskiptafyrirtæki að það aflétti númeraleynd símtalsins tímabundið í tengslum við beiðni áskrifanda um rakningu slíkra símtala. Þjónustuveitandi mun þó einungis afhenda upplýsingar um auðkenni áskrifandans sem hringir, að undangengnum dómsúrskurði eða í þágu rannsóknar opinbers máls. Um meðferð upplýsinga sem aflað er með þessum hætti fer eftir 7. mgr. 47. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti.

Fjarskiptafyrirtæki ber að tryggja að númerabirting sé ávallt til staðar þegar hringt er í neyðarnúmerið 112, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 40/2008 um samræmda neyðarsvörun.

10. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 51. gr. laga nr. 81/2003, öðlast gildi við birtingu í Stjórnartíðindum.

Póst- og fjarskiptastofnun, 30. maí 2008.

Hrafnkell V. Gíslason.

Inga Helga Jónsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 30. júní 2008