Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1195/2013

Nr. 1195/2013 12. desember 2013
REGLUR
um breytingu á reglum nr. 480/2010 um Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands.

1. gr.

1. gr. orðast svo:

Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands er rannsókna- og þjónustustofnun sem starfrækt er af Háskóla Íslands og heyrir undir háskólaráð. Umsjón með starfsemi stofnunarinnar er falin skrifstofu rektors, eins og nánar er kveðið á um í þessum reglum. Stofnunin er vettvangur fyrir samstarf háskólans um ýmis verkefni við sveitarfélög, stofnanir, fyrir­tæki, félagasamtök og einstaklinga.

2. gr.

2. gr. orðast svo:

Meginhlutverk stofnunarinnar er að efla rannsókna- og fræðastarf Háskóla Íslands um land allt með því að:

  1. styrkja tengsl Háskóla Íslands við atvinnu- og þjóðlíf í landinu,
  2. styrkja rannsóknir á landsbyggðinni með eigin rannsóknum og samstarfi við aðra,
  3. nýta staðbundnar aðstæður í umhverfi og atvinnugreinum til rannsókna og auka þekkingu á þeim,
  4. stuðla að nánum tengslum fræðasviða og deilda háskólans við rannsóknasetur á landsbyggðinni,
  5. veita nemendum aðstöðu til vettvangsnáms,
  6. taka þátt í starfsemi þekkingarsetra.

Auk þess vinnur stofnunin að öðrum verkefnum sem háskólaráð og rektor fela henni.

3. gr.

3. gr. orðast svo:

Undir stofnunina heyra rannsóknasetur Háskóla Íslands. Rannsóknasetrin eru faglega sjálfstæðar einingar.

Rektor og háskólaráð taka ákvörðun um uppbyggingu rannsóknasetra og skipulag þeirra og setja þeim markmið að höfðu samráði við ráðgefandi nefnd stofnunarinnar eða að tillögu hennar. Samráð skal haft við mennta- og menningarmálaráðuneyti um stofnun nýrra rannsóknasetra, sbr. ákvæði í viðauka 3 með samningi háskólans og mennta- og menningarmálaráðuneytis, um markmið, starfsemi og fjármál Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands, dags. 21. mars 2013.

Um starfsemi hvers seturs skal að jafnaði gerður samstarfssamningur við þá aðila sem tengjast starfseminni á hverjum stað. Heimilt er í slíkum samningi að kveða á um stofnun fagráðs sem vinni með forstöðumanni og ráðgefandi nefnd stofnunarinnar.

4. gr.

5. gr. ásamt fyrirsögn orðast svo:

Ráðgefandi nefnd.

Háskólaráð skipar stofnuninni fimm manna ráðgefandi nefnd til þriggja ára í senn án tilnefningar og ákveður hver gegnir formannsstörfum.

Þess skal gætt að nefndin sé skipuð fólki sem hefur þekkingu á málefnum er lúta að hlutverki Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands. Formaður nefndarinnar skal vera akademískur starfsmaður Háskóla Íslands í fullu starfi.

Nefndin skiptir að öðru leyti með sér verkum.

5. gr.

6. gr. ásamt fyrirsögn orðast svo:

Fundir ráðgefandi nefndar.

Forstöðumaður, sbr. 8 gr., í samráði við formann ráðgefandi nefndar, boðar nefndarfundi bréflega, eða í tölvupósti, með þriggja daga fyrirvara.

Fundarboð skal greina dagskrá fundar.

Skylt er að boða nefndarfund óski tveir eða fleiri nefndarmenn þess. Sama gildir ef rektor ber fram slíka ósk og hefur þá hann eða sá sem sækir fund í umboði hans, mál­frelsi og tillögurétt á fundinum.

Falli atkvæði jöfn á nefndarfundi ræður atkvæði formanns eða þess sem gegnir for­manns­störfum.

Halda skal gerðabók ráðgefandi nefndar og skulu staðfestar fundargerðir færðar í hana. Afrit fundargerða skulu send rektor og aðilum samstarfssamninga sem gerðir hafa verið um starfsemina á einstökum stöðum.

Forstöðumaður situr nefndarfundi með málfrelsi og tillögurétt, en án atkvæðisréttar.

6. gr.

7. gr. ásamt fyrirsögn orðast svo:

Hlutverk ráðgefandi nefndar.

Hlutverk ráðgefandi nefndar er að vera háskólaráði, rektor og forstöðumanni til ráðgjafar um stefnumarkandi ákvarðanir og viðfangsefni stofnunarinnar og hafa almenna yfirsýn yfir starfsemina.

Forstöðumaður stofnunarinnar leiðir samstarf háskólans við aðila á landsbyggðinni og getur í samráði við ráðgefandi nefnd og fagráð einstakra setra haft frumkvæði að því að skapa verkefni og afla fjár til þeirra.

Nefndin veitir forstöðumönnum einstakra setra, sbr. 9. gr., leiðsögn og aðstoð eftir því sem unnt er.

7. gr.

8. gr. orðast svo:

Rektor ræður forstöðumann fyrir starfsemi stofnunarinnar og setur honum erindisbréf. Forstöðumaður stjórnar daglegum rekstri stofnunarinnar, annast gerð rekstrar- og fjár­hagsáætlana og annast framkvæmd mála sem rektor felur honum. Rekstrar- og fjár­hags­áætlanir fyrir einstök rannsóknasetur og stofnunina í heild skulu bornar undir rektor, sem og tillögur að samþykktum um þjónusturannsóknir sem háskólaráð stað­festir.

Forstöðumaður hefur umsjón og eftirlit með framkvæmd samnings Háskóla Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytis um Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands og undirbýr gerð samstarfssamninga um einstök rannsóknasetur og hefur eftirlit með framkvæmd þeirra samninga sem gerðir hafa verið.

Um ráðningu annars starfsfólks, þar með talið forstöðumanna einstakra rannsóknasetra fer að öðru leyti eftir ákvæðum sameiginlegra reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands.

Forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra er í starfi sínu ábyrgur gagnvart rektor.

8. gr.

9. gr. orðast svo:

Hverju rannsóknasetri stýrir forstöðumaður sem rektor ræður, að fenginni umsögn ráð­gefandi nefndar. Skal sá sem ráðinn er forstöðumaður að jafnaði hafa doktorspróf eða annað sambærilegt háskólapróf. Hann annast daglega starfsemi á hverjum stað, hefur umsjón með fjármálum og skipuleggur samstarfsverkefni. Rektor setur forstöðu­mönnum hvers rannsóknaseturs erindisbréf. Við það skal miðað að sú háskóla­deild sem tengist fræðigrein forstöðumanns heimili honum að sitja deildarfundi og eftir atvikum þing fræðasviðs, sbr. 17. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009.

Gerður skal sérstakur samningur á milli forstöðumanns stofnunar rannsóknasetra og forseta viðkomandi fræðasviðs og eftir atvikum rektors, til að tengja starf forstöðumanns rannsóknaseturs við starf háskólakennara og koma þannig á virku samstarfi milli setursins og viðkomandi háskóladeildar. Hlutfall starfs forstöðumanns milli stjórn­sýslu­verkefna og akademísks starfs er ákveðið í slíkum samningi og jafnframt kveðið á um seturétt á deildarfundi.

9. gr.

1. mgr. 10. gr. orðast svo:

Forstöðumaður efnir til ársfundar stofnunarinnar sem haldinn er á vormánuðum. Árs­fundur er öllum opinn og skal auglýstur opinberlega bæði innan háskólans og á almenn­um vettvangi.

10. gr.

2. mgr. 11. gr. orðast svo:

Tekjur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands eru eftirfarandi:

  1. fjárveitingar skv. samningi Háskóla Íslands og mennta- og menningar­mála­ráðuneytis,
  2. fjárveitingar skv. ákvörðun háskólaráðs eða rektors,
  3. fé sem aflað er til starfseminnar með samningum við samstarfsaðila,
  4. styrkir til einstakra verkefna eða starfseminnar í heild,
  5. greiðslur fyrir þjónustustarfsemi,
  6. aðrar tekjur, t.d. gjafir og framlag úr ríkissjóði eftir því sem kveðið kann að vera á um í fjárlögum.

11. gr.

Reglur þessar, sem samþykktar hafa verið í háskólaráði Háskóla Íslands, eru settar á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Reglurnar öðlast gildi 1. janúar 2014.

Háskóla Íslands, 12. desember 2013.

Kristín Ingólfsdóttir.

Þórður Kristinsson.

B deild - Útgáfud.: 30. desember 2013