Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 123/2014

Nr. 123/2014 17. janúar 2014
GJALDSKRÁ
Hafnarsjóðs Vesturbyggðar.

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gjaldskrá þessi fyrir Hafnarsjóð Vesturbyggðar er sett skv. heimild í 17. gr. hafnalaga nr. 61/2003, sbr. bráðabirgðaákvæði nr. 1. Gjaldskráin er við það miðuð að Hafnarsjóður Vesturbyggðar geti haft nægar tekjur til þess að standa undir rekstri hafna, sbr. 5. tölulið 3. gr. hafnalaga. Gjaldskráin tekur breytingum skv. ákvörðun hafnarstjórnar hverju sinni. Virðisaukaskattur, 25,5% leggst á öll gjöld við útgáfu reikninga.

Um hafnagjöld.

2. gr.

Við ákvörðun hafnagjalda samkvæmt stærð skipa skal miða við brúttótonnatölu skipa samkvæmt alþjóðlegu mælibréfi, sem gefið er út eftir ákvæðum alþjóðasamþykktarinnar um mælingu skipa frá 1969.

3. gr.

Af öllum skipum skal greiða gjöld til hafnarsjóðs ef þau koma inn fyrir takmörk hafnar­innar og njóta þjónustu hennar.

Skipagjöld.

4. gr.

Lestargjöld.

Af öllum skipum skal greiða lestargjald, 11,40 kr. á mælieiningu, skv. 2. gr., en þó ekki oftar en tvisvar í mánuði. Undanþegin greiðslu lestargjalda eru skip sem leita hafnar vegna sjóskaða eða til að láta í land sjúka menn eða látna, svo fremi þau hljóti ekki aðra þjónustu.

Bryggjugjöld.

Af öllum skipum sem leggjast við bryggju eða hafnarbakka skal greiða 5,71 kr. á mæli­einingu skv. 2. gr. fyrir hverja byrjaða 24 tíma sem skipið liggur bundið. Fiskiskip greiða þetta gjald eigi oftar en 13 sinnum í mánuði. Heimilt er að taka lestar- og bryggju­gjald af fiskiskipum og minni bátum sem mánaðargjald, 70,61 kr. á mælieiningu, en þó aldrei lægra en 7.924 kr. á mánuði. Bátar minni en 20 brt greiða þó aldrei lægra en 5.290 kr. á mánuði. Skip samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. eru undanþegin bryggju­gjaldi.

Vörugjöld.

5. gr.

Vörugjald skal greiða af öllum vörum sem fluttar eru af skipsfjöl á land eða úr landi á skips­fjöl, eða úr einu skipi í annað, innan takmarka hafnarinnar, þó með þeim undan­tekningum er síðar getur.

6. gr.

Fyrir vörur sem samkvæmt farmskrá skips eru ákveðnar til annarrar hafnar, innlendrar eða erlendrar, en eru látnar á land um stundarsakir, skal aðeins greitt vörugjald þegar vörurnar eru fluttar í land. Undanþegnar þessu gjaldi eru vörur sem látnar eru á land um stundarsakir vegna skemmda á skipi.

7. gr.

Af vörum sem fluttar eru á skip og fara eiga til annarra hafna innanlands greiðist hálft vörugjald. Af vörum sem fara eiga til útlanda en umskipað er í innlendri höfn skal greiða fullt vörugjald í fyrstu lestunarhöfn. Af vörum sem koma frá útlöndum og fara eiga áfram til útlanda er heimilt að innheimta fullt vörugjald þegar vörurnar eru fluttar á land.

8. gr.

Um vörugjald af flutningi ferjuskipa skal semja við ferjueiganda sem innheimtir gjaldið ásamt flutningsgjaldi og stendur skil á því til hafnarinnar. Farþegar, bifreiðar þeirra, farangur og vöruflutningar með ferjum og flóabátum, sem njóta styrks samkvæmt vegalögum eru undanþegnir vörugjaldi. Heimilt er þó að taka vörugjöld af vörum í vörugjaldsflokkum 1, 2 og 3, sbr. 11. gr.

9. gr.

Þessar vörur eru algjörlega undanþegnar vörugjaldi:

  1. Umbúðir sem endursendar eru.
  2. Kol, olía, vistir og aðrar nauðsynjar skipa til eigin notkunar.
  3. Almennar póstsendingar og farangur ferðamanna.
  4. Úrgangur sem fluttur er til eyðingar.

10. gr.

Vörugjald skal reikna eftir þyngd eða verðmæti með umbúðum og af hverri sendingu sérstaklega. Fara skal eftir farmskrá skipa við útreikning vörugjalds. Skipstjóra eða afgreiðslumanni skips er skylt að láta höfninni í té afrit af farmskrá. Sé engri farmskrá til að dreifa skal skipstjóri gefa drengskaparvottorð um vörumagn sem fermt hefur verið eða affermt úr skipi hans. Þyki hafnarstjóra ástæða til getur hann hvenær sem er látið ákveða vörumagnið á þann hátt sem hann telur hentugast. Reynist vörumagnið vera meira en upp er gefið greiðir farmeigandi kostnaðinn. Séu fleiri en ein vörutegund í sendingu ósundurliðað skal reikna vörugjaldið eftir þeirri tegund sem hæst gjald skal greiða af.

11. gr.

Vörur skal flokka eftir því sem vörugjaldskrá tiltekur og greiðist vörugjald eins og hér segir:

1. fl.

Gjald 321 kr. á tonn:

 

Bensín, brennsluolíur, kol, laust korn, salt, vikur, kísilgúr, þörungamjöl, sement, áburður og úrgangur sem fluttur er til endurvinnslu.

2. fl.

Gjald 546 kr. á tonn:

 

Lýsi og fiskimjöl.

3. fl.

Gjald 589 kr. á tonn:

 

a)

Þungavarningur, svo sem sekkjavörur, óunnið járn og stál, útgerðarvörur, smurningsolíur, sjávarafurðir, landbúnaðarafurðir, hráefni til iðnaðar og byggingaframkvæmda, pökkuð og niðursoðin matvæli, óáfengar drykkjar­vörur og ávextir.

 

b)

Vélar og tæki hvers konar og varahlutir til þeirra, svo sem heimilis- og skrifstofuvélar, bifreiðar, bifhjól, reiðhjól, hjólbarðar, bátar, flugvélar, hreyflar, mælitæki, húsbúnaður, vefnaðarvara og fatnaður.

 

c)

Útvarps- og sjónvarpstæki, hljóðfæri, úr, klukkur, myndavélar, sjónaukar, glysvarningur alls konar, vín, tóbak, sælgæti, snyrtivörur og lyf.

 

d)

Vörur sem ekki verða flokkaðar annars staðar eftir þyngd.

 

Af flutningi vinnutækja innanlands skal veita allt að 50% afslátt. Vörugjald greiðist ekki af bifreiðum ferðamanna, enda ferðast eigendur með sama skipi.

4. fl.

Gjald 1,60%:

 

Sjávarafli lagður á land eða í skip á hafnarsvæðinu til vinnslu eða brottflutnings, þ.m.t. fiskur og seiði úr eldiskvíum. Gjald af ferskum sjávarafurðum reiknast af ætluðu aflaverðmæti hvers mánaðar. Ætlað aflaverðmæti miðast við meðalverð hverrar fisktegundar á Vestfjörðum sem útgefið er af Verðlagsstofu skiptaverðs. Viðmiðunin er bundin meðaltali annars til sjöunda mánaðar frá aflamánuði. Sé ekki til meðaltalsverð yfir sjávarafla skal áætlað söluverð hans reiknað út frá þorskígildishlutfalli viðkomandi tegundar samkvæmt viðmiðun Fiskistofu.

 

Gjald af frystum afla frystitogara reiknast af 0,80% heildarsöluverðmætis aflans. Gjald af eldisfiski reiknast af 0,60% heildarsöluverðmætis aflans. Gjald af saltfiski reiknast miðað við tvöfalda þyngd afurða og gjald af gámafiski reiknast af áætluðu heildarsöluverði. Kaupanda ber að afhenda höfninni skýrslu um keyptan afla og afurðir mánaðarlega, t.d. afrit af söluuppgjöri milli kaupanda og seljanda. Aflagjald fellur í gjalddaga um leið og afla er landað.

 

Kaupandi aflans innheimtir gjaldið hjá seljanda og er ábyrgur fyrir því til hafnarsjóðs þótt hann vanræki innheimtu þess. Seljandi afla og afurða ber ábyrgð á greiðslu aflagjalds til hafnarinnar. Standa ber skil á greiðslu aflagjalds eigi sjaldnar en mánaðarlega. Hámarksgjald samkvæmt þessum flokki er 4.954 kr. á tonn og lágmarksgjald er 163 kr. í öllum flokkum.

Farþegagjald.

12. gr.

Farþegagjald er tekið við komu og við brottför farþega sem fara um hafnir Vestur­byggðar, 75 kr. á 16 ára og eldri og 41 kr. á 15 ára og yngri. Farþegar ferja og flóa­báta sem njóta styrks samkvæmt vegalögum eru undanþegnir þessari gjaldtöku.

Hafnsögugjöld.

13. gr.

Hafnsögugjöld skulu greidd samkvæmt útlögðum kostnaði en þó að lágmarki 7,65 kr. fyrir hverja mælieiningu. Að auki greiðist 5.696 kr. fastagjald og 492 kr. í hafnsögusjóð. Leiga hafnsögubáts með skipstjóra, 8.370 kr. á klst.

Festargjöld.

14. gr.

Hver afgreiðsla á starfsmann, 6.946 kr. í dagvinnutíma og 12.502 kr. í yfirvinnutíma.

Viðlegugjöld.

15. gr.

Bátar undir 20 brt

7.062 kr.

 á mánuði

Bátar yfir 20 brt

10.894 kr.

 á mánuði

Bátar undir 20 brt fast viðlegupláss

9.029 kr.

 á mánuði

Bátar yfir 20 brt fast viðlegupláss

14.007 kr.

 á mánuði

Skip yfir 80 brt

98 kr.

 á brt á mánuði

Uppsátursgjald

2.431 kr.

 á mánuði

Veittur er 25% afsláttur fyrir frístundabáta í eigu 70 ára og eldri og 50% afsláttur fyrir báta sem liggja við einkabryggjur. Gjald fyrir báta er nýta hafnlegu skemur en 10 daga í mánuði reiknast sem hér segir: Fyrir 1-3 daga 25% af mánaðargjaldi, 4-6 daga 50% og 7-10 daga 75%. Fyrir lengri tíma en 10 daga reiknast fullt mánaðargjald.

Skútur og skemmtibátar sem koma til hafnar greiði 58 evrur fyrir hverja byrjaða viku.

Siglingavernd (ISPS-kóði).

16. gr.

Öryggisgjald, 40.569 kr. fyrir hverja skipakomu. Öryggisgæsla fyrir öryggisvörð, 4.862 kr. á klst. í dagvinnu og 8.752 kr. á klst. í yfirvinnu.

Sorpgjald.

17. gr.

Sorpgjald báta 0-20 brúttótonn, 2.205 kr. á mánuði. Sorpgjald báta 20-50 brúttótonn, 2.940 kr. á mánuði. Sorpgjald skipa yfir 50 brúttótonnum, 7.560 kr. á mánuði.

Rafmagnssala.

18. gr.

Rafmagn (landrafmagn), 11,34 kr. á kWh. Gjaldið breytist hverju sinni samkvæmt gjaldskrá Orkubús Vestfjarða. Leigugjald fyrir mæla, lausir 578 kr. á mánuði, fastir 1.154 kr. á mánuði.

Skilagjald vegna leigu rafmagnsmæla, 28.979 kr. hvert skipti. Rafmagnstengigjald, 3.622 kr. hvert skipti.

Vatnssala.

19. gr.

Vatnsgjald, 0,14 kr. á hvert kg landaðs afla hjá fiskibátum/skipum. Vatn til skemmti­ferða­skipa, 2 USD hvert tonn. Vatn til annarra skipa, 127 kr. hvert tonn. Vatn afgreitt utan reglubundins vinnutíma, hvert útkall 12.502 kr.

Vigtargjöld.

20. gr.

Almenn vigtun, 144 kr. á tonn. Lægsta gjald fyrir einstaka vigtun, 799 kr.

Vigtun ökutækja, 1.441 kr. hvert skipti. Úrtaksvigtun fyrir löndun úr frystiskipum, 133 kr. á tonn.

Við vigtun sjávarafla frá kl. 18.00 til kl. 22.00 greiðist hálft gjald eða tveggja tíma útkall, 4.861 kr. hver klst. Á öðrum tímum en að ofan greinir, skal greiða að lágmarki fjögurra tíma útkall, 4.861 kr. hver klst.

Löndunar-, skráningar- og kranagjöld.

21. gr.

Löndunar- og skráningargjöld, 228 kr. á hvert landað tonn fyrir öll skip. Leiga á krana­lykli, 3.255 kr. hvert skipti. Skráning afla í GAFL vegna fyrirtækja með endur­vigt­unar­leyfi, 1.621 kr. fyrir hverja endurvigtsskráningu eða 0,27 kr. fyrir hvert kíló.

Leigugjöld.

22. gr.

Leiga fyrir geymslusvæði, hvort sem um er að ræða gáma, veiðarfæri eða báta:

Geymslurými á malarsvæði, 85 kr. á fermetra. Geymslurými á malbikuðu svæði, 165 kr. á fermetra. Óheimilt er að geyma veiðarfæri og tilheyrandi búnað á hafnarköntum. Heimilt er hafnarvörðum að fjarlægja þannig geymdan búnað á kostnað eiganda eða beita sektum allt að 5.555 kr. á sólarhring sé óskum um að fjarlægja hann ekki sinnt.

Leiga á flotbryggju, 8.715 kr. hver klst. Húsaleiga, beitingaraðstaða 52.132 kr. á mánuði, herbergi í verbúð 12.180 kr. á mánuði.

Önnur þjónusta.

23. gr.

Hefðbundinn opnunartími hafnarvogar er frá kl. 7.00 til kl. 18.00 virka daga. Frá kl. 18.00-22.00 skal greiða að lágmarki tveggja tíma útkall, 4.861 kr. hver klst. Á öðrum tímum en að ofan greinir, skal greiða að lágmarki fjögurra tíma útkall, 4.861 kr. hver klst. Heimilt er að deila útkallsgreiðslu á skip komi fleiri en eitt inn til löndunar á sama tíma. Frá 1. júní til 15. ágúst er auk þess opið á laugardögum frá kl. 10.00-12.00 og á sunnudögum frá kl. 17.00-19.00.

Sé óskað eftir þjónustu hafnar á tímabilinu eftir kl. 22.00 til kl. 8.00 að morgni skal tilkynning um það hafa borist hafnarstarfsmanni á vakt fyrir kl. 21.00 það kvöld. Að öðrum kosti verður þjónustu ekki sinnt fyrr en eftir kl. 7.00 næsta morgun nema um neyðartilfelli sé að ræða.

Um innheimtu og greiðslu hafnargjalda.

24. gr.

Hafnarstjóri sér um innheimtu allra hafnargjalda og skal greiða gjöldin á skrifstofu hafnarinnar. Séu gjöldin ekki greidd á réttum gjalddögum er heimilt að reikna hæstu lögleyfðu dráttarvexti á skuldina. Skipstjóri og eigandi skips bera ábyrgð á greiðslu gjalda þeirra sem greiða ber til hafnarinnar vegna skipsins. Er skipstjóra skylt að afhenda hafnarstjóra þjóðernis- og skrásetningarskírteini skipsins, ef hafnarstjóri krefst þess, og hefur hafnarsjóður haldsrétt yfir skírteinunum uns gjöld eru greidd. Töf og tjón sem af þessu hlýst er einvörðungu á ábyrgð og kostnað greiðanda skipagjaldsins.

Að svo miklu leyti sem í gjaldskrá þessari eru ekki ákveðnir fastir gjalddagar á gjöldum skal greiða þau áður en skip fer burt úr höfn og enginn skipstjóri getur vænst þess að fá afgreiðslu fyrir skip sitt hjá sýslumanni eða tollstjóra, nema hann sanni með vottorði frá hafnarstjóra að hann hafi greitt öll gjöld sín til hafnarsjóðs.

Vörugjald greiðir móttakandi af vörum sem koma til hafnar og sendandi af vörum sem fluttar eru úr höfn. Ef margir eiga vörur sem fluttar eru með sama skipi skal afgreiðslu­maður skips standa hafnarsjóði skil á greiðslum. Ef skip hefur ekki farm sinn skráðan ber skipstjóri ábyrgð á greiðslu vörugjaldsins.

Ef vörur eru fluttar úr einu skipi í annað greiðir sá vörugjaldið sem affermir.

Vörugjald af vörum sem koma til hafnar fellur í gjalddaga þegar skipið sem vörurnar flytur er komið í höfnina og vörugjald af vörum sem fluttar eru úr höfn fellur í gjalddaga þegar vörurnar eru komnar á skip. Skipstjóra og afgreiðslumanni skips er óheimilt að afhenda vörurnar fyrr en gjaldið er greitt. Hafnarsjóður hefur haldsrétt á skráningar- og þjóðernisskírteinum skips til tryggingar gjaldinu. Aflagjald og vörugjald af útflutningi skal auk þess tryggt með veði í útflutningsbirgðum þess aðila er skuldar gjöldin.

25. gr.

Öll gjöld samkvæmt gjaldskrá þessari má tryggja með aðför að undangengnum dómi. Skipagjöld eru tryggð með lögveði í viðkomandi skipi eða vátryggingarfé. Gengur það veð fyrir samningsveðskuldum í tvö ár, sbr. ákvæði 2. mgr. 21. gr. hafnalaga nr. 61/2003. Höfnum Vesturbyggðar er heimilt að krefjast frekari trygginga fyrir greiðslu áfallinna gjalda ef ástæða þykir til.

Gildistaka.

26. gr.

Gjaldskrá þessi fyrir Hafnarsjóð Vesturbyggðar var samþykkt af hafnarstjórn þann 17. janúar 2014, skv. hafnalögum nr. 61/2003 og 37. gr. reglugerðar um hafnamál nr. 326/2004.

Gjaldskráin öðlast gildi við birtingu og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt fellur úr gildi gjaldskrá nr. 1263/2012 fyrir Hafnarsjóð Vesturbyggðar frá 20. desember 2012.

Vesturbyggð, 17. janúar 2014.

Ásthildur Sturludóttir hafnarstjóri.

B deild - Útgáfud.: 4. febrúar 2014