Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1050/2012

Nr. 1050/2012 14. nóvember 2012
REGLUR
um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja.

I. KAFLI

Gildissvið.

1. gr.

Gildissvið.

Ákvæði þessara reglna taka til útgefenda eftirtalinna fjármálagerninga:

 1. Fjármálagerninga sem teknir hafa verið til viðskipta eða óskað hefur verið eftir að teknir verði til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði hér á landi, á Evrópska efnahagssvæðinu eða á sambærilegum erlendum mörkuðum og fjármálagerninga sem verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF) hér á landi og
 2. fjármálagerninga sem tengdir eru einum eða fleiri fjármálagerningum samkvæmt 1. tölul.

Þá gilda reglurnar um innherja og aðila sem tengjast þeim fjárhagslega og viðskipti þeirra með fjármálagerninga samkvæmt 1. mgr.

Stjórnvöld og aðrir sem fá reglulega innherjaupplýsingar í starfsemi sinni skulu fylgja reglunum, eftir því sem við getur átt.

II. KAFLI

Staða og hlutverk regluvarðar útgefanda fjármálagerninga.

2. gr.

Ábyrgð stjórnar og staða regluvarðar.

Stjórn útgefanda fjármálagerninga ber ábyrgð á eftirliti með því að reglum þessum sé fylgt.

Regluvörður útgefanda hefur umsjón með að reglunum sé framfylgt hjá útgefandanum.

3. gr.

Ráðning og brotthvarf regluvarðar.

Stjórn skal ráða regluvörð eða staðfesta formlega ráðningu hans. Ef regluvörður er ekki ráðinn af stjórn, tekur ráðning hans gildi þegar stjórn hefur staðfest ráðningu hans. Með sama hætti skal ráða staðgengil regluvarðar. Ekki er heimilt að ráða lögaðila sem reglu­vörð.

Fjármálaeftirlitinu skal tilkynnt tafarlaust með formlegum hætti um ráðningu regluvarðar og staðgengils hans. Tilkynningunni skal fylgja afrit af þeim hluta fundargerðar stjórnar sem fjallar um ráðningu regluvarðar eða staðgengils hans.

Tilkynna skal Fjármálaeftirlitinu tafarlaust með formlegum hætti um uppsögn regluvarðar og staðgengils hans sem og ástæður þess að viðkomandi lætur af störfum.

Stjórn ber ábyrgð á að viðeigandi tilkynningar séu sendar Fjármálaeftirlitinu.

4. gr.

Hæfni regluvarðar.

Regluvörður skal búa yfir fullnægjandi þekkingu til að geta gegnt starfi regluvarðar.

Regluvörður skal hafa þekkingu á þeim lögum og reglum sem gilda um meðferð innherja­upplýsinga og viðskipti innherja. Þá skal hann hafa haldgóða þekkingu á starf­semi útgefanda og þeim starfsvettvangi sem hann starfar á. Einnig er mikilvægt að reglu­vörður hafi þekkingu á þeirri tegund fjármálagerninga sem útgefandi hefur fengið tekna til viðskipta og viðkomandi skipulögðum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármála­gerninga.

Regluvörður skal vera sjálfstæður í störfum sínum.

5. gr.

Aðgangur að upplýsingum og gögnum.

Regluvörður skal hafa ótakmarkaðan aðgang að þeim upplýsingum og gögnum sem nauð­synleg eru til að hann geti sinnt starfi sínu. Það er regluvarðar að leggja mat á hvaða upplýsingar og gögn það eru hverju sinni.

Regluverði skal greint tímanlega frá upplýsingum sem hann kann að þurfa starfs síns vegna.

6. gr.

Hlutverk regluvarðar.

Regluvörður hefur umsjón með því að reglum þessum sé framfylgt hjá útgefandanum. Í fjarveru hans hefur staðgengill regluvarðar umsjón með því.

Hlutverk regluvarðar er m.a. að:

 1. Veita álit á eðli upplýsinga, m.t.t. skilgreiningar á hugtakinu innherjaupplýsingar,
 2. veita álit á því hvort heimilt er að fresta birtingu innherjaupplýsinga,
 3. hafa yfirsýn yfir meðferð innherjaupplýsinga sem frestað hefur verið birtingu á,
 4. sinna verkefnum tengdum innherjalistum og listum yfir fjárhagslega tengda aðila,
 5. veita fruminnherjum ráðleggingar vegna rannsóknarskyldu,
 6. móttaka tilkynningar um viðskipti fruminnherja,
 7. senda tilkynningar um viðskipti fruminnherja og stjórnenda,
 8. sjá um fræðslu til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og starfsmanna,
 9. sjá um samskipti f.h. útgefanda við Fjármálaeftirlitið,
 10. hafa umsjón með samskiptaskrá,
 11. sjá um gerð og kynningu á skýrslu til stjórnar.

7. gr.

Samskiptaskrá.

Regluvörður skal skrá samskipti sem fara fram á grundvelli reglnanna í sérstaka samskiptaskrá. Samskipti skulu skráð í tímaröð og tryggt skal að ekki sé hægt að gera breytingar á skráningunni án ummerkja um breytingar og fyrri færslur. Gerð skal grein fyrir ástæðum breytinga. Samskiptin má skrá í bók með númeruðum blaðsíðum eða með skipulegum hætti á rafrænu formi. Samskiptaskrá skal varðveitt að lágmarki í sjö ár.

Telji regluvörður tilefni til skal hann skrá í samskiptaskrá þegar mat hefur farið fram á tilteknum upplýsingum og slíkt mat hefur leitt til þess að ekki var talið að um innherja­upplýsingar væri að ræða. Skal regluvörður skrá ástæðu þess ef svo var ekki talið vera. Regluvörður skal þó alltaf skrá í samskiptaskrá ef hann telur að um innherja­upplýsingar sé að ræða en framkvæmdastjóri er ekki á sama máli, sem og ástæður þess.

Þegar tekin hefur verið ákvörðun um að fresta birtingu innherjaupplýsinga vegna lög­mætra hagsmuna útgefandans, skal slíkt skráð í samskiptaskrá ásamt rökstuðningi útgef­anda fyrir frestuninni m.t.t. þeirra laga og reglna er gilda um frestun á birtingu innherja­upplýsinga.

Þá skal regluvörður halda skrá yfir samskipti sín við innherja útgefanda sem fram fara á grundvelli reglnanna. Færslur vegna innherjaviðskipta, þegar innherji sinnir rann­sóknar­skyldu og fyrri hluta tilkynningarskyldu, þ.e. tilkynning um fyrirhuguð viðskipti, skulu hafa að geyma eftirfarandi upplýsingar:

 1. Nafn innherja auk aðila sem tengist honum fjárhagslega ef við á,
 2. hvenær (dagsetning og tímasetning) innherji óskar eftir ráðleggingu regluvarðar vegna viðskipta með hluti útgefanda eða fjármálagerninga þeim tengdum,
 3. hvort regluvörður telji innherjaupplýsingar vera fyrir hendi hjá útgefanda og hvort ráðlegging regluvarðar hafi verið að mæla gegn því að aðili ætti viðskipti eða að hann gerði ekki athugasemdir við þau. Skrá skal nákvæma tímasetningu þegar regluvörður gaf ráðleggingar sínar.

Þegar innherji sinnir seinni hluta tilkynningarskyldu, þ.e. tilkynnir um viðskiptin eftir að þau hafa farið fram, ber að tilkynna um þau atriði sem talin eru upp í 21. gr. reglnanna. Færslur regluvarðar í samskiptaskrá vegna þessa skulu hafa að geyma þessar upp­lýs­ingar eða afrit af tilkynningum til Fjármálaeftirlitsins og þeirri tilkynningu sem birt var opin­ber­lega, þegar við á.

8. gr.

Skýrsla til stjórnar.

Regluverði ber að leggja fyrir stjórn útgefanda skýrslu um framkvæmd regluvörslu svo oft sem þurfa þykir, þó eigi sjaldnar en árlega.

Í skýrslu regluvarðar gefur hann stjórn annars vegar yfirlit yfir störf sín og hins vegar greinir hann frá einstökum atriðum, ef tilefni er til. Í almennu yfirliti regluvarðar yfir störf hans skal m.a. getið um:

 1. Stöðu regluvarðar hjá útgefanda,
 2. aðgang regluvarðar að upplýsingum og gögnum,
 3. ágreining sem verið hefur um mat á upplýsingum (m.t.t. innherjaupplýsinga), ef við á,
 4. upplýsingar sem birtar voru opinberlega á tímabilinu,
 5. hvort birtingu innherjaupplýsinga hafi verið frestað á tímabilinu og umfjöllun um mat regluvarðar frá frestunartíma, meðal annars m.t.t. varfærinnar meðferðar innherjaupplýsinga,
 6. mat regluvarðar á viðmiðum stjórnar um hverja skal setja á lista yfir fruminnherja og hverjir skulu teljast til stjórnenda útgefanda,
 7. hversu margir leituðu til regluvarðar vegna rannsóknarskyldu sinnar vegna fyrir­hugaðra viðskipta,
 8. hversu oft regluvörður hefur mælt gegn viðskiptum fruminnherja,
 9. hvort einhver viðskipti hafi átt sér stað án þess að rannsóknar- og/eða til­kynn­ingarskyldu hafi verið sinnt,
 10. þá fræðslu sem regluvörður hefur sinnt og á hvaða hátt hún var veitt,
 11. samskipti regluvarðar við Fjármálaeftirlitið,
 12. einstök tilvik sem upp hafa komið, ef tilefni er til,
 13. önnur atriði.

Þá getur regluvörður lagt fram skýrslu fyrir stjórn vegna einstakra álitaefna ef tilefni er til.

Í framhaldi af skýrslu regluvarðar til stjórnar um framkvæmd regluvörslu skal stjórn útgefanda sjá til þess að viðeigandi ráðstafanir séu gerðar hjá útgefanda ef þörf krefur.

Þegar regluvörður lætur af störfum, skal hann ávallt skila skýrslu til stjórnar um fram­kvæmd regluvörslu frá síðustu skýrslu fram til starfsloka.

9. gr.

Tilkynning regluvarðar um hugsanlegt brot til Fjármálaeftirlitsins.

Regluverði ber að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um hugsanleg brot gegn ákvæðum regln­anna, m.a. þegar:

 1. Regluvörður metur það sem svo að um alvarlegt brot geti verið að ræða gegn lögum og reglum um opinbera birtingu innherjaupplýsinga, sbr. III. kafla regln­anna,
 2. fruminnherji á viðskipti sem regluvörður hefur mælt gegn að hann ætti, sbr. V. kafla regln­anna.

  III. KAFLI

  Meðferð innherjaupplýsinga.

  10. gr.

  Mat á upplýsingum og birting innherjaupplýsinga.

  Starfsmönnum, framkvæmdastjóra og stjórnarmönnum ber að gera regluverði tímanlega grein fyrir upplýsingum sem hugsanlega geta talist til innherjaupplýsinga.

  Regluvörður skal veita álit á því hvort upplýsingar séu þess eðlis að þær teljist til innherja­upplýsinga. Greini framkvæmdastjóra og regluvörð á um mat á upplýsingum skal regluvörður skrá það í samskiptaskrá og greina frá því í skýrslu til stjórnar. Ef stjórn útgefanda fellst ekki á afstöðu regluvarðar og regluvörður metur það sem svo að um alvarlegt brot gegn lögum og reglum geti verið að ræða skal hann gera Fjármálaeftirlitinu viðvart.

  Innan fyrirtækis skal vera til staðar skilgreint verklag varðandi meðferð upplýsinga.

  Birta skal allar innherjaupplýsingar eins fljótt og auðið er og eftir þeim aðferðum sem fjallað er um í lögum og reglum.

  11. gr.

  Lögmæt frestun birtingar innherjaupplýsinga.

  Regluvörður skal veita álit á því hvort upplýsingar séu þess eðlis að hægt sé að nýta heimild útgefanda samkvæmt lögum og reglum til að fresta birtingu innherjaupplýsinga. Greini framkvæmdastjóra og regluvörð á um mat á skilyrðum lögmætrar frestunar á birtingu innherjaupplýsinga skal regluvörður skrá slíkt í samskiptaskrá og greina frá því í skýrslu til stjórnar. Ef stjórn útgefanda fellst ekki á afstöðu regluvarðar og hann metur það sem svo að um alvarlegt brot gegn lögum og reglum geti verið að ræða skal hann gera Fjármálaeftirlitinu viðvart.

  Útgefandi frestar birtingu innherjaupplýsinga á eigin ábyrgð.

  Ákvörðun um frestun birtingar innherjaupplýsinga ber að skrá í samskiptaskrá, sbr. 7. gr. reglnanna, ásamt rökstuðningi fyrir frestuninni.

  12. gr.

  Varfærin meðferð innherjaupplýsinga.

  Nýti útgefandi heimild til frestunar á birtingu innherjaupplýsinga ber honum að tryggja varfærna meðferð þeirra. Útgefanda ber að takmarka aðgang að innherjaupplýsingum við þá aðila sem þurfa á þeim að halda til að geta sinnt starfi sínu fyrir útgefanda og gera ráðstafanir til að hindra að óviðkomandi aðilar geti kynnt sér efni þeirra eða áttað sig á um hvers konar upplýsingar er að ræða.

  Regluvörður skal hafa yfirsýn yfir það hvaða aðilar búa yfir innherjaupplýsingum á hverjum tíma. Aðili sem hefur umsjón með verkefni sem felur í sér innherjaupplýsingar ber ábyrgð á varfærinni meðferð þeirra. Regluverði skal tilkynnt um það hafi innherja­upplýsingum verið miðlað áfram. Regluverði og/eða umsjónaraðila með viðkom­andi verkefni ber að upplýsa viðtakanda innherjaupplýsinga um hvers konar upplýs­ingar ræðir, þann trúnað sem ríkir um upplýsingarnar, þá ábyrgð sem fylgir því að búa yfir innherja­upplýsingum og þau viðurlög sem liggja við misnotkun eða dreifingu slíkra upplýs­inga.

  Regluvörður skal sjá til þess að innherjalistar séu uppfærðir og senda tilkynningar til Fjármálaeftirlitsins, samhliða miðlun innherjaupplýsinga og sendingu upplýsinga til inn­herja um réttarstöðu þeirra, sbr. 17. gr. þessara reglna.

  Útgefanda ber að gera ráðstafanir til að tryggja tafarlausa birtingu innherjaupplýsinga, komi í ljós að ekki sé unnt að tryggja trúnað um upplýsingarnar.

  IV. KAFLI

  Innherjalistar.

  13. gr.

  Gerð innherjalista og viðmið stjórnar útgefanda.

  Útgefandi skal senda Fjármálaeftirlitinu upplýsingar um fruminnherja, tímabundna inn­herja og aðila sem tengjast þeim fjárhagslega. Regluvörður útgefanda skal sjá um að setja saman, breyta, viðhalda og senda innherjalista og lista yfir fjárhagslega tengda aðila til Fjármálaeftirlitsins fyrir hönd útgefanda.

  Stjórn fyrirtækis skal setja viðmið um hverja skuli setja á lista yfir fruminnherja. Þá skal stjórn einnig setja viðmið um hvaða fruminnherjar skuli teljast til stjórnenda útgefanda vegna birtingar upplýsinga um viðskipti stjórnenda.

  Regluvörður skal styðjast við viðeigandi lög og reglur sem og viðmið stjórnar við mat á því hvaða einstaklingar teljast til fruminnherja og færðir skulu á innherjalista og hvaða fruminnherjar teljast stjórnendur.

  14. gr.

  Listi yfir fruminnherja.

  Á lista yfir fruminnherja ber útgefanda að skrá alla þá sem falla undir skilgreiningu á hug­takinu fruminnherji og þau viðmið sem stjórn útgefanda hefur sett. Á lista yfir frum­innherja skal tilgreina:

  1. Heiti og kennitölu útgefanda (hafi útgefandi ekki íslenska kennitölu skal skrá sam­bæri­legt auðkenni útgefanda),
  2. heimilisfang, póstnúmer, stað, land og símanúmer útgefanda,
  3. dagsetningu þegar viðkomandi fruminnherjalisti er sendur til Fjármálaeftirlitsins,
  4. nafn, kennitölu og netfang regluvarðar og staðgengils hans (hafi regluvörður ekki íslenska kennitölu skal skrá númer vegabréfs),
  5. skipulegan verðbréfamarkað þar sem fjármálagerningar útgefanda hafa verið teknir til viðskipta eða þar sem óskað hefur verið eftir að þeir yrðu teknir til við­skipta eða markaðstorg fjármálagerninga (MTF) þar sem verslað er með við­komandi fjármálagerninga,
  6. dagsetningu þegar viðkomandi öðlast stöðu fruminnherja,
  7. kennitölu, nafn, heimilisfang og póstnúmer fruminnherja (hafi fruminnherji ekki íslenska kennitölu skal skrá númer vegabréfs),
  8. tengsl fruminnherja við útgefanda.

   15. gr.

   Listi yfir tímabundna innherja.

   Á lista yfir tímabundna innherja ber útgefanda að skrá alla þá sem falla undir skil­grein­ingu á hugtakinu tímabundinn innherji. Á lista yfir tímabundna innherja skal tilgreina:

   1. Heiti og kennitölu útgefanda (hafi útgefandi ekki íslenska kennitölu skal skrá sambæri­legt auðkenni útgefanda),
   2. heimilisfang, póstnúmer, stað, land og símanúmer útgefanda,
   3. dagsetningu þegar viðkomandi listi yfir tímabundna innherja er sendur til Fjár­mála­eftirlitsins,
   4. auðkenningu verkefnis,
   5. nafn, kennitölu og netfang regluvarðar og staðgengils hans (hafi regluvörður ekki íslenska kennitölu skal skrá númer vegabréfs),
   6. skipulegan verðbréfamarkað þar sem fjármálagerningar útgefanda hafa verið teknir til viðskipta eða þar sem óskað hefur verið eftir að þeir yrðu teknir til við­skipta eða markaðstorg fjármálagerninga (MTF) þar sem verslað er með viðkomandi fjármálagerninga,
   7. dagsetningu þegar viðkomandi öðlast stöðu tímabundins innherja,
   8. kennitölu, nafn, heimilisfang og póstnúmer tímabundins innherja (hafi innherji ekki íslenska kennitölu skal skrá númer vegabréfs),
   9. tengsl tímabundins innherja við útgefanda.

   Útgefanda ber að senda Fjármálaeftirlitinu lista þegar innherjaupplýsingar eru fyrir hendi og aðilar sem ekki eru á fruminnherjalista hafa fengið aðgang að upplýsingunum. Ef innherjaupplýsingar eru fyrir hendi um fleiri en einn atburð eða kringumstæður er varða útgefanda ber að senda einn lista yfir tímabundna innherja fyrir hvern atburð og/eða kringumstæður.

   Þegar innherjaupplýsingar liggja ekki lengur fyrir skal Fjármálaeftirlitinu sendur listi yfir brottfall tímabundinna innherja. Á þeim lista skal tilgreina sömu upplýsingar og tilgreindar eru í 1. mgr.

   16. gr.

   Listar yfir fjárhagslega tengda aðila.

   Á lista yfir fjárhagslega tengda aðila ber að setja þá sem teljast fjárhagslega tengdir innherjum, þ.e. bæði fruminnherjum og tímabundnum innherjum. Eftirtaldir aðilar skulu teljast fjárhagslega tengdir innherjum:

   1. Maki og sambúðarmaki,
   2. ófjárráða börn, kjörbörn og stjúpbörn á heimili innherja,
   3. önnur skyldmenni sem búa á heimili með innherja og hafa búið á heimili með innherja í a.m.k. eitt ár þegar viðskipti eiga sér stað,
   4. lögaðili:

     a)

   sem lýtur framkvæmdastjórn innherja eða aðila sem talinn er upp í lið 1, 2 og 3 hér að framan,

     b)

   sem er stjórnað með beinum eða óbeinum hætti af innherja eða aðila sem er talinn upp í lið 1, 2 og 3 hér að framan,

     c)

   annar en í lið a eða b ef fjárhagslegir hagsmunir hans eru samtvinnaðir hagsmunum innherja eða aðila sem talinn er upp í lið 1, 2 eða 3 hér að framan.

   Á lista yfir fjárhagslega tengda aðila skal tilgreina:

   1. Heiti og kennitölu útgefanda (hafi útgefandi ekki íslenska kennitölu skal skrá sambærilegt auðkenni útgefanda),
   2. heimilisfang, póstnúmer, stað, land og símanúmer útgefanda,
   3. dagsetningu þegar viðkomandi listi yfir fjárhagslega tengda aðila er sendur til Fjármálaeftirlitsins,
   4. auðkenni verkefnis (á lista yfir aðila fjárhagslega tengda tímabundnum inn­herjum),
   5. nafn, kennitölu og netfang regluvarðar og staðgengils hans (hafi regluvörður ekki íslenska kennitölu skal skrá númer vegabréfs),
   6. skipulegan verðbréfamarkað þar sem fjármálagerningar útgefanda hafa verið teknir til við­skipta eða þar sem óskað hefur verið eftir að þeir yrðu teknir til við­skipta eða markaðstorg fjármálagerninga (MTF) þar sem verslað er með viðkomandi fjármálagerninga,
   7. dagsetningu hvenær viðkomandi öðlast stöðu fjárhagslega tengds aðila,
   8. kennitölu, nafn, heimil og póstnúmer fjárhagslega tengds aðila (hafi hann ekki íslenska kennitölu skal skrá númer vegabréfs),
   9. kennitölu innherja sem hinn fjárhagslega tengdi aðili er tengdur (hafi innherji ekki íslenska kennitölu skal skrá númer vegabréfs),
   10. tengsl fjárhagslega tengds aðila við innherja.

   Regluvörður skal a.m.k. á sex mánaða fresti minna innherja á að yfirfara hvort breyting hafi orðið á fjárhagslega tengdum aðilum og skyldu þeirra til að tilkynna útgefanda um slíkar breytingar.

   17. gr.

   Tilkynning til innherja, eyðublað um fjárhagslega tengda aðila og yfirlýsing.

   Regluvörður skal senda þeim sem hann setur á lista yfir fruminnherja og tímabundna innherja skriflega tilkynningu um réttarstöðu þeirra sem innherja. Í tilkynningunni ber að greina viðkomandi frá þeim réttarreglum sem gilda um innherja, meðferð innherja­upplýsinga og viðskipti innherja sem og eintak af reglum þessum eða upplýsingar um hvar þær er að finna. Þá skal viðkomandi einnig kynnt laga- og reglugerðarákvæði sem gilda um innherjasvik.

   Fruminnherjum skal kynna sérstaklega þær reglur sem þeir og aðilar þeim fjárhagslega tengdir þurfa að gæta að er þeir eiga viðskipti með fjármálagerninga útgefanda. Tíma­bundnum innherjum skal sérstaklega bent á að þeim er með öllu óheimilt að eiga viðskipti með fjármálagerninga útgefanda á meðan þeir búa yfir innherjaupplýsingum og að hið sama eigi við um aðila fjárhagslega tengda tímabundnum innherjum.

   Með tilkynningu um réttarstöðu innherja skal senda innherja til útfyllingar eyðublað um fjárhagslega tengda aðila. Einnig skal senda innherja til undirritunar yfirlýsingu um að hann og fjárhagslega tengdir aðilar hafi kynnt sér tilkynningu um réttarstöðu innherja og þær reglur sem um viðskipti þeirra gilda. Hvort tveggja ber innherja að senda útgefanda án tafar. Útgefandi skal geyma undirritaða yfirlýsingu á meðan innherjalisti er í gildi og í sjö ár eftir að að hann fellur úr gildi.

   Innherja skal tilkynnt með skriflegum hætti þegar hann hefur verið tekinn af innherja­lista.

   Það er hlutverk regluvarðar að útbúa og senda tilkynningar um réttarstöðu innherja ásamt fylgigögnum og tilkynningu um brottfall af slíkum lista. Einnig er það regluvarðar að sjá til þess að viðeigandi gögn frá innherja séu varðveitt.

   18. gr.

   Sending innherjalista til Fjármálaeftirlitsins, tímamörk og varðveisla innherjalista.

   Lista yfir innherja skal senda Fjármálaeftirlitinu þegar í stað þegar óskað hefur verið eftir að fjármálagerningur útgefanda verði tekinn til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða viðskipti eru hafin með hann á markaðstorgi fjármálagerninga. Lista yfir aðila fjárhagslega tengda innherjum skal skila samhliða listum yfir fruminnherja og tíma­bundna innherja.

   Allar breytingar á upplýsingum um innherja, þ.m.t. fjárhagslega tengda aðila, ber að senda Fjármálaeftirlitinu þegar í stað.

   Verði engar breytingar á listum ber engu að síður að senda Fjármálaeftirlitinu endur­skoðaða innherjalista eigi sjaldnar en á sex mánaða fresti.

   Innherjalistum og listum yfir fjárhagslega tengda aðila ber að skila með rafrænum hætti í gegnum skýrsluskilakerfi Fjármálaeftirlitsins. Eyðublöð fyrir innherjalista og lista yfir fjárhagslega tengda aðila er að finna í skýrsluskilakerfinu.

   Útgefandi skal varðveita alla innherjalista sem sendir hafa verið Fjármálaeftirlitinu í sjö ár frá dagsetningu þeirra.

   V. KAFLI

   Viðskipti innherja.

   19. gr.

   Rannsóknarskylda fruminnherja.

   Á fruminnherja hvílir rannsóknarskylda, þ.e. sú sjálfstæða skylda hans að ganga úr skugga um að ekki liggi fyrir innherjaupplýsingar áður en hann á viðskipti með fjármála­gerninga útgefanda. Sama gildir um fyrirhuguð viðskipti með fjármálagerninga sem tengdir eru fjármálagerningum útgefanda og fyrirhuguð viðskipti aðila sem eru fjárhags­lega tengdir fruminnherjum.

   Fruminnherji skal meta sjálfur hvort hann býr yfir innherjaupplýsingum og ef hann telur vafa leika á því skal hann leita til næsta yfirmanns eða regluvarðar ef yfirmaður er ekki til staðar. Þá skal fruminnherji ráðfæra sig við regluvörð um fyrirhuguð viðskipti ef fruminnherji metur það sem svo að hann búi ekki sjálfur yfir innherjaupplýsingum.

   Regluvörður skal svara til um hvort hann telur að til staðar séu innherjaupplýsingar hjá útgefanda og ráðleggja fruminnherja um fyrirhuguð viðskipti. Með því aðstoðar regluvörður fruminnherja við að uppfylla rannsóknarskyldu sína.

   Séu innherjaupplýsingar til staðar skal ráðlegging regluvarðar um fyrirhuguð viðskipti vera að mæla gegn því að fruminnherji eða aðilar honum fjárhagslega tengdir eigi viðskipti. Þá skal regluvörður benda fruminnherja á að ætli hann sér að eiga slík viðskipti engu að síður þá skuli hann tilkynna regluverði um þau og að regluverði sé skylt að tilkynna um slík viðskipti til Fjármálaeftirlitsins.

   Fruminnherji skal sinna rannsóknarskyldu þann dag sem viðskipti eru fyrirhuguð. Eigi viðskipti sér ekki stað þann dag skal fruminnherji hefja rannsókn sína að nýju.

   Fruminnherji skal geta sýnt fram á með skriflegum hætti að hann hafi sinnt rann­sóknar­skyldu sinni áður en hann átti viðskipti með fjármálagerning útgefanda.

   Þegar regluvörður eða aðilar honum fjárhagslega tengdir hyggjast eiga viðskipti skal hann leita til framkvæmdastjóra útgefanda til að sinna tilkynningar- og rannsóknarskyldu sinni. Í þeim tilvikum skal framkvæmdastjóri sjá um að senda tilkynningar og annað slíkt sem regluvörður hefði annars gert samkvæmt lögum og reglum.

   20. gr.

   Tilkynningarskylda fruminnherja.

   Fruminnherji skal tilkynna regluverði skriflega áður en hann eða aðilar honum fjár­hags­lega tengdir eiga viðskipti með fjármálagerning útgefandans eða fjármála­gerninga sem honum tengjast. Hafi fruminnherji sinnt rannsóknarskyldu sinni skriflega og regluvörður ekki mælt gegn viðskiptum fruminnherja telst fruminnherji hafa sinnt þessum hluta tilkynningarskyldu sinnar.

   Eftir að viðskipti hafa átt sér stað skal fruminnherji tilkynna regluverði tafarlaust með skriflegum hætti að hann eða aðili fjárhagslega tengdur honum hafi átt tilkynningarskyld viðskipti. Í tilkynningu fruminnherja skal hann einnig upplýsa regluvörð um þau atriði sem nauðsynlegt er að komi fram samkvæmt 21. gr. reglnanna, til að senda megi tilkynningu um viðskiptin og eftir atvikum birta upplýsingar um viðskipti stjórnenda.

   Regluvörður skal tilkynna um viðskiptin samdægurs til Fjármálaeftirlitsins fyrir hönd útgefanda.

   Komi ekki fram fullnægjandi upplýsingar í tilkynningu fruminnherja skal regluvörður tafar­laust krefjast þess að fruminnherji bæti úr vanköntum á tilkynningunni. Verði innherji ekki við úrbótakröfu regluvarðar innan þess dags sem hún er sett fram skal reglu­vörður upplýsa Fjármálaeftirlitið um að borist hafi ófullnægjandi tilkynning með þeim upp­lýs­ingum sem liggja fyrir á þeim tíma.

   Regluvörður skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um viðskipti sem fruminnherji hefur átt gegn ráðleggingu regluvarðar.

   21. gr.

   Tilkynning til Fjármálaeftirlitsins.

   Útgefandi skal samdægurs senda tilkynningu um viðskipti innherja og fjárhagslega tengdra aðila til Fjármálaeftirlitsins.

   Í tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins skulu eftirtalin atriði tilgreind:

   1. Nafn útgefanda,
   2. dagsetning tilkynningar,
   3. nafn fruminnherja, eða fjárhagslega tengds aðila ef við á,
   4. tengsl fruminnherja við útgefanda,
   5. dagsetning viðskipta og hvenær dagsins þau fóru fram,
   6. tegund fjármálagernings,
   7. hvort um var að ræða kaup eða sölu,
   8. nafnverð og gengi í viðskiptum,
   9. nafnverð hlutar fruminnherja annars vegar og fjárhagslega tengdra aðila hins vegar eftir viðskipti,
   10. dagsetningu lokauppgjörs viðskiptanna, ef við á og
   11. frekari upplýsingar, ef við á.

   22. gr.

   Opinber birting upplýsinga um viðskipti.

   Útgefanda ber þegar í stað og á jafnræðisgrundvelli, að birta almenningi á Evrópska efna­hags­svæðinu upplýsingar um viðskipti stjórnenda útgefanda með hluti í útgef­and­anum, og aðra fjármálagerninga tengda þeim, enda nemi markaðsvirði við­skipt­anna a.m.k. 500.000 kr. eða samanlögð eignabreyting viðkomandi stjórnanda á hlutum í útgefandanum á næstliðnum fjórum vikum nemi a.m.k. 1.000.000 kr. Samhliða opinberri birtingu skal útgefandi senda upplýsingarnar til Fjármálaeftirlitsins.

   Regluvörður skal fyrir hönd útgefanda taka saman og birta upplýsingar um viðskipti stjórnenda ásamt því að senda samhliða tilkynningu þess efnis til Fjármálaeftirlitsins.

   VI. KAFLI

   23. gr.

   Fræðsla um lög og reglur um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja.

   Stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og starfsmenn útgefanda skulu hafa þekkingu og aðgang að þeim lögum og reglum er gilda um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja.

   Regluvörður skal sjá um fræðslu um lög og reglur er gilda um meðferð innherja­­upplýs­inga og viðskipti innherja. Regluvörður skal sérstaklega fræða frum­innherja útgefanda um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti fruminnherja, annars­vegar þegar við­kom­andi aðilar fara á lista yfir fruminnherja og síðan reglulega þar á eftir. Þá skal reglu­vörður meta hvaða starfsmenn, aðrir en fruminnherjar, skulu fá fræðslu um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja m.t.t. meðferðar innherja­upplýsinga hjá útgefanda og hugsanlegrar stöðu þeirra síðar sem tímabundnir innherjar.

   VII. KAFLI

   Gildistaka.

   24. gr.

   Gildistaka o.fl.

   Reglur þessar eru settar á grundvelli 132. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og taka gildi einum mánuði eftir útgáfu þeirra. Jafnframt falla úr gildi reglur Fjármála­eftirlitsins nr. 987/2006 um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja.

   Fjármálaeftirlitinu, 14. nóvember 2012.

   Unnur Gunnarsdóttir.

   Halldóra E. Ólafsdóttir.

   B deild - Útgáfud.: 7. desember 2012