Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 917/2009

Nr. 917/2009 21. október 2009
REGLUR
um gjaldeyrisskiptastöðvar og peninga- og verðmætasendingarþjónustu.

I. KAFLI

Gildissvið.

1. gr.

Reglur þessar gilda um eftirtalda aðila:

  1. Gjaldeyrisskiptastöðvar, sbr. 7. tl. 3. gr. laga nr. 64/2006 um aðgerðir gegn peninga­þvætti og fjármögnun hryðjuverka.
  2. Peninga- og verðmætasendingarþjónustu, sbr. 8. tl. 3. gr. laga nr. 64/2006.

II. KAFLI

Skráning.

2. gr.

Skráningarskyldir aðilar.

Einstaklingar og lögaðilar sem starfrækja gjaldeyrisskiptastöð eða peninga- og verð­mæta­sendingar­þjónustu eru skráningarskyldir hjá Fjármálaeftirlitinu, sbr. 1. mgr. 25. gr. a. laga nr. 64/2006.

Undanþegin skráningarskyldu eru fjármálafyrirtæki samkvæmt skilgreiningu 1. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 2. mgr. 25. gr. a. laga nr. 64/2006.

3. gr.

Umsókn um skráningu.

Umsókn um skráningu gjaldeyrisskiptastöðvar og/eða peninga- og verð­mæta­sendingar­þjónustu skal vera skrifleg.

Umsókn skulu fylgja eftirfarandi gögn því til staðfestingar að skráningarskyldur aðili, stjórnendur skráningarskylds aðila og raunverulegir eigendur skráningarskylds aðila uppfylli skilyrði skráningar:

  1. Umboð til handa Fjármálaeftirlitinu til þess að afla sérstaks sakavottorðs sem kveður á um að skráningarskyldur aðili, stjórnendur skráningarskylds aðila og raun­veru­legir eigendur skráningarskylds aðila hafi ekki hlotið dóm fyrir refsi­verðan verknað skv. almennum hegningarlögum, lögum um aðgerðir gegn peninga­þvætti og fjármögnun hryðjuverka, löggjöf um hlutafélög, einkahlutafélög, bók­hald, ársreikninga, gjaldþrot, opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
    Séu skráningarskyldur aðili, stjórnendur skráningarskylds aðila eða raunverulegir eigendur skráningarskylds aðila frá öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins fer Fjármálaeftirlitið fram á sambærilegt sakavottorð samkvæmt lögum og reglum þess ríkis.
  2. Staðfesting héraðsdóms í umdæmi skráningarskylds aðila, stjórnenda skráningar­skylds aðila og raunverulegra eigenda skráningarskylds aðila, þess efnis að viðkomandi hafi undanfarin fimm ár ekki verið úrskurðaður gjaldþrota.
    Séu skráningarskyldur aðili, stjórnendur skráningarskylds aðila eða raunverulegir eigendur skráningarskylds aðila frá öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins fer Fjármálaeftirlitið fram á forræðisvottorð samkvæmt lögum og reglum þess ríkis.

Auk þess skulu fylgja umsókn um skráningu eftirtalin gögn:

  1. spurningalisti Fjármálaeftirlitsins um hæfi stjórnenda og raunverulegra eigenda skráningar­skylds aðila,
  2. náms- og starfsferilsyfirlit stjórnenda og raunverulegra eigenda skráningarskylds aðila,
  3. upplýsingar um stofnendur, raunverulega eigendur og hlut hvers og eins, stjórnar­menn, stjórnanda og aðra stjórnendur ef það á við,
  4. upplýsingar um starfsstöðvar skráningarskylds aðila, m.a. upplýsingar um heimils­föng, símanúmer, bréfsíma og tölvupóstföng,
  5. stutt lýsing á starfsemi skráningarskylds aðila, tilgangi hennar, hliðarstarfsemi, fjölda starfsmanna og skipurit fyrir starfsemina,
  6. ef skráningarskyldur aðili er frá öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er óskað staðfestingar frá þeim aðila sem hefur eftirlit með aðgerðum gegn peninga­þvætti og fjármögnun hryðjuverka hjá viðkomandi aðila. Í staðfestingunni skal koma fram að aðilinn sé undir eftirliti, hvernig því sé háttað og hvort hann uppfylli þær kröfur sem eftirlitsaðili gerir til starfseminnar,
  7. aðrar upplýsingar sem skráningarskyldur aðili telur nauðsynlegt að komi fram um viðkomandi starfsemi og í tengslum við ósk um skráningu.

Fjármálaeftirlitið áskilur sér rétt til að óska frekari gagna telji eftirlitið ástæðu til.

4. gr.

Skrá Fjármálaeftirlitsins.

Fjármálaeftirlitið skal halda skrá yfir gjaldeyrisskiptastöðvar og peninga- og verð­mæta­sendingar­þjónustu.

Skrá Fjármálaeftirlitsins skal innihalda upplýsingar um eftirfarandi eftir því sem við getur átt:

  1. Heiti starfseminnar, heimilisfang, kennitölu og félagsform.
  2. Tegund starfseminnar, starfssvið, tilgang og hliðarstarfsemi hennar.
  3. Starfsstöðvar skráningarskylds aðila.
  4. Framkvæmdastjóra eða stjórnanda starfseminnar.
  5. Upplýsingar um raunverulega eigendur og eignarhlut þeirra í hinum skráningar­skylda aðila.
  6. Dagsetning skráningar.
  7. Dagsetning afskráningar.

Tilkynna ber Fjármálaeftirlitinu fyrirfram um breytingar á áður tilkynntum upplýsingum, þar á meðal breytingar á upplýsingum um skráningarskyldan aðila, stjórnendur hans, raun­veru­lega eigendur og eignarhlut þeirra og fjölda starfsstöðva. Uppfylli skráningar­skyldur aðili ekki lengur skilyrði fyrir skráningu skal það tilkynnt Fjár­mála­eftirlitinu þegar í stað.

Telji Fjármálaeftirlitið að upplýsingar í skránni séu rangar, getur það krafist frekari skýringa frá skráningarskyldum aðila, staðreynt upplýsingarnar og aflað nýrra upp­lýsinga.

5. gr.

Tilkynning Fjármálaeftirlitsins um skráningu.

Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um skráningu skal tilkynnt skráningarskyldum aðila skrif­lega svo fljótt sem unnt er, eigi síðar en þremur mánuðum, eftir að fullbúin umsókn um skráningu barst Fjármálaeftirlitinu.

Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynningu um skráningu í Lögbirtingablaði.

6. gr.

Synjun um skráningu.

Fullnægi umsókn um skráningu ekki skilyrðum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 64/2006 og reglum þessum skal Fjármálaeftirlitið synja um skráningu.

Synjun um skráningu skal vera skrifleg og tilkynnt skráningarskyldum aðila svo fljótt sem unnt er, eigi síðar en þremur mánuðum, eftir að fullbúin umsókn um skráningu barst Fjármálaeftirlitinu.

7. gr.

Afskráning.

Uppfylli skráningarskyldur aðili ekki lengur skilyrði skráningar skal Fjármálaeftirlitið fella aðila af skrá. Hinum skráningarskylda aðila er þá ekki heimilt að stunda þá starfsemi sem getið er um í 7. og 8. tl. 3. gr. laga nr. 64/2006.

Fjármálaeftirlitið getur einnig fellt skráningarskyldan aðila af skrá brjóti hann gegn ákvæðum laga nr. 64/2006 og reglugerðum og reglum settum samkvæmt þeim.

III. KAFLI

Starfsemi gjaldeyrisskiptastöðvar og peninga- og verðmætasendingarþjónustu.

8. gr.

Starfsemi gjaldeyrisskiptastöðvar.

Fjármunir sem fara um gjaldeyrisskiptastöð skulu varðveittir á öruggan hátt.

Ef gjaldeyrisskiptastöð er hliðarstarfsemi frá almennri starfsemi skráningarskylds aðila skal starfsemi gjaldeyrisskiptistöðvar vera sérstaklega afmörkuð á starfsstöð og fjár­hags­lega aðgreind frá annarri starfsemi skráningarskylds aðila.

Á gjaldeyrisskiptastöð skulu liggja frammi upplýsingar um gengi og kostnað af þjón­ust­unni og við gjaldeyrisskiptin skulu gefnar út kaup- og sölunótur til viðskipta­manna.

Gjaldeyrisskiptastöðvar skulu halda skrá yfir gjaldeyrisviðskipti og hafa þær aðgengi­legar fyrir Fjármálaeftirlitið.

9. gr.

Starfsemi peninga- og verðmætasendingarþjónustu.

Fjármunir sem fara um peninga- og verðmætasendingarþjónustu skulu varðveittir á öruggan hátt.

Ef peninga- og verðmætasendingarþjónusta er hliðarstarfsemi frá almennri starfsemi skráningar­skylds aðila skal starfsemi þjónustunnar vera sérstaklega afmörkuð á starfs­stöð og fjárhagslega aðgreind frá annarri starfsemi skráningarskylds aðila.

Á starfsstöð skulu liggja frammi upplýsingar um kostnað af þjónustunni.

Fjármunir sem fara í gegnum peninga- og verðmætasendingarþjónustu skulu vera rekjanlegir þannig að hægt sé að bera kennsl á sendanda og móttakanda þjónustunnar, sbr. reglugerð nr. 386/2009. Upplýsingarnar verður að varðveita og aðgengi Fjármála­eftirlitsins að upplýsingunum verður að vera tryggt.

Peninga- og verðmætasendingarþjónusta skal viðhalda uppfærðum lista yfir viðskipta­menn sína og gera hann aðgengilegan Fjármálaeftirlitinu.

IV. KAFLI

Eftirlit og viðurlög.

10. gr.

Eftirlit og upplýsingagjöf.

Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með því að aðilar sem falla undir reglur þessar fari að ákvæðum laga nr. 64/2006 og reglugerðum og reglum settum samkvæmt þeim. Í því skyni skal Fjármálaeftirlitið hafa aðgang að öllum nauðsynlegum upplýsingum og gögnum. Aðilum sem falla undir reglur þessar er einnig skylt að veita Seðlabanka Íslands allar þær upplýsingar um gjaldeyrisviðskipti sem hann kann að óska eftir til að að hann geti sinnt nauðsynlegu eftirliti og hagskýrslugerð, sbr. 14. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál.

Um eftirlitið fer samkvæmt lögum nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og þeim sérlögum sem um starfsemi skráningarskyldra aðila gilda.

11. gr.

Viðurlög.

Ef skráningarskyldur aðili samkvæmt lögum nr. 64/2006 brýtur gegn þeim lögum, reglugerðum eða reglum settum á grundvelli þeirra getur Fjármálaeftirlitið beitt viður­lögum og öðrum úrræðum sem lög nr. 64/2006 og lög nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi kveða á um.

V. KAFLI

Gildistaka.

12. gr.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 3. mgr. 25. gr. a. laga nr. 64/2006 og taka gildi þegar í stað.

Fjármálaeftirlitinu, 21. október 2009.

Gunnar Þ. Andersen.

Ragnar Hafliðason.

B deild - Útgáfud.: 16. nóvember 2009