Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1155/2011

Nr. 1155/2011 21. nóvember 2011
REGLUR
um styrki til samgönguleiða.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglna þessara er að stuðla að bættum samgöngum.

2. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um styrki til samgönguleiða sem ekki falla undir skilgreiningar vega samkvæmt vegalögum.

3. gr.

Samgönguleiðir sem heimilt er að styrkja.

Heimilt er að veita styrki til eftirfarandi samgönguleiða:

  1. vega yfir fjöll og heiðar sem ekki teljast þjóðvegir;
  2. vega að bryggjum;
  3. vega að flugvöllum og lendingarstöðum sem ekki eru áætlunarflugvellir, en taldir eru upp í samgönguáætlun;
  4. vega að skíðasvæðum;
  5. vega að skipbrotsmannaskýlum;
  6. vega að fjallskilaréttum;
  7. vega að leitarmannaskálum;
  8. vega að fjallaskálum;
  9. vega innan uppgræðslu- og skógræktarsvæða;
  10. vega að ferðamannastöðum.

4. gr.

Umsóknir um styrki.

Vegagerðin auglýsir árlega eftir umsóknum um styrki til samgönguleiða samkvæmt reglum þessum. Umsókn um styrk skal senda til starfsstöðvar Vegagerðarinnar á því svæði þar sem viðkomandi framkvæmd er fyrirhuguð.

Umsækjandi skal leggja fram greinargóða lýsingu á fyrirhugaðri framkvæmd sem felur m.a. í sér upplýsingar um staðsetningu og notkun vegar, áætlaðan kostnað og aðra fjármögnun verksins.

Vegagerðin gerir tillögu um afgreiðslu styrkveitinga til ráðherra.

5. gr.

Skilyrði fyrir veitingu styrkja.

Umsækjandi hverju sinni skal vera veghaldari samgönguleiðar sem nýtur styrks samkvæmt reglum þessum. Er honum skylt að sjá um merkingar vegar og aðra þá þætti er falla undir veghald, sbr. ákvæði vegalaga.

Samgönguleiðir sem njóta styrkja samkvæmt þessum reglum skulu opnar allri almennri umferð.

6. gr.

Afgreiðsla styrkja.

Vegagerðin greiðir út styrki á grundvelli umsókna sem fullnægja skilyrðum reglna þessara og fengið hafa samþykki ráðherra.

Styrkur skal eigi afgreiddur fyrr en framkvæmd hefur verið tekin út án athugasemda og framkvæmdaleyfi frá viðkomandi sveitarfélagi liggur fyrir ef þess gerist þörf.

7. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar sem settar eru samkvæmt 5. mgr. 25. gr. og 58. gr. vegalaga nr. 80/2007, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 21. nóvember 2011.

Ögmundur Jónasson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

B deild - Útgáfud.: 20. desember 2011