Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 156/2010

Nr. 156/2010 27. desember 2010
LÖG
um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, og lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með síðari breytingum (kerfisbreyting í skattlagningu ökutækja).

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.,
með síðari breytingum.
1. gr.
    3. gr. laganna orðast svo:
    Á fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki, sem ekki eru sérstaklega tilgreind í 4. og 5. gr., skal lagt vörugjald samkvæmt aðalflokki í eftirfarandi gjaldbilum miðað við skráða losun koltvísýrings (CO2) viðkomandi ökutækis, mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra:
Gjald í %
Gjaldbil Skráð losun CO2 Aðalflokkur Undanþáguflokkur
skv. 5. gr.
A 0–80       0       0           
B 81–100       10        0           
C 101–120       15        0           
D 121–140       20        0           
E 141–160       25        5           
F 161–180       35        10           
G 181–200       45        15           
H 201–225       55        20           
I 226–250       60        25           
J yfir 250       65        30           
    Ef ökutæki er framleitt og skráð með metan sem aðalorkugjafa skal vörugjald ökutækisins að hámarki vera 1.250.000 kr. lægra en útreikningur skv. 1. mgr. segir til um. Lækkun samkvæmt þessum lið skal jafnframt eiga við um ökutæki sem tilgreind eru í g- og h-lið 2. tölul. 4. gr.
    Lækkun á vörugjaldi sem gjaldanda hlotnast samkvæmt undanþáguflokki 1. mgr. getur aldrei numið hærri fjárhæð en 1.250.000 kr.

2. gr.
    4. gr. laganna orðast svo:
    Vörugjald samkvæmt lögum þessum skal vera sem hér segir:
    1.    Ökutæki undanþegin vörugjaldi: 
              a.    Dráttarbifreiðar fyrir festivagna og sem aðallega eru gerðar til að draga annað ökutæki, sem eru yfir 5 tonn að heildarþyngd. 
              b.    Ökutæki sem aðallega eru ætluð til vöruflutninga og eru yfir 5 tonn að heildarþyngd. 
              c.    Vélknúin ökutæki til sérstakra nota, gálgabifreiðar, kranabifreiðar o.fl., sem ekki eru aðallega hönnuð til flutnings á mönnum eða vörum og ekki eru tilgreind annars staðar í þessari grein, að heildarþyngd yfir 5 tonn. 
              d.    Tengivagnar og festivagnar til vöruflutninga sem eru yfir 5 tonn að leyfðri heildarþyngd. 
              e.     Dráttarbifreiðar að heildarþyngd 4 tonn eða meira sem gerðar eru til nota utan þjóðvega. 
              f.     Slökkvibifreiðar og sjúkrabifreiðar í eigu ríkis, sveitarfélaga eða stofnana á þeirra vegum. 
              g.     Sjálfhlaðandi eða sjálflosandi tengivagnar og festivagnar til landbúnaðarnota. 
              h.     Dráttarvélar. 
              i.      Beltabifreiðar (snjóbílar), yfir 700 kg að eigin þyngd, sérstaklega ætlaðar til aksturs í snjó. 
              j.     Haffær ökutæki á hjólum fyrir láð og lög. 
              k.    Ökutæki í eigu erlendra sendiráða, sendiræðisskrifstofa og sendiræðismanna sé slíkt skylt samkvæmt milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Sama gildir um alþjóðasamtök og alþjóðastofnanir sem hér eru. 
              l.      Sérsmíðaðar keppnisbifreiðar og keppnisbifhjól sem eru skráð sem slík og einungis notuð í skipulögðum keppnum og æfingum á vegum samtaka akstursíþróttamanna, svo og til aksturs til og frá slíkum atburðum. Skráningarmerki bifreiðanna og bifhjólanna skulu auðkennd sérstaklega. Ráðherra setur nánari reglur um gerð og útbúnað þeirra, svo og til hvaða atburða akstursheimildin taki. Sé brotið í bága við þær reglur skal vörugjald innheimt að fullu. 
              m.    Bifreiðar í eigu ríkis, sveitarfélaga eða stofnana á þeirra vegum eða fatlaðra sem eru sérstaklega búnar til flutnings á fötluðum, þ.m.t. búnar hjólastólalyftu, og samþykktar af Sjúkratryggingum Íslands. 
              n.     Ökutæki sem ætluð eru fyrir starfsemi björgunarsveita enda liggi fyrir staðfesting landssamtaka björgunarsveita á að viðkomandi ökutæki verði einungis notuð í þágu björgunarsveita. 
              o.    Hópferðabifreiðar sem skráðar eru fyrir 10 manns eða fleiri að meðtöldum ökumanni að leyfðri heildarþyngd 5 tonn eða meira. 
              p.    Bifhjól samkvæmt skilgreiningu umferðarlaga sem knúin eru af rafhreyfli að öllu leyti. 
              q.    Grindur með hreyfli og ökumannshúsi án vöruflutningarýmis.
    2.    13% vörugjald: 
              a.    Kranabifreiðar og borkranabifreiðar sem eru 5 tonn eða minna að leyfðri heildarþyngd. 
              b.    Yfirbyggingar, þ.m.t. ökumannshús fyrir vélknúin ökutæki. 
              c.    Tengivagnar og festivagnar til vöruflutninga sem eru 5 tonn eða minna að leyfðri heildarþyngd, aðrir tengi- og festivagnar. 
              d.    Dráttarbifreiðar fyrir festivagna sem aðallega eru gerðar til að draga annað ökutæki að heildarþyngd 5 tonn eða minna. 
              e.     Vélknúin ökutæki til sérstakra nota, gálgabifreiðar o.fl., sem ekki eru aðallega hönnuð til flutnings á mönnum eða vörum og ekki eru tilgreind annars staðar í þessari grein, að heildarþyngd 5 tonn eða minna. 
              f.     Fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki 40 ára og eldri. 
              g.    Sendibifreiðar sem aðallega eru ætlaðar til vöruflutninga undir 5 tonn að leyfðri heildarþyngd, með sambyggt stýrishús og flutningsrými og án farþegasæta í farmrými. 
              h.    Grindur með hreyfli og ökumannshúsi sem búið er að bæta við vöruflutningarými, sbr. q-lið 1. tölul.
    3.    30% vörugjald: 
              a.    Hópferðabifreiðar sem skráðar eru fyrir 10 manns eða fleiri að meðtöldum ökumanni að leyfðri heildarþyngd 5 tonn eða minna. Sömu ökutæki í eigu hópferða- eða sérleyfishafa eða í fjármögnunarleigu vegna fjármögnunarleigusamnings við hópferða- eða sérleyfishafa skulu bera 5% vörugjald. 
              b.    Bifhjól samkvæmt skilgreiningu umferðarlaga og jafnframt stigin bifhjól. 
              c.    Önnur vélknúin ökutæki sem ekki eru sérstaklega talin upp í þessum kafla.

3. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
    a.    1. mgr. og 1.–3. tölul. 2. mgr. falla brott, og breytist röð annarra liða samkvæmt því.
    b.    Inngangsmálsliður 2. mgr. orðast svo: Vörugjald af eftirfarandi ökutækjum skal vera sem hér greinir.
    c.    Í stað inngangsmálsliðar 4. tölul. 2. mgr. og töflu í sama tölulið kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Vörugjald af leigubifreiðum til fólksflutninga skal lagt á samkvæmt undanþáguflokki 3. gr. miðað við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis, mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra.
    d.    Í stað inngangsmálsliðar 5. tölul. 2. mgr. og töflu í sama tölulið kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Vörugjald af bifreiðum sem ætlaðar eru til útleigu hjá bílaleigum skal lagt á samkvæmt undanþáguflokki 3. gr. miðað við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis, mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra.
    e.    Í stað inngangsmálsliðar 6. tölul. 2. mgr. og töflu í sama tölulið kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Vörugjald af bifreiðum til ökukennslu skal lagt á samkvæmt undanþáguflokki 3. gr. miðað við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis, mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra.
    f.     7. tölul. 2. mgr. orðast svo: Vörugjald af sérútbúnum bifreiðum til fólksflutninga skal lagt á samkvæmt undanþáguflokki 3. gr. miðað við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis, mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra.
               Skilyrði fyrir því að bifreið sem er sérútbúin til fólksflutninga beri vörugjald samkvæmt þessum tölulið eru að kaupandi hennar hafi leyfi til reksturs sérútbúinna bifreiða skv. 10. gr. laga nr. 73/2001, um fólksflutninga og farmflutninga á landi, jafnframt að bifreiðin sé eingöngu notuð í tengslum við þjónustu við ferðamenn.
               Bifreið sem er sérútbúin til fólksflutninga og ber vörugjöld samkvæmt þessum tölulið skal auðkenna með sérstökum hætti í ökutækjaskrá og skal hún bera sérstök skráningarmerki og skal útlit þeirra tilgreint nánar í reglugerð um skráningu ökutækja.
    g.    8. tölul. 2. mgr. fellur brott.
4. gr.
    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
    a.    Í stað orðanna „stærð aflvélar“ í 1. mgr. kemur: skráðri koltvísýringslosun.
    b.    2. mgr. orðast svo: 
               Þegar ekki er unnt að leggja fram gögn um skráða losun koltvísýrings (CO2) viðkomandi ökutækis skal losun ökutækis á hvern ekinn kílómetra ákvörðuð sem 0,12 grömm á hvert kíló skráðrar eigin þyngdar ökutækisins að viðbættum 50 grömmum af koltvísýringi.

5. gr.
    Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Tollstjóra er heimilt að fella niður vörugjald af nýju og ónotuðu ökutæki að hámarki 1.250.000 kr. sé ökutækinu breytt fyrir nýskráningu þannig að það nýti metan í stað bensíns eða dísilolíu og breytingin sé staðfest og vottuð í skráningarskoðun ökutækisins. Til þess að ökutæki geti notið lækkaðs vörugjalds samkvæmt þessari málsgrein skal það vera útbúið að lágmarki 78 lítra metangeymi. Óheimilt er að fjarlægja eða gera breytingarbúnað ökutækis óvirkan innan fimm ára frá nýskráningu. Ökutæki sem nýtur lækkaðs vörugjalds samkvæmt þessari málsgrein getur ekki hlotið endurgreiðslu á vörugjöldum samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögum þessum um endurgreiðslu vörugjalda af ökutækjum sem hefur verið breytt þannig að ökutækið nýti metan í stað bensíns eða dísilolíu.

6. gr.
    Í stað orðanna „sprengirými aflvélar“ í 10. gr. laganna kemur: skráða koltvísýringslosun.

7. gr.
    Við 17. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sé bensín blandað með íblöndunarefni sem ekki er af jarðefnauppruna skal sá hluti blöndunnar sem ekki er af jarðefnauppruna undanþeginn vörugjaldi.

8. gr.
    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. skal vörugjald í eftirfarandi gjaldbilum gilda fyrir ökutæki sem eru innflutt og tollafgreidd á árinu 2011 og falla í þau gjaldbil sem tilgreind eru í töflu:
Gjald í %
Gjaldbil Skráð losun CO2 Aðalflokkur Undanþáguflokkur
skv. 5. gr.
G 181–200 36 12
H 201–225 44 16
I 226–250 48 20
J yfir 250 52 24
    Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. skal vörugjald í eftirfarandi gjaldbilum gilda fyrir ökutæki sem eru innflutt og tollafgreidd á árinu 2012 og falla í þau gjaldbil sem tilgreind eru í töflu:

Gjald í %
Gjaldbil Skráð losun CO2 Aðalflokkur Undanþáguflokkur
skv. 5. gr.
G 181–200 41 14
H 201–225 50 18
I 226–250 54 23
J yfir 250 59 27

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum.
9. gr.
    D-liður 2. mgr. 1. gr. laganna orðast svo: Bifhjól sem hvorki telst bifreið né torfærutæki, er aðallega ætlað til fólks- eða vöruflutninga, er á tveimur hjólum, með eða án hliðarvagns, eða á þremur eða fleiri hjólum og er 400 kg að eigin þyngd eða meira.

10. gr.
    2. gr. laganna orðast svo:
    Bifreiðagjald á hverju gjaldtímabili miðast við skráða losun koltvísýrings (CO2) viðkomandi ökutækis. Skráð losun er mæld í grömmum á hvern ekinn kílómetra.
    Bifreiðagjald ökutækis á hverju gjaldtímabili, að eigin þyngd 3.500 kg eða minna, skal vera 5.000 kr. fyrir losun allt að 121 gramms af skráðri kolefnislosun ökutækis en 120 kr. fyrir hvert gramm af skráðri losun umfram það.
    Liggi upplýsingar um skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis ekki fyrir skal losun ökutækis ákvörðuð sem 0,12 grömm á hvert kíló skráðrar eigin þyngdar ökutækisins að viðbættum 50 grömmum af koltvísýringi.
    Bifreiðagjald ökutækis, að eigin þyngd meira en 3.500 kg, á hverju gjaldtímabili er 46.880 kr. að viðbættum 2 kr. fyrir hvert kíló skráðrar eigin þyngdar ökutækis umfram 3.500 kg. Bifreiðagjald ökutækis, að eigin þyngd meira en 3.500 kg, skal þó ekki vera hærra en 73.800 kr. á hverju gjaldtímabili.

11. gr.
    Við 4. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Ökutæki sem framleidd eru og skráð með metan sem aðalorkugjafa eða hefur verið breytt þannig að þau geti nýtt metan og breytingin hlotið vottun skoðunarstöðvar skulu greiða lágmark bifreiðagjalds skv. 2. gr.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með síðari breytingum.
12. gr.
    Á eftir 2. mgr. 1. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Olíur sem ekki eru af jarðefnauppruna skulu þó undanþegnar olíugjaldi. Hafi íblöndunarefni sem ekki er af jarðefnauppruna verið blandað gjaldskyldri olíu skal sá hluti blöndunnar sem ekki er af jarðefnauppruna undanþeginn olíugjaldi.

13. gr.
    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2011.

Gjört í Reykjavík, 27. desember 2010.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Steingrímur J. Sigfússon.

A deild - Útgáfud.: 29. desember 2010