Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1245/2007

Nr. 1245/2007 20. desember 2007
REGLUR
um heimild Fjármálaeftirlitsins til að ljúka máli með sátt.

1. gr.

Gildissvið.

Fjármálaeftirlitinu er heimilt að ljúka máli með sátt, með samþykki málsaðila, hafi hann gerst brotlegur við ákvæði laga sem veita Fjármálaeftirlitinu heimild til beitingar stjórn­valdssekta.

Heimild til sáttar nær þó ekki til meiriháttar brota sem refsiviðurlög liggja við. Brot telst meiriháttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstak­lega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins.

2. gr.

Heimild til sáttargerðar.

Forstjóri Fjármálaeftirlitsins, eða starfsmaður sem hann veitir umboð, hefur heimild til sáttargerðar fyrir hönd Fjármálaeftirlitsins í málum sem varðað geta stjórnvaldssektum. Um er að ræða heimild fyrir eftirlitið til sáttargerðar en ekki skyldu. Forstjóri, eða sá starfsmaður sem hann hefur veitt til þess umboð, hefur fullt umboð við sáttargerð og verða einstakar sáttaákvarðanir ekki bornar undir stjórn Fjármálaeftirlitsins.

3. gr.

Stig málsmeðferðar.

Sé máli lokið með sáttargreiðslu er miðað við að afsláttur sé veittur af þeirri heildar­fjárhæð sem ætla má að stjórnvaldssekt gæti numið að teknu tilliti til refsi­þyngingar- og refsimildunarsjónarmiða. Við mat á afslætti skal litið til þess á hvaða stigi meðferð máls er þegar sátt er náð.

Fyrra stig meðferðar máls er við upphaf athugunar málsins og náist sátt á því stigi er veittur allt að 50% afsláttur. Síðara stig meðferðar máls er þegar rannsókn hefur átt sér stað, en ekki að fullu lokið, og verði sátt á því stigi er veittur allt að 30% afsláttur. Fjármála­eftirlitið metur á hvaða stigi mál er við ákvörðun um veitingu afsláttar.

4. gr.

Almennt ferli við sáttargerð í stjórnvaldssektarmálum.

Telji Fjármálaeftirlitið rétt að gefa aðila kost á að ljúka máli með sátt skal það boða hann skriflega til fundar.

Í boði um að ljúka máli með sátt skal koma fram dagsetning, nafn aðila, kennitala, heim­ilisfang, númer máls, stutt efnislýsing á meintu broti, lagaákvæði sem það kynni að varða og að aðili eigi þess kost að ljúka málinu með sátt.

Ef aðili mætir til boðaðs fundar, játar brot og lýsir sig reiðubúinn til að ljúka máli með sátt skal sáttargerð vera skrifleg sem aðilar staðfesta með undirritun sinni. Í sátt skal koma fram dagsetning, nafn aðila, kennitala, heimilisfang, númer máls, hvert sé tilefni sáttar­innar, tilvísan til lagaákvæða sem brotin varða, viðurlagaákvæða, játning aðila á broti, fjárhæð sáttar, yfirlýsing aðila um að hann fallist á að ljúka málinu með sátt og inna af hendi sáttargreiðslu innan tilskilins frests.

Forstjóri Fjármálaeftirlitsins, eða starfsmaður sem hann veitir til þess umboð, og annar starfsmaður eftirlitsins skulu undirrita sáttina fyrir hönd Fjármálaeftirlitsins. Sátt er bind­andi fyrir málsaðila þegar hún hefur verið undirrituð. Heimilt er að veita 30 daga frest til greiðslu fjárhæðar samkvæmt sáttargerðinni. Við efndir sáttar er máli aðila lokið og sendir Fjármálaeftirlitið staðfestingu þess efnis til hans.

Ef aðili sinnir ekki sáttarboði innan tiltekins frests tekur forstjóri Fjármálaeftirlitsins ákvörðun um framhald málsins.

5. gr.

Sáttaferli í minniháttar málum.

Í minniháttar málum getur Fjármálaeftirlitið ákveðið að gefa aðila kost á að ljúka máli með sátt á þann hátt að það sendir honum bréf um sáttarboð og greiðsluseðil. Með minniháttar málum er átt við mál, þar sem Fjármálaeftirlitið telur umfang og alvarleika meints brots leiða til þess að ljúka megi máli bréflega.

Í boði um að ljúka máli með sátt skal koma fram dagsetning, nafn aðila, kennitala, heimilisfang, númer máls, stutt efnislýsing á meintu broti og lagaákvæði sem það kynni að varða. Greint skal frá því að aðili eigi þess kost að ljúka máli með sátt og greiðslu tiltekinnar fjárupphæðar innan 30 daga frá dagsetningu sáttarboðsins. Með sáttarboðinu skal fylgja greiðsluseðill.

Ef aðili gengst skriflega undir sátt með undirritun sinni á sáttarboð og innir af hendi sáttar­greiðslu innan tiltekins frests er hún bindandi fyrir málsaðila. Við efndir sáttar er máli aðila lokið og sendir Fjármálaeftirlitið staðfestingu þess efnis til hans.

Ef aðili sinnir ekki sáttarboði innan tiltekins frests tekur forstjóri Fjármálaeftirlitsins ákvörðun um framhald málsins.

6. gr.

Þagnarréttur.

Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Fjármálaeftirlitið skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

7. gr.

Birting sáttar.

Í þeim tilvikum sem lög heimila opinbera birtingu niðurstöðu í málum og athugunum verður farið með upplýsingar um afgreiðslu mála sem lokið getur með sátt í samræmi við ákvæði í gegnsæisstefnu Fjármálaeftirlitsins.

8. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar með heimild í 142. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, sbr. 2. gr. laga nr. 55/2007; 111. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 8. gr. laga nr. 55/2007; 34. gr. laga nr. 110/2007 um kauphallir, sbr. 11. gr. laga nr. 55/2007; 34. gr. a. laga nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa, sbr. 13. gr. laga nr. 55/2007; 69. gr. laga nr. 30/2003 um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, sbr. 15. gr. laga nr. 55/2007; 99. gr. a. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi, sbr. 19. gr. laga nr. 55/2007 og 62. gr. a. laga nr. 32/2005 um miðlun vátrygginga, sbr. 21. gr. laga nr. 55/2007.

Reglurnar öðlast gildi við birtingu.

Fjármálaeftirlitinu, 20. desember 2007.

Jónas Fr. Jónsson.

Ragnar Hafliðason.

B deild - Útgáfud.: 21. desember 2007