1. gr. Fullt nafn manns er eiginnafn eða eiginnöfn, millinafn, ef því er að skipta, og kenninafn eða kenninöfn. Nafnasvæði þjóðskrár í tölvukerfi Þjóðskrár Íslands er 31 stafbil. Milli nafna er eitt stafbil. 2. gr. Ef fullt nafn manns er lengra en sem nemur 31 stafbili skulu fyrsta eiginnafn, eina ef við á, og síðara kenninafn, ef um tvö er að ræða, ávallt rituð fullum stöfum í nafnasvæði þjóðskrár í tölvukerfi Þjóðskrár Íslands. Um skammstafanir annarra nafna fer eftir forgangsröð samkvæmt 3. gr. 3. gr. Fyrst skal skammstafa millinafn. Næst skal skammstafa fyrra kenninafn. Þar næst skal skammstafa þriðja eiginnafn. Þá skal skammstafa annað eiginnafn. Nöfn sem skammstöfuð eru, þegar það á við, skulu rituð með einum bókstaf og settur punktur á eftir honum. Punkti skal sleppt ef þarf. 4. gr. Reglur þessar ná ekki til skammstöfunar fulls nafns manns í vegabréfi en um hana gildir ákvæði í reglugerð settri samkvæmt heimild í lögum um vegabréf. 5. gr. Reglur þessar sem settar eru samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I í lögum um mannanöfn nr. 45/1996, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Innanríkisráðuneytinu, 28. október 2011. Ögmundur Jónasson. Ragnhildur Hjaltadóttir. |