Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 144/2005

Nr. 144/2005 31. desember 2005
FORSETABRÉF
um starfsháttu orðunefndar.

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Ég hefi ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að staðfesta svohljóðandi forsetabréf um starfsháttu orðunefndar:

I. KAFLI

Veiting orðunnar.

1. gr.

Stórmeistari hinnar íslensku fálkaorðu sæmir innlenda einstaklinga og erlenda heiðursmerkinu samkvæmt tillögu orðunefndar. Stórmeistari getur við sérstök tækifæri er honum þykir hlýða veitt orðuna án tillagna nefndarinnar.

2. gr.

Hver nefndarmaður getur borið fram tillögu á fundi um veitingu orðunnar. Samhljóða samþykki nefndarmanna þarf til þess að tillaga um orðuveitingu verði borin upp fyrir stórmeistara. Fundur orðunefndar telst löglegur ef hann sitja eigi færri en fjórir nefndarmanna og til hans hefur verið boðað með viðhlítandi hætti, sbr. 10. gr.

3. gr.

Tilnefningar til orðunefndar skulu vera bréflegar og undirritaðar af einum eða fleiri aðilum. Fjöldi undirskrifta ræður ekki úrslitum um orðuveitingu. Í tilnefningu skal tilgreina helstu æviatriði viðkomandi og hvað það er sem bréfritari telur að sá sem tilnefndur er hafi gert til að verða sæmdur fálkaorðunni. Ekki er tekið við tilnefningum sem berast rafrænt. Ekki er tekið við tilnefningum frá nánum skyldmennum þess sem tilnefndur er.

4. gr.

Heimilt er að bera upp fyrir stórmeistara tillögur um orðuveitingar án þess að málið hafi verið tekið til meðferðar á fundi, enda hafi orðuritari að boði formanns aflað tillögunni samþykkis nefndarmanna, sbr. 2. gr. Staðfesta skal slíkar tillögur á næsta nefndarfundi. Ef tilnefning er samþykkt af stórmeistara og orðunefnd skal orðuritari senda bréflega tilkynningu til væntanlegs orðuþega þar sem honum er greint frá ákvörðuninni.

Berist nefndinni tilnefning um orðuveitingar skal orðuritari afla þeirrar vitneskju í málinu er nefndarmenn telja nauðsynlega til þess að tilnefningin hljóti afgreiðslu.

5. gr.

Þegar orðunefnd hefur samþykkt orðuveitingu til erlends ríkisborgara skal leita umsagnar utanríkisráðuneytisins. Umsagnir ráðuneytisins, ef einhverjar eru, skulu berast nefndinni innan sjö daga. Orðuveitingar til erlendra ríkisborgara sem byggjast á gagnkvæmni milli íslenska utanríkisráðuneytisins og sendiráða á Íslandi og jafnframt til aðila sem starfandi eru í þágu erlendra stjórnvalda á erlendri grundu skal bera undir utanríkisráðuneytið. Leita ber umsagnar utanríkisráðuneytisins um tilnefningar er varða kjörræðismenn Íslands erlendis.

6. gr.

Sá sem sæmdur er fálkaorðunni í fyrsta sinn skal að jafnaði hljóta lægsta stig hennar. Þó má frá þessu víkja ef sérstakar aðstæður mæla með því.

Ef erlendum þjóðhöfðingjum eða forsætisráðherrum er veitt fálkaorðan skulu þeir jafnan hljóta fjórða stig hennar, stórkrossinn, en þó er heimilt að veita æðsta stig hennar, keðju ásamt stórkrossstjörnu. Skila ber keðjunni þegar viðkomandi lætur af störfum.

Ef orðan er veitt erlendum einstaklingum sem bera heiðursmerki heimalands síns skal sæma þá samsvarandi stigi fálkaorðunnar.

Þegar stig hinnar erlendu orðu eru fleiri en fjögur samsvarar stórkrossstigið aðeins hæsta stiginu en stig stórriddara með stjörnu því næsthæsta. Séu stigin fleiri en tíu samsvarar stórriddarakross með stjörnu tveimur hinum næsthæstu, en stigin þar fyrir neðan skiptast sem næst að jöfnu, og samsvarar stig stórriddara æðri stigunum en stig riddara hinum lægri.

7. gr.

Eigi má veita þeim er sæmdur hefur verið fálkaorðunni æðri stig hennar en hið næsta fyrir ofan það er hann áður hlaut. Riddara má því eigi sæma æðra stigi en stórriddarakrossi o.s.frv.

Þrjú ár skulu líða hið skemmsta frá því að sá er hlotið hefur riddarakross hlýtur stórriddarakross. Stórriddara má eigi sæma stjörnu fyrr en að liðnum sex árum frá því að hann hlaut stórriddarakrossinn, og stórriddara með stjörnu má eigi sæma stórkrossi fyrr en að liðnum tólf árum frá því að hann hlaut stjörnu.

Stórmeistari getur þó vikið frá þessu ef honum þykir hlýða, sbr. 1. gr.

II. KAFLI

Afhending orðunnar og birting orðuveitinga.

8. gr.

Stórmeistari afhendir öll stig orðunnar til íslenskra ríkisborgara á forsetasetrinu Bessastöðum 1. janúar og 17. júní ár hvert.

Stórmeistari getur vikið frá þessum dagsetningum varðandi einstakar orðuveitingar til íslenskra ríkisborgara. Stórmeistara er heimilt ef svo ber undir að fela formanni orðunefndar að afhenda orðu í sinn stað, annars orðuritara ef formaður er forfallaður.

Stórmeistari afhendir öll stig orðunnar til erlendra ríkisborgara að jafnaði á forsetasetrinu Bessastöðum.

Við sérstök tækifæri getur stórmeistari formlega falið eftirtöldum aðilum í sinn stað að afhenda fálkaorðuna erlendum ríkisborgurum á erlendum vettvangi:

  1. Handhöfum forsetavalds: forsætisráðherra, forseta Alþingis eða forseta Hæstaréttar;
  2. utanríkisráðherra;
  3. formanni orðunefndar;
  4. sendiherrum Íslands búsettum erlendis.

9. gr.

Frá orðuveitingum skal skýra í Stjórnartíðindum ár hvert. Einnig skal senda tilkynningu til fjölmiðla um orðuveitingar til íslenskra ríkisborgara 1. janúar og 17. júní.

III. KAFLI

Fundarhöld o.fl.

10. gr.

Orðunefnd heldur fundi að minnsta kosti tveimur mánuðum fyrir árlegar orðuveitingar 1. janúar og 17. júní. Formaður nefndarinnar stýrir þeim en varaformaður í forföllum hans. Sá er lengst hefur átt sæti í orðunefnd er sjálfkjörinn varaformaður. Fundi nefndarinnar skal boða með minnst fimm daga fyrirvara.

Um hver áramót skal orðuritari leggja fram ársreikning orðunnar og skýrslu um birgðir heiðursmerkja.

Orðuritari veitir viðtöku öllum tilnefningum til orðuveitinga og sér um að þær komi til umfjöllunar nefndarmanna. Eftir formlega umfjöllun nefndarmanna leggur formaður endanlegar tillögur nefndarinnar fyrir stórmeistara.

Orðuritari varðveitir heiðursmerki orðunnar, innsigli hennar, bækur og skjöl. Orðuritari annast fundarboðanir að fyrirlagi formanns. Jafnframt annast hann gerð kynningarefnis um orðuna samkvæmt fyrirmælum orðunefndar.

IV. KAFLI

Gildistaka.

11. gr.

Forsetabréf þetta öðlast þegar gildi. Jafnframt er fellt úr gildi forsetabréf um starfsháttu orðunefndar, nr. 114 frá 31. desember 1945, með síðari breytingum.

Gjört á Bessastöðum, 31. desember 2005.

Ólafur Ragnar Grímsson.

(L. S.)

Halldór Ásgrímsson.

    A deild - Útgáfud.: 6. janúar 2006