Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 650/2007

Nr. 650/2007 4. júlí 2007
REGLUR
um almennt og sérstakt hæfi löggiltra vigtarmanna.

1. gr.

Gildissvið.

Ákvæði þessara reglna gilda um starfshætti löggiltra vigtarmanna sem gefa út fullgild vottorð í samræmi við ákvæði VII. kafla laga nr. 91/2006 um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

2. gr.

Almenn hæfisskilyrði.

Löggiltir vigtarmenn geta þeir orðið sem uppfylla eftirtalin skilyrði:

 1. eru búsettir hér á landi,
 2. eru fullra tuttugu ára,
 3. eru sjálfráða og fjárráða,
 4. hafa sótt námskeið til löggildingar vigtarmanna og staðist próf.

Synja skal manni um löggildingu ef 68. gr. almennra hegningarlaga á við um hagi hans.

3. gr.

Almenn neikvæð hæfisskilyrði.

Löggiltur vigtarmaður skal ekki taka við starfi þegar fyrirsjáanlegt er að hann muni oft verða vanhæfur til meðferðar einstakra mála á grundvelli hinna sérstöku hæfisreglna.

Eftirtalin störf eru ósamrýmanleg störfum löggilts vigtarmanns sem starfar sem hafnar­vigtarmaður í aðal- eða aukastarfi:

 1. Eigandi og/eða útgerðarmaður fiskiskipa.
 2. Starfsmaður útgerðar fiskiskipa.
 3. Eigandi fiskvinnslu.
 4. Starfsmaður fiskvinnslu.
 5. Eigandi fiskmarkaðar.
 6. Starfsmaður fiskmarkaðar.

4. gr.

Eignaraðild.

Löggiltur vigtarmaður telst vanhæfur ef hann á eignaraðild að fyrirtæki þar sem vigtun fer fram ef hlutafé hans nemur 5% eða meira. Minniháttar hlutafjáreign í almennings­hlutafélagi telst ekki eignaraðild í þessu sambandi.

Eigi er þó um vanhæfi að ræða ef vigtarmaður er starfsmaður fyrirtækis þar sem vigtun fer fram, enda eigi hann ekki eignaraðild að rekstrinum og upplýsir viðskiptamann um tengslin, sbr. f-lið 25. gr. laga nr. 91/2006 um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. telst vigtarmaður ekki vanhæfur þegar um er að ræða vigtun hjá sjálfstætt starfandi lögaðila, sem telst vera þriðji aðili að viðskiptunum, þar sem engin eignatengsl eru á milli vigtunaraðila og viðskiptamanna hans.

5. gr.

Sérstök hæfisskilyrði.

Löggiltur vigtarmaður telst vanhæfur:

 1. ef hann er aðili að viðskiptum með þá vöru sem vigtuð er, fyrirsvarsmaður eða umboðsmaður aðila;
 2. ef hann er eða hefur verið maki aðila að viðskiptum með þá vöru sem vigtuð er, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur aðila með sama hætti vegna ættleiðingar;
 3. ef hann tengist fyrirsvarsmanni eða umboðsmanni aðila að viðskiptum með þá vöru sem vigtuð er með þeim hætti sem segir í b-lið;
 4. ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlut­drægni hans í efa með réttu.

6. gr.

Áhrif vanhæfis.

Löggiltur vigtarmaður, sem veit um ástæður er kunna að valda vanhæfi hans, skal án tafar lýsa sig vanhæfan og neita vigtun.

7. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 2. mgr. 27. gr. laga nr. 91/2006 um mælingar, mæli­grunna og vigtarmenn og öðlast þær þegar gildi.

Neytendastofu, 4. júlí 2007.

Tryggvi Axelsson.

Hjördís Björk Hjaltadóttir.

B deild - Útgáfud.: 17. júlí 2007