Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 216/2011

Nr. 216/2011 1. mars 2011
REGLUGERÐ
um jöfnun eigna á móti vátryggingaskuld frumtryggingafélaga.

Almenn ákvæði.

1. gr.

Með vátryggingaskuld frumtryggingafélags er átt við óuppgerðar heildarskuldbindingar þess vegna gerðra vátryggingasamninga eins og hún er metin sem liður skuldamegin í efnahagsreikningi félagsins. Í líftryggingafélagi er vátryggingaskuldin einnig nefnd líf­trygg­ingaskuld. Útjöfnunarsjóður vegna greiðsluvátrygginga telst ennfremur vátrygginga­skuld.

Með frumtryggingafélagi er átt við félag eða stofnun með starfsleyfi útgefið hér á landi sem vátryggir vátryggingaráhættu neytenda og útibú erlendra frumtryggingafélaga með aðalstöðvar utan Evrópska efnahagssvæðisins sem hafa hlotið leyfi til vátrygginga­starfsemi hér á landi, sbr. lög nr. 56/2010.

2. gr.

Frumtryggingafélag skal sjá til þess að fyrir hendi séu eignir sérstaklega tilgreindar á móti vátryggingaskuldinni til að tryggja að félagið geti staðið við vátrygginga­skuldbind­ingar sínar. Í því skyni skulu eignir valdar með tilliti til samsetningar vátrygg­inga­skuldarinnar, uppgjörshraða skuldbindinganna, virði eignanna og ávöxtunar þeirra til skemmri og lengri tíma.

Félagið skal tryggja fjölbreytni og dreifingu eigna á móti vátryggingaskuld í samræmi við tegund þeirra skuldbindinga sem hvíla á félaginu. Taka skal tillit til þeirrar áhættu sem félagið ber og felst í fjárfestingu af tiltekinni tegund og skulu eignir á móti vátrygg­ingaskuldbindingu félagins valdar í samræmi við það. Eignum sem ekki er hægt að selja með stuttum fyrirvara skal halda innan hóflegra marka. Ákvæði 8. gr., 9. gr. og 10. gr. eiga ekki við um skuldbindingar vegna líftryggingasamninga með fjárfestingar­áhættu líftryggingataka nema að því marki sem í þeim felst loforð félagsins um vexti eða tiltekna útborgun.

Miða skal fjárhæðir og dreifingu eigna við heildarupphæð vátryggingaskuldar. Taka skal tillit til breytinga á vátryggingaskuld og eignum sem eiga að mæta henni innan reikn­ings­ársins nema um tímabundnar sveiflur innan þess sé að ræða.

Tegundir eigna.

3. gr.

Frumtryggingafélag má ekki nota aðrar tegundir eigna á móti vátryggingaskuld en þær sem að neðan greinir, auk þeirra sem getið er í 4. gr. og 5. gr.:

 1. Verðbréf með ábyrgð ríkis og kröfur á ríki á svæði A. Verðbréf útgefin af fjölþjóða þróunarbönkum, eins og þeir eru skilgreindir í 2. gr. reglugerðar nr. 530/2003 um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja, sem eitt eða fleiri aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eru aðilar að.
 2. Innstæður hjá viðskiptabönkum, sparisjóðum og öðrum fjármálastofnunum á svæði A undir opinberu eftirliti.
 3. Útlán með veði í líftryggingum hjá félaginu allt að endurkaupsverði.
 4. Verðbréf með ábyrgð sveitarfélags og kröfur á sveitarfélag á svæði A.
 5. Verðbréf skráð á skipulegum markaði á svæði A. Verðbréf útgefin af viðskipta­bönkum, sparisjóðum og öðrum fjármálastofnunum undir opinberu eftirliti á svæði A og útlán með ábyrgð þeirra.
 6. Fasteignir, lönd og lóðir. Eignarhlutir í félögum sem hafa að megintilgangi að fjárfesta í slíkum eignum. Aðrir varanlegir rekstrarfjármunir. Verðbréf með veði í varanlegum rekstrarfjármunum.
 7. Hlutabréf ekki skráð á skipulegum markaði.
 8. Verðbréf og kröfur með annarri tryggingu en í 6. tölul.
 9. Verðbréf og kröfur án sérstakrar tryggingar.
 10. Reiðufé.
 11. Hlutdeild í verðbréfasjóðum og fjárfestingarsjóðum sbr. lög nr. 30/2003 um verð­bréfasjóði og fjárfestingarsjóði, en verðbréfasafni að baki skírteinunum skal skipt á aðra töluliði þessarar málsgreinar í samræmi við takmarkanir 8. gr. og 9. gr.

Um skilgreiningu á svæði A fer samkvæmt reglum Seðlabanka Íslands um mat á áhættu­grunni við útreikning á eiginfjárhlutfalli lánastofnana og fjárfestingarfyrirtækja, eins og þær eru á hverjum tíma. Með reglulegum markaði er átt við markað samkvæmt skil­greiningu í 9. gr. laga um vátryggingastarfsemi.

4. gr.

Tilgreina má hlut endurtryggjenda í vátryggingaskuld sem eign á móti vátryggingaskuld sé endurtryggt hjá vátryggingafélagi með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu.

Kröfur á félög með sérstakan tilgang geta talist sem eignir til jöfnunar vátryggingaskuldar samkvæmt reglum sem Fjármálaeftirlitið setur.

Geymslufé og iðgjaldakröfur vegna endurtrygginga má tilgreina á móti vátryggingaskuld hafi ekki liðið meira en þrír mánuðir frá gjalddaga.

Hafi endurtryggjandi staðfestu utan Evrópska efnahagssvæðisins má heimila að hlutur endurtryggjenda sé tilgreindur sem eign á móti vátryggingaskuld, enda sé endur­tryggj­andinn undir opinberu eftirliti og uppfylli kröfur um fjárhagslegan styrk sem Fjármála­eftirlitið metur fullnægjandi.

5. gr.

Eignfærðan kostnað við öflun líftrygginga má nota á móti vátryggingaskuld að því marki er samsvarar sama lið í tæknigrundvelli líftrygginga. Í öðrum greinum vátrygginga má nota slíkan öflunarkostnað að sama marki og ráð er fyrir gert í iðgjaldaskuldinni.

Fjárfestingar vegna líftrygginga með fjárfestingaráhættu líftryggingataka.

6. gr.

Þegar skuldbinding samkvæmt líftryggingasamningi er með beinum hætti háð verðgildi eininga í verðbréfasjóði eða fjárfestingarsjóði samkvæmt lögum nr. 30/2003 um verðbréfa­sjóði og fjárfestingarsjóði eða verðgildi eininga í sjóði sem er í vörslu frumtrygg­inga­félagsins, skal líftryggingaskuld vegna skuldbindingarinnar mætt með einingum sem samsvara, eins og hægt er, þeim einingum sem samningurinn kveður á um eða þegar slíkar einingar eru ekki til, með sömu eignum og að baki liggja.

Þegar skuldbinding samkvæmt líftryggingasamningi er með beinum hætti háð gengi hlutabréfa eða annarri viðmiðun en fram kemur í 1. mgr. skal vátryggingaskuld vegna þessarar skuldbindingar mætt, eins og hægt er, annaðhvort með einingum sem taldar eru samsvara eignum sem vísað er til í samningnum, eða þegar einingar af því tagi eru ekki fáanlegar, með hæfilega öruggum og seljanlegum eignum samsvarandi eins vel og hægt er þeim eignum sem samningurinn tekur mið af.

Mat á eignum.

7. gr.

Meta skal í hverju tilviki fyrir sig þá áhættu sem felst í þeim eignum sem ætlað er að mæta vátryggingaskuldinni og sérstaklega með tilliti til dreifingar þannig að vægi einstakra tegunda og eigna á einni hendi verði takmarkað.

Varanlega rekstrarfjármuni má því aðeins nota sem eign á móti vátryggingaskuld að þeir hafi verið nægilega afskrifaðir og metnir að verðgildi sem ætla má að fyrir þá fáist.

Verðbréf og kröfur má ekki nota sem eign á móti vátryggingaskuld nema eignin teljist trygg og hafi verið nægilega færð niður. Veðsetning íbúðarhúsnæðis samkvæmt veðrétti vátryggingafélagsins og þeirra veðrétta sem á undan eru má ekki fara yfir 80% af fasteignamati samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands eða markaðsverði, eftir því hvort reynist lægra. Með sama hætti má veðsetning í bifreiðum ekki fara yfir 80% af viðmiðunarvirði Bílgreinasambands Íslands. Um veð í öðru en fastafjármunum gilda eftirfarandi reglur:

 1. Skráð ríkisskuldabréf og skuldabréf með ríkisábyrgð. Veðsetning má ekki fara yfir 90% af markaðsvirði bréfsins.
 2. Skráð hlutabréf. Veðsetning má ekki fara yfir 50% af virði bréfsins á markaði.
 3. Innstæður hjá fjármálafyrirtæki. Veðsetning má ekki fara yfir 100% af innstæðu.
 4. Hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóðum. Veðsetning má ekki fara yfir 50% af innlausnarvirði skírteinisins.
 5. Gull. Veðsetning má ekki fara yfir 50% af virði gullsins.

Framseljanleg verðbréf sem ekki eru skráð á reglulegum markaði má því aðeins nota á móti vátryggingaskuld að þeim verði komið í verð með skömmum fyrirvara eða að um sé að ræða eignarhald í fjármálastofnun undir opinberu eftirliti. Afleiðusamninga svo sem vilnanir, framvirka samninga og skiptasamninga má aðeins nota við mat á eignum sem samningarnir tengjast. Matið skal vera varfærnislegt og má aðeins nota afleiðusamninga sem stuðla að því að draga úr fjárfestingaráhættu og eru liður í að auka hagkvæmni fjárfestingarstjórnunar.

Útistandandi iðgjöld og kröfur á miðlara sem rekja má til vátrygginga (frum- eða endurtrygginga) má því aðeins nota að eigi hafi liðið meira en þrír mánuðir frá gjalddaga.

Frá hverri eign skal draga áhvílandi lán og taka tillit til ábyrgða. Frá kröfum á einstaka skuldunauta skal draga skuldir félagsins við þá.

Dreifing eigna.

8. gr.

Hámark einstakra tegunda eigna samanlagt sem hlutfall af vátryggingaskuld, sbr. töluliði 3. greinar og töflu í viðauka, er í 1. tl. 100%, í 2. tl. 100%, í 3. tl. 100%, í 4. tl. 50%, í 5. tl. 40%, í 6. tl. 40%, í 7. tl. 10%, í 8. tl. 8%, í 9. tl. 5%, í 10. tl. 3% og í 11. tl. 40%.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr er heimilt að telja útistandandi iðgjöld og kröfur á vátrygg­inga­miðlara sem falla undir 9. tl. 1. mgr. 3. gr. sem allt að 50% af iðgjaldaskuld.

9. gr.

Hámarkshlutfall eigna á einni hendi á móti vátryggingaskuld, þ.e. eign útistandandi hjá sama einstaklingi eða lögaðila, hjá sama lántakanda eða útgefanda, sbr. töluliði 3. greinar og töflu í viðauka er:

 1. 1. tl. 100%.
 2. 2. tl. 50%.
 3. 3. tl. 100%.
 4. 4. tl. 10%.
 5. 5. tl. 5%. Þó má hámarkið á einni hendi hækka í 10% svo fremi að slíkar eignir nemi samanlagt ekki yfir 40% heildarvátryggingaskuldar.
 6. 6. tl. 5%. Sama gildir um fleiri eignir á sama stað eða í nálægð hverrar annarrar þannig að þær teljist ein fjárfesting.
 7. 7. tl. 1%.
 8. 8. tl. 1%.
 9. 9. tl. 1%.
 10. 11. tl. 10%. Hámarkshlutfall í hverjum verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði má vera 10%. Að hámarki má fjárfesta 20% í sjóðum hvers rekstrarfélags.

Kröfur á einn aðila af fleiri en einni tegund samkvæmt 2., 4.-9. og 11. töluliðum 1. mgr. 3. gr. mega samanlagt mest nema þeirri hlutfallstölu sem tilgreind er fyrir þann tölulið þar sem hlutfallstala hlutaðeigandi eigna er hæst.

10. gr.

Hlutdeild í dótturfélagi sem hefur það hlutverk eitt að ávaxta eignir frumtrygg­inga­félagsins að öllu leyti eða að hluta skal metin sem hlutdeild félagsins í eignum dótturfélagsins.

Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að eignir í öðrum dótturfélögum séu metnar á sama hátt.

Gengisáhætta.

11. gr.

Velja skal eignir á móti vátryggingaskuld með tilliti til gengisáhættu þannig að dregið sé úr vægi hennar svo sem kostur er. Eignirnar skulu ávaxtaðar í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins nema Fjármálaeftirlitið veiti undanþágu frá því skilyrði sérstaklega.

Eignir á móti vátryggingaskuld skulu að meginreglu vera í sama gjaldmiðli og skuld­bindingin sem þeim er ætlað að mæta. Víkja má frá þeirri reglu, nemi eignir sem ættu að vera í tilteknum gjald­miðli 7% eða minna af eignum samanlagt í öðrum gjaldmiðlum.

Frumtryggingafélag má ekki ávaxta meira en sem svarar 20% vátryggingaskuldbindinga sem eru í tilteknum gjaldmiðli, í eignum sem eru í öðrum gjaldmiðli.

12. gr.

Þegar tilgreint er í vátryggingasamningi að vátryggingavernd skuli veitt í tilteknum gjaldmiðli skal litið svo á að skuldbinding frumtryggingafélags sé í sama gjaldmiðli eða, komi það ekki fram í samningnum, að skuldbindingin sé í gjaldmiðli þess ríkis þar sem vátryggingaáhættan er eða skuldbindingin komst á, sbr. 10. gr. laga nr. 56/2010.

Ekki skal gerð krafa um jöfnun eigna á móti vátryggingaskuld vegna gengisáhættu í tilteknum gjaldmiðli þegar hindranir varðandi fjármagnsflutninga eru í gildi eða af öðrum ytri ástæðum þegar talið yrði að markmiði um takmörkun á vægi gengisáhættu yrði ekki náð með slíkri jöfnun eigna á móti skuldbindingum.

Skrá yfir eignir.

13. gr.

Frumtryggingafélag skal á hverjum tíma hafa yfirsýn yfir þær eignir sem mæta eiga vátryggingaskuld. Sér í lagi skal frumtryggingafélag gæta þess að hafa yfirsýn yfir verð­bréfasafn að baki hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða og fjárfestingasjóða. Upp­lýsingar um eignir til jöfnunar vátryggingaskuld skulu ársfjórðungslega sendar Fjármála­eftirlitinu og á öðrum tíma ef Fjármálaeftirlitið telur ástæðu til.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur Fjármálaeftirlitið ákveðið að upplýsingar vátrygg­inga­félags um eignir til jöfnunar vátryggingaskuld séu að jafnaði sendar því árlega ef gjaldþol félagsins er verulega umfram lágmarksgjaldþol og starfsemi félagsins er takmörkuð við sérhæfða vátryggingastarfsemi.

Ýmis ákvæði.

14. gr.

Fjármálaeftirlitinu er heimilt að fenginni rökstuddri umsókn frá frumtryggingafélagi að veita tímabundna og takmarkaða undanþágu frá ákvæðum 3. gr., 8. gr. og 9. gr. um samsetningu og dreifingu eigna og eignir á einni hendi sem mæta eiga vátryggingaskuld að teknu tilliti til nauðsynlegra varfærnissjónarmiða, sbr. 2. gr. og 7. gr.

15. gr.

Reglugerð þessi er sett á grundvelli 36. gr. laga um vátryggingastarfsemi, nr. 56/2010. Hún kemur í stað reglugerðar nr. 777/2010 um sama efni og öðlast þegar gildi.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, 1. mars 2011.

Árni Páll Árnason.

Kjartan Gunnarsson.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 7. mars 2011