Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 930/2007

Nr. 930/2007 24. september 2007
SKIPULAGSSKRÁ
Menningarsjóðs Borgarbyggðar.

1. gr.

Sjóðurinn heitir Menningarsjóður Borgarbyggðar. Heimili hans og varnarþing er í Borgar­byggð.

2. gr.

Sjóðurinn var stofnaður 22. mars 1967, í tilefni af 100 ára verslunarafmæli Borgarness og var skipulagsskrá fyrir sjóðinn staðfest af dómsmálaráðherra 10. nóvember 1970. Ný skipulagsskrá fyrir sjóðinn var staðfest þann 4. desember 1979.

3. gr.

Tilgangur sjóðsins er að styrkja menningarmál í Borgarbyggð og skal það gert með veitingu styrkja eða öðrum þeim verkefnum sem stjórn sjóðsins telur þjóna markmiðum hans. Megináherslan er á að styðja verkefni sem styrkja menningarlíf í héraðinu sem og þau sem eru líkleg til þess að vekja almenna athygli á menningarstarfsemi á svæðinu.

4. gr.

Stofnfé sjóðsins var 1.000.000 gkr. sem greiddar voru af Borgarneshreppi árin 1968-1977. Stofnandi sjóðsins var hreppsnefnd Borgarneshrepps. Stofnfé sjóðsins er nú kr. 1.254.380 miðað við vísitölu neysluverðs frá janúar 1977 - janúar 2007.

5. gr.

Árlegar tekjur sjóðsins eru framlag frá Borgarbyggð samkvæmt fjárhagsáætlun sveitar­félagsins hverju sinni og gjafir sem sjóðnum kunna að berast.

6. gr.

Höfuðstól sjóðsins skal aldrei skerða. Hann skal ávaxtast þar sem sjóðsstjórnin telur heppilegast og tryggast. Úthlutun úr sjóðnum má nema vaxtatekjum hans hverju sinni, svo og árlegu framlagi sveitarsjóðs Borgarbyggðar. Sjóðsstjórn hefur heimild til að leggja vexti og framlag sveitarsjóðs Borgarbyggðar til höfuðstóls einstök ár, einnig geyma til síðari ára, til úthlutunar þá, nokkurn hluta eða allt, sem kemur til úthlutunar ár hvert.

7. gr.

Stjórn sjóðsins er skipuð fimm mönnum sem kjörnir eru af sveitarstjórn Borgarbyggðar. Kosið skal í stjórnina á tveggja ára fresti. Stjórn sjóðsins ber ábyrgð á fjárvörslu hans.

8. gr.

Halda skal gjörðabók fyrir sjóðinn. Í hana skal færa meðal annars skipulagsskrá þessa, ársreikninga sjóðsins, ennfremur umsóknir um styrki og hverjum styrkir er veittir hverju sinni.

9. gr.

Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af endurskoðendum Borgarbyggðar og þeir birtir ásamt reikningum sveitarfélagsins auk þess sem eigi síðar en 30. júní ár hvert skal senda Ríkisendurskoðun reikning sjóðsins fyrir næstliðið ár ásamt skýrslu um hvernig fé sjóðsins hefur verið ráðstafað á því ári.

10. gr.

Heimilt er að breyta skipulagsskránni en til þess þarf samþykki allra stjórnarmanna á tveimur fundum stjórnar, sem haldnir skulu með minnst einnar viku millibili svo og samþykki þeirra aðila sem hafa lagt fram minnst 2/3 hluta stofnfjár. Breytingar á skipulagsskrá skulu hljóta staðfestingu sýslumannsins á Sauðárkróki.

11. gr.

Sjóðnum verður slitið ef stjórnin samþykkir slíka tillögu með auknum meirihluta atkvæða (3/5 í lögmætri atkvæðagreiðslu). Leita skal samþykkis sýslumannsins á Sauðárkróki fyrir slitum. Við slit skulu eignir sjóðsins renna til Safnahúss Borgarfjarðar.

12. gr.

Skipulagsskrá þessi kemur í stað skipulagsskrár fyrir sjóðinn sem staðfest var af dómsmálaráðherra 4. desember 1979. Leita skal staðfestingar sýslumannsins á Sauðárkróki skv. 1. gr. laga nr. 19/1988 á skipulagsskrá þessari og fellur þá hin eldri skipulagsskrá úr gildi.

Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með skv. lögum um sjóði og stofnanir sem starfa skv. staðfestri skipulagsskrá nr. 19/1988.

Sýslumaðurinn á Sauðárkróki, 24. september 2007.

Ríkarður Másson.

B deild - Útgáfud.: 12. október 2007