Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1195/2005

Nr. 1195/2005 28. desember 2005
REGLUR
um skattmat vegna tekna manna tekjuárið 2006.

Eftirfarandi reglur skulu gilda um mat á hlunnindum til tekna og kostnaði til frádráttar frá tekjum vegna tekjuársins 2006, sbr. 118. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt með áorðnum breytingum, sbr. og A-lið 1. mgr. 30. gr. og ákvæði í c-lið 6. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Skattmat þetta gildir einnig við staðgreiðslu opinberra gjalda á árinu 2006 nema um sé að ræða tekjur sem undanþegnar eru staðgreiðslu samkvæmt reglugerð nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu.

Skattmatið tekur til hvers þess sem nýtur hlunninda eða er aðnjótandi gæða, sem telja ber til tekna skv. 7. gr. laga nr. 90/2003, óháð starfssambandi milli þess er lætur hlunnindi eða gæði af hendi og þess sem þeirra nýtur. Skiptir ekki máli hvort það sem meta skal til tekna er endurgjald fyrir vinnu eða er tilkomið með öðrum hætti. Þegar talað er um launamann eða starfsmann í reglum þessum skal það eftir því sem við á einnig taka til maka hans og barna, svo og hvers þess aðila sem nýtur viðkomandi hlunninda í krafti eignar eða stjórnaraðildar eða vensla eða tengsla við þann sem hlunnindin lætur í té.

1. Almennt um mat á hlunnindum.

Telja ber til tekna hvers konar gæði sem mönnum hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir þá ekki máli hvaðan þau stafa eða í hvaða formi þau eru. Á það t.d. við um fatnað, fæði, húsnæði, hvers konar fríðindi, greiðslur í vörum eða afurðum svo og framlög og gjafir sé verðmætið hærra en almennt gerist um tækifærisgjafir.

Þau gæði og hlunnindi, sem ekki hafa verið í krónum talin, skal meta til peningaverðs og telja þau til tekna á því verði. Skulu þau metin til tekna á gangverði eða markaðsverði á hverjum tíma nema við þau eigi sérstakt tekjumat, sbr. kafla 2 hér á eftir.

Séu hlunnindi, eða annað sem telja ber til tekna, látið af hendi gegn greiðslu sem er lægri en skattmatið eða gangverðið skal telja mismuninn til tekna.

2. Sérstakt tekjumat.

2.1 Ýmis starfstengd hlunnindi.

Allur viðurgjörningur launagreiðanda við starfsmenn í öðru en reiðufé er lagður að jöfnu við laun til þeirra og ber að telja til tekna. Með viðurgjörningi við starfsmenn er átt við fríðindi tengd starfinu, sem þeir njóta án þess að greiða fyrir það fullt verð, hvort sem um er að ræða að launþeginn fái eitthvað til eignar, afnota, láns eða neyslu. Viðurgjörningur við starfsmenn telst til tekna miðað við markaðsverð eða gangverð, þ.e. það verð sem það hefði kostað launþegann að kaupa, leigja eða greiða fyrir afnot af því sem féll til hans.

Tiltekinn viðurgjörning við starfsmenn, sem er í mjög nánum tengslum við störf þeirra, almennur og aðgengilegur öllum, þarf ekki að telja til tekna, enda sé kostnaður hæfilegur miðað við einstök tilefni og heildstætt á árinu. Til þessa viðurgjörnings teljast árshátíðir starfsmanna, jólagleði og sambærilegar samkomur, svo og starfsmannaferðir, fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónusta, afnot af heilsubótaraðstöðu á starfsstað, kaffiveitingar í vinnutíma og námskeið sem tengjast starfinu beint. Til hans teljast ennfremur framlög til starfsmannafélaga vegna þessara liða.

Sé kostnaður á starfsmann samtals ekki hærri en 50.000 krónur á árinu skal hann ekki talinn til skattskyldra tekna hjá starfsmanninum. Sé kostnaðurinn í heild hærri en að framan greinir telst heildarfjárhæðin viðkomandi starfsmanni að fullu til tekna.

Hlunnindi sem sæta sérstöku skattmati í samræmi við eftirfarandi, og viðurgjörningur sem eingöngu eða fyrst og fremst er vegna einkaþarfa teljast alltaf til skattskyldra tekna.

2.2 Fatnaður.

Einkennisfatnaður sem launagreiðandi lætur launþega í té án endurgjalds skal metinn honum til tekna að fjárhæð 25.000 kr.

Nái kostnaðarverð fatnaðar ekki framangreindu mati skal miða við kostnaðarverðið. Við mat á því hvað telst til einkennisfatnaðar skal tekið tillit til fjölda starfsmanna sem fær slíkan fatnað afhentan, útlits fatnaðarins, t.d. þess hvort hann ber lit eða önnur ytri sérkenni sem einkennandi eru fyrir viðkomandi atvinnurekanda. Gera skal ráð fyrir að einkennisfatnaður aðgreini viðkomandi starfsmann frá hinum almenna borgara og að um sé að ræða fatnað sem ekki er fallinn til afnota utan vinnutíma og almennt ekki ætlaður til slíkra nota.

Ef lög eða stjórnvaldsfyrirmæli kveða á um að launþegi skuli klæðast ákveðnum einkennisfatnaði við störf sín skulu slík afnot ekki metin launþega til tekna.

Annar fatnaður en einkennisfatnaður sem starfsmanni er látinn í té skal talinn honum til tekna á kostnaðarverði.

Eigi skal reikna launþega til tekna nauðsynlegan öryggis- eða hlífðarfatnað við störf hans sem launagreiðandi afhendir honum til afnota þ.m.t. er sá öryggis- og hlífðarfatnaður sem launagreiðendum er skylt skv. lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og kjarasamningum að afhenda launþegum án endurgjalds.

2.3 Bifreiðahlunnindi.

Full og ótakmörkuð umráð.

Láti launagreiðandi starfsmanni sínum í té fólksbifreið, þ.m.t. skutbifreið (station) eða jeppabifreið, eða aðra bifreið sem hægt er að hafa sambærileg not af, til fullra umráða skal meta umráðin starfsmanni til tekna án tillits til notkunar hans á bifreiðinni.

Ársumráð bifreiðar skulu metin til tekna sem hlutfall af verði þeirra sem hér segir:

Bifreið sem tekin var í notkun á árunum 2004, 2005 eða 2006

20%

Bifreið sem tekin var í notkun á árunum 2001, 2002 eða 2003

15%

Bifreið sem tekin var í notkun á árunum 2000 eða fyrr

12%

Ekki skiptir máli hver upphaflegur eigandi bifreiðarinnar var. Bifreið sem flutt var inn notuð telst hafa verið tekin til notkunar á því ári sem hún var framleidd. Mánaðarleg hlunnindi teljast 1/12 af hlunnindum reiknuðum eins og að framan greinir fyrir hvern byrjaðan mánuð og skal við það miðað ef umráðin vara hluta úr ári.

Verð bifreiða eru í þessu sambandi skilgreind í bæklingnum Bifreiðaskrá RSK 6.03, sem gefinn er út árlega og fæst hjá skattstjórum og ríkisskattstjóra www.rsk.is. Verð bifreiðar skal ætíð miða við staðgreiðsluverð samkvæmt verðlista á nýrri bifreið frá bifreiðaumboði ár hvert með breytingum í samræmi við verðlagsbreytingar á milli ára. Sé bifreið eigi til sölu og eigi unnt að fá upplýsingar um verð á henni skal miða við verð á sambærilegum bifreiðum.

Hafi launagreiðandi bifreið á rekstrarleigu eða leigu og láti launþega hana í té til umráða skulu afnot af henni metin launþeganum til tekna á sama hátt og ef bifreiðin væri í eigu launagreiðandans sbr. framangreint.

Greiði launagreiðandi enn fremur rekstrarkostnað bifreiðar sem starfsmaður hans hefur umráð yfir skulu þau hlunnindi metin til verðs sem 6% af verði bifreiðarinnar skv. Bifreiðaskrá RSK.

Greiði launamaður launagreiðanda sínum fyrir afnot og/eða rekstur bifreiðarinnar koma slíkar greiðslur til frádráttar tekjumatinu.

Takmörkuð afnot.

Hafi starfsmaður haft afnot af bifreið launagreiðanda síns og honum er einungis heimilt að nota hana utan vinnutíma til aksturs milli heimilis og vinnustaðar og til einstakra tilfallandi afnota telst hann hafa takmörkuð afnot af bifreiðinni, enda sé hún að öðru leyti notuð í daglegum rekstri launagreiðanda. Takmörkuð afnot skulu metin til tekna miðað við 62 kr. á hvern ekinn kílómetra. Gögn um takmörkuð afnot skulu greinilega færð og vera aðgengileg skattyfirvöldum hvort sem er í bókhaldi launagreiðanda eða hjá starfsmanni. Sé um frekari afnot að ræða telst starfsmaður hafa full umráð bifreiðar eins og greint er frá hér að framan.

Þeir sem starfa við eigin atvinnurekstur eða stunda sjálfstæða starfsemi, eigendur fyrirtækja, framkvæmdastjórar þeirra og aðrir í sambærilegum störfum og stjórnarmenn félaga teljast hafa full og ótakmörkuð umráð yfir þeim fólksbifreiðum sem þeir hafa til einkanota.

2.4 Fæði.

Fæði, sem launagreiðandi lætur starfsmanni og fjölskyldu hans í té endurgjaldslaust, skal metið starfsmanninum til tekna sem hér segir:

 

kr.

Morgunverður

250

Hádegisverður eða kvöldverður

365

Fullt fæði á dag

980

2.5 Íbúðarhúsnæði og orlofshús.

Endurgjaldslaus afnot af íbúðarhúsnæði, þar með talið af sumarbústað sem launagreiðandi lætur starfsmanni í té skulu metin starfsmanninum til tekna sem hér segir:

Árleg afnot skulu metin til tekna sem jafngildir 5% af fasteignamati íbúðarhúsnæðisins (þ.m.t. bílskúr) og lóðar og margfölduð með gildistölu þess svæðis þar sem húsnæðið er sbr. eftirfarandi:

Gildistala

Staðsetning

1,0

Reykjavík (þar með talið Kjalarnes), Seltjarnarnes, Mosfellsbær, Kópavogur, Garðabær, Bessastaðahreppur, Hafnarfjörður.

0,80

Grindavík, Sandgerði, Gerðahreppur, Reykjanesbær, Vatnsleysu­strandarhreppur, Akranes, Akureyri, Árborg, Hveragerði, Ölfus.

0,70

Önnur sveitarfélög.

Endurgjaldslausa orkunotkun (rafmagn og hita) skal telja til tekna á kostnaðarverði.

Fylgi starfi launamanns kvöð um búsetu í húsnæði, sem launagreiðandi lætur honum í té, er skattstjóra heimilt að lækka mat húsnæðishlunninda við álagningu opinberra gjalda ef launþegi telst ekki nýta húsnæðið að fullu. Íbúðarhúsnæði allt að 150 m² að viðbættum 5 m² fyrir hvern íbúa umfram 6 telst fullnýtt.

Eigi skal meta til tekna afnot af húsnæði í verbúðum eða vinnubúðum þar sem launamaður dvelur um takmarkaðan tíma í þjónustu launagreiðanda.

Hafi launþegi tilfallandi endurgjaldslaus afnot af orlofshúsnæði frá launagreiðanda sínum skal telja launþeganum til tekna 1.500 kr. fyrir hvern dag sem hann eða aðrir fjölskyldumeðlimir hans hafa húsnæðið til afnota. Með orlofshúsnæði er í þessu sambandi átt við sumarbústaði og annað það húsnæði sem ætlað er til slíkrar notkunar.

2.6 Lán.

Sá sem fær vaxtalaust lán hjá launagreiðanda sínum eða fyrir milligöngu hans skal telja sér vaxtahagræðið til tekna. Sama á við um greiðslufresti og afborganir af kaupum á hlutabréfum eða öðrum eignum. Fyrir árið 2006 miðast tekjumatið við 11,0% ársvexti af höfuðstól með verðbótum. Séu vextir af fengnu láni lægri en framangreindir vextir skal telja mismuninn til tekna.

3. Frádráttur frá tekjum.

3.1 Frádráttur kostnaðar á móti ökutækjastyrk.

Frá ökutækjastyrk, sem launþegi hefur fært til tekna, skal leyfa sem frádrátt sannanlegan rekstrarkostnað sem starfsmaður hefur borið vegna rekstrar ökutækis. Skilyrði fyrir frádrættinum er að færð hafi verið akstursdagbók eða akstursskýrsla þar sem skráð er hver ferð, dagsetning, ekin vegalengd, aksturserindi, kílómetragjald, nafn og kennitala launamanns og einkennisnúmer viðkomandi ökutækis, sbr. reglugerð nr. 591/1987 um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu. Skal færa þessi gögn reglulega og skulu þau vera aðgengileg skattyfirvöldum þegar þau óska þess.

Kostnaður við rekstur ökutækis telst því aðeins sannaður að fullnægt sé neðangreindum skilyrðum:

1)

Á eyðublaði RSK 3.04, ökutækjastyrkur og ökutækjarekstur, eða á annan jafn fullnægjandi hátt, sé gerð sundurliðun á heildarrekstrarkostnaði ökutækisins, þ.m.t. árleg afskrift mest einnar bifreiðar, sem reiknast 370.000 kr. Afskrift ökutækis sem notað er hluta úr ári reiknast hlutfallslega.

2)

Á eyðublaði RSK 3.04 komi fram sundurliðun á heildarnotkun ökutækisins í a) akstur til og frá vinnu, en hann telst allur vera í eigin þágu, b) annan akstur í eigin þágu og c) akstur í þágu launagreiðanda.

Til frádráttar skal leyfa þann hluta af heildarrekstrarkostnaði bifreiðarinnar sem svarar til afnota hennar í þágu launagreiðanda, þó að hámarki 62 kr. á hvern ekinn km í þágu launagreiðanda. Aldrei leyfist þó hærri fjárhæð til frádráttar en talin er til tekna sem ökutækjastyrkur.

Fái launþegi greitt svonefnt „sérstakt gjald“ eða „torfærugjald“ á árinu 2006 fyrir akstur við erfiðar aðstæður má hækka hámarksfrádrátt fyrir hvern ekinn km sem hann fær greiddan samkvæmt „sérstöku gjaldi“ í 71,30 kr. og/eða samkvæmt „torfærugjaldi“ í 89,90 kr., enda sé gerð fullnægjandi grein fyrir því að forsendur fyrir greiðslu sérstaks gjalds og torfærugjalds séu uppfylltar.

Fái starfsmaður greiðslu fyrir almenn afnot af bifreið sinni og endurgreiðsla á kostnaði hafi verið miðuð við 2000 km eða minna er ekki krafist sundurliðunar á rekstrarkostnaði, sbr. tölulið 1 hér að framan. Skilyrði er að færð hafi verið akstursdagbók eða akstursskýrsla eða fyrir liggi skriflegur afnotasamningur þar sem aksturserindum er lýst og að eyðublað RSK 3.04 hafi verið útfyllt, sbr. tölulið 2 hér að framan.

3.2 Frádráttur á móti dagpeningum.

Frádráttur á móti dagpeningum sem launþegi hefur fengið greidda frá launagreiðanda sínum er heimill, enda hafi dagpeningarnir verið greiddir vegna tilfallandi ferða á vegum launagreiðandans utan venjulegs vinnustaðar og launþeginn greitt gistingu og fæði og annan ferðatengdan kostnað, svo sem fargjöld að og frá flugvöllum. Frádrátturinn er jafnframt háður því skilyrði að fyrir liggi í bókhaldi launagreiðanda, sem og hjá launþega, gögn um tilefni ferðar og fjölda dvalardaga, fjárhæð ferðapeninga eða dagpeninga, svo og nafn og kennitala launþega.

Að uppfylltum framangreindum skilyrðum er leyfilegur frádráttur frá greiddum dagpeningum á árinu 2006 sem hér segir:

Frádráttur á móti dagpeningum innanlands.

Fyrir gistingu og fæði í einn sólarhring

14.300

Fyrir gistingu í eina nótt

8.300

Fyrir fæði hvern heilan dag, minnst 10 tíma ferðalag

6.000

Fyrir fæði í hálfan dag, minnst 6 tíma ferðalag

3.000

Frádráttur vegna dagpeninga erlendis í SDR.

 

Almennir dagpeningar

Dagpeningar vegna
þjálfunar, náms o.fl.

 
 

Gisting

Annað

Gisting

Annað

London, New York borg, Washington

145

110

93

70

DC og Tókýó

    

Annars staðar

110

100

70

64

Sé dvalið skemur en 3 vikur á sama stað er heimilt að draga frá óskerta almenna dagpeninga. Sé dvalið 3 vikur eða lengur á sama stað er heimilt að draga frá óskerta almenna dagpeninga fyrstu vikuna en síðan þjálfunar-, náms- eða eftirlitsdagpeninga. Fari dvöl erlendis vegna þjálfunar, náms eða eftirlitsstarfa fram úr 3 mánuðum skal frádráttur vegna þjálfunar-, náms- og eftirlitsdagpeninga lækka um fjórðung þann tíma sem dvalið er lengur en 3 mánuði.

Hafi gisting launþega verið greidd samkvæmt reikningi er honum einungis heimilt að draga fjárhæð samsvarandi „Annað“ frá fengnum dagpeningum.

Hafi starfsmaður fengið greidda dagpeninga fyrir samtals 30 daga eða fleiri á árinu 2006 skulu viðmiðunarfjárhæðir hér að framan lækka um 1000 kr. fyrir hvern dag sem dagpeningagreiðslur fara fram yfir 30 daga samfellt. Gildir það bæði varðandi almenna dagpeninga erlendis, dagpeninga vegna þjálfunar, náms eða eftirlitsstarfa og dagpeninga innanlands. Samsvarandi fjárhæð vegna dagpeningagreiðslna innanlands fyrir hálfan dag er 500 kr.

Frá tekjum manna af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi er heimilt, í stað þess að ferðakostnaður annar en gisti- og fæðiskostnaður erlendis sé dreginn frá samkvæmt reikningi, að draga frá fasta fjárhæð, sem hæst getur orðið 30% af þeim hluta dagpeninga, sbr. framangreint, sem er vegna annars kostnaðar en gistingar.

3.3 Vinna erlendis.

Sé dvöl launþega erlendis vegna tímabundinna starfa þar á vegum íslensks launagreiðanda eiga reglur í tölulið 3.2. um frádrátt á móti dagpeningum vegna ferðalaga ekki við en honum er þá heimilt að draga frá sérgreindum greiðslum, sem hann kann að hafa fengið vegna uppihalds, í allt að 3 ár fjárhæð sem hæst getur orðið 30 SDR á dag. Skiptir ekki máli í þessu sambandi þó launþegi komi í stuttar heimsóknir hingað til lands á umræddu tímabili.

3.4 Frádráttur vegna fóstrunar barna.

Ef framteljandi hefur fengið greiðslur vegna barna sem sett eru í fóstur hjá honum af barnaverndarnefnd eða meðferðarstofnunum ber að tekjufæra þær greiðslur. Færa má til frádráttar sannanlegan kostnað sem beint tengist þessum greiðslum. Þegar um er að ræða vistun eins eða tveggja barna má færa í stað sannanlegs kostnaðar, vegna hvers barns, frádrátt sem svarar til tvöfalds barnalífeyris, en þó aldrei hærri fjárhæð en greiðslunum nemur.

3.5 Frádráttur vegna dagvistunar eða sumardvalar barna og til stuðningsfjölskyldna fatlaðra barna.

Í stað frádráttar sem byggist á sannanlegum kostnaði er í slíkum rekstri heimilt að færa til frádráttar 90 kr. fyrir hvern veittan morgunverð eða síðdegishressingu og 200 kr. fyrir hvern veittan hádegis- eða kvöldverð. Slíkur frádráttur má þó aldrei vera hærri en innheimt var fyrir fæði samkvæmt gjaldskrá.

Í stað sannanlegs viðhaldskostnaðar húsnæðis og húsbúnaðar, kostnaðar vegna hreinlætisvara, föndurvara, bóka, bifreiðakostnaðar, gæsluvallagjalda o.þ.h. má færa til frádráttar á móti öðrum tekjum en vegna fæðissölu 25% af þeim tekjum. Ef um sumardvöl er að ræða má færa til frádráttar 20% af tekjum án fæðissölu, enda sé um gistingu að ræða. Slíkur frádráttur má þó aldrei vera hærri fjárhæð en innheimt er vegna þessara liða samkvæmt gjaldskrá.

Hjá stuðningsfjölskyldum fatlaðra barna eru sömu skilyrði og að framan greinir fyrir frádrætti í stað sannanlegs kostnaðar. Þá eru sömu reglur um fæðiskostnað og um frádrátt frá tekjum eftir því hvort viðkomandi barn er í dag- eða sólarhringsvistun. Sé um kostnað að ræða sem leiðir af sérþörfum barnsins vegna fötlunar má færa þann kostnað til frádráttar auk frádráttar samkvæmt mati ríkisskattstjóra, enda sé gerð sérstök grein fyrir honum.

3.6 Frádráttur vegna vistunar aldraðra og öryrkja.

Ef um er að ræða greiðslur vegna vistunar aldraðra eða öryrkja í heimahúsum er heimilt í stað sannanlegs kostnaðar að færa til frádráttar á móti greiðslum sem svarar til tvöfalds ellilífeyris (grunnlífeyris), en þó aldrei hærri fjárhæð en nemur greiðslunum.

3.7 Fæðisfrádráttur hjá launagreiðanda.

Launagreiðendur sem ekki færa sérreikning yfir fæðiskostnað launþega sinna mega draga frá tekjum sínum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi 830 kr. fyrir hvern heilan fæðisdag sem þeir láta launþegum sínum í té fæði án endurgjalds. Sama gildir um fæði sem launagreiðandi lætur fjölskyldu launþegans í té án endurgjalds.

Fjármálaráðuneytinu, 28. desember 2005.

F. h. r.

Baldur Guðlaugsson.

Ragnheiður Snorradóttir.

B deild - Útgáfud.: 6. janúar 2006