Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 861/2008

Nr. 861/2008 20. ágúst 2008
REGLUGERÐ
um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

1. gr.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er háskólastofnun með sjálfstæðan fjárhag og heyrir undir menntamálaráðherra. Stofnunin hefur náin tengsl við Háskóla Íslands, m.a. þar sem hún varðveitir Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi fyrir hönd Háskóla Íslands. Stofnunin starfar náið með Háskóla Íslands í samræmi við samstarfs­samning, sbr. 7. gr.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum skal varðveita og sjá um handrit og skjalagögn sem afhent voru samkvæmt sáttmála milli Danmerkur og Íslands, dagsettum 1. júlí 1965 og fullgiltum 1. apríl 1971, um flutning hluta af handritum Stofnunar Árna Magnússonar og Konunglega bókasafnsins í Kaupmannahöfn í vörslu og umsjón Háskóla Íslands.

2. gr.

Hlutverk Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er að vinna að rannsóknum í íslenskum fræðum og skyldum fræðigreinum, einkum á sviði íslenskrar tungu og bók­mennta, að miðla þekkingu á þeim fræðum og varðveita og efla þau söfn sem henni eru falin eða hún á. Verkefni stofnunarinnar eru einkum þessi:

 1. Varðveisla, öflun og skráning.
  Varðveisla, öflun og skráning mikilvægra frumgagna og afrita; handrita, skjala, hljóðritana, orðasafna, örnefnasafna o.fl. Stofnunin safnar þjóðfræðum og heimildum um íslenskan orða- og nafnaforða. Stofnunin ábyrgist öryggi, afritun og forvörslu efnisins.
 2. Rannsóknir.
  Stofnunin vinnur að rannsóknum á einkennum, sögu, texta og efni handrita; á þjóðfræðaefni; á sögulegum heimildum; á íslenska orða- og nafnaforðanum og sögu hans; á samtímamálinu; og að rannsóknum á sviði íslenskrar menningar að fornu og nýju. Stofnunin sinnir ýmsum tungutækni- og íðorðafræðilegum verkefnum.
 3. Ráðgjöf og miðlun þekkingar.
  Stofnunin miðlar þekkingu á íslenskri tungu.
  Málfarsráðgjöf og leiðbeiningar hennar miða að eflingu og varðveislu íslenskrar tungu í ræðu og riti og skulu byggðar á fræðilegum grundvelli. Stofnunin veitir aðgang að því efni sem hún varðveitir, m.a. með því að starfrækja opna gagnagrunna.
 4. Samstarf, kynningar- og kennslumál.
  Stofnunin kynnir íslenska menningu heima og erlendis og beitir sér fyrir umræðu um stöðu hennar, m.a. með sýningum á gögnum stofnunarinnar, ráðstefnum, námskeiðum, fundum og fyrirlestrum. Stofnunin starfar að eflingu kennslu í íslensku sem erlendu máli innan lands og utan og kennslu þeirra sem eiga sér íslensku sem annað mál. Hún sér um sendikennslu erlendis skv. samningi við menntamálaráðuneyti og aflar og miðlar gögnum um kennslu og rannsóknir tengdar íslenskri menningu. Stofnunin á samstarf við aðrar íslenskar og erlendar stofnanir sem geyma íslensk frumgögn og við hliðstæðar rannsóknarstofnanir og háskóla innan lands og utan. Hún tekur þátt í samstarfi fræðimanna á sínu sviði, leiðbeinir og starfar m.a. með þeim sem vinna að íðorðasöfnum og orðabókargerð og með útgefendum landakorta að því er varðar birtingu örnefna og að örnefnavernd.
 5. Útgáfa.
  Stofnunin gefur út fræðirit, texta eftir handritum, þjóðfræðaefni, orða- og nafnabækur og annað efni sem tengist starfsemi hennar.
 6. Bókasafn.
  Stofnunin starfrækir safn bóka og annarra upplýsingagagna á fræðasviði sínu til stuðnings rannsókna- og miðlunarhlutverki. Sérstök áhersla skal lögð á að afla bóka sem ekki eru til í öðrum söfnum hér á landi auk afrita af frumgögnum í innlendum og erlendum söfnum.

3. gr.

Menntamálaráðherra skipar stofnuninni fimm manna stjórn til fjögurra ára í senn, þrjá samkvæmt tilnefningu háskólaráðs Háskóla Íslands, tvo án tilnefningar og er annar þeirra formaður stjórnar.

Hlutverk stjórnar er að veita forstöðumanni ráðgjöf, svo og umsagnir um starfsáætlanir og skipulag stofnunarinnar. Hún tilnefnir einn fulltrúa í dómnefnd sem ráðherra skipar vegna skipunar í embætti forstöðumanns, sbr. 5. gr. og einn fulltrúa í dómnefnd sem forstöðumaður skipar vegna ráðningar til rannsóknarstarfa, sbr. 9. gr. Stjórnin veitir ráðherra umsögn vegna skipunar forstöðumanns með hliðsjón af áliti dómnefndar um hæfisskilyrði umsækjenda um starf forstöðumanns, sbr. 5. gr. Þá veitir hún umsögn um tillögu forstöðumanns að reglugerð, sbr. 4. gr. laga um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Stjórnin heldur fundi eftir þörfum.

4. gr.

Forstöðumaður kallar húsþing saman og stjórnar því. Á húsþingi stofnunarinnar eiga sæti þeir sem ráðnir eru til rannsóknarstarfa við stofnunina. Þeir hafa atkvæðisrétt vegna ákvarðana og umsagna sem lögin mæla fyrir um. Húsþing skal kalla saman ef þriðjungur þeirra sem ráðnir eru til rannsóknarstarfa óskar. Húsþing tilnefnir mann í dómnefnd vegna skipunar forstöðumanns og veitir umsögn um tillögu forstöðumanns að reglugerð, sbr. 4. gr. laganna. Húsþing tilnefnir fulltrúa í dómnefnd vegna ráðningar til rannsóknar­starfa, sbr. 9. gr. og veitir forstöðumanni umsögn um slíka ráðningu. Húsþing veitir forstöðumanni rökstudda umsögn um umsækjendur um sérstakar rannsóknar­stöður tengdar nafni Árna Magnússonar og Sigurðar Nordals, sbr. 8. gr.

Forstöðumaður getur boðað aðra starfsmenn til húsþings. Auk þeirra verkefna sem ákveðin eru með lögunum er húsþing vettvangur umræðu og ráðgjafar um innri málefni stofnunarinnar, um fræðilega stefnumótun, verkefni og útgáfumál.

5. gr.

Menntamálaráðherra skipar forstöðumann til fimm ára í senn að fenginni umsögn stjórnar stofnunarinnar. Forstöðumaður skal hafa hæfi sem prófessor á fræðasviði stofnunarinnar að mati þriggja manna dómnefndar sem menntamálaráðherra skipar. Skal einn nefndarmanna skipaður samkvæmt tilnefningu stjórnar stofnunarinnar og er hann jafnframt formaður, einn samkvæmt tilnefningu húsþings og einn án tilnefningar. Um hæfi dómnefndarmanna og störf dómnefndar fer eftir hliðstæðum reglum og við ráðningu sérfræðinga og kennara við Háskóla Íslands.

Forstöðumaður stjórnar stofnuninni og ber ábyrgð á að rekstur og starfsemi hennar sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Hann ræður starfsmenn stofnunarinnar og er í fyrirsvari fyrir hana. Um tengsl hans við Háskóla Íslands fer eftir samstarfssamningi stofnananna, sbr. 7. gr.

6. gr.

Starfsemi stofnunarinnar skiptist í svið eftir verkefnum: skal eitt eða fleiri svið sinna rannsóknum stofnunarinnar á handritum og textum úr skriflegri og munnlegri geymd og eitt eða fleiri svið sinna sérstaklega rannsóknum á íslensku máli, einkum orða- og nafnaforðanum. Starfsemi sem þjónar almenningi og fræðimönnum myndar eitt svið eða fleiri. Ýmis innri stoðþjónusta og stjórnsýsla þjónar allri stofnuninni.

Forstöðumaður skipar hverju sviði stjórnanda úr hópi starfsmanna sviðsins að höfðu samráði við starfsmenn þess. Stjórnendur sviða hafa daglega verkefnastjórn hver á sínu sviði og fyrirsvar af hálfu þess gagnvart forstöðumanni og öðrum sviðum.

7. gr.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gerir samstarfssamninga við Háskóla Íslands um starfstengsl, fjárhagsleg samskipti og skipan sameiginlegra starfa. Starfs­tengsl geta verið á sviði kennslu, leiðbeiningar doktors- og meistaranema, rannsókna og þjónustu. Stofnunin getur að eigin frumkvæði skipulagt námskeið en mat þeirra sem hluta háskólanáms er háð samþykki hlutaðeigandi háskóladeildar. Heimilt er að semja við Háskóla Íslands um sameiginlega umsjón ýmissa starfsmanna- og kjaramála, reglur um rétt starfsmanna til úthlutunar úr sjóðum, svo sem ársmatssjóði, sáttmálasjóði og vinnumatssjóði.

Stofnunin á samstarf við aðrar stofnanir á háskólastigi og aðrar menningarstofnanir samkvæmt sérstökum samningum.

8. gr.

Við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum skulu vera tvær sérstakar rannsóknarstöður. Skal önnur vera tengd nafni Árna Magnússonar en hin nafni Sigurðar Nordals. Að jafnaði skal auglýsa stöðurnar en forstöðumaður getur að fenginni umsögn húsþings ráðið í þessar stöður til tiltekins tíma án þess að þær séu auglýstar lausar til umsóknar. Húsþing veitir rökstudda umsögn um umsækjendur og skal hún reist á könnun á ferli þeirra, framlögðum verkum og rannsóknaráætlunum. Skyldur þessara starfs­manna við stofnunina eru að sinna rannsóknum innan þess ramma sem lög stofnunarinnar mæla fyrir um og auglýsing starfanna gefur til kynna. Þeir skulu kynna rannsóknir sínar með fyrirlestrum og birtu efni. Heimilt er að fela þeim að taka þátt í kennslu á vegum stofnunarinnar eða sinna öðrum þjónustuverkefnum, þó aldrei meira en sem nemur 20% af starfsskyldu.

9. gr.

Við ráðningu til rannsóknarstarfa við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum skal fylgja hliðstæðum reglum og gert er við ráðningu kennara og sérfræðinga við Háskóla Íslands, sbr. III. kafla reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000, með síðari breytingum. Þriggja manna dómnefnd, sem forstöðumaður skipar, metur hæfi umsækjenda. Skal einn nefndarmanna skipaður samkvæmt tilnefningu stjórnar stofnunarinnar og er hann jafnframt formaður, einn samkvæmt tilnefningu húsþings og einn samkvæmt tilnefningu menntamálaráðherra. Fulltrúar tilnefndir af stjórn og ráðherra eru fastafulltrúar í nefndinni en fulltrúi húsþings skal valinn hverju sinni með tilliti til sérfræðiþekkingar á því sviði sem starfið tekur til.

Forstöðumanni er heimilt að skipa sérstaka dómnefnd við mat á umsækjendum um einstakt rannsóknarstarf mæli sérstök rök með því, enda tilnefni sömu aðilar fulltrúa í dómnefndina og endranær, sbr. 2. mgr. 40. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000.

Dómnefnd skal skera úr um hvort umsækjendur séu hæfir til starfsins. Engan má ráða til rannsóknarstarfa samkvæmt þessari grein nema meirihluti dómnefndar hafi talið hann hæfan. Fulltrúar í dómnefnd skulu hafa hæfi rannsóknardósents hið minnsta. Áður en forstöðumaður ræður í starfið skal hann leita umsagnar húsþings og skal hún vera rökstudd.

Starfsheiti þeirra sem ráðnir eru til rannsóknarstarfa skulu vera rannsóknarlektor, rannsóknardósent og rannsóknarprófessor.

Stofnunin setur sér siðareglur, m.a. um fræðilegt sjálfstæði starfsmanna.

10. gr.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er skrifstofa Íslenskrar málnefndar. Stofnuninni ber að sjá Íslenskri málnefnd fyrir fundaraðstöðu, fundarritara, veita henni almenna skrifstofuþjónustu og aðstoð við alþjóðleg samskipti.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum getur gert tímabundna samstarfs­samninga við Íslenska málnefnd þar sem m.a. yrði kveðið á um fjárhagsleg samskipti og sérstök verkefni.

11. gr.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er skrifstofa örnefnanefndar. Stofnuninni ber að sjá örnefnanefnd fyrir fundaraðstöðu, fundarritara, veita henni almenna skrifstofu­þjónustu og aðstoð við alþjóðleg samskipti.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum getur gert tímabundna samstarfs­samninga við örnefnanefnd þar sem m.a. yrði kveðið á um fjárhagsleg sam­skipti og sérstök verkefni.

12. gr.

Rekstur stofnunarinnar er greiddur af ríkisfé samkvæmt því sem ákveðið er í fjárlögum. Aðrar tekjur stofnunarinnar eru: tekjur af seldum útgáfubókum og öðrum útgefnum verkum, styrkir til einstakra verkefna og gjafir.

Stofnuninni er heimilt að innheimta gjöld fyrir afrit gagna úr segulbandasöfnum, fyrir gerð og birtingu ljósmynda úr handritum, fyrir hvers konar sérunnin afrit af gögnum í vörslu stofnunarinnar, fyrir afnot af rannsóknaraðstöðu, fyrir veitta sérfræðiþjónustu vegna yfirlesturs gagna og gagnaöflunar, og fyrir aðgang að sýningum á vegum stofnunarinnar. Stofnunin setur gjaldskrá um framangreinda gjaldtöku.

13. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 10. gr. laga um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, nr. 40/2006, öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 20. ágúst 2008.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Guðmundur Árnason.

B deild - Útgáfud.: 10. september 2008