Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 141/2010

Nr. 141/2010 2. febrúar 2010
REGLUR
um farmvernd.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið farmverndar.

Markmið farmverndarráðstafana samkvæmt reglum þessum er að hindra að hvers kyns hættuleg efni, vopn og tæki sem nota má til að ógna mönnum, skipum eða höfnum, og ekki hefur verið veitt sérstök heimild til flutnings á, komist inn á haftasvæði eða um borð í flutningsfar. Farmverndarráðstafanir skulu tryggja með áhrifaríkum hætti vernd farms frá hleðslustað að geymslusvæði og á haftasvæði.

2. gr.

Orðskýringar.

Í reglum þessum merkir:

Farmvernd: Forvarnir til að vernda farm gegn hvers kyns ógn af hryðjuverkum eða öðrum ólögmætum aðgerðum.

Farmverndaráætlun: Upplýsingar farmverndaraðila um öryggisráðstafanir vegna fram­kvæmdar á farmvernd.

Farmur: Sérhver vörusending sem skráð er á farmskrá.

Farmverndarfulltrúi: Starfsmaður vottaðra farmverndaraðila (t.d. útflytjenda, farm­flytjenda og flutningsmiðlara) sem fengið hefur viðurkenningu tollstjóra til að gegna nánar tilgreindu hlutverki gagnvart farmvernd.

Farmverndarinnsigli: Sérstakt innsigli er tollstjóri lætur framleiða til notkunar vegna inn­siglunar gáma til útflutnings.

Farmverndaryfirlýsing: Yfirlýsing farmverndarfulltrúa um innihald farms o.fl. á sérstöku eyðublaði sem tollstjóri lætur í té. Eintak af skjali þessu skal fylgja vöru að skipshlið.

Hafnarsvæði:Svæði hafnar sem skilgreint er samkvæmt reglum viðkomandi hafnar.

Hafnaraðstaða: Eitt eða fleiri svæði (port facility) innan hvers hafnarsvæðis samkvæmt skilgreiningu Siglingastofnunar. Hafnaraðstaða getur jafnframt verið haftasvæði.

Haftasvæði: Eitt eða fleiri svæði innan hafnaraðstöðu. Haftasvæði getur jafnframt eftir atvikum verið hafnaraðstaða. Haftasvæði getur verið innan hafnaraðstöðu eða fyrir utan tiltekna hafnaraðstöðu en innan hafnarsvæðis.

Verndarfulltrúi: Sá einstaklingur sem viðurkenndur er af Siglingastofnun og falin er gerð, framkvæmd, endurskoðun og viðhald verndaráætlunar.

Vottaður farmverndaraðili: Aðili sem hefur verið viðurkenndur af tollstjóra sem ábyrgðar­aðili fyrir hleðslu farms samkvæmt reglum þessum.

3. gr.

Stjórn og framkvæmd farmverndar.

Tollstjóri fer með framkvæmd farmverndar samkvæmt reglum þessum.

Tollstjóri sér um að leiðbeina og upplýsa útflytjendur, flutningsmiðlara, farmflytjendur og önnur fyrirtæki og hafnaryfirvöld um gerð áhættumats, verndaráætlanir og aðrar aðgerðir vegna farmverndar. Hann sér um rekstur tölvuvædds farmverndarkerfis vegna farmverndaráætlana, farmverndaryfirlýsinga og annarra gagna vegna farmverndar og ákveður gerð farmverndarinnsigla og útgáfu farmverndareyðublaða.

Tollstjóri vottar útflytjendur, flutningsmiðlara, farmflytjendur og önnur fyrirtæki sem farmverndaraðila vegna farmverndar.

Tollstjóri annast fræðslu starfsfólks tollstjóra er kemur að farmvernd auk annarra aðila eftir því sem við á.

Tollstjóri annast framkvæmd farmverndarráðstafana samkvæmt þessum reglum, þ.m.t. eftirlit með farmi sem flytja á úr landi.

4. gr.

Aðgangur tollstjóra.

Tollstjóri hefur aðgang að öllum gögnum og upplýsingum í starfsstöðvum vottaðra farmverndaraðila er varða farmvernd og að þeim svæðum þar sem meðferð vöru til útflutnings fer fram.

5. gr.

Upplýsingaskylda.

Tollgæslan skal fá upplýsingar um alla vöru, m.a. aðgang að útflutningsfarmskrá og útflutningsskýrslum, svo tímanlega að skoðun verði við komið, áður en hún er sett inn á haftasvæðið.

Tollgæslan skal hafa aðgang að eftirlitskerfum og upplýsingum er kerfin hafa vistað.

Tollgæslan getur hafnað að farið sé með vöru á haftasvæði, t.d. ef upplýsingar skortir.

Verndarfulltrúar hafna og farmverndarfulltrúar farmverndaraðila skulu veita toll­yfirvöldum allar þær upplýsingar er varða farmvernd sem þeir komast að í störfum sínum.

II. KAFLI

Farmvernd og aðstaða á hafnarsvæðum.

6. gr.

Farmvernd á haftasvæðum.

Í hverri útflutningshöfn skal vera afgirt eða afmarkað haftasvæði fyrir vörur til útflutn­ings.

Hafnaraðstaða og/eða haftasvæði skal vera aðgangsstýrt og vaktað sjónrænt eða með myndavélum eða annarri tækni eftir aðstæðum. Hliðvarsla skal viðhöfð inn á haftasvæði þar sem við á og viðhafa skal eftirlit innan svæðis, m.a. með umferð fólks og farartækja, aðgangsheimildum og með farmi þannig að tryggt sé að ekki sé átt við þá vöru sem þar er geymd frá því að skoðun hennar lauk og þar til hún er færð um borð í skip.

Tollstjóri getur heimilað, telji hann slíkt fullnægjandi, að viðhöfð sé sýnileg afmörkun haftasvæðis fyrir farm ef haftasvæðið er innan hafnaraðstöðu eða haftasvæðið er jafnframt hafnaraðstaða samkvæmt reglum Siglingastofnunar. Þetta á einkum við sé hafnaraðstaða lítil, umferð lítil um eða við svæðið eða fáar skipakomur, enda sé tryggð vöktun, aðgangsstýring, gæsla og eftirlit með svæðinu.

Farm, sem ekki fylgir lögmæt farmverndaryfirlýsing, má ekki geyma á haftasvæði. Gám sem hefur ekki verið innsiglaður með farmverndarinnsigli má ekki flytja inn á hafta­svæði.

Haftasvæði sem eru ekki innan hafnaraðstöðu skulu afgirt samkvæmt reglum Siglinga­stofnunar og þeirra vandlega gætt á meðan útflutningsvara er á svæðunum. Hafta­svæði skal að öðru leyti fullnægja þeim skilyrðum sem tollstjóri setur.

Tollstjóri annast eftirlit með svæðunum og að reglum sé fylgt.

7. gr.

Aðstaða til farmverndareftirlits.

Í útflutningshöfn skal vera aðstaða fyrir tollgæslu til skoðunar á vörum sem ætlaðar eru til útflutnings áður en þær fara á haftasvæði.

Skoðunaraðstaðan skal vera þannig að þar sé nægjanlegt athafnasvæði til vöruskoðunar og annarra eftirlitsstarfa ásamt tækjum og útbúnaði til þeirra starfa. Enn fremur skal svo um búið að óviðkomandi eigi ekki aðgang að skoðunaraðstöðu á meðan skoðun fer fram.

III. KAFLI

Vottun aðila o.fl.

8. gr.

Vottaðir farmverndaraðilar.

Tollstjóra er heimilt að viðurkenna eftirtalda sem farmverndaraðila vegna farmverndar við hleðslu og flutning farms:

  1. Aðila sem stunda útflutningsverslun, framleiðslu eða viðgerðaþjónustu í atvinnu­skyni og flytja út vörur með reglubundnum hætti.
  2. Flutningsaðila og flutningsmiðlara.
  3. Aðila sem annast um útflutning, frágang, pökkun og hleðslu vöru.

Vottaðir farmverndaraðilar skulu fá úthlutað sérstöku heimildarnúmeri.

Tollstjóri skal halda skrá yfir vottaða farmverndaraðila.

Flutningsmiðlara og farmflytjendur má votta til að koma fram gagnvart tollstjóra með tilliti til farmverndar þannig að þeir geti tekið að sér farmvernd fyrir hönd útflytjenda vöru.

9. gr.

Skilyrði fyrir vottun farmverndaraðila.

Tollstjóri vottar farmverndaraðila, sbr. 1. mgr. 8. gr., að eftirtöldum skilyrðum upp­fylltum:

  1. Þeir hafi tilskilin leyfi eða skráningu til viðkomandi atvinnustarfsemi, svo sem skráða verslun, sbr. lög nr. 28/1998 um verslunaratvinnu, iðnaðarleyfi, sbr. iðnaðarlög nr. 42/1978, vinnsluleyfi, sbr. lög nr. 55/1998 um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða eða önnur leyfi eða skráningu sem krafist er.
  2. Þeir hafi tilkynnt ríkisskattstjóra um atvinnustarfsemi sína og hafi verið færðir á fyrirtækjaskrá, sbr. lög nr. 17/2003 um fyrirtækjaskrá.
  3. Þeir hafi tilkynnt skattstjóra um starfsemi sína skv. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
  4. Þeir hafi á að skipa starfsliði sem hefur til að bera fullnægjandi þekkingu á lögum um siglingavernd og reglum um farmvernd auk þjálfunar um öryggisþætti vegna starfa þeirra.

Vottuðum farmverndaraðilum, sbr. a. lið 1. mgr. 8. gr., og farmverndarfulltrúum þeirra er hvorki heimilt að votta útflutning hjá öðrum aðilum né afhenda öðrum úthlutuð farmverndarinnsigli.

10. gr.

Umsókn um vottun.

Sækja skal skriflega til tollstjóra um vottun farmverndaraðila og viðurkenningu þeirra starfsmanna umsækjanda sem óskað er að gegni starfi farmverndarfulltrúa.

Rafrænt form umsóknar skal skilmerkilega útfyllt af forráðamanni eða framkvæmda­stjóra umsækjanda eins og texti reita segir til um og umsóknin send rafrænt á vefsíðu tollstjóra. Jafnframt skal umsóknin prentuð út og undirrituð af forráða­manni eða framkvæmdastjóra umsækjanda og send tollstjóra. Verði umsókn samþykkt fær umsækjandi það staðfest í tölvupósti frá tollstjóra.

Í umsókn skal m.a. veita upplýsingar um eftirfarandi atriði vegna útflutnings fyrir­tækisins:

  1. Tegund atvinnustarfsemi fyrirtækis.
  2. Vörusvið útflutnings.
  3. Viðskiptalönd, sem útflutningur er sendur til.
  4. Fjölda útfluttra gáma síðustu 24 mánuði og áætlaðan fjölda á komandi 12 mánuðum frá dagsetningu umsóknar.
  5. Upplýsingar um tilnefnda farmverndarfulltrúa.

Vegna ábyrgðar þeirrar sem hvílir á umsækjanda er skylt að tilkynna tollstjóra þegar í stað um allar breytingar sem verða á upplýsingum sem veittar eru í umsókninni.

Tilkynning um nýja farmverndarfulltrúa, sem hann tilnefnir, skal send rafrænt til toll­stjóra. Verði farmverndarfulltrúi samþykktur, fær umsækjandi það staðfest í tölvupósti frá tollstjóra.

Tollstjóri getur krafist ítarlegra upplýsinga um tilnefnda farmverndarfulltrúa, t.d. saka­vottorðs eða upplýsinga um starfsferil.

11. gr.

Farmverndaráætlun.

Þegar fyrirtæki hefur starfsemi sem viðurkenndur farmverndaraðili, ber forráðamanni að gera grein fyrir almennum öryggisráðstöfunum vegna farmverndar. Í farmverndaráætlun skal veita upplýsingar um öryggisatriði, sem snerta framkvæmd farmverndar hjá fyrirtækinu. Rafrænt form og efni farmverndaráætlunar, sem tollstjóri ákveður, skal skilmerkilega útfyllt af forráðamanni eða framkvæmdastjóra umsækjanda eins og texti reita segir til um. Farmverndaráætlun skal skilað innan þess frests sem tollstjóri ákveður.

12. gr.

Afturköllun.

Tollstjóri getur afturkallað vottun farmverndaraðila ef skilyrði 9. gr. eru ekki lengur uppfyllt eða hann vanrækir gróflega skyldur sínar varðandi framkvæmd farmverndar­ráðstafana.

IV. KAFLI

Farmverndaryfirlýsing og innsigli.

13. gr.

Farmverndaryfirlýsing.

Með hverjum útfluttum vörugámi og lausafarmi skal fylgja farmverndaryfirlýsing. Sameina má fleiri en einn tóman gám á eina farmverndaryfirlýsingu. Farmverndaraðili skal senda farmverndaryfirlýsingu með rafrænum hætti til tollstjóra.

Form farmverndaryfirlýsingar er ákveðið af tollstjóra. Á farmverndaryfirlýsingu skal skráð nafn leyfishafa, innihald gáms, leyfisnúmer og númer innsiglis. Á farmverndar­yfirlýsingunni skal einnig koma fram hvenær vöru var hlaðið í gám eða á annan hátt til flutnings og hver er farmverndarfulltrúi. Einnig skal koma fram útgáfudagur farmverndar­yfirlýsingar af hálfu farmverndarfulltrúa, móttökudagur farmflytjanda eða verndarfulltrúa hafnar ásamt skráningarnúmeri flutningatækis í innanlandsflutningi eða flutnings­tækis sem flutt verður úr landi ásamt viðkomandi gámi og önnur atriði eftir því sem form farmverndaryfirlýsingar gefur tilefni til.

Afrit farmverndaryfirlýsingar skulu að lokinni útskipun varðveitt í a.m.k. þrjá mánuði hjá verndarfulltrúum hafna eða hjá farmflytjendum er þeir vísa til.

14. gr.

Farmverndarinnsigli.

Allir vörugámar sem hlaðnir eru hér á landi til útflutnings skulu vera innsiglaðir. Ekki er þó þörf á að innsigla tóma gáma. Þegar gámur er hlaðinn skal farmverndaraðili innsigla gáminn á yfirfellda hurð hans. Innsiglaður gámur ásamt farmverndaryfirlýsingu er afhent flutningsaðila.

Tollstjóri ákveður gerð farmverndarinnsigla, sem m.a. eru með bláan efri helming og bera hlaupandi númer á eftir skammstöfuninni IS-SCS, t.d. IS-SCS - 121212.

Viðurkenndir farmverndaraðilar fá innsigli afhent hjá tollstjóra gegn gjaldi samkvæmt gjaldskrá tollstjóra.

Aðilar sem hafa fengið afhent farmverndarinnsigli hjá tollstjóra skulu varðveita þau með öruggum hætti og gæta þess að þau týnist ekki eða misfarið sé með þau. Ef rjúfa þarf innsigli eða það skemmist skal það tilkynnt tollstjóra svo fljótt sem við verður komið. Skemmd eða rofin innsigli skulu varðveitt og síðan afhent tollstjóra. Þau innsigli skulu jafnframt skráð með viðeigandi athugasemd. Glatist eða ónýtist innsigli skal þegar tilkynna það tollstjóra.

V. KAFLI

Meðferð farms.

15. gr.

Innsiglaðir hlaðnir gámar.

Farmflytjandi skal skrá númer farmverndarinnsiglis og gámanúmer í farmskrá og farmbréf er fylgir hlöðnum gámnum á endastöð erlendis.

Þegar farmverndarfulltrúi útflytjanda hefur afhent verndarfulltrúa hafnar eða farmvernd­ar­fulltrúa farmflytjanda hlaðinn eða tóman vörugám ásamt farmverndar­yfirlýsingu telst ábyrgð sendingarinnar vera í höndum verndarfulltrúa eða farmflytjanda eftir atvikum.

16. gr.

Óinnsiglaðir hlaðnir gámar.

Ekki má flytja hlaðinn vörugám óinnsiglaðan inn á haftasvæði farmflytjanda eða hafnar.

Komi vörugámur hlaðinn en óinnsiglaður á útflutningsstað skal verndarfulltrúi hafnarinnar eða fulltrúi farmflytjanda sjá til þess að hann sé ekki settur á haftasvæði viðkomandi hafnar og jafnframt tilkynna það tollstjóra sem tekur ákvörðun um framhald málsins.

17. gr.

Flutningur innsiglaðs gáms á haftasvæði.

Vörugámur sem hefur verið innsiglaður með farmverndarinnsigli skal tafarlaust fluttur á haftasvæði viðkomandi hafnar.

18. gr.

Vörugeymslur.

Útflutningsvörur sem geymdar eru á geymslusvæðum farmflytjenda og bíða þess að verða fluttar úr landi skulu aðskildar frá öðrum vörum í geymslum eins og kostur er.

Þegar kemur til hleðslu á vörugámi skal farmverndaraðili hafa eftirlit með hleðslunni og ganga síðan frá gámnum á sama hátt og segir í 13. og 14. gr.

19. gr.

Útflytjendur heimilismuna og aðrir er ekki hafa hlotið vottun.

Útflutningsaðilar sem ekki hafa hlotið vottun geta snúið sér til farmverndaraðila, skv. b- og c-lið 1. mgr. 8. gr., með væntanlegan útflutning til að uppfylla skilyrði farmverndar.

20. gr.

Reglur um vöru sem lestuð er með færibandi eða dælum.

Farmverndarfulltrúi farmverndaraðila skal staðfesta á farmverndaryfirlýsingu að við lestun fari ekki annað um borð en sú vara er kemur fram á farmverndaryfirlýsingunni. Heimildarnúmer farmverndaraðila skal skrá í farmskrá og/eða farmbréf.

Lestunarsvæði, svæðið milli skips og lands þar sem tengingar eiga sér stað ásamt dælubúnaði og stjórnstöð, skal vera haftasvæði meðan á lestun stendur. Hæfilegt svæði, að mati tollstjóra, umhverfis lestunarbúnað skal vera haftasvæði.

21. gr.

Farmur sem ekið er að skipshlið í sekkjum, stykkjum eða lausu.

Farmverndarfulltrúi farmverndaraðila skal staðfesta með farmverndaryfirlýsingu að við lestun fari ekki annað um borð en sú vara er fram kemur á farmverndaryfirlýsingunni. Heimildarnúmer farmverndaraðila skal skrá í farmskrá og/eða farmbréf.

Áður en lestun eða flutningur hefst skal farmverndarfulltrúi farmverndaraðila leggja fram lista yfir skráningarnúmer þeirra ökutækja sem notuð verða til flutnings ásamt nafni og kennitölu ökumanns. Verndarfulltrúi hafnar eða farmflytjandi skal staðfesta móttöku vörunnar. Hæfilegt svæði, að mati tollstjóra, umhverfis lestunarbúnað skal vera hafta­svæði.

22. gr.

Ferjustöðvar.

Á ferjustöðvum skal farið með farm samkvæmt reglum þessum.

VI. KAFLI

Viðurlög.

23. gr.

Viðurlög.

Brot á reglum þessum getur varðað fangelsi eða sektum samkvæmt lögum um siglinga­vernd nr. 50/2004, með síðari breytingum.

VII. KAFLI

Gildistaka og önnur ákvæði.

24. gr.

Öryggiseftirlit með farþegum og áhöfnum.

Tollstjóra er heimilt að taka að sér öryggiseftirlit í höfnum, þ.m.t. með farþegum og áhöfnum skipa, samkvæmt sérstöku samkomulagi við hafnaryfirvöld á hverjum stað.

25. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 9. mgr. 4. gr. og 7. gr. laga um siglinga­vernd nr. 50/2004, sbr. lög nr. 18/2007 um breyting á þeim, og 10. tölul. 1. mgr. 195. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 7. gr. laga nr. 167/2008 um breyting á þeim, og öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 929/2008 um sama efni.

Tollstjóri, 2. febrúar 2010.

Snorri Olsen.

Sigurður Skúli Bergsson.

B deild - Útgáfud.: 19. febrúar 2010