Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 901/2010

Nr. 901/2010 9. nóvember 2010
SAMÞYKKT
um fráveitur í Svalbarðsstrandarhreppi.

I. KAFLI

Um fráveitur.

1. gr.

Samþykkt þessi gildir um fráveitur og meðhöndlun seyru í Svalbarðsstrandarhreppi.

2. gr.

Svalbarðsstrandarhreppur ber ábyrgð á uppbyggingu fráveitna í sveitarfélaginu í samræmi við 1. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna.

Sveitarfélagið starfrækir fráveitu í þéttbýlinu á Svalbarðseyri. Sveitarsjóður kostar rekstur fráveitu sveitarfélagsins og framkvæmdir við hana.

Sveitarfélagið sér um lagningu og viðhald allra fráveitulagna, þ.e. stofnlagna, safnkerfa og fráveitutenginga. Sveitarstjórn ákveður framkvæmdir við fráveitur og veitir árlega fé á fjárhagsáætlun sveitarsjóðs til reksturs og framkvæmda við þær.

Sveitarfélagið getur tekið að sér fráveitu á öðrum svæðum í sveitarfélaginu í samræmi við 1. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna.

Sveitarstjóri fer með umsjón, hönnun, framkvæmdir og rekstur fráveitna sveitarfélagsins í umboði sveitarstjórnar.

3. gr.

Fráveita sveitarfélagsins veitir frárennsli sem getur verið húsaskólp, iðnaðarskólp, ofanvatn, frárennslisvatn hitaveitu, kælivatn og ræsisvatn um fráveitulagnir frá byggð til viðtaka.

Einföld fráveita veitir skólpi og ofanvatni saman í einni fráveitulögn en tvöföld fráveita veitir skólpi og ofanvatni í tveimur aðskildum fráveitulögnum.

Sveitarsjóður er eigandi fráveitu sveitarfélagsins að heimæðum húseigna.

4. gr.

Þar sem fráveita sveitarfélagsins nær til skal húseigendum séð fyrir tengingu frá fráveitukerfi að heimæð húseigna. Þar sem fráveitan liggur um lóðir skal séð fyrir tengigrein á holræsalögn.

Sveitarstjóri, undir yfirstjórn sveitarstjórnar, fer með stjórn framkvæmda er fráveitu sveitarfélagsins varðar og ákveður legu götulagna og tengigreina.

Heimilt er sveitarstjóra að fela sérstökum umsjónarmanni yfirstjórn fráveitukerfisins.

5. gr.

Húseigendum sem eiga húseignir við vegi eða opin svæði þar sem fráveita sveitarfélagsins liggur er skylt að annast lagningu og viðhald heimæða fyrir frárennsli að tengingu við fráveitukerfi. Lagnirnar skulu tengjast lögnum fráveitu á þeim stað og með þeirri hæðarsetningu sem sveitarfélagið tilgreinir. Þegar lögð er tvöföld fráveita skulu húseigendur halda skólpi aðskildu frá ofanvatni og bakrennslisvatni hitaveitu. Að öðru leyti gilda ákvæði laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna, reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp og reglugerðar nr. 799/1999 um meðhöndlun seyru.

6. gr.

Þegar ekki er unnt að ná nægilegum halla á frárennsli húseignar að fráveitu sveitarfélagsins skal húseigandi leiða fráveituvatn frá húseigninni að rotþró eða safnbrunni þannig staðsettum að hægt sé að veita frárennsli frá honum í fráveitu sveitarfélagsins.

7. gr.

Þar sem sveitarstjórn nýtir ekki heimild sína skv. 3. mgr. 2. gr. skal landeigandi sjá til þess að skólp sé hreinsað og koma á safnkerfi, stofnlögnum og sameiginlegu hreinsivirki eftir því sem nánar er kveðið á um í deiliskipulagi. Þar sem ekki er til staðar sameiginleg fráveita skal frárennsli einstakra húsa veitt í hreinsivirki, t.d. rotþró með siturlögn. Húseigandi kostar niðursetningu og annan frágang hreinsivirkis, svo sem rotþróa og lagna svo og viðhald þeirra. Varðandi rotþrær vísast að öðru leyti til samþykktar nr. 671/2003 um hreinsun og losun rotþróa á starfssvæði heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra, að undanteknum Húsavíkurbæ.

8. gr.

Þegar tengja skal heimæð húseigna við fráveitu sveitarfélagsins eða veita frárennsli frá þeim um hreinsivirki, svo sem rotþró með siturlögn, skal sækja um það til byggingarfulltrúa sveitarfélagsins á þar til gerðum eyðublöðum. Umsóknir skulu undirritaðar af húseigendum eða fullgildum umboðsmönnum þeirra. Sé þörf á er sveitarstjórn heimilt að óska eftir teikningum af fráveitulögnum húsa og lóða og fráveitum frá húseignum sem tengja á fráveitu sveitarfélagsins, ásamt teikningum sem sýna gerð hreinsivirkis, stærð og staðsetningu þess og losun í viðtaka auk teikninga af fráveitulögnum húsa og lóða. Hreinsivirki skal valinn þannig staður að auðvelt sé að komast að því með tæki til hreinsunar, sbr. 11. gr.

9. gr.

Teikningar skulu fylgja almennum reglum um hönnun fráveitulagna í húsum, sbr. byggingarreglugerð og byggingarskilmála. Allt efni skal standast kröfur um efni og vinnu sem gerðar eru á hverjum tíma.

10. gr.

Byggingarfulltrúi sveitarfélagsins skal hafa eftirlit með því að fráveitulagnir frá húseignum séu lagðar samkvæmt samþykktum teikningum. Áður en lagnir eru huldar skal einnig taka út og viðurkenna fráveitu frá húseignum og tengingar þeirra við fráveitu sveitarfélagsins eða rotþrær.

11. gr.

Eigendum fasteigna er skylt að hlíta því að lagnir fráveitu sveitarfélagsins séu lagðar um lóðir þeirra eða lönd og fram fari á þeim nauðsynlegt viðhald og hreinsun. Sveitarfélaginu er skylt að halda raski í lágmarki og ganga snyrtilega um og færa allt til fyrra horfs eins og við verður komið.

12. gr.

Húseigendum er skylt að halda vel við fráveitulögnum húseigna sinna og gæta þess að þær stíflist ekki.

Óheimilt er að láta í fráveitu sveitarfélagsins fitu frá stórum eldhúsum eða matvælaiðnaði, olíur, bensín, lífræn leysiefni, önnur spilliefni eða annað það sem skemmt getur eða truflað rekstur fráveitukerfisins eða skaðað viðtaka.

Þar sem hætta er á að fráveituvatn innihaldi framangreind efni, ber eiganda húseignar að gera ráðstafanir til að fjarlægja þau eða gera óskaðleg, áður en fráveituvatninu er veitt í fráveitukerfi. Svalbarðsstrandarhreppur getur krafist þess að viðurkenndum búnaði sé komið fyrir til að hindra að ofangreind efni komist í fráveitukerfi.

Óheimilt er að láta í fráveituna matarleifar frá vaskakvörnum.

Um mengunarvarnir fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim.

13. gr.

Þar sem hætta er á að fráveituvatn frá fráveitu sveitarfélagsins flæði til baka um fráræsislagnir frá húseignum vegna vatnsborðsriss af völdum ofanvatns eða öðrum orsökum skulu húseigendur koma fyrir sjálfvirkum flóðlokum við gólfniðurföll á sinn kostnað.

II. KAFLI

Um fráveitu- og rotþróargjöld.

14. gr.

Sveitarfélagið skal innheimta gjald fyrir tengingu við fráveitukerfi sveitarfélagsins. Gjaldið skal miðað við gerð, stærð og lengd tenginga. Heimilt er sveitarfélaginu að innheimta með tengigjaldi hlutdeild í stofnkostnaði við aðliggjandi fráveitukerfi, þó ekki kostnaði vegna stofnlagna nema þær gegni jafnframt hlutverki safnkerfa. Gjaldið og gjalddagi þess skal ákveðið í gjaldskrá samkvæmt 15. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna og skal sveitarfélagið láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

15. gr.

Af þeim fasteignum í sveitarfélaginu sem liggja við vegi, götur eða opin svæði sem tengdar eru eða munu tengjast fráveitu sveitarfélagsins skal árlega greiða fráveitugjald og skal því varið til þess að standa straum af kostnaði við fráveitu sveitarfélagsins.

Þar sem frárennsli er veitt frá atvinnustarfsemi eða vegna annars en venjulegra heimilisnota í fráveitukerfi sveitarfélagsins er heimilt að innheimta gjald vegna losunar miðað við innrennsli vatns samkvæmt mæli. Sé vatn notað til framleiðslu þannig að því sé ekki veitt í fráveitukerfi skal notandi mæla notkun þess. Sú notkun skal dregin frá innmældu magni við útreikning á gjaldi. Verði mælingu ekki við komið skulu aðilar meta vatnsnotkun til frádráttar á innmældu vatnsmagni.

Eigendur fasteigna sem ekki eiga þess kost að tengja húseign sína við fráveitukerfi sveitarfélagsins eru undanþegnir fráveitugjaldi.

16. gr.

Álagningarstofn fráveitugjalds skal vera fasteignamat húsa, mannvirkja, lóða og landa, samkvæmt lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna.

17. gr.

Fráveitugjald greiðist af skráðum eiganda fasteignar ef um eignarlóð er að ræða en af leigutaka ef um leigulóð er að ræða og bera þessir aðilar ábyrgð á greiðslu gjaldsins. Gjaldið og gjalddagi þess skal ákveðið í gjaldskrá samkvæmt 15. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna og skal sveitarfélagið láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Fráveitugjaldi og tengigjaldi ásamt innheimtukostnaði og vöxtum fylgir lögveðsréttur í fasteigninni í tvö ár frá gjalddaga. Lögveð þetta gengur fyrir eldri sem yngri samnings- og aðfararveðum og yngri lögveðum. Ef hús brennur eftir að fráveitugjald eða heimæðargjald gjaldfellur er sami forgangsréttur í brunabótafjárhæð fasteignarinnar.

18. gr.

Fyrir hreinsun og tæmingu á rotþró skal húseigandi greiða árlegt rotþróargjald sem standa skal undir kostnaði við verkið. Gjaldið skal ákveðið í gjaldskrá, sbr. 4. gr. samþykktar nr. 671/2003 um hreinsun og losun rotþróa á starfssvæði heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra, að undanteknum Húsavíkurbæ og 11. gr. laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003, sbr. einnig 15. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Þá skal sveitarfélagið láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við ákvæði 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Heimilt er að innheimta aukagjald af þeim húseignum þar sem um óvenjumikinn kostnað er að ræða við hreinsun og tæmingu eða þegar um sérstaka rotþró við útihús er að ræða. Gjald þetta má þó aldrei vera hærra en svo að nemi sannanlegum kostnaði við verkið.

19. gr.

Sveitarstjórn er heimilt að nýta sér heimild í 4. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna til að lækka eða fella niður gjöld hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum samkvæmt reglum sem sveitarstjórn setur.

III. KAFLI

Ýmis ákvæði.

20. gr.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum rúmist þau jafnframt innan refsiákvæða hlutaðeigandi heimildarlaga, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Skulu þau brot sæta þeirri málsmeðferð sem boðin er í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

21. gr.

Samþykkt þessi staðfestist hér með samkvæmt 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, ákvæðum 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og samkvæmt 10. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna til þess að öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 109/1995 um fráveitur í Svalbarðsstrandarhreppi.

Umhverfisráðuneytinu, 9. nóvember 2010.

F. h. r.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir.

Íris Bjargmundsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 25. nóvember 2010