Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 618/2010

Nr. 618/2010 7. júlí 2010
FJALLSKILASAMÞYKKT
fyrir svæðið austan Vaðlaheiðar að mörkum Langanesbyggðar og Vopnafjarðarhrepps.

I. KAFLI

Um stjórn fjallskilamála.

1. gr.

Svæðið austan Vaðlaheiðar að mörkum Vopnafjarðarhrepps skiptist í þrjú fjallskilasvæði sem hvert skiptist í fjallskiladeildir.

Vestasta svæðið afmarkast að vestan af mörkum Þingeyjarsveitar og sveitarfélaga við Eyjafjörð allt frá sjó að efstu drögum Bleiksmýrardals og að austan af Skjálfandafljóti. Innan þess svæðis eru eftirtaldar fjallskiladeildir: Fnjóskdæladeild, Kinnardeild og Bárðdæladeild vestri.

Annað fjallskilasvæði afmarkast að vestan af Skjálfandafljóti og að austan af Jökulsá á Fjöllum. Innan þess svæðis eru eftirtaldar fjallskiladeildir: Bárðdæladeild eystri, Mývetningadeild, Reykdæladeild, Aðaldæladeild, Reykjahverfisdeild, Húsavíkurdeild, Tjörnesdeild og Kelduhverfisdeild.

Austasta fjallskilasvæðið afmarkast að vestan af Jökulsá á Fjöllum en að austan af mörkum Langanesbyggðar og Vopnafjarðarhrepps. Innan þess svæðis eru eftirtaldar fjallskiladeildir: Langanesdeild eystri og vestri, Þistilfjarðardeild, Sléttudeild, Núpasveitardeild og Öxarfjarðardeild.

Stjórn fjallskilasvæðis getur lagt fyrir viðkomandi sveitarstjórn/stjórnir tillögur um breytingar á skipan fjallskiladeilda innan svæðis og taka þær gildi þegar þær hafa verið samþykktar af sveitarstjórn og staðfestar af héraðsnefnd.

2. gr.

Sveitarstjórnir í umboði héraðsnefndar eru ábyrgar fyrir framkvæmd fjallskilamála hver í sínu sveitarfélagi.

3. gr.

Hver sveitarstjórn skal í samráði við landeigendur í viðkomandi fjallskiladeild skipa einn mann í hverja fjallskiladeild sveitarfélagsins til að hafa á hendi stjórn og umsjón fjallskilamála innan deildarinnar og nefnist hann fjallskilastjóri. Fjallskilastjóri getur í samráði við sveitarstjórn valið sér samstarfsmenn einn eða fleiri, sem þá teljast ásamt honum stjórn viðkomandi fjallskiladeildar.

Fjallskilastjórar innan hvers fjallskilasvæðis skulu jafnframt vera fjallskilastjórn viðkomandi svæðis og skipuleggja eftir þörfum sameiginleg fjallskil svæðisins. Þeir skulu jafnframt tryggja samráð við fjallskilastjóra aðliggjandi fjallskilasvæða þar sem fé gengur saman. Hver fjallskilastjórn kýs sér formann.

Fjallskilastjórar skulu hver fyrir sig og eftir þörfum sameiginlega ákveða gangna- og réttardaga viðkomandi fjallskilasvæðis. Skal þeirri ákvörðun lokið fyrir 10. ágúst ár hvert.

4. gr.

Hver fjallskilastjóri skal halda sérstaka fjallskilabók. Þar skal skrá allt er við kemur fjallskilamálum viðkomandi fjallskiladeildar, þar á meðal landfræðileg mörk fjallskiladeildarinnar.

Sveitarsjóður skal greiða fjallskilastjórum sínum þóknun fyrir stjórnunarstörf er taki mið af þóknunum fyrir nefndarstörf á vegum sveitarfélagsins.

5. gr.

Hver fjallskiladeild skal hafa sérstakan fjallskilasjóð og renna í hann allar tekjur og úr honum greiðast öll gjöld, er af fjallskilum stafa.

Fjallskilastjóri ber ábyrgð á reikningsfærslu fjallskilasjóðs, innheimtum og gjöldum nema sveitarstjórn ákveði annað. Reikningar sjóðsins skulu fylgja sveitarsjóðsreikningum til endurskoðunar og úrskurðar.

II. KAFLI

Um afrétti, heimalönd og upprekstur.

6. gr.

Land, sem fjallskilaframkvæmd tekur til, skiptist í afrétti og heimalönd. Þar sem almenningar (óbyggðir) þurfa hreinsunar við tekur fjallskilaframkvæmd til þeirra, eftir því sem þörf krefur. Það skulu vera afréttir sem að fornu hafa verið, þó getur héraðsnefnd ákveðið nýja afrétti eftir tillögum viðkomandi sveitarstjórna og með samþykki landeigenda. Ennfremur geta sveitarstjórnir með samþykki héraðsnefndar, breytt takmörkum afrétta og lagt til þeirra land, er þær hafa full umráð yfir. Ekki verður afréttarland, þótt í einkaeign sé, gert að heimalandi, nema samþykki héraðsnefndar komi til.

7. gr.

Hver sveitarstjórn skal semja skrá um landamerki afréttarlanda sveitarfélagsins og skal hún innfærð í fjallskilabókina. Skrár þessar skulu sendar héraðsnefnd, er samræmir þær og gerir heildarskrá yfir alla afrétti er héraðsbúar nota. Breytingar á afréttum, eða réttindum yfir þeim skulu færðar í afréttarskrá.

8. gr.

Upprekstrarrétt á afrétti viðkomandi fjallskiladeildar eiga allir búfjáreigendur, sem landsnot hafa í viðkomandi fjallskiladeild. Ekki skal hefja upprekstur til afréttar að vori nema í samráði við fjallskilastjóra. Sumarbeitilönd sauðfjár, samkvæmt samþykkt þessari eru afréttir allir og heimalönd, að öðru leyti en því, sem girt er af þeim eða varið til annarra nota.

Um upprekstrarrétt á afréttarland, sem liggur undir einstaka jörð eða stofnun, fer eftir fornri venju eða samningum.

9. gr.

Heimilt er að nota heimalönd til upprekstrar fyrir sauðfé, ef sveitarstjórn samþykkir. Skoða skal slík heimalönd sem afrétt hvað göngur snertir, enda séu þau notuð á þann hátt af fleirum en landeiganda sjálfum.

Nú rekur maður fé sitt í annars manns heimaland í heimildarleysi, og getur þá eigandi eða umráðamaður landsins óskað úrbóta af hendi eiganda fjárins eða tilkynnt það fjallskilastjóra, er þá skal hafa samband við fjáreiganda og leita lausna. Sé um ítrekaðan rekstur í heimildarleysi að ræða getur fjallskilastjóri látið reka féð til afréttar á kostnað fjáreiganda. Verði ágreiningur milli fjallskilastjóra og fjáreiganda um gjald fyrir slíkan rekstur, má vísa ágreiningnum til héraðsnefndar til úrskurðar.

10. gr.

Um afréttargjald til eiganda afréttarlands fer eftir samningi eða, ef samkomulag næst ekki, eftir ákvörðun viðkomandi sveitarstjórnar. Þó getur sá aðili, sem eigi vill una ákvörðun sveitarstjórnar krafist mats dómkvaddra manna um gjaldhæð. Ákvörðun um hagatoll, hvort heldur ákveðinn er með samningi eða eftir mati, gildir aldrei fyrir lengri tíma en sex ár í senn.

11. gr.

Nú eiga tveir menn eða fleiri afrétt saman og skiptist þá afréttartollur milli þeirra eftir tiltölu hvers í afrétt, þótt einn leyfi upprekstur frekar en aðrir.

12. gr.

Heimilt er umráðamanni lands, sem verður fyrir ágangi af afréttarfé (þ.e. því fé sem sannanlega hefur verið rekið til afréttar) að sumrinu, að kvarta um það til viðkomandi fjallskilastjóra. Sjái fjallskilastjóri að kvörtunin er á rökum byggð, skal hann láta reka fénaðinn í afrétt eða til skilaréttar, svo fljótt sem verða má eftir að kvörtunin var gerð, nema öðruvísi um semjist við þann, er fyrir átroðningi varð og/eða eigendur fjárins. Kostnaður við slíka rekstra greiðist að jafnaði að hálfu úr fjallskilasjóði og að hálfu af eigendum fjárins.

Enginn má reka fénað þann, er úr afrétt gengur að sumrinu, til sveitar eða á nágranna.

Gangi búpeningur í engi, tún, garðlönd eða afgirt svæði og valdi tjóni, skal með það farið svo sem mælt er fyrir í 34. gr. afréttarlaga nr. 6 21. mars 1986.

Eigi má ónáða búfénað á afrétti eða taka hann þaðan nema með leyfi fjallskilastjóra.

III. KAFLI

Um fjárréttir.

13. gr.

Fjárréttir skiptast í aðalréttir, aukaréttir og heimaréttir. Stjórn fjallskilasvæðis ákveður aðalréttir innan fjallskilasvæðisins að fengnum tillögum fjallskilastjóra viðkomandi fjallskiladeilda. Breytingar á aðalréttum eru þó háðar samþykki viðkomandi sveitarstjórnar og héraðsnefndar. Aukaréttir og fyrirkomulag heimalandasmalana ákveður viðkomandi fjallskilastjóri/fjallskilastjórn viðkomandi fjallskiladeildar og kynnir fjallskilastjórn svæðisins.

Aðalréttir eru í:

Fnjóskdæladeild: Lokastaðarétt og Illugastaðarétt.

Bárðdæladeild vestri: Mýrarrétt og Fótarrétt.

Bárðdæladeild eystri: Árrétt og Víðikersrétt.

Mývetningadeild: Baldursheimsrétt og Hlíðarrétt.

Aðaldæladeild: Hraunsrétt.

Reykjahverfisdeild: Skógarétt.

Húsavíkurdeild: Húsavíkurrétt.

Tjörnesdeild: Tungugerðisrétt.

Keldhverfingadeild: Tjarnarleitisrétt.

Öxarfjarðardeild: Tungurétt, Sandfellshagarétt og Landsrétt.

Núpasveitardeild: Katastaðarétt.

Sléttudeild: Leirhafnarrétt.

Þistilfjarðardeild: Garðsrétt og Gunnarsstaðarétt.

Langanesdeild vestri: Hallgilsstaðarétt og Ósrétt.

Langanesdeild eystri: Miðfjarðarnesrétt.

14. gr.

Skylt er hverju sveitarfélagi eða fjallskiladeild að viðhalda aðalréttum og byggja að nýju þegar þörf krefur. Kostnaður við byggingu og viðhald aðalrétta - almennings og dilka greiðist úr fjallskilasjóði, en um kostnað vegna aukarétta fer eftir ákvörðun sveitarstjórnar eða fjallskilastjóra. Fjallskilastjóri hefur umsjón með byggingu og viðhaldi aðalrétta.

Skylt er landeiganda að leggja til land undir rétt og/eða geymsluhólf, þó ekki tún eða engi. Valdi byggingin grasnámi eða jarðusla greiðast bætur fyrir.

Heimilt er sveitarstjórn og fjallskilastjóra að greiða úr fjallskilasjóði styrk til byggingar heimarétta, en þó því aðeins, að gera þurfi ráð fyrir verulegu réttarplássi fyrir afbæjarfé.

15. gr.

Við hverja aðalrétt skal vera ómerkingadilkur, svo og dilkur fyrir sjúkt fé. Einnig skal fjallskilastjóri sjá um að við hverja aðalrétt séu nægilega margir dilkar fyrir fé úr öðrum hreppum. Auk þess skal við hverja aðalrétt vera nægilega víðlent, fjárhelt geymslupláss, svo hægt sé að geyma þar réttarsafn yfir nótt.

16. gr.

Þar sem afréttir eru víðlendir og þörf er á, skal byggja gangnamannakofa á hentugum stöðum, svo gangnamenn geti notið þar skjóls fyrir sig og hesta sína þegar þörf krefur. Fjallskilastjóri, sér um byggingu og viðhald gangnamannakofa. Kostnaður greiðist úr fjallskilasjóði.

17. gr.

Sveitarstjórn getur að fengnum tillögum viðkomandi fjallskilastjóra ákveðið að sérstakir kostnaðarliðir sem af fjallskilum stafa greiðist úr sveitarsjóði.

IV. KAFLI

Um göngur og réttir.

18. gr.

Hver ábúandi/fjáreigandi, sem á sauðfé á afrétt, er skyldur að gera fjallskil á þann hátt og á þeim tíma er fjallskilastjóri ákveður.

Þeir sem reka fé sitt í aðra fjallskiladeild en sína eigin skulu þar greiða 90% fjallskilakostnaðar á kind, til móts við aðra fjáreigendur þeirrar deildar. Þeir skulu jafnframt greiða 10% álagðs fjallskilakostnaðar á kind í sinni fjallskiladeild.

Skyldur er hver bóndi að inna af hendi fjallskil fyrir heimamenn sína og aðra, er hjá honum eiga fjallskyldan fénað, gegn endurgjaldi frá hlutaðeigandi fjáreiganda.

19. gr.

Skylt er hverjum fjáreiganda að gefa fjallskilastjóra skýrslu um fjártölu á afrétt á þeim tíma er hann ákveður sé þess óskað. Einnig er heimilt að nota fjártölu samkvæmt ásetningsskýrslu. Fjallskilastjóra er skylt að semja skýrslu um fjártölu þeirra aðila fjallskiladeildarinnar, er rekið hafa fé í aðrar fjallskiladeildir á utansveitaafrétti og senda hlutaðeigandi fjallskilastjóra eigi síðar en mánuði fyrir fyrstu göngur, sé þess óskað.

Fjallskilastjóri skal jafna öllum fjallskilakostnaði á fjártölu fjallskiladeildar og annarra þeirra, er afrétt fjallskiladeildarinnar nota, með ákveðinni krónutölu á kind og nefnist sú fjársöfnun fjallskilasjóður. Úr þeim sjóði skal greiða gangnakostnað og annað er fjallskil varðar, sbr. 14.-16. gr.

Heimilt er þó að leggja allt að einn þriðja hluta fjallskilakostnaðar á landverð jarða, að frádregnu verði ræktaðs lands og hlunninda. Ef heimild þessi er notuð skal vera sama álagningarhlutfall á landverð allra jarða, óháð búfjáreign á hverri jörð.

Fjallskilagjöld skulu að því leyti sem þau eru ekki jöfnuð með fjallskilum greidd í árslok.

20. gr.

Fjallskilastjóri skal skipta afrétti viðkomandi fjallskiladeildar í leitarsvæði og kveða á um hve marga menn þurfi í hverja leit, svo og til annarra fjárrétta, sem sækja þarf fé að. Skrá um þetta skal færa í fjallskilabók fjallskiladeildar. Fjallskilastjórar semja sín á milli um meðferð utansveitarfjár.

21. gr.

Nú verður ágangur fjár frá einni fjallskiladeild í aðra, getur þá sá er fyrir verulegum ágangi verður, krafið hinn aðilann um gjald fyrir, eða að hann sendi menn í göngur ef um semst, eftir því sem hæfilegt þykir, miðað við gangnakostnað og usla í högum. Komi fjallskilastjórar sér ekki saman um kostnað af þessu, má skjóta ágreiningnum til úrskurðar héraðsnefnda.

<

22. gr.

Hverjum fjáreiganda er skylt að inna af hendi fjallskil sem á hann hafa verið lögð, á þeim tíma og með þeim hætti, sem fjallskilastjóri hefur ákveðið. Heimilt er honum að bera upp við sveitarstjórn aðfinnslur um það hvernig fjallskilum er jafnað á hann og aðra. Náist ekki samkomulag milli sveitarstjórnar og fjáreiganda, má skjóta ágreiningnum til úrskurðar héraðsnefndar. Úrskurði héraðsnefndar má þó skjóta til sýslumanns sbr. 45. gr. laga um afréttarmálefni fjallskil o.fl. nr. 6 21. mars 1986.

Enginn sá, sem fjallskil eru lögð á, getur komist hjá að inna þau af hendi þótt hann hafi kært þau og lagt það mál til úrskurðar.

23. gr.

Nú vanrækir fjáreigandi að framkvæma þau gangnaskil, sem honum hafa verið gerð eða leggur ógildan mann til fjallskila, þá er það gangnarof og varðar sektum. Hefur þá gangnaforingi eða fjallskilastjóri rétt til að fá mann til að gera gangnaskil í stað þess, er gangnarof gerði, á hans kostnað. Auk þess greiði hann sekt til fjallskilasjóðs, er hálfum göngunum nemur. Sé brot ítrekað tvöfaldast sektirnar hverju sinni. Þó mega þær aldrei verða hærri en fjórfalt matsverð fjallskila þeirra sem vanrækt voru. Ekki er skylt að kæra fyrir gangnarof, ef forföll eða aðrar fullgildar málsbætur eru fyrir hendi. Sektir fyrir gangnarof renna í fjallskilasjóð.

24. gr.

Gangnamenn skulu að jafnaði ekki vera yngri en 16 ára. Gangnaforingjum er þó heimilt í samráði við fjallskilastjóra að taka gildan yngri gangnamann enda sé eðli og umfang gangna slíkt að það teljist forsvaranlegt.

Nú hefur fjáreigandi engan hæfan mann og getur ekki útvegað hann. Skal hann þá tilkynna það fjallskilastjóra minnst sex dögum áður en gangnaskilin eiga að framkvæmast. Fjallskilastjóri útvegar mann og annað sem með þarf, hest, fæði o.s.frv. Fjáreigandi greiðir síðan sektalaust allan þann kostnað sem af fjallskilum leiðir, án tillits til mats á þeim.

25. gr.

Fjallskilastjóri skipar einn kunnugan og gætinn mann sem gangnaforingja fyrir hvert leitarsvæði. Gangnaforingi skipar fyrir um tilhögun gangna og hefur alla stjórn á þeim. Hann sér um að safnið sé rekið með reglu og gætni og kveður menn til að gæta þess, þar til það er komið í rétt eða nátthaga.

Hver gangnamaður er skyldur til að hlýða gangnaforingja. Öll óhlýðni við skipunum hans varðar sektum.

26. gr.

Gangnaforingi skal annast um að farið sé svo vel með féð sem unnt er. Nú koma fyrir kindur, sem ekki er unnt að koma lifandi til rétta og ekki er þreytu um að kenna, skal þá slátra þeim. Fjallskilastjóra skal tilkynnt, ef gangnamenn hafa orðið að skilja eftir þreyttar kindur og ógangfærar, svo og kindur, sem lógað hefur verið í göngunum, skal hann þá, í samráði við eiganda eða eigendur, ráðstafa þeim svo fljótt sem unnt er. Fjallskilasjóður greiðir kostnað sem af þeim leiðir. Verði gangnamenn varir við annað búfé ( geitfé og hross) í högum í síðari göngum skulu þeir láta fjallskilastjóra og ef mögulegt er eigandur búfjárins vita þar um.

27. gr.

Fjallskilastjóri skal birta með umburðarbréfi (gangnaseðli), er berist eigi síðar en 15 dögum áður en fjallskil byrja, hvað hver fjáreigandi á að leggja til fjallskila á því hausti. Þar skal tekið fram: fjártala, áætlaður kostnaður á kind, hverjir séu gangnaforingjar, hvenær rétta skal á aðalréttum, hver sé réttarstjóri og annað það, er fjáreigendur og gangnamenn varðar.

Gangnaseðill skal svo fljótt sem verða má, ár hvert, aðgengilegur á heimasíðu viðkomandi sveitarfélags. Þar skulu einnig liggja fyrir upplýsingar um skipan fjallskiladeilda og ákvarðanir um aðal- og aukaréttir.

28. gr.

Göngur skulu hið fæsta vera tvennar haust hvert. Skal þá smala til réttar afréttarlönd og heimalönd, er afréttarfénaður gengur í að jafnaði.

29. gr.

Fjallskilum skal haga þannig, að réttardagur úr fyrstu göngum sé að jafnaði eigi síðar en 25. september. Heimilt er fjallskilastjóra að breyta út af þeirri reglu, ef nauðsyn krefur og samkomulag næst milli samliggjandi fjallskiladeilda. Réttardaga úr síðari göngum ákveður fjallskilastjóri á hverjum stað, sbr 3. gr. Fjallskilum skal lokið eigi síðar en 15. október.

30. gr.

Réttarstjóri skal láta taka allar sjúkar og grunsamlegar kindur úr safninu eða réttinni strax og þeirra verður vart og einangra þær. Hann skal og annast um, að ómörkuð lömb séu hirt á réttinni og dregin í dilk, svo fjáreigendum gefist kostur á að láta lambsmæður helga sér þau.

Enginn má helga sér marklausa kind eftir fjárbragði og enginn má taka ómarkað lamb af réttum, nema með samþykki réttarstjóra. Réttarstjóri skal að afloknum drætti afhenda fjallskilastjóra, eða umboðsmanni hans, alla ómerkinga og aðrar kindur sem ekki finnast eigendur að. Það fé, sem samkvæmt fyrirmælum yfirdýralæknis má ekki reka heim til sín, skal réttarstjóri í samráði við fjallskilastjóra færa til slátrunar.

31. gr.

Heimilt er fjallskilastjórum að ákveða að haustsmölun heimalanda verði metin til aðalfjallskila að meira eða minna leyti, eftir því sem til hagar á hverjum stað.

32. gr.

Nú er jörð í eyði og land hennar ekki lagt til afréttar viðkomandi sveitarfélags með samningum, er þá eiganda eða umboðsmanni hans skylt að annast um hreinsun heimalands jarðarinnar sem og önnur fjallskil, eins og byggð væri. Nú fellur sveitarfélag eða verulegur hluti þess úr byggð, og skal þá héraðsnefnd sjá um, að fjallskil séu framkvæmd á eyðilöndum. Kostnaður við þau skiptist þannig, að eigendur bera ½, sveitarfélög þau er fjárvon eiga í löndunum ¼ og ríkið ¼. Bændasamtök Íslands úrskurða kostnaðarreikninginn.

33. gr.

Nú eru heimalönd eigi smöluð af gangnamönnum og er hver bóndi skyldur að smala heimaland sitt á hausti samhliða leitum, ef fjallskilastjóri mælir svo fyrir. Sama gildir um eigendur eyðibýla þó þeir eigi þar ekki fjárvon, ennfremur hvílir sama skylda til smölunar á umráðarmönnum afgirtra svæða m.a. til landgræðslu, skógræktar og umhverfisverndar. Hlýði umráðamaður lands ekki fyrirmælum fjallskilastjóra, ber honum að greiða smölunarkostnað eftir mati fjallskilastjóra.

Vafafé og ómerkingar, sem ær hafa ekki helgað sér á aukarétt og heimarétt, gangi til aðalréttar. Að öðru leyti skipar fjallskilastjóri fyrir um meðferð þess fjár, er kemur fyrir í þeim réttum.

Í stað þess að afbæjarfé sem fyrir kemur á einstökum jörðum sé rekið til aðalréttar eða aukarétta getur fjallskilastjóri ákveðið að það fé sé flutt milli bæja af úrtíningsmönnum á kostnað viðkomandi fjallskiladeildar. Skal þá hver ábúandi sjá um sundurdrátt á því fé sem úr hans heimalandi kemur svo úrtíningsmenn geti gengið að því án tafar og bílfært skal vera að geymsluhólfi úrtínings.

V. KAFLI

Um hreinsun heimalanda eftir réttir.

34. gr.

Fjallskilastjóri skal sjá um, að eftir réttir á haustum séu öll heimalönd rækilega smöluð svo oft sem þurfa þykir.

35. gr.

Skyldur er hver bóndi eða landráðandi að hirða fé það, sem finnst í heimalandi hans, eftir að fjallgöngum er lokið og láta eigendur vita. Um utansveitarfé tilkynnist til fjallskilastjóra, sem ráðstafar því.

36. gr.

Hlutaðeigandi fjáreigandi sér um flutning þess fjár, sem fyrir kemur í öðrum sveitum, eftir að fjallskilum er lokið.

VI. KAFLI

Um óskilafé.

37. gr.

Hver sá, sem fjallskil innir af hendi, hvort heldur við smölun afrétta eða heimalanda, skal leitast við að handsama, svo fljótt sem verða má, ómerkinga, sem vart kann að verða og auðkenna þá, ef þeir fylgja móður.

Nú koma ómerkingar eða annað óskilafé til réttar, og skal þá draga það í sérstakan dilk, þar sem menn eiga kost á að leiða mæður til ómerkinga og sanna eignarétt sinn á öðru óskilafé. Fjárbragð eitt má aldrei skera úr um eignarrétt.

38. gr.

Ómerkingum og óskilafé, sem kemur fyrir í skilaréttum og ekki finnast eigendur að, skal lógað í sláturhúsi. Sér fjallskilastjóri um, að svo sé gert. Áður en slíku fé er lógað, skal skrifa nákvæma lýsingu á því, þar sem getið er marks og annarra einkenna, er eigendur gætu helgað sér það eftir.

Óskilafé, sem fram kemur eftir réttir og ekki finnast eigendur að, eða ekki kemst til eigenda vegna fjarlægðar, skal fara með á sama hátt.

Allt óskilafé, sem fargað er, skal lagt inn á reikning, þannig að greiða megi út verð hverrar kindar, ef eigandi finnst.

39. gr.

Af sláturverði ómerkinga og annars óskilafjár greiðist áfallinn kostnaður. Eftirstöðvar andvirðis greiðast eiganda, ef hann sannar eignarrétt sinn fyrir árslok, ella í viðkomandi fjallskilasjóð.

40. gr.

Nú kemur fyrir kind með marki ákveðins manns, en hann telur sig ekki eiganda. Skal þá fara með kindina sem óskilafé.

VII. KAFLI

Um eftirleitir.

41. gr.

Þegar fyrirskipuðum fjallskilum er að fullu lokið, skal fjallskilastjóri annast um að eftirleitir fari fram, ef þörf er talin á því, annað hvort fyrir umsamda borgun úr fjallskilasjóði eða á kostnað leitarmanna sjálfra.

Fjárleitir í óbyggðum, sem ekki geta talist til nokkurra afrétta, skulu gerðar eftir sömu reglum sem eftirleitir. Heimilt er að þær fari fram samtímis fjallskilum eða fyrr.

42. gr.

Nú finnur maður óheimt fé í eftirleit, ber honum þá einungis greiðsla fyrir ferðina ef gert hefur verið samkomuleg um slíkt við viðkomandi fjallskilastjóra. Borgun fyrir óheimt fé, sem og annar umsaminn kostnaður við eftirleitir greiðist úr fjallskilasjóði. Fyrir óheimt fé, sem finnst í heimalöndum eða við smölun fjár, þótt í afrétt sé, eftir 5. nóvember er eigi skylt að greiða fundarlaun.

Nú finnst fé í eftirleit, skal það tilkynnt fjallskilastjóra, en hann gerir ráðstafanir til að hið fundna fé komist til réttra eigenda.

VIII. KAFLI

Um mörk og markaskrá.

43. gr.

Fjármörk eru: örmerki, eyrnamörk, brennimörk og plötumerki í eyra. Hver fjáreigandi er skyldur að hafa glöggt mark á fé sínu. Skylt er hverjum fjáreiganda að hafa bæjarnúmer samkvæmt landsmarkaskrá í fé sínu.

44. gr.

Sauðfé skal draga eftir mörkum. Markið helgar markeiganda kind, nema sannist að annar eigi. Enginn má draga sér kind, sem eigi ber hans rétta mark. Við sönnun á eign kindar er örmerki rétthæst, þar næst brennimark, þá plötumerki og síðast eyrnamark.

45. gr.

Um rétt til fjármarka, skráningu þeirra og birtingu fer eftir lögum um afréttarmálefni fjallskil o.fl. nr. 6 21. mars 1986.

IX. KAFLI

Almenn ákvæði.

46. gr.

Um brot gegn ákvæðum þessarar samþykktar skal fara að hætti sakamála.

Samþykkt þessi sem samin er af nefnd á vegum héraðsnefnda Þingeyjarsýslna, staðfestist hér með samkvæmt lögum um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. nr. 6/1986, til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt eru úr gildi felldar eftirtaldar fjallskilasamþykktir: Fjallskilasamþykkt fyrir Norður-Þingeyjarsýslu austan Jökulsár nr. 170/1996, fjallskilasamþykkt fyrir Kelduneshrepp í Norður-Þingeyjarsýslu nr.172/1996 og fjallskilasamþykkt fyrir Suður-Þingeyjarsýslu austan Vaðlaheiðar nr. 169/1996.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 7. júlí 2010.

F. h. r.

Sigurgeir Þorgeirsson.

Arnór Snæbjörnsson.

B deild - Útgáfud.: 22. júlí 2010