Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1363/2011

Nr. 1363/2011 27. desember 2011
STARFSREGLUR
fjölmiðlanefndar.

1. gr.

Hlutverk og starfssvið fjölmiðlanefndar.

Fjölmiðlanefnd er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem annast eftirlit samkvæmt lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 (fjölmiðlalög) og daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til. Þá annast fjölmiðlanefnd þau hlutverk sem henni eru falin í öðrum lögum.

Með starfsemi fjölmiðlanefndar skal stuðlað að því að markmiðum og tilgangi fjölmiðla­laga verði náð. Nefndin skal vinna að því að efla fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum, standa vörð um tjáningarfrelsi og rétt almennings til upplýsinga. Nefndin skal sérstaklega stuðla að því að vernd barna sé virt, samkvæmt fyrirmælum fjölmiðlalaga.

Fjölmiðlanefnd skal m.a.:

 1. fylgjast með því að fjölmiðlaveitur fari að fyrirmælum fjölmiðlalaga, taka ákvarð­anir í málum samkvæmt þeim og beita viðurlögum þegar við á,
 2. fylgjast með stöðu og þróun á fjölmiðlamarkaði og safna upplýsingum þar að lútandi,
 3. annast samskipti við sambærileg stjórnvöld í öðrum EES-ríkjum og alþjóða­stofn­anir um málefni á starfsvettvangi sínum,
 4. annast eftirlit með skráningarskyldu og veitingu leyfa til hljóð- og myndmiðlunar og tryggja að lögboðnar upplýsingar um allar fjölmiðlaveitur séu til staðar, og
 5. annast eftirlit með innihaldi og framsetningu hljóð- og myndsendinga í viðskipta­skyni sem og viðskiptaboða í prentmiðlum og rafrænum ritmiðlum.

Ákvörðunum fjölmiðlanefndar samkvæmt fjölmiðlalögum verður ekki skotið til annarra stjórn­valda.

2. gr.

Hugtakið fjölmiðill og tengd hugtök.

Samkvæmt 3. gr. fjölmiðlalaga gilda lögin um alla fjölmiðla sem miðla efni handa almenningi hér á landi. Samkvæmt 2. gr. laganna er fjölmiðill hvers konar miðill sem með reglubundnum hætti miðlar til almennings efni er lýtur ritstjórn. Til fjölmiðla teljast m.a. dagblöð og tímarit, ásamt fylgiritum þeirra, netmiðlar, hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar.

Samkvæmt 2. gr. laganna felur ritstjórn í sér stjórn á vali og skipan þess efnis sem miðlað er. Fjölmiðlaveita telst hafa ritstjórn á efni þegar hún hefur forræði yfir því hljóð- og myndefni eða ritefni sem miðlað er sem og skipulagningu þjónustunnar að öðru leyti. Þó falla aðeins þeir aðilar undir hugtakið sem stýra og flokka hljóð- og myndmiðlunarefni og ritefni en byggja framboð sitt ekki einungis á leitarvélum.

Það er skýr vísbending um að miðlun efnis falli undir hugtakið fjölmiðill þegar fjöl­miðla­veita hefur það að atvinnu að miðla fjölmiðlaefni og ber þannig ábyrgð á rit­stjórnar­legri skipan og endanlegri samsetningu fjölmiðilsins. Þjónusta sem ekki hefur þann megintilgang fellur á hinn bóginn sjaldnast undir hugtakið fjölmiðil í skilningi laganna.

Persónubundnar bloggsíður falla almennt utan hugtaksins fjölmiðill í skilningi laganna. Þá falla einstaklingsbundin og persónuleg samskipti á netinu, t.d. á vettvangi Facebook, einnig utan hugtaksins.

3. gr.

Um tildrög mála og kröfur til erinda.

Fjölmiðlanefnd tekur mál til meðferðar, hvort heldur er á grundvelli aðsendra erinda eða að eigin frumkvæði, sem leitt geta til stjórnvaldsákvörðunar.

Formleg erindi þar sem farið er fram á aðgerðir á grundvelli fjölmiðlalaga eða annarra laga sem fjölmiðlanefnd er ætlað að hafa eftirlit með skulu vera skrifleg og undirrituð. Greint skal frá nafni, heimilisfangi og kennitölu þess sem sendir erindið. Ef um lögaðila er að ræða skal greina stuttlega frá því hvers kyns starfsemi hann stundar. Jafnframt skal greina frá þeim lögaðila eða einstaklingi sem erindið beinist að.

Þegar kvartað er undan meintu broti skal greina frá dagsetningu og tímasetningu miðl­unar efnisins, eftir því sem við á, og gefa nákvæma lýsingu á atvikum. Þá skal rök­stutt hvers vegna atvikið er talið vera brot á lögum.

4. gr.

Ákvörðun um hvort erindi gefi nægar ástæður til meðferðar.

Ef erindi frá aðila uppfyllir kröfur samkvæmt 3. gr. tekur fjölmiðlanefnd ákvörðun um hvort erindið gefi nægar ástæður til að hefja málsmeðferð. Slík ákvörðun skal tekin af fjölmiðlanefnd eins fljótt og við verður komið.

Við mat á því hvort erindi gefi nægar ástæður til meðferðar skal fjölmiðlanefnd hafa hliðsjón af málefnalegum sjónarmiðum sem þykja skipta máli í hverju tilviki fyrir sig. Eftirfarandi atriði geta m.a. skipt máli við mat fjölmiðlanefndar á því hvort hefja beri rannsókn:

 1. að meint brot virðist vera alvarlegt,
 2. að fjölmiðlaveita sem kvartað er yfir hafi ekki látið af þeirri hegðun sinni sem var tilefni til kvörtunar,
 3. að meðferð málsins fari saman við þá forgangsröðun sem nefndin hefur áður ákveðið, sbr. 3. mgr. 8. gr.

5. gr.

Erindi ekki tekið til meðferðar.

Telji fjölmiðlanefnd að erindi gefi ekki nægar ástæður til meðferðar skal hlutaðeigandi tilkynnt um þá niðurstöðu.

6. gr.

Erindi tekið til meðferðar.

Telji fjölmiðlanefnd að erindi gefi nægar ástæður til meðferðar hefst viðkomandi stjórn­sýslu­mál. Um málsmeðferðina sem og meðferð þeirra mála sem nefndin hefur frum­kvæði að og lokið getur með stjórnvaldsákvörðun gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Skulu ákvarðanir teknar eins fljótt og við verður komið.

Hefjist mál í kjölfar erindis til fjölmiðlanefndar á sá sem erindinu beindi til nefndarinnar almennt ekki aðild að málinu, nema hann eigi beinna, verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins.

Fjölmiðlanefnd skal eftir því sem við á gæta trúnaðar við meðferð upplýsinga og gagna sem hún aflar eða henni berast á grundvelli fjölmiðlalaga um hagi einstakra fjöl­miðla­veitna. Þótt fjölmiðlanefnd afhendi upplýsingar til annarra sambærilegra stjórn­sýslu­stofnana, sem fara með fjölmiðlamál innan Evrópska efnahagssvæðisins, skal sami trúnaður ríkja. Tryggt skal vera að tölulegar upplýsingar séu ekki rekjanlegar til einstakra fjölmiðlafyrirtækja.

Fjölmiðlanefnd getur krafið fjölmiðlaveitur um skriflegar upplýsingar og gögn vegna ætlaðra brota á ákvæðum fjölmiðlalaga og skulu slíkar upplýsingar og gögn þá veitt innan hæfilegs frests sem nefndin setur.

Fjölmiðlanefnd getur við rannsókn ætlaðra brota gegn þeim ákvæðum VI. kafla fjöl­miðla­laga er varða viðskiptaboð og fjarkaup gert nauðsynlegar athuganir á starfsstöð fjöl­miðla­veitu eða stað þar sem gögn eru varðveitt þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn umræddum ákvæðum. Við framkvæmd aðgerða skal fylgja ákvæðum laga um meðferð sakamála um leit og hald á munum.

7. gr.

Verkaskipting nefndar og framkvæmdastjóra.

Fjölmiðlanefnd fer með yfirstjórn nefndarinnar og fjallar um þau málefni sem greinir í reglum þessum.

Fjölmiðlanefnd mótar áherslur í starfi og skipulagi nefndarinnar og staðfestir skipurit hennar.

Framkvæmdastjóri ber ábyrgð gagnvart nefndinni, kemur fram fyrir hönd hennar, annast daglega stjórn á starfsemi og rekstri nefndarinnar og tekur þær ákvarðanir fyrir hönd hennar sem ekki heyra undir nefndina sjálfa. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á fjárreiðum fjölmiðlanefndar.

Fjölmiðlanefnd fylgist með starfsemi og verkefnum sínum. Skal framkvæmdastjóri gæta þess að nefndin sé á hverjum tíma upplýst um helstu þætti starfseminnar, s.s. framgang mikilvægustu mála, mótun nýrra starfsaðferða eða breytingar á starfsemi.

Í tengslum við afgreiðslu rekstraráætlunar hvers árs skal nefndin taka ákvörðun um hvaða eftirlitsverkefni skulu vera í forgangi á viðkomandi ári.

8. gr.

Meiri háttar efnislegar ákvarðanir.

Meiri háttar efnislegar ákvarðanir skal bera undir fjölmiðlanefnd til samþykktar eða synjunar. Til slíkra ákvarðana teljast meðal annars:

Útgáfa almennra leyfa til hljóð- og myndmiðlunar.
Ákvörðun vegna brota á 14. og 22. gr. fjölmiðlalaga.
Stöðvun á móttöku myndmiðlunarefnis frá öðrum EES-ríkjum, sbr. 5. gr. fjöl­miðla­laga.
Ákvörðun um að gera ráðstafanir gagnvart fjölmiðlaveitu sem miðlar myndefni og heyrir undir lögsögu annars EES-ríkis, sbr. 6. gr. fjölmiðlalaga.
Ákvörðun um hvort aðili eigi rétt á að koma andsvörum á framfæri, sbr. 36. gr. laga um fjölmiðla.
Ákvörðun um bann við miðlun hljóð- og myndmiðlunarefnis og afturköllun hljóð- og myndmiðlunarleyfis, sbr. 52. gr. fjölmiðlalaga.
Ákvörðun þar sem meta þarf hvort beita skuli dagsektum eða stjórnvaldssektum og fjárhæð þeirra, sbr. 53. og 54. gr. fjölmiðlalaga.
Ákvörðun um hvort ljúka skuli meðferð með útgáfu álits eða birtingu ákvörðunar að hluta eða í heild, sbr. 5. og 6. mgr. 54. gr. fjölmiðlalaga.
Ákvörðun um að kæra skuli mál til lögreglu skv. 57. gr. fjölmiðlalaga.

Veiting skammtímaleyfa telst ekki til meiri háttar ákvarðana skv. 1. mgr.

9. gr.

Rekstraráætlun og eftirlit með rekstri.

Fjölmiðlanefnd fylgist með rekstri nefndarinnar. Framkvæmdastjóri leggur fyrir nefndina tillögu um rekstraráætlun hennar fyrir næsta rekstrarár og annast samskipti við ráðu­neyti og fjárveitingarvald vegna fjárveitinga til fjölmiðlanefndar. Framkvæmdastjóri skal gera nefndinni grein fyrir rekstrarstöðu nefndarinnar eigi sjaldnar en árs­fjórð­ungs­lega.

10. gr.

Hæfi nefndarmanns.

Þegar nefndarmaður telst vanhæfur samkvæmt 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við umfjöllun máls, skal varamaður taka sæti hans. Tekur viðkomandi nefndarmaður þá ekki þátt í undirbúningi, meðferð eða ákvörðun málsins.

Nefndarmenn skulu í hvívetna gæta að hæfi sínu við umfjöllun einstakra mála. Telji nefndarmaður að hann sé vanhæfur til þess að taka þátt í umfjöllun máls skal hann víkja sæti áður en efni málsins er kynnt.

Nú er framkvæmdastjóri vanhæfur til meðferðar máls og skal þá stjórn ákveða hvernig með skuli fara.

Um hæfi nefndarmanns fer að öðru leyti eftir stjórnsýslulögum.

11. gr.

Nefndarfundir.

Nefndarfundir skulu haldnir að jafnaði mánaðarlega eða oftar þegar ástæða er til. Fundargögn skal að jafnaði senda til nefndarmanna a.m.k. degi fyrir nefndarfund.

Nefndin er bær til þess að taka ákvarðanir ef þrír nefndarmanna sitja fund eða varamenn í forföllum þeirra. Atkvæði ráða niðurstöðu nefndar. Heimilt er að notast við fjarfundarbúnað á nefndarfundum enda sé varsla trúnaðarupplýsinga tryggð. Nú þolir ákvörðun ekki bið og ráðrúm gefst ekki til að boða til fundar og er þá heimilt að óska staðfestingar meiri hluta nefndar utan fundar.

Varamaður tekur sæti fyrir tiltekinn nefndarmann og ræður röð nefndarmanna og varamanna í skipunarbréfi ráðherra því fyrir hvern varamaður tekur sæti. Sé viðkomandi varamaður ekki tiltækur skal boða annan í hans stað, í starfsaldursröð. Nú boðar nefndarmaður forföll eða lýsir yfir vanhæfi til meðferðar máls fyrir fund og skal þá boða varamann hans og gera honum grein fyrir því að hann taki sæti í nefndinni.

Bóka skal fundargerðir á nefndarfundum, sem samþykktar skulu á næsta nefndarfundi á eftir. Í fundargerð skal koma fram hverjir sitja fundinn, umfjöllunarefni hans, ákvarðanir sem teknar eru og upplýsingar sem nauðsynlegt er að fram komi vegna ákvörðunar. Við almenna umfjöllun um áherslur og stefnumótun skal gera grein fyrir niðurstöðum þeirrar umfjöllunar í fundargerð. Í fundargerð skal tilgreina þau gögn sem lögð eru fram á fundinum.

12. gr.

Þagnarskylda.

Þeim sem sitja nefndarfund og þeim sem hafa aðgang að fundargögnum er óheimilt að skýra frá þeim atriðum sem þeir verða áskynja um og leynt eiga að fara. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

13. gr.

Samstarf við önnur stjórnvöld.

Við framkvæmd eftirlits með viðskiptaboðum sem falla undir eftirlit annarra stjórnvalda skal fjölmiðlanefnd leita samstarfs um verkaskiptingu við þau stjórnvöld. Fjölmiðlanefnd skal gera samstarfssamning við Neytendastofu um mál sem geta varðað starfssvið þessara stofnana.

Fjölmiðlanefnd er skylt að afhenda stjórnvöldum annarra ríkja á Evrópska efnahags­svæðinu, sem og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eða, eftir því sem við á, Eftirlits­stofnun EFTA, upplýsingar og gögn sem nauðsynleg þykja við framkvæmd fjölmiðla­laga í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Við afhendingu upplýsinga og gagna skal eftir því sem við á setja sem skilyrði að:

 1. farið verði með upplýsingarnar og gögnin sem trúnaðarmál hjá þeim sem við þeim tekur,
 2. upplýsingarnar og gögnin verði aðeins notuð í því skyni sem kveðið er á um í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og í samræmi við beiðni um upp­lýsingar, og
 3. upplýsingarnar og gögnin verði aðeins afhent öðrum með samþykki fjölmiðla­nefndar og í þeim tilgangi sem kveðið er á um.

14. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglur þessar eru settar samkvæmt 3. mgr. 8. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 og öðlast gildi við birtingu.

Fyrir 27. desember 2012 skal fjölmiðlanefnd taka til athugunar hvort rétt sé að endur­skoða ákvæði þessara reglna.

F.h. fjölmiðlanefndar, 27. desember 2011,

Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri.

B deild - Útgáfud.: 30. maí 2012