Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1051/2006

Nr. 1051/2006 15. desember 2006
REGLUGERÐ
um starfsstig innan lögreglunnar.

1. gr.

Gildissvið og markmið.

Reglugerð þessi gildir um störf þeirra starfsmanna lögreglu sem fara með lögregluvald hjá lögregluembættum landsins.

Markmið reglugerðarinnar er að einfalda skipulag lögregluliða, styrkja löggæslu og skilgreina verksvið og ábyrgð innan lögreglunnar.

2. gr.

Starfsstig innan lögreglunnar.

Innan lögreglu eru 9 starfsstig og eru þau eftirfarandi:

 1. Ríkislögreglustjóri.
 2. Aðstoðarríkislögreglustjórar, lögreglustjórar og skólastjóri Lögregluskóla ríkisins.
 3. Aðstoðarlögreglustjórar við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum og staðgenglar annarra lögreglustjóra.
 4. Yfirlögregluþjónar.
 5. Aðstoðaryfirlögregluþjónar.
 6. Aðalvarðstjórar og lögreglufulltrúar.
 7. Varðstjórar og rannsóknarlögreglumenn.
 8. Lögreglumenn.
 9. Lögreglunemar, afleysingamenn í lögreglu og héraðslögreglumenn.

Í skipunarbréfi til lögreglumanns í starfsstigi 6 eða 7 skal geta starfsstigs hans.

Um verkefni og ábyrgð, sem hverju starfsstigi fylgja, fer samkvæmt lögreglulögum, reglum þessum og nánari fyrirmælum lögreglustjóra.

Lögreglustjóri skal ákveða hver starfsmanna á hverju starfsstigi skuli vera staðgengill næsta yfirmanns að uppfylltum hæfisskilyrðum.

3. gr.

Ríkislögreglustjóri og aðstoðarríkislögreglustjórar.

Ríkislögreglustjóri fer með málefni lögreglunnar í umboði dómsmálaráðherra. Aðstoðar­ríkislögreglustjórar eru ríkislögreglustjóra til aðstoðar.

4. gr.

Lögreglustjórar, aðstoðarlögreglustjórar
og skólastjóri Lögregluskóla ríkisins.

Verksvið og ábyrgð lögreglustjóra er eftirfarandi:

 1. Stjórn lögregluliðs viðkomandi umdæmis og ábyrgð á framkvæmd lögreglu­starfa innan þess samkvæmt ákvæðum lögreglulaga.
 2. Ábyrgð á samstarfi lögregluliða samkvæmt reglum um samvinnu lögreglu­embætta.
 3. Fagleg og fjárhagsleg ábyrgð á lögregluliðinu. Í fjárhagslegri ábyrgð felst að embætti sé rekið innan fjárheimilda, ábyrgð á áætlanagerð og ábyrgð á öllum ákvörðunum, sem fela í sér ráðstafanir á fjárheimildum embættis.
 4. Ábyrgð á markmiðssetningu embættisins.
 5. Samskipti við ríkislögreglustjóra, ráðuneyti, stofnanir og fyrirtæki og kemur lögreglu­stjóri fram fyrir hönd síns embættis, nema hann feli öðrum þessi sam­skipti.
 6. Ákæruvald, yfirstjórn lögreglurannsókna við embættin og flutningur opinberra mála fyrir héraðsdómi samkvæmt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála.
 7. Eftirlit með útlendingum.
 8. Yfirstjórn leitar- og björgunaraðgerða á landi samkvæmt ákvæðum lögreglulaga.
 9. Yfirstjórn almannavarna í umdæminu samkvæmt ákvæðum laga um almanna­varnir.
 10. Önnur verkefni sem honum eru falin lögum samkvæmt.

Aðstoðarlögreglustjórar við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og lögreglu­stjórans á Suðurnesjum eru lögreglustjórum til aðstoðar.

Skólastjóri Lögregluskóla ríkisins fer með yfirstjórn skólans. Verksvið hans og ábyrgð skal vera samkvæmt því sem kveðið er á um í lögreglulögum og reglugerð um Lögregluskóla ríkisins, þar með talin uppbygging og framkvæmd grunnmenntunar lögreglumanna og framhaldsmenntunar í skólanum. Að öðru leyti er verksvið hans og ábyrgð hin sama og lögreglustjóra eftir því sem við getur átt.

5. gr.

Yfirlögregluþjónar.

Hjá hverju lögregluembætti skal starfa yfirlögregluþjónn. Í lögregluliðum með fleiri en 80 lögreglumenn, og hjá embætti ríkislögreglustjóra, geta þeir verið fleiri en einn. Verksvið og ábyrgð yfirlögregluþjóns er eftirfarandi:

 1. Dagleg stjórn lögregluliðs eða hluta þess í umboði lögreglustjóra.
 2. Þátttaka í áætlanagerð, skipulagningu og markmiðssetningu embættisins.
 3. Eftirlit með því að reglum og fyrirmælum sé framfylgt og að fjárhagslegur rekstur lögregluliðs, deilda eða eininga sé innan fjárheimilda.
 4. Eftirlit með því að vinna lögreglumanna uppfylli að öllu leyti kröfur um fagleg vinnubrögð.
 5. Eftirlit með því að þeir sem undir hann heyra færi skráningu mála og atburði sem tilkynntir eru í skráningarkerfi lögreglu samkvæmt reglum og fyrirmælum.
 6. Stjórn og ábyrgð á tilteknum verkefnum sem honum eru falin og krefjast sérstakrar þekkingar, þjálfunar eða menntunar, þar með talin rannsókn mála og aðstoð við saksókn.

6. gr.

Aðstoðaryfirlögregluþjónar.

Hjá lögregluliðum með fleiri en 20 lögreglumenn skal starfa aðstoðaryfirlögregluþjónn. Í lögregluliðum með fleiri en 35 lögreglumenn, og hjá embætti ríkislögreglustjóra, geta þeir verið fleiri en einn. Verksvið og ábyrgð aðstoðaryfirlögregluþjóns er eftirfarandi:

 1. Hann er yfirlögregluþjóni til aðstoðar.
 2. Stjórn og ábyrgð á deildum svo og tilteknum verkefnum sem honum eru falin og krefjast sérstakrar þekkingar, þjálfunar og/eða menntunar, þ.m.t. rannsókn mála og aðstoð við saksókn.
 3. Eftirlit með að reglum og fyrirmælum sé framfylgt og að fjárhagslegur rekstur deilda eða eininga sé innan fjárheimilda.

7. gr.

Aðalvarðstjórar.

Verksvið og ábyrgð aðalvarðstjóra er í meginatriðum eftirfarandi:

 1. Stjórn almennra vakta í lögregluliðum með 30 lögreglumenn eða fleiri.
 2. Ábyrgð á löggæslu í hluta umdæmis gagnvart lögreglustjóra, t.d. í þeim tilvikum þar sem fjarlægðir eru mjög miklar frá aðalstöð.
 3. Stjórn deilda og hverfastöðva, þar sem það á við, í samræmi við gildandi skipurit og starfslýsingu.
 4. Löggæslustörf, þ.m.t. rannsóknir mála, þar sem það á við.
 5. Eftirlit með því að reglum og fyrirmælum sé fylgt og að fjárhagslegur rekstur skipulagsheildar undir hans stjórn, eða einstakra verkefna, sé innan fjárheimilda.

8. gr.

Lögreglufulltrúar.

Verksvið og ábyrgð lögreglufulltrúa er í meginatriðum eftirfarandi:

 1. Stjórn rannsóknardeildar eða einstakra undirdeilda eða verkefna, þar sem það á við, í samræmi við gildandi skipurit og starfslýsingu.
 2. Rannsóknir viðameiri og flókinna mála, þar á meðal tæknirannsóknir, sem vegna eðlis krefjast aukinnar sérhæfingar og sérþekkingar og stjórn rannsóknardeildar eða einstakra undirdeilda eða verkefna, þar sem það á við, í samræmi við gildandi skipurit og starfslýsingu.
 3. Náið samstarf við ákærendur og eftir atvikum aðstoð við undirbúning saksóknar.
 4. Eftirlit með því að reglum og fyrirmælum sé fylgt og að fjárhagslegur rekstur skipulagsheildar undir hans stjórn, eða einstakra verkefna, sé innan fjárheimilda.

9. gr.

Rannsóknarlögreglumenn.

Rannsóknarlögreglumenn skulu starfa við þau embætti sem hafa sérstakar rann­sóknar­deildir. Verksvið og ábyrgð rannsóknarlögreglumanns er í meginatriðum eftir­farandi:

 1. Rannsóknir viðameiri og flóknari mála, þar á meðal tæknirannsóknir, sem vegna eðlis krefjast aukinnar sérhæfingar og sérþekkingar.
 2. Verkstjórn hóps lögreglumanna við rannsókn mála þegar það á við.
 3. Náið samstarf við ákærendur og eftir atvikum aðstoð við undirbúning saksóknar.

10. gr.

Varðstjórar.

Verksvið og ábyrgð varðstjóra er í meginatriðum eftirfarandi:

 1. Löggæslustörf og rannsóknir mála.
 2. Vaktstjórn samkvæmt varðskrá og stjórn einstakra verkefna eða hóps lögreglu­manna við almenn löggæslustörf.
 3. Hópstjórn í sérsveit ríkislögreglustjórans.
 4. Eftirlit með því að reglum og fyrirmælum sé fylgt.

11. gr.

Lögreglumenn.

Verksvið og ábyrgð lögreglumanns er eftirfarandi:

 1. Löggæslustörf, þar á meðal forvarnarstörf og rannsóknir mála.
 2. Að halda uppi lögum og reglu í samræmi við lög, reglur og fyrirmæli sem honum eru gefin.
 3. Að tryggja réttaröryggi borgaranna með störfum sínum og framkomu, greiða götu þeirra eftir því sem við á og aðstoða þegar hætta steðjar að eða slys ber að höndum.
 4. Tiltekin verkefni sem lögreglustjóri felur honum, svo sem forvarnar- og fræðslu­verkefni, þjálfun og umsjón leitarhunda og umsjón tækjabúnaðar.

12. gr.

Lögreglunemar, héraðslögreglumenn og afleysingamenn í lögreglu.

Lögreglunemar gegna almennum löggæslustörfum í starfsnámi undir stjórn og leiðsögn lögreglumanna.

Héraðslögreglumenn eru ráðnir samkvæmt heimild í lögreglulögum til aukastarfa við lög­gæslu þegar á þarf að halda, þar á meðal að halda uppi lögum og reglu á mann­fundum og skemmtunum undir stjórn lögreglumanna.

Afleysingamenn í lögreglu eru ráðnir samkvæmt heimild í lögreglulögum vegna orlofs­töku, veikinda- eða slysaforfalla eða leyfa lögreglumanna.

13. gr.

Nánari fyrirmæli um verksvið og ábyrgð starfsstiga.

Auk stöðueinkenna samkvæmt reglugerð um einkennisbúninga, merki og búnað lög­reglunnar bera allir lögreglumenn, sem lokið hafa prófi frá Lögregluskóla ríkisins, aðrir en héraðslögreglumenn, fjögurra stafa lögreglunúmer. Þegar fleiri en einn lögreglumaður með sama starfsstig eru á vettvangi, skal sá fara fyrir þeim sem lægst númer ber nema lögreglu­stjóri hafi ákveðið annað.

Lögreglustjóri setur nánari fyrirmæli um verksvið og ábyrgð starfsstiga samkvæmt 4. – 10. gr. í samræmi við stærð og hlutverk embættis síns.

14. gr.

Framgangur á milli starfsstiga.

Við ákvörðun um veitingu starfs í hærra starfsstigi skal höfð hliðsjón af hæfni lögreglu­manns, starfsaldri, þekkingu, menntun, starfsreynslu og kyni.

Til þess að hljóta skipun í starf yfir- og aðstoðaryfirlögregluþjóns skal umsækjandi hafa starfað sem lögreglumaður í að minnsta kosti 5 ár frá því að hann lauk prófi frá Lögregluskóla ríkisins. Sá sem skipaður er til að gegna þessum störfum skal eiga þess kost að sækja stjórnunarnámskeið við Lögregluskóla ríkisins, eða sambærilegt nám á almennum markaði, hafi hann ekki sótt slíkt námskeið áður.

Til þess að hljóta skipun í starf aðalvarðstjóra, lögreglufulltrúa, rannsóknarlögreglumanns eða varðstjóra skal umsækjandi hafa starfað sem lögreglumaður í að minnsta kosti 2 ár frá því hann lauk prófi frá Lögregluskóla ríkisins. Sá sem skipaður er til að gegn þessum störfum skal sækja námskeið í Lögregluskóla ríkisins, þegar slíkt námskeið er í boði, sem sniðið er að viðkomandi starfi, svo sem námskeið fyrir millistjórnendur í lögreglu og námskeið fyrir rannsóknarlögreglumenn og varðstjóra, hafi viðkomandi ekki sótt slíkt námskeið áður.

Um aðstoðarríkislögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra, sem ekki uppfylla hæfis­skilyrði til skipunar í embætti ríkislögreglustjóra og lögreglu­stjóra, gilda ákvæði 28. gr. lögreglulaga.

15. gr.

Skipurit.

Dómsmálaráðherra ákveður fjölda yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna að fengnum tillögum ríkislögreglustjóra.

Ríkislögreglustjóri ákveður fjölda aðalvarðstjóra og lögreglufulltrúa og varðstjóra og rannsóknarlögreglumanna að fengnum tillögum viðkomandi lögreglustjóra og skólastjóra Lögregluskóla ríkisins hvað skólann varðar.

Dómsmálaráðherra staðfestir skipurit um starfsemi embættis ríkislögreglustjóra.

Lögreglustjórar, þar með talinn skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, skulu senda beiðni um staðfestingu skipurita til ríkislögreglustjóra. Hann skal leggja mat á mannafla- og fjárþörf sem drög að skipuriti hafa í för með sér hjá viðkomandi lögregluembætti.

Ríkislögreglustjóri sendir tillögu að skipuriti lögregluembættis ásamt greinargerð sinni til staðfestingar dómsmálaráðherra.

16. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 3. mgr. 28. gr. lögreglulaga, nr. 90 13. júní 1996, sbr. 5. gr. laga nr. 46 13. júní 2006, öðlast gildi 1. janúar 2007. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um starfsstig lögreglunnar nr. 49/2002.

Þeir lögreglumenn, sem fengu skipun í tvö starfsstig samkvæmt 6. og 7. tölul. reglu­gerðar um starfsstig innan lögreglunnar nr. 49/2002, skulu þó halda því starfs­stigi sem þeir gegna við gildistöku þessarar reglugerðar.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 15. desember 2006.

Björn Bjarnason.

Halla Bergþóra Björnsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 21. desember 2006