Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1123/2005

Nr. 1123/2005 12. desember 2005
REGLUGERÐ
um mat á umhverfisáhrifum.

I. KAFLI

Markmið, gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er:

 1. að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar,
 2. að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar,
 3. að stuðla að samvinnu þeirra aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða vegna framkvæmda sem falla undir ákvæði þessarar reglugerðar,
 4. að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmda sem falla undir ákvæði þessarar reglugerðar og mótvægisaðgerðir vegna þeirra og gefa almenningi kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar liggur fyrir.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um framkvæmdir sem falla undir ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum, á landi, í landhelgi, í lofthelgi og í mengunarlögsögu Íslands.

3. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér segir:

 1. Framkvæmdaraðili: Ríki, sveitarfélag, stofnun og aðrir lögaðilar eða einstaklingar er hyggjast hefja framkvæmd sem reglugerð þessi tekur til.
 2. Framkvæmd: Hvers konar nýframkvæmd eða breyting á eldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir sem undir reglugerð þessa falla.
 3. Frummatsskýrsla: Skýrsla framkvæmdaraðila um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgir sem Skipulagsstofnun auglýsir.
 4. Leyfi til framkvæmda: Framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi samkvæmt skipulags- og byggingarlögum og önnur leyfi til starfsemi og framkvæmda samkvæmt sérlögum sem um viðkomandi framkvæmd gilda.
 5. Leyfisveitandi: Lögbært yfirvald sem veitir leyfi til framkvæmda og starfsemi sem þeim fylgir, svo sem sveitarstjórnir, heilbrigðisnefndir, Umhverfisstofnun og iðnaðarráðherra.
 6. Matsáætlun: Áætlun framkvæmdaraðila byggð á tillögu hans um á hvaða þætti framkvæmdarinnar og umhverfis leggja skuli áherslu í frummatsskýrslu og um kynningu og samráð við gerð frummatsskýrslu.
 7. Matsskyld framkvæmd: Framkvæmd sem háð er ákvæðum reglugerðar þessarar ásamt þeirri starfsemi sem henni fylgir.
 8. Matsskýrsla: Skýrsla framkvæmdaraðila um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgir þar sem gerð er grein fyrir fram komnum athugasemdum og umsögnum og þar sem tekin er afstaða til þeirra ásamt tillögum um mótvægisaðgerðir eftir því sem við á. Framkvæmdaraðili ber ábyrgð á gerð matsskýrslu.
 9. Mengunarlögsaga Íslands: Hafsvæðið sem nær yfir innsævi að meðtalinni strönd að efstu flóðmörkum á stórstraumsflóði, landhelgi og efnahagslögsögu, landgrunn Íslands og efstu jarðlög, sbr. lög um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.
 10. Mótvægisaðgerðir: Aðgerðir til að koma í veg fyrir, draga úr eða bæta fyrir neikvæð umhverfisáhrif.
 11. Umhverfi: Samheiti fyrir menn, dýr, plöntur og annað í lífríkinu, jarðveg, jarðmyndanir, vatn, loft, veðurfar og landslag, samfélag, heilbrigði, menningu og menningarminjar, atvinnu og efnisleg verðmæti.
 12. Umhverfisáhrif: Áhrif framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgir á umhverfi, þ.e. bein og óbein áhrif, jákvæð og neikvæð áhrif, varanleg og tímabundin áhrif, afturkræf og óafturkræf áhrif, samvirk og sammögnuð áhrif. Þar með eru þó ekki talin þjóðhagsleg áhrif og arðsemi einstakra framkvæmda.
 13. Umhverfisverndarsamtök: Samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Þau skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald.
 14. Umsagnaraðilar: Opinberar stofnanir og stjórnvöld sem sinna lögbundnum verkefnum er varða matsskyldar framkvæmdir eða umhverfisáhrif þeirra.
 15. Umtalsverð umhverfisáhrif: Veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.

II. KAFLI

Stjórnsýsla, framkvæmdaraðili o.fl.

4. gr.

Yfirstjórn og framkvæmd.

Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem reglugerð þessi tekur til. Á varnarsvæðum fer utanríkisráðherra með lögsögu samkvæmt lögum um yfirstjórn mála á varnarsvæðum.

Skipulagsstofnun er ráðherra til ráðgjafar og annast eftirlit með framkvæmd laga þessara og veitir leiðbeiningar samkvæmt þeim.

5. gr.

Hlutverk Skipulagsstofnunar.

Hlutverk Skipulagsstofnunar samkvæmt reglugerð þessari er:

 1. að annast framkvæmd reglugerðar þessarar,
 2. að veita og gefa út leiðbeiningar um mat á umhverfisáhrifum, m.a. lista yfir helstu umsagnaraðila og starfssvið þeirra,
 3. að hafa samráð við framkvæmdaraðila um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 8. gr.,
 4. að stuðla að því að almenningur hafi aðgang að upplýsingum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda,
 5. að kynna og afla umsagnar um tillögu að matsáætlun og um frummatsskýrslu,
 6. að taka ákvörðun um tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun,
 7. að gefa álit um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og starfsemi sem þeim fylgir,
 8. að taka ákvörðun um matsskyldu framkvæmda sem tilgreindar eru í 2. viðauka við reglugerð þessa.

6. gr.

Hlutverk framkvæmdaraðila.

Framkvæmdaraðili ber ábyrgð á mati á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar. Hann ber kostnað af vinnu Skipulagsstofnunar við umfjöllun hennar um viðkomandi framkvæmd sem og af auglýsingum og kynningu.

Framkvæmdaraðila ber að tilkynna til Skipulagsstofnunar um framkvæmdir sem tilgreindar eru í 2. viðauka.

Framkvæmdaraðila ber að gera tillögu að matsáætlun og kynna hana umsagnaraðilum og almenningi og hafa samráð við Skipulagsstofnun við gerð matsáætlunar. Framkvæmdaraðili skal gera frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar í samræmi við matsáætlun. Framkvæmdaraðili skal kynna frummatsskýrslu opinberlega í samráði við Skipulagsstofnun eftir að stofnunin hefur auglýst skýrsluna.

Framkvæmdaraðili skal vinna endanlega matsskýrslu á grundvelli frummatsskýrslu þar sem gerð er grein fyrir fram komnum athugasemdum og umsögnum og tekin afstaða til þeirra.

7. gr.

Hlutverk umsagnaraðila.

Umsagnaraðilar veita Skipulagsstofnun umsögn um matsskyldu framkvæmdar, tillögu að matsáætlun og frummatsskýrslu um þau atriði sem falla undir starfssvið þeirra, sbr. 11., 15. og 22. gr.

8. gr.

Samráð og kynning.

Framkvæmdaraðili skal hafa forgöngu um samráð við Skipulagsstofnun á öllum stigum um mat á umhverfisáhrifum og umfjöllun um það. Samráð skal hefja eins snemma og kostur er og a.m.k. vera viðhaft við gerð tillögu að matsáætlun og umfjöllun um frummatsskýrslu.

Framkvæmdaraðili skal hafa forgöngu um að kynna umsagnaraðilum og almenningi tillögu að matsáætlun og frummatsskýrslu í þeim tilgangi að fá fram ábendingar og athugasemdir.

III. KAFLI

Matsskylda framkvæmda.

9. gr.

Matsskylda framkvæmdar o.fl.

Þær framkvæmdir sem tilgreindar eru í 1. viðauka við reglugerð þessa skulu ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. V.-VIII. kafli í reglugerð þessari.

Framkvæmdir, sem tilgreindar eru í 2. viðauka við reglugerð þessa, ber að tilkynna til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu, sbr. IV. kafla reglugerðar þessarar. Breytingar eða viðbætur við framkvæmdir sem taldar eru upp í 1. eða 2. viðauka, sem þegar hafa verið leyfðar, eru í framkvæmd eða framkvæmdar ber að tilkynna til Skipulagsstofnunar skv. þessari málsgrein.

Í þeim tilvikum þegar fleiri en ein matsskyld framkvæmd er fyrirhuguð á sama svæði eða framkvæmdirnar eru háðar hver annarri getur Skipulagsstofnun að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila og leyfisveitendur ákveðið að umhverfisáhrif þeirra skuli metin sameiginlega. Skipulagsstofnun kynnir almenningi niðurstöðu sína með auglýsingu í dagblaði sem gefið er út á landsvísu innan viku frá því að hún liggur fyrir.

IV. KAFLI

Tilkynningarskyldar framkvæmdir.

10. gr.

Tilkynning framkvæmdar.

Framkvæmdaraðila ber að tilkynna skriflega til Skipulagsstofnunar fyrirhugaða framkvæmd sem fellur undir 2. viðauka við reglugerð þessa. Eftirfarandi gögn um framkvæmd skulu fylgja tilkynningunni eftir því sem við á:

 1. lýsing á fyrirhugaðri framkvæmd, umfangi hennar og helstu framkvæmda- og rekstrarþáttum, sbr. 1. tl. 3. viðauka við reglugerð þessa,
 2. uppdráttur af fyrirhugaðri framkvæmd og afstöðu hennar í landi þar sem fram koma mörk framkvæmdasvæðis, mannvirki sem fyrir eru á svæðinu og upplýsingar um fyrirhugaða framkvæmd,
 3. upplýsingar um hvernig fyrirhuguð framkvæmd fellur að gildandi skipulagsáætlunum,
 4. lýsing á staðháttum, landslagi, gróðurfari og landnotkun og hvort fyrirhugað framkvæmdasvæði sé á eða nærri verndarsvæðum, sbr. 2. tl. 3. viðauka við reglugerð þessa,
 5. lýsing á hvaða þættir framkvæmdar og/eða rekstrar valda helst áhrifum á umhverfið, sbr. 3. tl. 3. viðauka reglugerðar þessarar,
 6. upplýsingar um fyrirliggjandi álit umsagnaraðila og annarra eftir eðli máls sem framkvæmdaraðili kann að hafa leitað eftir.

Öllum er heimilt að tilkynna framkvæmd eða bera fram fyrirspurn um matsskyldu framkvæmdar sem tilgreind er í 2. viðauka við reglugerð þessa. Í álitamálum um hvort framkvæmd falli undir 2. viðauka ber leyfisveitanda og framkvæmdaraðila að veita Skipulagsstofnun nauðsynlegar upplýsingar sem stofnunin óskar eftir.

Telji framkvæmdaraðili með hliðsjón af viðmiðunum sem fram koma í 3. viðauka að framkvæmd, sem tilgreind er í 2. viðauka, sé matsskyld og Skipulagsstofnun fellst á þá afstöðu hans er heimilt að sleppa málsmeðferð skv. 10. og 11. gr. Afstaða framkvæmdaraðila skal rökstudd í tilkynningu skv. grein þessari.

11. gr.

Ákvörðun um matsskyldu.

Skipulagsstofnun ákvarðar að framkvæmdir, sem tilgreindar eru í 2. viðauka reglugerðar þessarar, skuli háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær eru taldar geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með hliðsjón af einu eða fleiri viðmiðum í 3. viðauka.

Skipulagsstofnun skal, innan 4 vikna frá því að erindi framkvæmdaraðila barst, taka ákvörðun um hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Áður skal hún leita umsagna leyfisveitenda, og annarra eftir eðli máls hverju sinni á því hvort og þá á hvaða forsendum fyrirhuguð framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til viðmiða í 3. viðauka við reglugerð þessa.

Í umsögn skal koma fram hvort tilkynning geri nægilega grein fyrir framkvæmd, umhverfi, samræmi við skipulagsáætlanir, umhverfisáhrifum, mótvægisaðgerðum og vöktun eftir því sem við á. Jafnframt skal gera grein fyrir viðeigandi leyfum sem eru á starfssviði þeirra aðila sem umsagnar hefur verið leitað hjá, þegar það á við. Skipulagsstofnun skal veita þeim aðilum, sem leitað er umsagna hjá, a.m.k. 10 virka daga til að gefa umsögn um matsskyldu framkvæmdar og framkvæmdaraðila a.m.k. 3 virka daga til að fara yfir fram komnar umsagnir og koma á framfæri athugasemdum sínum.

Taki framkvæmdaraðili sér lengri frest til að fara yfir fram komnar umsagnir skal hann tilkynna Skipulagsstofnun það og skal þá frestur Skipulagsstofnunar til að taka ákvörðun lengjast sem því nemur.

12. gr.

Kynning ákvörðunar um matsskyldu.

Skipulagsstofnun skal gera framkvæmdaraðila, þeim sem leitað var umsagna hjá og öðrum, sem málið varðar, grein fyrir ákvörðun sinni um matsskyldu.

Skipulagsstofnun kynnir almenningi niðurstöðu sína með auglýsingu í dagblaði sem gefið er út á landsvísu innan viku frá því að ákvörðun um matsskyldu liggur fyrir. Niðurstaða Skipulagsstofnunar skal vera aðgengileg á heimasíðu stofnunarinnar.

V. KAFLI

Matsáætlun.

13. gr.

Tillaga að matsáætlun.

Framkvæmdaraðili skal, vegna framkvæmda sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum, leggja fram tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar eins snemma á undirbúningsstigi framkvæmdar og kostur er, þ.e. þegar meginþættir framkvæmdar eru orðnir það ljósir að hægt sé að fá yfirlit yfir fyrirhugaða framkvæmd, áhrifasvæði og helstu áhersluþætti matsvinnunnar.

Í tillögu að matsáætlun skal eftirfarandi koma fram eftir umfangi og eðli framkvæmdar, eftir því sem við á:

 1. Upplýsingar um framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir:
  1. heiti framkvæmdar, möguleg staðsetning, nafn framkvæmdaraðila og dagsetning,
  2. lýsing á framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir, tilgangi, afmörkun og umfangi hennar og mögulegri áfangaskiptingu,
  3. upplýsingar um matsskyldu framkvæmdar, með vísan til viðeigandi liða í 1. og 2. viðauka,
  4. upplýsingar um hvaða leyfum framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir er háð og hvort fyrirhugað sé að vinna samtímis að frummatsskýrslu og starfsleyfi vegna starfsleyfisskyldra framkvæmda, sbr. 31. gr.
 2. Upplýsingar um framkvæmdasvæði:
  1. upplýsingar um fyrirhugaðar framkvæmdir á sama svæði ef þær eru fyrir hendi,
  2. lýsing á staðháttum framkvæmdasvæðis: landslagi, gróðurfari, dýralífi og landnotkun, yfirlit um verndarsvæði og kvaðir og takmarkanir á landnotkun, s.s. vegna náttúruvár,
  3. uppdráttur af mögulegri staðsetningu framkvæmdar og áhrifasvæðis hennar,
  4. fyrirliggjandi skipulagsáætlanir og lýsing á hvernig fyrirhuguð framkvæmd samræmist þeim eða upplýsingar um stöðu við gerð skipulagsáætlana,
  5. upplýsingar um mögulega framkvæmdakosti sem til greina koma, m.a. núll-kosti, þ.e. að aðhafast ekkert, greina frá umfangi og tilhögun annarra kosta og staðsetningu þeirra.
 3. Upplýsingar um umfang og áherslur mats á umhverfisáhrifum:
  1. greining á því hvaða þættir framkvæmdar og starfsemi, sem henni fylgir, séu líklegir til að valda umhverfisáhrifum og lýsing á þeim, s.s. stærð og gerð mannvirkja, framleiðsluferlum, magni og gerð mengunarefna og hljóðstigi frá starfsemi,
  2. greining á því hvaða þættir umhverfisins er talið líklegt að geti helst orðið fyrir áhrifum þegar tekið er tillit til allra umhverfisáhrifa framkvæmdarinnar miðað við fyrirliggjandi vitneskju,
  3. lýsing á því hvernig fyrirhugað er að standa að mati á umhverfisáhrifum, s.s. um gagnaöflun, rannsóknarsvæði, tímasetningu athugana, tíðni mælinga, úrvinnslu gagna, aðferðir við mat og framsetningu niðurstaðna.
 4. Upplýsingar um afstöðu þeirra aðila sem þegar hafa tjáð sig um framkvæmdina eða tillögu að matsáætlun.
 5. Áætlun um kynningu, álitsumleitan og samráð við vinnslu frummatsskýrslu.
 6. Tíma- og kostnaðaráætlanir, svo sem tímaáætlun um vinnslu frummatsskýrslu og matsskýrslu, athugasemda- og umsagnarfrestir, opinber umfjöllun Skipulagsstofnunar, áætlun um framkvæmda- og rekstrartíma. Framkvæmdaraðila er heimilt að greina frá kostnaðaráætlun vegna rannsókna og vinnu við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda.

14. gr.

Kynning og samráð við gerð tillögu að matsáætlun.

Framkvæmdaraðili leitar samráðs eins snemma og kostur er. Framkvæmdaraðila ber að kynna umsagnaraðilum og almenningi tillögu að matsáætlun. Framkvæmdaraðili skal kynna tillöguna með auglýsingu sem vísi á veraldarvefinn og gefa almenningi kost á að lágmarki tveimur vikum til að koma á framfæri athugasemdum við tillöguna. Framkvæmdaraðili getur auk þess kynnt tillöguna á almennum kynningarfundi eða í opnu húsi.

Framkvæmdaraðila ber að hafa samráð við Skipulagsstofnun við gerð tillögu að matsáætlun.

15. gr.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsáætlun.

Þegar framkvæmdaraðili hefur sent Skipulagsstofnun tillögu að matsáætlun ber stofnuninni að leita eftir umsögn leyfisveitenda og eftir atvikum annarra aðila. Í umsögn skal koma fram hvort tillagan geri nægilega grein fyrir framkvæmd og hvort upplýsingar teljist fullnægjandi um hvernig staðið verður að gagnaöflun, úrvinnslu gagna, mati á umhverfisáhrifum og framsetningu mats í frummatsskýrslu, og ef á skortir, hvaða atriðum þurfi að mati framangreindra aðila að gera frekari skil. Leyfisveitendur skulu í umsögn sinni gera grein fyrir þeim leyfum sem eru á starfssviði þeirra og framkvæmd er háð.

Tillagan skal vera aðgengileg á heimasíðu Skipulagsstofnunar. Koma skal fram að allir hafi rétt til að senda stofnuninni skriflegar athugasemdir um matsáætlunina innan tilgreinds tímafrests.

Skipulagsstofnun ber að taka ákvörðun um fram komna tillögu að matsáætlun innan fjögurra vikna frá því að tillagan berst stofnuninni. Skipulagsstofnun skal veita umsagnaraðilum a.m.k. 10 virka daga til að gefa umsögn um tillögu að matsáætlun og framkvæmdaraðila a.m.k. 3 virka daga til að fara yfir fram komnar umsagnir og koma að athugasemdum sínum. Taki framkvæmdaraðili sér lengri frest til að fara yfir fram komnar umsagnir skal hann tilkynna Skipulagsstofnun um það og lengist þá frestur Skipulagsstofnunar til að taka ákvörðun sem því nemur.

Skipulagsstofnun getur fallist á tillögu að matsáætlun með eða án athugasemda. Geri stofnunin athugasemdir í niðurstöðu sinni verða þær hluti af matsáætlun.

Fallist Skipulagsstofnun ekki á tillögu að matsáætlun skal stofnunin rökstyðja ákvörðun sína, gera grein fyrir því sem hún telur ábótavant og leiðbeina framkvæmdaraðila um frekari vinnslu tillögu að matsáætlun.

Skipulagsstofnun skal senda niðurstöðu sína um tillögu framkvæmdaraðila til væntanlegra leyfisveitenda og annarra umsagnaraðila. Niðurstaða Skipulagsstofnunar skal vera aðgengileg á heimasíðu stofnunarinnar.

16. gr.

Kostnaðaráætlun Skipulagsstofnunar.

Þegar matsáætlun hefur verið samþykkt skal Skipulagsstofnun leggja fram sundurliðaða kostnaðaráætlun vegna umfjöllunar á vegum stofnunarinnar við mat á umhverfisáhrifum, svo sem um umfjöllun um frummatsskýrslu, kynningu og auglýsingu, sérfræðiálit, athugun og álit. Kostnaðaráætlun skal byggð á gjaldskrá sem ráðherra hefur staðfest. Þá skal Skipulagsstofnun leggja fram upplýsingar um kostnað sem fallið hefur til við umfjöllun um tillögu að matsáætlun. Skipulagsstofnun skal greina framkvæmdaraðila eins fljótt og kostur er frá því ef forsendur kostnaðaráætlunar breytast.

VI. KAFLI

Frummatsskýrsla

17. gr.

Drög að frummatsskýrslu.

Heimilt er framkvæmdaraðila að kynna Skipulagsstofnun drög að frummatsskýrslu og óska eftir athugasemdum við hana áður en hann leggur fram frummatsskýrslu sína.

18. gr.

Efni frummatsskýrslu.

Frummatsskýrsla skal vera í samræmi við matsáætlun, og í henni skulu koma fram öll þau gögn sem nauðsynleg eru til þess að greina og meta helstu áhrif sem framkvæmd er líkleg til að hafa á umhverfið.

Í fummatsskýrslu skal eftirfarandi koma fram eftir því sem við á:

 1. Upplýsingar um framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir, einkum:
  1. lýsing á framkvæmd, hönnun hennar, afmörkun og umfangi, áfangaskiptingu ef við á, fyrirhugaðri staðsetningu og landrýmisþörf á framkvæmda- og rekstrartíma,
  2. upplýsingar um tilgang framkvæmdar, hver er framkvæmdaraðili og upplýsingar um áætlaðan framkvæmdakostnað, þ.e. ef hann fellur ekki undir viðskiptaleynd,
  3. upplýsingar um matsskyldu framkvæmdar, með vísan til viðeigandi liða í 1. eða 2. viðauka,
  4. lýsing á helstu framleiðsluferlum og upplýsingar um nýtingu náttúruauðlinda, svo sem jarðefna, vatns, orku, annarra hráefna, og mannaflaþörf á framkvæmda- og rekstrartíma,
  5. áætlun um losun (mengun vatns, lofts og jarðvegs, hávaða, titring, ljós, hita, geislun o.s.frv.) og um tegund og magn úrgangs,
  6. upplýsingar um framkvæmdir á vegum annarra aðila sem eru forsenda hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar,
  7. upplýsingar um hvaða leyfum framkvæmd og starfsemi, sem henni fylgir, er háð ásamt upplýsingum um stöðu starfsleyfisundirbúnings vegna starfsleyfisskyldra framkvæmda,
  8. yfirlit yfir valkosti sem gerð er grein fyrir í frummatsskýrslu, svo sem aðra kosti varðandi tæknilega útfærslu framkvæmdar eða starfsemi, aðra staðarvalskosti eða núll-kost, þ.e. að aðhafast ekkert,
  9. upplýsingar um áætlaðan framkvæmda- og rekstrartíma.
 2. Upplýsingar um framkvæmdasvæði, svo sem:
  1. uppdráttur af fyrirhugaðri staðsetningu framkvæmdar og einnig uppdráttur af öðrum staðarvalskostum,
  2. uppdráttur af líklegu áhrifasvæði framkvæmdar,
  3. lýsing á framkvæmdasvæði og áætluðu áhrifasvæði fyrirhugaðrar framkvæmdar, svo sem landslagi, gróðurfari, byggð og landnotkun; fram skal koma hvort svæðið, að hluta eða heild, nýtur verndar eða hvort um það gilda aðrar kvaðir eða takmarkanir á landnotkun, svo sem vegna náttúruvár,
  4. upplýsingar um aðrar fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu, liggi þær fyrir,
  5. upplýsingar um stöðu skipulagsmála á og nærri framkvæmdasvæði, hvort fyrirhuguð framkvæmd samræmist gildandi skipulagsáætlunum og hvernig fyrirhuguð framkvæmd tengist alþjóðasamningum og skuldbindingum.
 3. Mat á umhverfisáhrifum. Þar komi fram:
  1. lýsing á því hvaða þættir framkvæmdar og starfsemi, sem henni fylgir, eru taldir geta valdið umhverfisáhrifum, svo sem stærð og gerð mannvirkja, framleiðsluferlar, magn og gerð mengunarefna og hljóðstig frá starfsemi,
  2. lýsing á þeim þáttum umhverfisins sem taldir eru geta orðið fyrir áhrifum af fyrirhugaðri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir,
  3. lýsing á þeirri aðferðarfræði sem beitt hefur verið til að segja fyrir um áhrif framkvæmdarinnar á umhverfið,
  4. niðurstöður mats á umhverfisáhrifum, þ.e. mat á líklegum umhverfisáhrifum framkvæmdar og áhrifum starfsemi, sem henni fylgir, á umhverfið og líffræðilega fjölbreytni vegna tilkomu hennar, nýtingar náttúruauðlinda, losunar mengunarefna, ónæðis og/eða úrgangs,
  5. samanburður á umhverfisáhrifum þeirra kosta sem kynntir eru og rökstuðningur fyrir vali framkvæmdaraðila að teknu tilliti til umhverfisáhrifa,
  6. lýsing á fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum,
  7. upplýsingar um þá erfiðleika, tæknilega annmarka eða skort á þekkingu sem framkvæmdaraðili kann að hafa staðið frammi fyrir við mat á umhverfisáhrifum,
  8. tillaga að vöktunaráætlun.
  9. flokkun umhverfisþátta, viðmið, einkenni og vægi umhverfisáhrifa á grundvelli leiðbeininga sem Skipulagsstofnun gefur út.
 4. Upplýsingar um kynningu, álitsumleitan og samráð sem staðið hefur verið að af hálfu framkvæmdaraðila við mat á umhverfisáhrifum og upplýsingar um afstöðu þeirra aðila sem hafa tjáð sig um framkvæmdina, matsáætlun eða frummatsskýrslu á vinnslustigi.
 5. Stutt og skýr samantekt um frummatsskýrslu og niðurstöður hennar.

19. gr.

Beiðni um frekari gögn.

Ef sérstakar ástæður mæla með getur Skipulagsstofnun farið fram á að framkvæmdaraðili leggi fram frekari gögn en gert er ráð fyrir í samþykktri matsáætlun, við gerð frummatsskýrslu og við athugun stofnunarinnar, sbr. 20. gr., enda rökstyðji stofnunin beiðnina sérstaklega.

VII. KAFLI

Athugun og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum.

20. gr.

Athugun Skipulagsstofnunar á frummatsskýrslu.

Innan tveggja vikna frá því að Skipulagsstofnun tekur á móti frummatsskýrslu skal stofnunin meta hvort frummatsskýrslan uppfylli þær kröfur sem gerðar eru í 18. gr. og sé í samræmi við samþykkta matsáætlun skv. 15. gr., og ef við á, taka afstöðu til röksemda framkvæmdaraðila vegna frávika í frummatsskýrslu frá samþykktri matsáætlun.

Heimilt er Skipulagsstofnun að hafna því að taka frummatsskýrslu til athugunar í þeim tilvikum þegar hún uppfyllir ekki framangreind skilyrði. Skipulagsstofnun skal þá leiðbeina framkvæmdaraðila um frekari vinnslu frummatsskýrslu.

21. gr.

Kynning á frummatsskýrslu.

Telji Skipulagsstofnun frummatsskýrslu vera í samræmi við matsáætlun og ákvæði 18. gr. auglýsir stofnunin hina fyrirhuguðu framkvæmd og frummatsskýrslu með auglýsingu í Lögbirtingablaði, dagblaði sem gefið er út á landsvísu, og eftir því sem við á, í fjölmiðli sem ætla má að nái til þeirra sem búa nærri framkvæmdasvæði.

Framkvæmdaraðili skal kynna almenningi framkvæmd og frummatsskýrslu í samráði við Skipulagsstofnun eftir að skýrslan hefur verið auglýst. Skipulagsstofnun getur vikið frá þeirri kröfu ef sýnt þykir að framkvæmd og frummatsskýrsla hafi hlotið fullnægjandi kynningu.

Frummatsskýrslan skal liggja frammi á aðgengilegum stað nærri framkvæmdasvæði og hjá Skipulagsstofnun í sex vikur eftir að Skipulagsstofnun hefur kynnt hana, sbr. 1. mgr., sem jafnframt er sá frestur sem gefst til að koma skriflegum athugasemdum á framfæri við Skipulagsstofnun. Öllum er heimilt að gera athugasemdir við framlagða frummatsskýrslu.

22. gr.

Umsagnir og sérfræðiálit.

Skipulagsstofnun skal leita umsagnar leyfisveitenda og annarra aðila eftir því sem við á. Umsagnaraðilar skulu fjalla um hvort á fullnægjandi hátt sé gerð grein fyrir eftirtöldum atriðum sem eru á starfsviði þeirra, í frummatsskýrslu, eftir því sem við á:

 1. fyrirhugaða framkvæmd,
 2. umhverfi,
 3. umhverfisáhrif,
 4. mótvægisaðgerðir,
 5. vöktun,
 6. þörf á að kanna tiltekin atriði frekar.

Skipulagsstofnun skal veita umsagnaraðilum a.m.k. þriggja vikna frest til að gefa umsögn um frummatsskýrslu.

Komi umsagnaraðili fram með ný atriði sem ekki hafa komið fram í umfjöllun hans á fyrri stigum ber honum að gera sérstaklega grein fyrir því og ástæðu þess að það hafi ekki komið fram fyrr.

Skipulagsstofnun er heimilt að leita álits sérfræðinga á ákveðnum þáttum frummatsskýrslu og fram komnum gögnum að höfðu samráði við framkvæmdaraðila, sbr. 16. gr. Leiti stofnunin sérfræðiálits skal í áliti stofnunarinnar tilgreina ástæður þess.

23. gr.

Matsskýrsla framkvæmdaraðila.

Skipulagsstofnun skal senda framkvæmdaraðila umsagnir og athugasemdir og sérfræðiálit þegar við á sem henni berast við frummatsskýrslu. Þegar umsagnir og athugasemdir hafa borist framkvæmdaraðila skal hann vinna endanlega matsskýrslu á grundvelli frummatsskýrslu. Í matsskýrslu skal framkvæmdaraðili gera grein fyrir fram komnum athugasemdum og umsögnum og taka afstöðu til þeirra og senda hana síðan til Skipulagsstofnunar til athugunar og álits.

24. gr.

Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum.

Athugun Skipulagsstofnunar lýkur með áliti innan fjögurra vikna frá því að stofnunin tekur á móti matsskýrslu. Stofnunin skal gefa rökstutt álit sitt á því hvort skýrslan uppfylli skilyrði laga um mat á umhverfisáhrifum og reglugerðar þessarar og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt. Í áliti Skipulagsstofnunar skal gera grein fyrir helstu forsendum matsins, þ.m.t. gildi þeirra gagna sem liggja til grundvallar matinu, niðurstöðum stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum. Jafnframt skal í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust við kynningu á frummatsskýrslu.

Telji Skipulagsstofnun að setja þurfi frekari skilyrði fyrir framkvæmdinni eða gera þurfi aðrar eða frekari mótvægisaðgerðir en fram koma í matsskýrslu skal stofnunin tilgreina skilyrðin og mótvægisaðgerðirnar og færa rök fyrir þeim. Skal stofnunin einnig taka fram undir hvaða leyfisveitanda það falli að hafa eftirlit með að farið sé að settum skilyrðum.

Telji Skipulagsstofnun að matsskýrsla framkvæmdaraðila víki frá frummatsskýrslu hvað varðar mikilvæga þætti málsins skal hún auglýst að nýju skv. 21. gr.

25. gr.

Kynning á áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum.

Þegar álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir skal það kynnt umhverfisráðherra, framkvæmdaraðila, leyfisveitendum og öðrum umsagnaraðilum, svo og þeim sem gert hafa athugasemdir við frummatsskýrslu á kynningartíma. Almenningur skal eiga greiðan aðgang að áliti Skipulagsstofnunar og matsskýrslu og skal stofnunin innan viku frá því að álitið lá fyrir auglýsa í dagblaði sem gefið er út á landsvísu að það og matsskýrslan liggi fyrir. Álit Skipulagsstofnunar skal vera aðgengilegt á heimasíðu stofnunarinnar.

26. gr.

Endurskoðun matsskýrslu.

Ef framkvæmdir hefjast ekki innan tíu ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir skal viðkomandi leyfisveitandi óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu framkvæmdaraðila áður en leyfi til framkvæmda er veitt.

Skipulagsstofnun getur ákveðið að endurskoða skuli matsskýrslu framkvæmdaraðila skv. 1. mgr. ef forsendur hafa breyst verulega frá því að álitið lá fyrir, svo sem vegna breytinga á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, breytinga á löggjöf um umhverfismál, breytinga á alþjóðlegum skuldbindingum eða vegna tækniþróunar varðandi framkvæmdina. Verði niðurstaðan sú að endurskoða skuli matsskýrslu að hluta eða í heild skal fara með málið skv. 13.- 25. gr. reglugerðar þessarar eftir því sem við á.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um endurskoðun matsskýrslu skal auglýst í Lögbirtingablaði og dagblaði sem gefið er út á landsvísu innan tveggja vikna frá því að ákvörðun liggur fyrir. Í auglýsingu skal tilgreina kæruheimildir og kærufresti.

27. gr.

Málskot til ráðherra.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmd sem tilgreind er í 2. viðauka sé matsskyld, ákvörðun stofnunarinnar um að umhverfisáhrif fleiri en einnar matsskyldar framkvæmdar skuli metin sameiginlega og ákvörðun stofnunarinnar um endurskoðun matsskýrslu má kæra til umhverfisráðherra. Kærufrestur er einn mánuður frá auglýsingu um ákvörðun stofnunarinnar.

Þeir einir geta skotið máli til ráðherra sem eiga lögvarða hagsmuni tengda fyrrgreindum ákvörðunum Skipulagsstofnunar í þeim tilgangi að fá þær felldar úr gildi eða þeim breytt. Umhverfisverndar- og hagsmunasamtök sem varnarþing eiga á Íslandi njóta sama réttar, enda séu félagsmenn samtakanna 30 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að.

Enn fremur getur framkvæmdaraðili kært til ráðherra ákvörðun Skipulagsstofnunar um synjun matsáætlunar eða breytingar á henni, sbr. 15. gr., og ákvörðun stofnunarinnar um að frummatsskýrsla uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru í 18. gr. eða sé ekki í samræmi við matsáætlun skv. 15. gr. Úrskurður í kærumáli samkvæmt þessari grein skal kveðinn upp innan tveggja mánaða frá því að kærufrestur rann út.

Úrskurður ráðherra er fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi.

28. gr.

Málskot til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.

Ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmda- og byggingarleyfis samkvæmt skipulags- og byggingarlögum fyrir matsskyldar framkvæmdir er kæranleg til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála innan mánaðar frá því að ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmdaleyfis liggur fyrir.

Um kæru samkvæmt þessari grein fer að öðru leyti eftir skipulags- og byggingarlögum.

VIII. KAFLI

Ýmis ákvæði.

29. gr.

Leyfi til framkvæmda.

Óheimilt er að gefa út leyfi fyrir framkvæmdum sem falla undir 1. eða 2. viðauka við reglugerð þessa fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld.

Við útgáfu leyfis til framkvæmdar skv. 1. mgr. skal leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Leyfisveitandi skal birta opinberlega ákvörðun sína um útgáfu leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum innan tveggja vikna frá útgáfu leyfis. Í ákvörðun skal tilgreina kæruheimild og kærufrest þegar það á við.

Um framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar vegna matsskyldra framkvæmda fer eftir skipulags- og byggingarlögum.

Þeir sem veita leyfi vegna matsskyldra framkvæmda skulu senda Skipulagsstofnun afrit af slíku leyfi eftir að leyfi hefur verið gefið út.

30. gr.

Eftirlit með framkvæmdum.

Leyfisveitandi eða aðrir sem falið er með lögum eftirlit með framkvæmdum hafa eftirlit með því að matsskyldri framkvæmd sé hagað í samræmi við leyfi og fer um eftirlitið samkvæmt hlutaðeigandi lögum.

Berist Skipulagsstofnun vitneskja um framkvæmd sem fellur undir 1. eða 2. viðauka við reglugerð þessa sem hefur ekki verið tilkynnt stofnuninni skal hún beina fyrirspurn til leyfisveitanda um framkvæmdina.

31. gr.

Mat á umhverfisáhrifum og starfsleyfi.

Þegar um framkvæmd vegna starfsleyfisskylds atvinnureksturs er að ræða, sbr. reglugerð nr. 789/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sem jafnframt er matsskyld samkvæmt reglugerð þessari er framkvæmdaraðila heimilt, að fengnu samþykki Skipulagsstofnunar áður en matsáætlun er lögð fram, að vinna matsáætlun í samráði við starfsleyfisveitanda þannig að á sama tíma verði unnið að frummatsskýrslu og starfsleyfi.

32. gr.

Annars konar mat.

Ráðherra getur heimilað í sérstökum undantekningartilvikum, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og leyfisveitenda, að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar eða hluta hennar, sem tilgreind er í 1. eða 2. viðauka, fari fram með öðrum hætti en kveðið er á um í reglugerð þessari. Málsmeðferð slíks mats skal vera jafngild þeirri málsmeðferð sem mælt er fyrir um í reglugerð þessari.

Framkvæmdaraðili sem sækir um slíka málsmeðferð til ráðherra skal í umsókn sinni gera grein fyrir ástæðum þess að sótt er um slíka málsmeðferð og sýna fram á að málsmeðferð slíks mats sé jafngild þeirri málsmeðferð sem mælt er fyrir um í reglugerð þessari.

33. gr.

Gögn framkvæmdaraðila.

Almennar reglur eigna- og höfundarréttar gilda um gögn þau sem lögð eru fram samkvæmt reglugerð þessari.

34. gr.

Undanþága frá frestum.

Skipulagsstofnun er í samráði við framkvæmdaraðila heimilt í viðamiklum málum að víkja frá frestum þeim sem hana varðar sem mælt er fyrir um í reglugerð þessari.

35. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 20. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 með síðari breytingum og með hliðsjón af tilskipunum Evrópusambandsins, 97/11/EB og 85/337/EBE.

Reglugerð þessi öðlast gildi við birtingu og um leið fellur úr gildi samnefnd reglugerð nr. 671/2000.

Umhverfisráðuneytinu, 12. desember 2005.

Sigríður A. Þórðardóttir.

Magnús Jóhannesson.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 23. desember 2005