Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 972/2006

Nr. 972/2006 13. nóvember 2006
REGLUGERÐ
um próf í vátryggingamiðlun.

1. gr.

Í samvinnu við prófnefnd vátryggingamiðlara stendur Fjármálaeftirlitið fyrir prófi í vátryggingamiðlun fyrir þá sem hyggjast hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við vátryggingamiðlun skv. 17. gr. laga um vátryggingamiðlun, nr. 32/2005.

Þeir sem þess æskja skulu sækja um þátttöku í prófi hjá Fjármálaeftirlitinu á formi sem stofnunin ákveður.

2. gr.

Til grundvallar ákvörðun sinni um hvort umsækjandi standist prófkröfur skal Fjármála­eftirlitið hafa til hliðsjónar að viðkomandi hafi nægjanlega þekkingu í eftirtöldum náms­greinum:

1. Fyrsti hluti: Lögfræði.

 1. Lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998.
 2. Lög um miðlun vátrygginga nr. 32/2005.
 3. Lög um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994.
 4. Lög um vátryggingarsamninga nr. 30/2004.
 5. Skaðabótaréttur.
 6. Almennar reglur samningaréttar.
 7. Reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli sett á grundvelli tilvitnaðra laga í töluliðum 1 til 6.

2. Annar hluti: Almenn atriði.

 1. Starfsskyldur vátryggingamiðlara.
 2. Framkvæmd vátryggingamiðlunar.
 3. Áhættumat og ákvörðun iðgjalda.
 4. Tjónsuppgjör.
 5. Endurtryggingavernd.
 6. Fjármagnsmarkaðurinn, einkum reglur um starfsemi lífeyrissjóða og lífeyrissparnað, löggjöf um fjármálafyrirtæki og verðbréfaviðskipti.

3. Þriðji hluti: Raunhæft verkefni.

Fjármálaeftirlitinu er heimilt að gefa út lesefnislista í tengslum við einstakar námsgreinar.

3. gr.

Próf úr fyrsta hluta skal vera munnlegt og miðast við að sannreyna að umsækjandi búi yfir nauðsynlegri þekkingu á lagaumhverfi vátryggingamiðlunar og vátryggingastarfsemi. Próf úr öðrum hluta skal vera munnlegt og miðast við að sannreyna að umsækjandi búi yfir nauðsynlegri þekkingu á starfsumhverfi vátryggingamiðlunar. Próf úr þriðja hluta skal vera skriflegt og miðast við að sannreyna að umsækjandi búi yfir nauðsynlegri hæfni til að tengja saman þekkingu sína á efni fyrsta og annars hluta. Fjármálaeftirlitið ákveður hvort prófað er úr fyrsta til þriðja hluta í einu lagi eða í fleiri áföngum og tíma­lengd prófa. Fjármálaeftirlitið tilkynnir með viku fyrirvara um tímalengd, prófefnis­lýsingu og prófstað.

4. gr.

Prófnefnd vátryggingamiðlara er heimilt að veita lögfræðingum, sem lokið hafa prófi frá innlendum háskóla á síðustu tíu árum og hafa tekið próf í skaðabótarétti eða samn­ingarétti, undanþágu frá prófi í þeim greinum.

Ennfremur er heimilt að veita þátttakanda, sem um það sækir, undanþágu frá því að þreyta próf í einstökum námsgreinum. Skilyrði slíkrar undanþágu er að þátttakandi framvísi vottorði frá viðurkenndri menntastofnun um að hann hafi staðist sambærilegar námskröfur og gerðar eru til þátttakenda að mati prófnefndar.

5. gr.

Þátttaka í prófi er heimil gegn greiðslu gjalds skv. 7. gr.

Til þess að standast próf skal þátttakandi hljóta einkunnina „staðist" úr munnlegum prófum (fyrsti og annar hluti) og lágmarkseinkunnina 7 úr skriflegu prófi (þriðji hluti). Einkunn skal gefa í heilum og hálfum tölum frá 0 til 10. Einkunnagjöf Fjármálaeftirlitsins vegna munnlegs prófs er endanleg.

Fjármálaeftirlitið skal eins fljótt og kostur er tilkynna viðkomandi skriflega hvort hann hefur staðist prófkröfur, þó eigi síðar en 2 vikum eftir að próf var haldið.

Þeir sem eigi vilja una einkunnagjöf Fjármálaeftirlitsins vegna skriflegs prófs geta óskað prófskoðunar og skotið máli sínu til prófnefndar vátryggingamiðlara. Rökstuðningur skal fylgja málskoti til prófnefndar. Ákvörðun prófnefndar er endanleg.

6. gr.

Fjármálaeftirlitið skal gangast fyrir sjúkraprófi hafi þátttakandi ekki getað sótt próf vegna veikinda. Skal hann framvísa læknisvottorði vegna veikindanna.

Fjármálaeftirlitinu er heimilt að halda sérstakt upptökupróf fyrir þátttakanda sem ekki nær tilskilinni lágmarkseinkunn enda sæki þátttakandi skriflega um að slíkt próf verði haldið innan 15 daga frá því að honum var tilkynnt um niðurstöður Fjármálaeftirlitsins.

7. gr.

Til að standa undir kostnaði Fjármálaeftirlitsins við framkvæmd prófs greiðir þátttakandi prófgjöld. Þau skiptast í staðfestingargjald, kr. 20.000, og prófgjald, kr. 90.000. Staðfestingargjald greiðir þátttakandi Fjármálaeftirlitinu þegar er hann skráir sig til próftöku. Það er óafturkræft þótt hann hætti við þátttöku. Gjaldið endurgreiðist honum ef ekki verður af prófi.

Prófgjald greiðir þátttakandi Fjármálaeftirlitinu eigi síðar en 3 virkum dögum fyrir próf. Skal þátttakanda óheimil seta í prófi nema hann hafi staðið skil á prófgjaldi. Þeir sem fengið hafa undanþágu frá að þreyta próf í einstökum námsgreinum eiga ekki rétt á endurgreiðslu prófgjalds vegna þeirra undanþága.

8. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 18. gr. laga nr. 32/2005 um miðlun vátrygginga og öðlast þegar gildi.

Viðskiptaráðuneytinu, 13. nóvember 2006.

Jón Sigurðsson.

Kristján Skarphéðinsson.

B deild - Útgáfud.: 28. nóvember 2006