Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 110/2006

Nr. 110/2006 19. janúar 2006
FJALLSKILASAMÞYKKT
fyrir Borgarfjarðarsýslu og Akraneskaupstað.

I. KAFLI

Um stjórn fjallskilamála, fjallskiladeildir og afrétti.

1. gr.

Héraðsnefnd Borgarfjarðarsýslu hefur á hendi yfirstjórn fjallskilamála í sýslunni og Akraneskaupstað. Sveitarstjórnir fara með framkvæmd þeirra og gæta þess, að farið sé eftir ákvæðum laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl. nr. 6/1986 ásamt áorðnum breyt­ingum og fjallskilasamþykktar þessarar. Þær geta og sett nánari ákvæði í einstökum atriðum, en eigi mega þær ákvarðanir raska samþykkt þessari.

2. gr.

Borgarfjarðarsýsla og Akraneskaupstaður eru eitt fjallskilaumdæmi, er skiptist í sex fjallskiladeildir. Svæði það er fjallskiladeild nær yfir, er hið sama og leitarsvæði hverrar skilaréttar, sbr. 24. gr., og dregur hver deild nafn sitt af skilarétt þess svæðis.

3. gr.

Afréttir í Borgarfjarðarsýslu skulu vera þessir:

  1. Geitland milli Geitár og Hvítár, eign Hálsasveitar og Reykholtsdals (Sjálfseignarstofnun Arnarvatnsheiðar) en þær sveitir eiga meginafrétt sinn á Arnarvatnsheiði í Mýrasýslu.
  2. Afréttur Lunddæla og Andkílinga (Sjálfseignarstofnunin Ok), eign þeirra sveita milli Grímsár og Flóku, upp frá heimalöndum Gullberastaða og Oddsstaða og austur að sýslumörkum Borgarfjarðarsýslu og Árnessýslu.
  3. Sandaland, leiguland Hvalfjarðarstrandarhrepps norðvestan Bláskeggsár og upp á Botnsheiði.
  4. Kirkjuland Fitja á Botnsheiði, eign Akraneskaupstaðar.

Sveitarstjórnir geta breytt mörkum afrétta og lagt til þeirra heimalönd eða hluta ein­stakra jarða með samþykki landeiganda og umráðamanna og sveitarstjórnar þess sveitar­félags er land það er lagt skal til afréttar liggur í. Skylt er að leita samþykkis hjá héraðs­nefnd fyrir slíkum breytingum.

4. gr.

Ef tvö eða fleiri sveitarfélög eða sveitarhlutar eru innan sömu fjallskiladeildar skulu sveitarstjórnir þeirra koma sér saman um framkvæmd fjallskila.

II. KAFLI

Um vorsmalanir og not afrétta.

5. gr.

Hver sem hefur jörð til ábúðar eða umráða, þar með taldar eyðijarðir eða eyðilönd er skyldur að hlíta þeim samþykktum er sveitarstjórnir gera um vorsmalanir.

6. gr.

Þeir sem afréttarnot hafa, mega flytja þangað sauðfé sitt þegar árferði og önnur atvik leyfa. Skal sveitarstjórn tilkynna ábúendum hvenær flytja megi fé á afrétt. Hafa má allt sauðfé í heimalandi, ef það er girt fjárheldri girðingu eða sveitarstjórn samþykkir, og er ekki fleira en landgæði og landrými nægja til að mati sveitarstjórnar. Sveitarstjórn getur skyldað ábúanda jarðar til að flytja fé sitt á afrétt telji hún þess þörf.

7. gr.

Hross má flytja á afrétt ef sveitarstjórn leyfir, og að höfðu samráði við gróður­verndar­nefnd héraðsnefndar og Landgræðslu ríkisins.

8. gr.

Enginn má nota annan afrétt en þann er hann á upprekstur í nema með leyfi hlut­að­eigandi sveitarstjórnar. Enginn má án leyfis sveitarstjórnar leyfa upprekstur né selja hagagöngu af neinu tagi í land umráðajarðar sinnar nema girt sé heldri girðingu. Þess skal ávallt gætt, að taka ekki meiri fénað í hagagöngu en umráðalandið ber með góðu móti. Sá er tekur fénað í hagagöngu ber sömu ábyrgð á honum og væri hann hans eigin hvað varðar fjallskil, ágang og usla í annarra landi.

9. gr.

Óheimilt er að reka á afrétt sauðfé eða hross sem tekin hafa verið í hagagöngu í heima­lönd, nema með leyfi viðkomandi sveitarstjórna.

10. gr.

Verði veruleg brögð að ágangi búfjár úr afrétti í heimahaga, getur sá er fyrir verður gert sveitarstjórn aðvart. Sé ágangur verulegur eða óeðlilegur að mati sveitarstjórnar skal hún skipa fyrir um smölun ágangsfénaðar og rekstur eða flutning til afréttar eða skila­réttar.

Kostnaður greiðist að ¾ úr fjallskilasjóði eða sveitarsjóði þess sveitarfélags eða sveitar­félaga er þann afrétt nota er ágangsfénaður kom frá, en landráðandi ¼. Heimilt er þó sveitarstjórn þess sveitarfélags sem sú bújörð liggur í er ágangi sætir, að greiða þann hluta kostnaðar sem landráðanda er annars ætlað að bera.

Stafi verulegur ágangur af búfé sem skylt hefur verið að flytja á afrétt, ber sveitarstjórn að sjá um, að eigandi flytji féð á afrétt. Nú stafar óeðlilegur ágangur af fé sem heimilt er að hafa í heimahögum og ber þá sveitarstjórn að láta smala því og reka eða flytja til eiganda.

Um kostnað í því tilviki fari þannig, að fjáreigandi greiði ¾ landráði ¼. Verði ágreiningur með sveitarstjórn og landráðanda um hvað teljist vera verulegur eða óeðlilegur ágangur, geta aðilar skotið máli sinu til héraðsnefndar er þá skipar þrjá óvilhalla menn til þess að skera úr slíkum ágreiningi.

III. KAFLI

Um ítölu.

11. gr.

Héraðsnefnd getur gert samþykkt um ítölu, eftir ákvæðum III. kafla laga um afrétta­málefni, fjallskil o.fl. nr. 6/1986 ásamt áorðnum breytingum og ber þá búfjár­eigendum að fara eftir henni.

IV. KAFLI

Um fjallskil.

12. gr.

Skylt er að gera fjallskil af öllu sauðfé og geitfé. Leyfi sveitarstjórn rekstur stóðhrossa á afrétt skal gera fjallskil af þeim. Fjallskilagjald af hrossi má vera allt að 10 sinnum hærra en af vetrarfóðraðri sauðkind.

Sveitarstjórn jafnar niður fjallskilum. Skal hver leggja til fjallskila það sem sveitarstjórn ákveður. Hver ábúandi er skyldur að gera fjallskil fyrir þann fénað, sem hann hafði á fóðrum næstliðinn vetur eða hann eða hans heimamenn hafa eignast síðan og flutt inn í sveitarfélagið. Skylt er ábúanda að tilkynna sveitarstjórn fyrir júlílok um breytingar frá vetri á tölu fjallskilaskylds búpenings. Heimilt er sveitarstjórn að jafna fjallskilakostnaði að hluta á landverð allra jarða, að frádregnu verði ræktaðs lands og hlunninda, er eigandi eða umráðandi greiði.

Heimilt er að greiða úr sveitarsjóði kostnað við byggingu almenningsrétta (skilarétta), leitarmannaskála og annarra mannvirkja sem þörf er á vegna aðalleita og réttarhalds, svo og girðinga milli heimalanda og afrétta, að því leyti sem aðilum innan sveitar er skylt að leggja til þeirra. Einnig er heimilt að greiða annan fjallskilakostnað úr sveitarsjóði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi og héraðsnefnd leyfir. sbr. 16. gr.

13. gr.

Tvennar aðalleitir skal gera á hverju hausti á afrétti og heimalöndum. Nú er heimland girt fjárheldri girðingu eða afmarkað af ám og vötnum er mega teljast gripheldar og er þá sveitarstjórn heimilt að leyfa að það sé ekki smalað til fyrri réttar ef smölun til förgunar verður að fara fram næstu daga. Komi afbæjarfé fram í þeirri smölun skal sá er smalar geyma það til næstu skilaréttar eða koma því til eiganda á sinn kostnað.

Eftir aðalleitir skal fara fram eftirleit á afrétti eftir ákvörðun sveitarstjórnar og öll heimalönd skal smala fyrsta vetrardag. Með afbæjarfénað sem kemur fyrir í þessum leitum eða smölunum skal farið eins og sveitarstjórn segir til um. Senda skal menn eftir því sem þörf krefur til að hirða fé í útréttum. Útréttir kallast skilaréttir utan leitarsvæðis.

14. gr.

Hver bóndi er skyldur að leita land ábýlisjarðar sinnar, nema sveitarstjórn telji landið að einhverju leyti notað sem afrétt, eða hafi gert samning um það við umráðendur jarðarinnar (sbr. 16. gr.). Þótt jörð sé ekki í ábúð, hvíla sömu skyldur á eiganda hennar eða umráðanda.

Vanræki einhver smölun, er sveitarstjórn skylt að láta smala á kostnað umráðanda eða eiganda landsins. Skylt er að koma úrtíningi til skilaréttar í tæka tíð.

Heimilt er sveitarstjórn að meta til fjallskila haustsmalanir landstórra jarða, þótt sveitar-félagið eigi afrétt, enda sé landið ekki varið annarra fénaði.

15. gr.

Ef bóndi notar beitarréttindi utan sinnar heimasveitar skulu hlutaðeigandi sveitarstjórnir koma sér saman um álagningu fjallskila. Skal skipta álagningunni með tilliti til beitarnota bónda og skyldum sveitarfélaganna við hann hvað fjallskil varðar. Bóndi skal gera sveitarstjórnum grein fyrir beitarnotum sínum. Fjallskilasjóður eða sveitarsjóður heima­sveitar kostar hirðingu búfjár bónda í útréttum, öðrum en þeim er teljast skilaréttir þeirra afrétta eða jarða er hann nýtir beitarrétt á. Bóndi hefur sama afnotarétt og skyldur við skilarétt ábúðarjarðar sinnar og aðrir sveitungar. Hafa má aðra skipan á en hér er greint ef allir aðilar eru því sammála. Verði ágreiningur um deilingu fjallskilaálagningar, skulu þrír óvilhallir menn, er héraðsnefnd skipar, skera úr.

16. gr.

Hafi sveitarfélag engin afréttarnot getur sveitarstjórn ákveðið, að haustsmalanir heima­landa sem ekki eru varin annarra fénaði verði metnar til fjallskila. Nú þykir sveitar­stjórn ekki ástæða til að svo verði gert um smalanir allra óvarinna heimalanda vegna landsmæðar eða mjög auðveldrar smölunar sumra þeirra og er henni þá heimilt að leggja lægri fjallskil á þær jarðir eða fella þau niður. Sveitarstjórn getur einnig fellt niður að einhverju eða öllu leyti fjallskilagjöld þar sem heimalönd eru varin. Sveitarstjórn skal annast um ráðningu manna til að sækja fé sveitunga í útréttir. Kostnað vegna þessa má greiða úr sveitarsjóði.

17. gr.

Sveitarstjórnir allra sveitarfélaga innan hverrar fjallskiladeildar skulu koma sér saman um fyrirkomulag leita og annað það er þörf þykir til bera að samvinna sé höfð um. Hafi tvö eða fleiri sveitarfélög sameiginlegt upprekstrarland skulu sveitarstjórnir gera áætlun um fjallskilakostnað á upprekstrarsvæðinu og skipta með sér sameiginlegum kostnaði.

18. gr.

Sveitarstjórn jafnar niður fjallskilum, bæði fjallskilavinnu og peningagreiðslum.

Leggja má allan kostnað fjallskilaskylds aðila á í peningum ef henta þykir. Fjallskilagjald rennur í fjallskilasjóð og skal hann vera í vörslu þess sveitarfélags sem gjald er á lagt. Öll vinna við fjallskil skal lögð á í dagsverkum.

Á niðurjöfnunarfundi skal kjósa leitarstjóra, réttarstjóra og tvo marklýsingamenn. Þeir skulu kosnir af sveitarstjórn þess sveitarfélags er skilarétt stendur í. Niðurjöfnun skal lokið tímanlega og hún verða öllum kunn er leggja eiga fram vinnu, eigi síðar en viku áður en leitir byrja. Fjallskilaseðill skal sendur eða birtur sérhverjum er fjallskil ber að gera. Á honum skal tilgreina fjallskil hvers og eins, hvaða fjallskilaverk hver þarf að leysa af hendi og hversu mikið hverjum ber að greiða í peningum svo og annað það er þörf þykir að taka fram varðandi fjallskilin.

19. gr.

Sérhver er á að leggja fram vinnu við fjallskil skal vanda vel tillag sitt, svo sem með því að senda fullgilda og vel útbúna menn í leitir og útréttir o.s.frv. Sé þess sérstaklega vel gætt að þeir hafi hlýjan vatnsheldan klæðnað í áberandi lit, séu nestaðir og vel ríðandi eftir atvikum.

Láti einhver farast fyrir að senda mann í leitir eða gera þau fjallskil sem hann er til kvaddur og birt eru á fjallskilaseðli, skal hann auk greiðslu fyrir fjallskil eins og þau eru metin, gjalda sekt í fjallskilasjóð, allt að helmingi af matsverði fjallskilanna. Ef einhver sendir mann í leitir sem leitarstjóri telur óhæfan, skal vísa honum heim aftur ef kostur er, og er þá sá er þann mann sendi skyldur til að borga fjallskil og sekt eins og hann hafi engan sent. Sama gildir um mann í útréttir. Sannist það að leitarmaður eða annar er fjallskil á að vinna vanræki skyldu sína, getur sveitarstjórn krafist uppbótar frá honum eða þeim er hann sendi. Vilji hann ekki hlíta úrskurðinum getur hann skotið máli sínu til héraðsnefndar.

Gjaldi fyrir leitarsvik eða aðra vanrækslu á fjallskilum má verja til að kaupa mann til fjallskilanna, ella renni það fé í fjallskilasjóð eða sveitarsjóð þess leitarsvæðis er hlut á að máli.

20. gr.

Leitarsvæði hverrar skilaréttar skal hafa sameiginlegan fjallskilasjóð er oddviti eða sveitar­stjóri þess sveitarfélags er skilarétt stendur í, varðveitir. Í þann sjóð rennur andvirði alls óskilapenings (þ.m.t. ómerkingar), er ekki finnst eigandi að. Geti sjóðurinn ekki staðið undir þeim gjöldum er honum ber að greiða, leggja fjallskilasjóðir sveitar­félaganna honum það til er á vantar.

Framlag fjallskilasjóðanna greiðist eftir því hlutfalli sem sveitarstjórnir er hlut eiga að máli hafa ákveðið. Kostnaður við fjallskilamál greiðist úr fjallskilasjóði nema að því leyti sem sveitarstjórnum er ætlað að greiða hann eða öðruvísi er ákveðið.

21. gr.

Enga aðalleit má gera nema leitarstjóri stjórni henni og sé í henni, enda skulu leitarmenn skyldir að hlýða honum. Áður en leit hefst kannar leitarstjóri lið sitt, og ef svo reynist að einhverja vanti eða einhverjir eru taldir óhæfir til að fara í leit, kaupir hann menn í þeirra stað ef unnt er. Skal leitarstjóri sérstaklega gæta þess að framfylgt sé ákvæðum 19. gr. um útbúnað leitarmanna. Leitarstjóri skipar fyrir um hvernig hver leitarmaður hagi leit sinni, gætir þess að allir vandi verk sín, að safn sé rekið með reglu til réttar svo að það sé komið þangað í tæka tíð, allrar mannúðar sé gætt, að lamakindur séu fluttar til byggða eða þeim lógað sé ekki annað unnt og að safnsins sé gætt uns gæslumanni eða réttarstjóra ber að taka við því.

22. gr.

Skilamenn í útréttum skulu gera sitt ítrasta til að fénaður verði ekki eftir og mega þeir ekki fara frá réttinni fyrr en töfludrætti er lokið. Fénaði úr útréttum skal komið þangað sem sveitarstjórnir ákveða hver á sínu svæði.

23. gr.

Nú þykir einhverjum niðurjöfnun fjallskila eigi rétt og vill fá leiðréttingu á því. Þá ber honum eigi að síður að inna álögð fjallskil af hendi, en getur sent skriflega kæru til sveitarstjórnar fyrir októberlok næstu á eftir og beðið hana leiðréttingar. Sætti kærandi sig ekki við viðbrögð sveitarstjórnar getur hann krafist úrskurðar héraðsnefndar.

V. KAFLI

Fjallskiladeildir (leitarsvæði), réttir og réttardagar.

24. gr.

Fjallskiladeildir og skilaréttir í Borgarfjarðarsýslu skulu vera þessar:

  1. Rauðsgilsrétt: Leitarsvæðið nær yfir öll lönd í Hálsasveit og Reykholtsdal að undanskildu Kálfanesi. Fyrri Rauðsgilsrétt skal fara fram sunnudaginn í 22. viku sumars og hin seinni sunnudaginn í 24. viku sumars.
  2. Oddsstaðarétt: Leitarsvæðið nær yfir Lundarreykjadal allan, Andakíl norðan Andakílsár, lönd jarða í Skorradal norðan Skorradalsvatns og Fitjaár. Ennfremur land Kálfaness. Fyrri Oddstaðarétt skal fara fram miðvikudaginn í 21. viku sumars, og hinn seinni sunnudaginn í 24. viku sumars. Sundurdráttarrétt má vera á Þverfelli. Á meðan núverandi reglur gilda um sauðfjárveikivarnir á þessu svæði skal Þverfellsrétt vera skilarétt. Fyrri Þverfellsrétt skal fara fram sunnudaginn í 21. viku sumars og hin seinni sunnudaginn í 23. viku sumars. Sundurdráttarrétt má vera á Varmalæk.
  3. Hreppsrétt: Leitarsvæðið nær yfir lönd jarða í Andakíl sunnan Andakílsár og jarða í sunnan- og neðanverðum Skorradal að Stóru Drageyri. Fyrri Hreppsrétt skal fara fram sunnudaginn í 21. viku sumars og hin seinni laugardaginn í 23. viku sumars. Aðstaða til sundurdráttar skal vera á Fitjum, Bakkakoti, Haga og víðar ef ástæða er til.
  4. Svarthamarsrétt: Leitarsvæðið nær yfir Hvalfjarðarstrandarhrepp allan og upprekstrarland Akraneskaupstaðar á Botnsheiði og land jarða í Skorradalshreppi sunnan Fitjaár allt að mörkum Stóru og Litlu Drageyrar. Fyrri Svarthamarsrétt skal fara fram sunnudaginn í 21. viku sumars og hin seinni sunnudaginn í 23. viku sumars.
  5. Núparétt: Leitarsvæðið nær yfir Leirár- og Melahrepp allan. Fyrri Núparétt skal fara fram sunnudaginn í 21. viku sumars og hin seinni laugardaginn í 23. viku.
  6. Reynisrétt: Leitarsvæðið nær yfir Skilmannahrepp allan, Innri-Akraneshrepp og Akraneskaupstað. Fyrri Reynisrétt skal fara fram laugardaginn í 21. viku sumars og hin seinni laugardaginn í 23. viku sumars.

Heimilt er héraðsnefnd að leyfa sveitarstjórnum að breyta leitartíma og réttardögum ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

25. gr.

Sveitarstjórn eða sveitarstjórnir hverrar fjallskiladeildar skulu sjá um byggingu aðalréttar þar sem slíkar réttir skulu vera, og tryggja að sómasamleg aðstaða sé til sundurdráttar. Kostnaður greiðist úr fjallskilasjóði eða sveitarsjóði eftir samþykkt sveitarstjórnar (sbr. 12. gr.).

Þess skal gætt að rétt sé þannig byggð, að nægjanlegt rými sé fyrir allan fénað er til réttar kemur og að allir er fjárvon eiga hafi þar nóg dilkrými. Þar séu og dilkar fyrir útréttarfé, ómerkinga og annan óskilafénað. Rétt skal svo vel byggð og vel við haldið að fénaður geti ekki sloppið út úr henni. Svo skal einnig um nátthagagirðingar við rétt. Sveitarsjórn eða sveitarstjórnir skulu og annast um byggingu leitarmannaskála og húss fyrir leitarhesta, eins vistleg og rúmgóð og þörf er talin á.

26. gr.

Réttarbóndi skal fá gjald fyrir átroðning eftir samkomulagi. Verði ágreiningur um gjald sker héraðsnefnd úr.

27. gr.

Réttarstjóri stjórnar skilarétt og tekur hann við af leitarstjóra eða gæslumanni. Hann gerir sér far um að allt fari skipulega fram meðan á réttarhaldinu stendur. Allir eru skyldir að hlýða skipunum réttarstjóra. Hann getur skipað annan í sinn stað um stundar­sakir ef á þarf að halda.

Réttarstjóri skal sjá um að ómerkingar (lömb og folöld) séu settir í ómerkingadilk svo eigendum gefist kostur á að láta mæður helga sér þá. Enginn má taka ómerking án leyfis réttarstjóra. Marklýsingamenn skulu lýsa öllum mörkum eftir að töfludráttur hefst. Greini marklýsingamenn á úrskurðar réttarstjóri um mörk.

28. gr.

Það er skylda hvers manns á upprekstrarsvæðinu er fjárvon á í skilaréttum, að hafa þar nægan mannafla að hirða fénað sinn. Ef einhver vanrækir þetta er réttarstjóra heimilt að láta draga fénað hans og reka eða flytja heim á hans kostnað. Sveitarstjórn annast um ráðningu manna til eftirleita eins og þörf krefur.

VI. KAFLI

Meðferð óskilapenings.

29. gr.

Hver sem innir fjallskil af höndum eða annast smölun heimalands, skal leitast við að handsama ómerkinga eins fljótt og við verður komið og auðkenna þá ef þeir fylgja móður. Ómerkinga og annað óskilafé er til réttar flyst skal réttarstjórinn láta draga í ómerkingadilk, þar sem menn eiga kost á að leiða mæður til ómerkinga, og sanna eignarrétt sinn á þeim sem og öðru óskilafé.

Ómerkingar og annað óskilafé sem ekki gengur út skal að lokinni skilarétt flutt í sláturhús til förgunar undir umsjón réttarstjóra. Ómerkinga og annað óskilafé, er kemur fyrir eftir réttir eða fé sem ekki kemst til eiganda vegna fjarlægðar eða vegna búfjárveikivarna skal fara með á sama hátt. Áður en fénu er lógað skal skrifa nákvæma lýsingu á því, þar sem getið er marks og annarra einkenna, sem eigendur geta helgað sér fé eftir.

Leggja skal andvirði slíks fjár inn á reikning skilaréttar eða sveitarfélags á því svæði, er það kemur fyrir í, og skal reikningur færður þannig að greiða megi andvirði hverrar kindar sér ef upplýsingar fást um eiganda. Ef fullvíst er um eiganda, áður en fé er lagt inn í sláturhús, skal leggja inn á nafn hans og skrá númer kindarinnar á innleggsnótuna, ef merkt er. Ber sláturleyfishafa að tilkynna eiganda um innleggið innan þriggja mánaða frá sláturdegi. Sömu ákvæði gilda um geitfé og óskilanautgripi eins og um sauðfé hvað þetta varðar.

30. gr.

Í lok skilaréttar skal sýslumaður selja á uppboði óskilahross, þar með talin folöld, er ekki gengu út í réttinni. Óskilahross er koma fyrir síðar skal selja á opinberu uppboði af sýslumanni. Auglýsa skal slíkt uppboð með a.m.k. viku fyrirvara. Innlausnarfrestur á óskilahrossum skal vera 12 vikur frá söludegi. Kaupandi skal geyma gripi þá er hann hefur keypt meðan innlausnarfrestur varir. Áfallinn kostnað vegna geymslu skal greiða eftir mati sveitarstjórnar og draga frá andvirðinu. Verði kaupandi eigandi að grip að innlausnarfresti liðnum, ber honum ekki greiðsla fyrir tilkostnað.

31. gr.

Sveitarstjórn skal auglýsa í Lögbirtingablaði óskilafé sem fargað hefur verið fyrir áramót næstu á eftir, en óskilahross seld á uppboði skal auglýsa á sama hátt þegar eftir sölu. Geti einhver sannað eignarrétt sinn innan 6 mánaða frá auglýsingardegi skal honum greitt andvirðið að frádregnum áföllnum kostnaði. Að öðrum kosti skal andvirðið renna í fjallskilasjóð skilaréttarinnar eða sveitarsjóð og sendir sveitarstjórn skýrslu um sölu óskilapenings ásamt eftirstöðvum af andvirði til þess oddvita eða sveitarstjóra er heldur reikning skilaréttar. Skal sveitarstjórn hafa lokið þessum skilum innan tveggja mánaða frá því að víst er um hversu mikið fjallskilasjóði beri af andvirðinu.

VII. KAFLI

Um vörslu og smölun hrossa.

32. gr.

Heimilt er sveitarstjórnum að ákveða að öllum hrossaeigendum sé skylt að hafa hross sín í vörslu allt árið eða tiltekinn hluta þess, nema að því leyti sem sveitarstjórn kann að leyfa að stóðhross séu rekin á afrétt (sbr. 4. og 5. gr. laga um búfjárhald nr. 46/1991). Sveitarstjórn er og heimilt að skylda alla landeigendur til að smala hrossum síðasta dag sumars og koma þeim hrossum er ekki ganga út heima hjá þeim til þess staðar er sveitarstjórn ákveður.

VIII. KAFLI

Mörk sauðfjár og hrossa og markaskrár.

33. gr.

Hver maður skal auðkenna sauðfé og hross með glöggu búfjármerki. Honum er og skylt að plötumerkja sauðfé í eyra með bæjar- og sveitarmerki (hreppsbrennimerki) og skulu merkin bera lit samkvæmt ákvæðum um litamerkingar eftir varnarsvæðum. Heimilt er að brennimerkja hyrnt fé, en frostmerkja stórgripi eftir settum, auglýstum reglum.

Sveitarmerki skulu vera þessi:

Fyrir Hvalfjarðarstrandarhrepp:

B1

Fyrir Innri-Akraneshrepp:

B2

Fyrir Skilmannahrepp:

B3

Fyrir Leirár- og Melahrepp:

B4

Fyrir Andakíl:

B5

Fyrir Skorradalshrepp:

B6

Fyrir Lundarreykjadal:

B7

Fyrir Reykholtsdal:

B8

Fyrir Hálsasveit:

B9

Fyrir Akraneskaupstað:

AK

Ef fullorðið sauðfé er ekki sveitarmerkt á hornum eða eyrnaplötu getur eigandi þess ekki krafist skaðabóta þótt fé hans verði eftir í útréttum, enda ber þá fjallskilasjóði eða sveitarsjóði ekki að borga fyrir gæslu né annan kostnað er á slíkt fé kann að falla.

34. gr.

Búfé skal draga eftir mörkum. Markið helgar eiganda grip nema sönnun komi fyrir að annar eigi. Búfé sem ekki ber rétt mark manns er honum óheimilt að draga sér hve lítið sem á vantar.

Við sönnun á eign búfjár er örmerki rétthæst, þá frostmerki, síðan brennimark, þá plötumerki og síðast eyrnamark. Ef mörkum ber ekki saman á grip er eiganda rétthærra marks skylt að gera grein fyrir eignarétti sínum ef eigandi réttlægra marks krefst þess. Um ágreining er rísa kann út af vafamörkum skera marklýsingamenn.

35. gr.

Enginn má taka upp mikil særingarmörk né mörk, sem vandi er að marka svo auð­þekkjanleg séu. Ekki má nota mark sem er meira en níu hnífsbrögð alls.

Þessi mörk er leyfilegt að nota: Alheilt, andfjaðrað, biti, blaðrifað, blaðstýft, boðbíldur, bragð, fjöður, gagnbitað, gagnfjaðrað, gagnhangfjaðrað, gagnhófbitað, gagnstigað, geir­stýft, hamrað, hangfjöður, hálftaf, heilhamrað, heilrifað, hófbiti, hvatt, lögg, miðhlutað, mið­hlutað í stúf, oddfjaðrað, sneiðrifað, sneitt, stig, stúfrifað, stýft, stýft hálft­af, sýlt, tvíbitað, tvífjaðrað, tvírifað í heilt, tvírifað í sneitt, tvírifað í stúf, tvístýft.

Fleiri en tvö undirben má ekki nota sömu megin á eyra. Mörk þau, sem ekki er leyft að nota samkvæmt þessari grein, mega þó notast af núverandi eigendum þeirra, en mega ekki ganga að erfðum kaupum eða gjöfum og ekki má flytja þau inn í fjallskilaumdæmið. Jafnan skal auglýst í markaskrá sýslunnar, hvaða mörk leyfilegt er að nota.

36. gr.

Héraðsnefnd skal láta gefa út markaskrá. Skal hver markeigandi koma marki sínu í hana. Héraðsnefnd ákveður greiðslu fyrir hvert mark, en markeigandi fær eitt eintak af markaskránni. Héraðsnefnd skal sjá um að nægilega mörg eintök af markaskránni séu send til allra sveitarfélaga utan sýslu sem fjársamgöngur eru við, enda séu slík skipti gagn­kvæm.

Gjald það er héraðsnefnd ákveður fyrir mörkin skal ætíð vera svo hátt að nægi fyrir kostnaði við markasöfnun, umsjón með skrásetningu og útgáfu markaskrár. Ef afgangur verður leggst hann í sjóð héraðsnefndar.

Markavarsla fjallskilaumdæmisins getur geymt mark sem markeigandi tilkynnir ekki til prentunar í markaskrá með því að prenta það í skrána og leyfa öðrum í umdæminu að taka það upp þegar átta ár eru liðin, eða fyrr með samþykki fyrri eiganda. Hafi marka­varsla geymt mark lengur en átta ár fellur aldursréttur þess niður.

37. gr.

Héraðsnefnd ræður markavörð til að sjá um útgáfu markaskrár og til þess að hafa umsjón með upptöku nýrra marka á milli þess, sem markaskrá er gefin út. Markasöfnun skal fara fram fyrir áramót næstu á undan að prenta skal skrá.

38. gr.

Að lokinni söfnun marka skal markavörður athuga um sammerkingar innan sýslu og í nærliggjandi sýslum. Skal hann fella niður þau nýupptekin mörk, sem eru sammerkt eða um of lík eldri mörkum eða líkjast um of hvert öðru, og ennfremur mörk, sem ekki má upptaka samkvæmt ákvæðum samþykktar.

Nú hefur markavörður fellt niður mark og skal hann þá tilkynna það marktakanda bréf­lega og jafnframt benda honum á annað mark, er hann geti fengið sem líkast því, sem hann hefur kosið.

Hafi hann eigi svarað bréfi markavarðar fyrir janúarlok, skal líta svo á, að hann taki marki er markavörður benti honum á og skal þá prenta það í markaskránni.

Vilji einhver taka upp nýtt mark milli þess er markaskrá er prentuð, skal hann tilkynna það markaverði og fá til þess leyfi hans. Að því fengnu skal markavörður láta birta það á kostnað markeiganda í Lögbirtingablaði, og er það þá fyrst heimilt til notkunar. Sama máli gegnir um þann, er flyst inn í fjallskilaumdæmið, að hann verður að fá samþykki markavarðar til þess að mega nota áfram það mark, er hann áður átti. Eigandaskipti að marki skulu og auglýst í Lögbirtingablaði.

Markavörðum er skylt að færa öll mörk úr sýslunni sem auglýst er í Lögbirtingablaði inn í markaskráreintök þau sem nota skal við töfludrátt í skilaréttum. Héraðsnefnd Borgar­fjarðar­sýslu skal leita samvinnu við héraðsnefndir í Mýrasýslu, Snæfells- og Hnappa­dals­sýslu, Dalasýslu, Strandasýslu, Húnavatnssýslum, Skagafjarðarsýslu, Árnes­sýslu, Gullbringu- og Kjósarsýslu um ráðstafanir til þess að afstýra sammerkingum á þeim svæðum, er fjársamgöngur geta komið fyrir í samræmi við ákvæði 11. gr. reglu­gerðar um búfjármörk o.fl. nr. 579/1989, með síðari breytingum.

IX. KAFLI

Fjárrekstrar og fjárflutningar.

39. gr.

Þegar hross eða sauðfé er rekið um héraðið, skal þess gætt, að rekstri hverjum fylgi ætíð nægilega margir og duglegir rekstrarmenn, svo að sem minnstur bagi verði fyrir þá, er þau lönd eiga, sem um er rekið eða í er áð. Eigi má leggja upp með slíka rekstra fyrr en markljóst er orðið, og eigi má halda áfram að kvöldi, þegar mjög er orðið skuggsýnt, nema brýna nauðsyn beri til. Þegar fénaður er fluttur á bifreiðum eða tengivögnum, skal þess gætt, að hann hafi nægilegt rými og að vel fari um hann.

Skaða, sem hlýst af því, ef út af þessu er brugðið, ber eiganda eða umsjónarmanni rekstursins eða flutningatækis að greiða eiganda fjársins, nema vátryggingataki greiði. Sannist það, að skaðinn stafi af skeytingarleysi rekstrarmanns eða ökumanns, skal hann sæta sektum.

40. gr.

Stranglega er bannað að svelta fénað, umfram það, sem ekki verður hjá komist, hundbeita hann að óþörfu eða misþyrma honum á nokkurn hátt við fjárréttir, í rekstrum, flutningi, gæslu, fjallgöngum eða við heimasmölun.

X. KAFLI

Almenn ákvæði.

41. gr.

Héraðsnefnd sker úr öllum ágreiningi milli sveitarstjórna um fjallskil. Undir úrskurð hennar heyra líka allar kærur og kröfur á hendur sveitarstjórnum er snerta fjallskil. Ennfremur geta einstakir menn lagt slík mál undir úrskurð héraðsnefndar.

42. gr.

Brot gegn ákvæðum þessarar samþykktar varðar sektum, nema þyngri refsing liggji við eftir öðrum lögum og renna sektir í fjallskilasjóð eða sveitarsjóð þess leitarsvæðis, sem brotið er framið í. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

43. gr.

Samþykkt þessi sem héraðsnefnd Borgarfjarðarsýslu hefur samið og samþykkt stað­festist hér með samkvæmt 3. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. ásamt áorðnum breytingum til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt er úr gildi felld fjallskilareglugerð fyrir Borgar­fjarðar­sýslu og Akraneskaupstað nr. 637/1996.

Landbúnaðarráðuneytinu, 19. janúar 2006.

Guðni Ágústsson.

Atli Már Ingólfsson.

B deild - Útgáfud.: 10. febrúar 2006