Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 10/2008

Nr. 10/2008 4. janúar 2008
REGLUGERÐ
um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.

1. gr.

Gæðastýrð sauðfjárframleiðsla.

Með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu er átt við framleiðslu sauðfjárafurða samkvæmt kröfum sem settar eru fram í þessari reglugerð um aðbúnað og umhverfi, sauðfjár­skýrsluhald, jarðrækt, fóðrun, heilsufar, lyfjanotkun, afurðir, landnýtingu og skyld atriði.

Sauðfjárframleiðendur sem uppfylla skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu á tímabilinu frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2013 eiga rétt til sérstakra álagsgreiðslna úr ríkissjóði til samræmis við samning um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 25. janúar 2007.

I. KAFLI

Yfirstjórn og orðskýringar.

2. gr.

Stjórnsýsla.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur yfirstjórn mála samkvæmt þessari reglu­gerð.

Matvælastofnun fer með framkvæmd gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er heimilt að gera samninga við eftirlitsaðila (ríkisstofnanir og/eða einkaaðila) um eftirlit og úttekt á landi sem nýtt er við gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Matvælastofnun er heimilt að annast öll þau verkefni sem lögð eru til þessa eftirlitsaðila.

3. gr.

Orðskýringar.

Merking hugtaka er sem hér segir:

 1. Auðnir og rofsvæði: Ógrónar eða mjög lítið grónar landgerðir (2-20% þekja háplantna) sem mótast af mörgum ferlum jarðvegsrofs; t.d. urðir, melar, sandar, sendnir melar, hraun, sendin hraun, áreyrar o.fl.
 2. Álagsgreiðsla: Tiltekin fjárhæð sem greiðist á gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.
 3. Ástand beitilands: Eiginleikar og samsetning gróðurs og jarðvegs í vistkerfi viðkomandi landsvæðis, í samanburði við það sem telja má eðlilegt miðað við náttúrulegar aðstæður og hóflega landnýtingu að mati eftirlitsaðila skv. 2. gr.
 4. Sjálfbær landnýting: Nýting sem hvorki leiðir til lakara ástands jarðvegs og gróðurs né kemur í veg fyrir bata lands í slæmu ástandi m.t.t. jarðvegs og gróðurs.
 5. Búfjáreftirlitsmaður: Starfsmaður sveitarfélags sem hefur eftirlit með ásetningi búfjár, aðbúnaði, fóðrun og beit á láglendi skv. lögum um búfjárhald og reglugerð um búfjáreftirlit.
 6. Búsnúmer: Landnúmer skv. fasteignamati auk númers rekstrareiningar innan býlis.
 7. Framleiðandi: Hver sá sem á eigin vegum framleiðir sauðfjárafurðir, hvort sem er einstaklingur, lögaðili, aðili að félagsbúi eða ríkisbú.
 8. Framleiðsluár: Almanaksár.
 9. Gróðureinkunn: Einkunn sem gefur til kynna ástand gróðurs.
 10. Gróðurflokkur: Gróðursamfélag sem hefur sérstaka eiginleika með tilliti til gróður­samsetningar og beitar.
 11. Gæðahandbók: Handbók sem er ætlað að skjalfesta framleiðsluaðferðir og framleiðsluaðstæður á sauðfjárbúum til hagnýtingar við ákvarðanatöku í rekstri og markaðssetningu afurða. Bændasamtök Íslands annast útgáfu, endurskoðun og dreifingu hennar.
 12. Heimaland: Land sem hlutaðeigandi framleiðandi, eigandi eða ábúandi, fer einn með nýtingarrétt að.
 13. Jarðvegsrof: Losun og flutningur jarðvegsefna eða yfirborðsefna sem hamlar eða getur hamlað vexti gróðurs eða getur komið í veg fyrir að gróður nemi land í yfirborði jarðvegs.
 14. Landbótaáætlun: Tímasett aðgerðaáætlun um úrbætur á ástandi lands og/eða land­nýtingu, sbr. 14.-15. gr.
 15. Landnýting: Nýting lands til beitar.
 16. Stýriþættir: Þættir sem gefa viðbótarupplýsingar um land og nýtingu þess og geta haft áhrif á niðurstöðu vottunar, svo sem vísitegundir, landgerð, hæð yfir sjávar­máli, halli lands, önnur landnýting o.fl.
 17. Upprekstrarheimaland: Eignarland sem nýtt er sameiginlega af einum eða fleiri aðilum og afmarkast af landfræðilegum aðstæðum og/eða girðingum.

II. KAFLI

Umsóknir og skráningar.

4. gr.

Umsókn.

Framleiðandi sá sem óskar eftir að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu á búi sínu skal senda skriflega umsókn til Matvælastofnunar á eyðublöðum sem stofnunin skal láta í té eftir beiðni. Umsóknum skal skila eigi síðar en 20. nóvember ef framleiðandi óskar eftir álagsgreiðslum fyrir næsta almanaksár.

Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram í umsókn:

a)

Nafn, kennitala og lögheimili framleiðanda, auk virðisaukaskattsnúmers.

b)

Jarðir, upprekstrarheimalönd og afréttir sem framleiðandi nýtir til beitar. Greina skal frá fjölda vetrarfóðraðs búfjár og beitartíma í heimalandi, upprekstrarheimalandi og afrétti.

c)

Búsnúmer á því búi sem sótt er um gæðastýringu á.

d)

Greiðsluupplýsingar vegna álagsgreiðslna.

5. gr.

Skráningar.

Matvælastofnun heldur skrá yfir umsækjendur og þá sem uppfyllt hafa skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.

Matvælastofnun lætur Bændasamtökum Íslands í té fyrir 10. desember hvers árs lista yfir þá framleiðendur sem eru í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu eða hafa sótt um inngöngu. Bændasamtökin sjá um að koma gæðahandbók til framleiðenda fyrir árslok.

Tilkynna skal Matvælastofnun um breytingar á því hvaða framleiðandi stendur fyrir búi sem er í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu. Við slík framleiðandaskipti að búi heldur nýr framleiðandi rétti fráfarandi framleiðanda til álagsgreiðslna að uppfylltum öðrum skil­yrðum. Honum er engu að síður skylt að sækja námskeið skv. 11. gr. í næsta skipti sem það er haldið.

Ósk um að hætta í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu skal beint til Matvælastofnunar.

III. KAFLI

Skyldur framleiðanda við framleiðslu.

6. gr.

Gæðahandbók.

Í gæðahandbók skal skrá eftirgreindar upplýsingar um framleiðsluaðferðir og aðstæður á sauðfjárbúi:

 1. Áburðarnotkun. Um áburðarnotkun fer eftir almennum reglum um mengunarvarnir og umhverfisvernd, sbr. ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunar­varnir með síðari breytingum og reglugerð, nr. 820/2007 um meðferð og nýtingu á slátur- og dýraleifum.
 2. Gróffóðuröflun og fóðrun á búinu. Um mat á fóðurmagni, fóðurgæðum og fóður­þörfum fer eftir ákvæðum reglugerðar nr. 743/2002 um búfjáreftirlit o.fl.
 3. Landnýtingu. Um landnýtingu fer skv. IV. kafla reglugerðarinnar.
 4. Lyfjakaup og lyfjanot. Í hversu miklu magni, hversu oft og lengi. Vanhöld sauð­fjár, þ.m.t. veikindi og slysfarir. Greina skal sjúkdóma eftir kosti. Sjúkdóma- og lyfja­skráningar skulu vera rekjanlegar til einstakra gripa í hjörðinni. Skrá skal garnaveiki­bólusetningu.

Loks skal skrá í gæðahandbók aðrar upplýsingar sem tilgreindar eru í leiðbeiningum um skráningu. Skráning skal hefjast eigi síðar en í upphafi þess árs sem framleiðandi tekur upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.

7. gr.

Aðbúnaður og meðferð.

Sauðfé skal njóta fullnægjandi aðbúnaðar, meðferðar og fóðrunar. Uppfylla skal kröfur um húsaskjól, aðbúnað, og umhirðu sauðfjár til samræmis við reglugerð nr. 60/2000 um eftirlit með aðbúnaði og heilbrigði sauðfjár og geitfjár og eftirlit með framleiðslu kjöts og annarra afurða þeirra.

8. gr.

Merkingar búfjár.

Fjárstofn skal merktur samkvæmt reglugerð um merkingar búfjár nr. 289/2005. Einnig skal fé eyrnamarkað sbr. 63. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl.

9. gr.

Skýrsluhald.

Fjárstofn skal skráður í skýrsluhaldskerfi Bændasamtaka Íslands. Sauðfjárskýrslum hvers árs skal skilað eigi síðar en 1. febrúar næsta árs. Framleiðendur sem eru að hefja þátttöku í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu en hafa til þess tíma ekki verið í skýrsluhaldi skulu senda vorupplýsingar úr sauðfjárskýrsluhaldi til Bændasamtaka Íslands eigi síðar en 20. júní.

Bændasamtökin annast útgáfu, viðhald og dreifingu skýrsluhaldsgagna og leggja fram leiðbeiningar um notkun þeirra. Miðað skal við að unnt sé að rekja uppruna og afdrif allra gripa í hjörðinni á einfaldan og öruggan hátt.

10. gr.

Bólusetning gegn garnaveiki.

Uppfylla skal skyldur til bólusetningar skv. reglugerð um bólusetningu sauðfjár og geitfjár til varnar garnaveiki nr. 933/2007.

11. gr.

Undirbúningsnámskeið.

Framleiðendur sem sótt hafa um að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu skulu sækja sérstakt undirbúningsnámskeið.

IV. KAFLI

Landnýting framleiðanda.

12. gr.

Meginreglur um landnýtingu.

Landnýting framleiðanda skal vera sjálfbær á öllu því landi sem hann nýtir samkvæmt þeim kröfum sem settar eru fram í viðmiðunarreglum í viðauka I við þessa reglugerð um mat á ástandi lands og landnýtingu.

Framleiðandi skal ekki nýta auðnir og rofsvæði nema þá aðeins að í gildi sé landbóta­áætlun, sem hefur það að markmiði að koma í veg fyrir beit á slíkum svæðum og/eða að þau verði gerð beitarhæf með landbótum sbr. viðmiðunarreglur í viðauka I.

Framleiðendur sem ekki uppfylla skilyrði um landnýtingu skv. IV. kafla uppfylla ekki skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Hver sá framleiðandi sem gengur gegn landbótaáætlun sem hann hefur skuldbundið sig til að hlíta uppfyllir ekki skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.

13. gr.

Mat á landnýtingu.

Eftirlitsaðili skv. 2. gr. skal leggja mat á land framleiðenda sem óska eftir að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu og tilkynna Matvælastofnun um niðurstöður sínar.

Matvælastofnun skal tilkynna framleiðendum ef þeir uppfylla ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 12. gr. og gefa þeim allt að þriggja mánaða frest til að setja sér landbótaáætlun skv. 14. og 15. gr. Framlengja má þennan frest um allt að tvo mánuði.

14. gr.

Landbótaáætlun fyrir heimaland.

Framleiðandi getur gert landbótaáætlun fyrir heimaland sitt til allt að 10 ára. Eftirlitsaðili skv. 2. gr. skal votta að landbótaáætlun stuðli að þeim markmiðum sem fram koma í 1. og 2. mgr. 12. gr. og viðauka I. Landbótaáætlanir skulu settar upp með hliðsjón af viðauka II við þessa reglugerð.

15. gr.

Landbótaáætlun fyrir upprekstrarheimalönd og afrétti.

Landbótaáætlun framleiðenda fyrir upprekstrarheimalönd og afrétti til allt að 10 ára skal unnin í samráði allra framleiðenda sem nytja landið og æskja þess að öðlast staðfestingu á gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu. Við gerð landbótaáætlunar skulu framleiðendur eftir því sem við á hafa samráð við landeigendur, sveitarfélög og stjórnir fjallskiladeilda.

Framleiðendur skulu við gerð landbótaáætlunar fyrir afrétti leita atbeina viðkomandi fjallskiladeildar og umsagnar gróðurverndarnefndar og Landgræðslu ríkisins skv. 16. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. Einnig skal líta til 12. gr. sömu laga sé talin þörf sambærilegra ráðstafana fyrir upprekstrarheimalönd.

Eftirlitsaðili skv. 2. gr. skal votta að landbótaáætlun stuðli að þeim markmiðum sem fram koma í 2. mgr. 13. gr. og viðauka I. Landbótaáætlanir skulu settar upp með hliðsjón af viðauka II við þessa reglugerð.

16. gr.

Eftirlit og ágreiningsatriði.

Matvælastofnun hefur eftirlit með hvort landbótaáætlun sé fylgt.

Matvælastofnun og eftirlitsaðilar geta krafið framleiðanda um gögn til sönnunar á heimildum hans til nýtingar þess lands sem hann tilgreinir í umsókn sinni um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.

Leiði eftirlit í ljós að landnýting framleiðanda hafi breyst svo hún uppfylli ekki lengur skilyrði 1. mgr. 12. gr. skal eftirlitsaðili skv. 2. gr. tilkynna það Matvælastofnun sem skal greina framleiðanda frá ástæðum þess og gefa honum nægan frest til að semja landbóta­áætlun.

V. KAFLI

Eftirlit og ákvarðanir.

17. gr.

Búfjáreftirlit.

Búfjáreftirlitsmenn annast árlegt eftirlit með þeim skyldum framleiðenda sem tilgreindar eru í 6. – 8. gr. þessarar reglugerðar.

Uppfylli framleiðandi ekki þau skilyrði gæðastýringar sem búfjáreftirlitsmaður hefur eftirlit með við vorskoðun skal búfjáreftirlitsmaður veita að hámarki fjögurra vikna frest til úrbóta. Að loknum þessum fresti skal búfjáreftirlitsmaður taka afstöðu til þess hvort fullnægjandi úrbætur hafi verið gerðar. Að því loknu skal hann senda upplýsingar um afstöðu sína til Bændasamtaka Íslands.

Bændasamtök Íslands skulu tilkynna Matvælastofnun fyrir 15. júní ár hvert hvaða fram­leiðendur hafa ekki staðist eftirlit með skráningum í gæðahandbók og lögbundið búfjáreftirlit eða hafa ekki skilað fullnægjandi sauðfjárskýrslum. Þó skulu tilkynningar um framleiðendur sem eru að hefja þátttöku í gæðastýrði sauðfjárframleiðslu sendar Matvælastofnun eigi síðar en 1. júlí ár hvert.

18. gr.

Réttur til aðildar að gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu.

Framleiðandi er aðili að gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu á milli ára, án umsóknar, svo lengi sem hann uppfyllir skilyrði hennar og óskar ekki eftir að hún verði felld niður.

Matvælastofnun skal tilkynna framleiðanda eigi síðar en 31. júlí ár hvert ef hann uppfyllir ekki skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu og gefa honum kost á andmælum. Stofnunin skal því næst tilkynna honum um hvort hann uppfylli skilyrði aðildar, þ.e. eigi rétt á álagsgreiðslum.

Við ákvörðun skv. 2. mgr. skal Matvælastofnun líta til upplýsinga um landnot og úr búfjáreftirliti. Einnig skal stofnunin líta til annarra upplýsinga sem hún aflar sér og varða skilyrði gæðastýringar eins og þau eru tilgreind í III. og IV. kafla þessarar reglugerðar. Hér má t.d. nefna upplýsingar sem aflað er skv. reglugerð um merkingar búfjár nr. 289/2005 og reglugerð um bólusetningu sauðfjár og geitfjár til varnar garnaveiki nr. 933/2007. Einnig má nefna upplýsingar sem stofnunin aflar sér um illa meðferð sauðfjár við eftirlit með búfjárhaldi skv. lögum um búfjárhald o.fl. nr. 103/2002.

Framleiðandi sem uppfyllir ekki skilyrði aðildar að gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu missir rétt til álagsgreiðslna á framleiðsluárinu en getur sótt um aðild að nýju á næsta fram­leiðslu­ári, eftir endurnýjun umsóknar.

Ákvörðun Matvælastofnunar skv. þessari grein má kæra til sjávarútvegs- og land­búnaðar­ráðherra innan þriggja mánaða, sbr. VII. kafla stjórnsýslulaga. Staðfesti ráðherra ákvörðun Matvælastofnunar um að framleiðandi eigi ekki rétt til aðildar að gæða­stýrðri sauðfjárframleiðslu skal honum engu að síður gefið tækifæri í tvær vikur til að sækja um aðild að nýju þótt frestur skv. 1. mgr. 4. gr. sé liðinn.

VI. KAFLI

Álagsgreiðslur, gjalddagar o.fl.

19. gr.

Greiðsluálagning.

Fjárhæð álagsgreiðslna vegna gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu er háð samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 25. janúar 2007.

Greitt er álag á skrokka sem flokkaðir eru í gæðaflokka, E, U, R og O, og eru í fitu­flokkum 1, 2, 3 og 3+, sbr. I. viðauka reglugerðar nr. 484/1998, um gæðamat, flokkun og merkingu sláturafurða.

20. gr.

Gjalddagar.

Álagsgreiðslur greiðast eigi síðar en 25. nóvember og 20. desember ár hvert. 95% af álagsgreiðslum vegna framleiðslu í mánuðunum janúar til október skulu greiðast eigi síðar en 25. nóvember og 95% af álagsgreiðslum vegna framleiðslu í nóvember skulu greiðast eigi síðar en 20. desember. Lokauppgjör skal fara fram eigi síðar en 5. febrúar ár hvert.

Eigi síðar en 15. mars ár hvert skal greiða framleiðanda fyrirframgreiðslu sem nema skal 35% af þeirri fjárhæð sem var heildarálagsgreiðsla hans á næstliðnu ári enda hafi hann ekki óskað eftir því að hætta í gæðastýringu, sbr. 5. gr. og skilað haustskýrslu úr búfjáreftirliti sem sýni að hann hafi sett fé á vetur. Sé ásetningur svo lítill að ætla megi fyrirframgreiðsluna hærri en ætlaða lokagreiðslu skv. 1. mgr. er Matvælastofnun þó heimilt að lækka fyrirframgreiðsluna að réttri tiltölu. Fyrirframgreiðsla þessi skal dregin frá við uppgjör sem fram fer eigi síðar en 25. nóvember, sbr. 1. mgr.

Falli framleiðandi úr gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu, sbr. 18. gr., eða aðrar ástæður leiða til þess að fyrirframgreiðsla reynist byggð á röngum eða brostnum forsendum að hluta til eða öllu leyti ber honum að endurgreiða hana.

Matvælastofnun er heimilt að endurkrefja framleiðanda um fyrirframgreiðslu þótt nýr framleiðandi hafi tekið við búi og atvik sem rekja má til hans leiða til þess að bú uppfyllir ekki skilyrði 18. gr. enda er fyrirframgreiðsla innt af hendi með fyrirvara um að bú fullnægi skilyrðum gæðastýringar.

Matvælastofnun ber ekki að endurkrefja framleiðanda sem skráður var aðili að gæðastýringu þegar fyrirframgreiðsla var greidd þótt nýr framleiðandi hafi tekið við búinu þegar lokauppgjör fer fram enda eru viðskipti á milli framleiðendanna stofnuninni óviðkomandi. Sama gildir ef fyrirframgreiðsla gengur til fyrri framleiðanda þegar láðst hefur að tilkynna um aðilaskipti að búi, sbr. 5. gr.

Matvælastofnun er heimilt að skuldjafna endurgreiðslukröfu vegna fyrirframgreiðslu skv. 3. mgr. við kröfu framleiðanda um greiðslu vegna greiðslumarks.

21. gr.

Uppgjör greiðslna.

Matvælastofnun heldur skrá yfir rétthafa álagsgreiðslna og annast uppgjör til þeirra. Á hverju lögbýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður rétthafi. Þó er heimilt þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða sem standa að búinu, að skrá þá sérstaklega. Sjálfstæður rekstraraðili telst sá einn sem hefur sjálfstætt virðisaukaskattsuppgjör og sjálfstætt búsnúmer.

VII. KAFLI

Viðurlög og gildistaka.

22. gr.

Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Með mál út af brotum skal farið sem opinber mál.

23. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum og öðlast gildi 1. janúar 2008.

Við gildistöku reglugerðarinnar fellur úr gildi reglugerð sama efnis nr. 175/2003.

Ákvæði til bráðabirgða.

Framleiðendur sem eru aðilar að gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu við gildistöku þessarar reglugerðar halda þeim rétti án sérstakrar umsóknar.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 4. janúar 2008.

Einar K. Guðfinnsson.

Arnór Snæbjörnsson.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 9. janúar 2008