Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 530/2014

Nr. 530/2014 5. júní 2014
REGLUGERÐ
um virkjunarkosti í verndar- og orkunýtingaráætlun.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi nær til landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti til orkuvinnslu, jafnt innan eignarlanda sem þjóðlendna og gildir um virkjunarkosti sem óskað er eftir að verkefnisstjórn verndar- og orkunýtingaráætlunar fjalli um skv. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun.

2. gr.

Beiðni um að verkefnisstjórn fjalli um virkjunarkost.

Beiðni um að verkefnisstjórn fjalli um virkjunarkost skal send Orkustofnun. Ef virkjunar­kostur er að mati Orkustofnunar nægilega skilgreindur skal verkefnisstjórn fá hann til umfjöllunar. Orkustofnun getur einnig að eigin frumkvæði falið verkefnisstjórn að fjalla um virkjunarkosti.

3. gr.

Gögn sem fylgja þurfa beiðni um umfjöllun.

Eftirtalin gögn og upplýsingar skulu ávallt fylgja beiðnum um umfjöllun um virkjunarkost:

1)

mörk framkvæmdasvæðis,

2)

staðsetning, útlínur og hæð helstu mannvirkja, þ.m.t. og eftir því sem við á borholur og pípulagnir, stíflur, varnargarðar, skurðir, lón, vegir, efnistökustaðir, tippar, stöðvar­hús, vindmyllur og vindmyllublöð,

3)

áætlað afl virkjunar, eftir því sem kostur er,

4)

áætluð orkugeta virkjunar, eftir því sem kostur er,

5)

eftir því sem kostur er áætlaður stofn- og rekstrarkostnaður virkjunar, sem Orku­stofnun byggir hagkvæmniflokkun sína á,

6)

áform um tengingu við flutningskerfi raforku, eftir því sem kostur er,

7)

fyrirliggjandi rannsóknir og heimildir um virkjunarsvæði,

8)

upplýsingar um áhrif virkjunar á hljóðvist, eftir því sem kostur er.

Eftirtalin gögn og upplýsingar skulu ávallt fylgja beiðnum um umfjöllun um virkjun fall­vatna:

1)

áætlað rennsli með há- og lágmarki og tíðnidreifing þess í lónum, farvegum neðan þeirra og veitukerfum þar sem við á,

2)

áætluð yfirborðshæð og vatnsborðssveifla í lónum í tíma og rúmi,

3)

fyrirliggjandi rannsóknir og áætlanir um aurburð og ísmyndun, eftir því sem við á.

Eftirtalin gögn og upplýsingar skulu ávallt fylgja beiðnum um umfjöllun um virkjun háhita­svæða:

1)

markmið um sjálfbærni virkjunar, þ.e. samspil nýtingar og endingartíma,

2)

áform um niðurdælingu og förgun affallsvatns og möguleg áhrif á grunnvatnshlot,

3)

áform um öflun og förgun kælivatns,

4)

markmið um losun brennisteinsvetnis og staðbundinn hámarksstyrk þess í andrúms­lofti.

Orkustofnun er ávallt heimilt að óska eftir frekari gögnum, sem nauðsynleg þykja, umfram það sem að framan greinir.

Orkustofnun skal gæta trúnaðar varðandi upplýsingar um áætlaðan stofn- og rekstrar­kostnað virkjana, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 3. gr.

4. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orku­nýtingaráætlun. Reglugerðin er sett að höfðu samráði við atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðuneytið hvað varðar þátt Orkustofnunar. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 5. júní 2014.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Sigríður Auður Arnardóttir.

B deild - Útgáfud.: 6. júní 2014