Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 712/2014

Nr. 712/2014 30. júní 2014
REGLUR
um yfirfærða útlánaáhættu vegna verðbréfunar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um verðbréfaðar stöður skv. 29. gr. b, c og d laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. ákvæði VIII. kafla reglna um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007.

Ef fjármálafyrirtæki eða dótturfélög þess verðbréfa áhættuskuldbindingar frá öðrum fjármálafyrirtækjum eða fyrirtækjum tengdum fjármálasviði, er fyrirtækinu heimilt að uppfylla kröfur 3. gr. þessara reglna á samstæðugrunni.

Skilyrði fyrir heimild skv. 2. mgr. þessarar greinar er að viðkomandi fjármálafyrirtæki eða fyrirtæki tengd fjármálasviði fylgi ákvæðum 7. og 8. gr. þessara reglna.

2. gr.

Orðskýringar.

Í þessum reglum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

Umsýsluaðili (e. sponsor): fjármálafyrirtæki, annað en útgefandi, sem stofnar til og stýrir eignatryggðri skammtímabréfaútgáfu (e. asset-backed commercial paper programme) eða annarri verðbréfun sem kaupir áhættuskuldbindingar frá þriðja aðila.

Upphaflegur lánveitandi (e. original lender): fjármálafyrirtæki sem upphaflega veitir lánveitingu beint til skuldara og síðar er verðbréfuð af útgefanda.

Útgefandi (e. originator):

 1. aðili sem ýmist sjálfur eða í gegnum aðra aðila sem honum tengjast, beint eða óbeint, átti aðild að upphaflegum samningi sem skapaði skyldur, eða mögulegar skyldur, skuldara, eða mögulegs skuldara, og liggur að baki hinni verðbréfuðu áhættuskuldbindingu, eða
 2. aðili sem kaupir áhættuskuldbindingu þriðja aðila, setur á eigin efnahagsreikning og verðbréfar.

Hugtakið útgefandi hefur í þessum reglum aðra merkingu en í lögum um verðbréfaviðskipti.

3. gr.

Færsla á útlánaáhættu.

Fjármálafyrirtæki sem ekki er útgefandi, umsýsluaðili eða upphaflegur lánveitandi skal því aðeins bera útlánaáhættu verðbréfaðrar stöðu í veltubók sinni, eða utan veltubókar, að útgefandi, umsýsluaðili eða upphaflegur lánveitandi hafi greint fjármálafyrirtækinu sérstaklega frá því að hann muni með viðvarandi hætti halda eftir að lágmarki 5% af hreinni fjárhagslegri hlutdeild (e. net economic interest).

Til að uppfylla skilyrði um eftirhald (e. retention) hreinnar fjárhagslegrar hlutdeildar skv. 1. mgr. skal að lágmarki uppfylla eitt eftirtalinna atriða:

 1. að halda eftir að lágmarki 5% af nafnvirði hvers lags (e. tranche) sem selt er eða yfirfært til fjárfesta,
 2. að halda eftir hlutdeild útgefanda sem er að lágmarki 5% af nafnvirði verðbréfaðra áhættuskuldbindinga, ef um ræðir verðbréfun á áhættuskuldbindingum vegna veltufjármögnunar (e. securitisation of revolving exposures),
 3. að halda eftir áhættuskuldbindingum, sem valdar eru með slembiúrtaki, að jafngildi eigi minna en 5% af nafnvirði verðbréfaðra áhættuskuldbindinga, ef þess konar áhættuskuldbindingar hefðu annars verið verðbréfaðar í verðbréfuninni. Framangreint á því aðeins við að fjöldi undirliggjandi verðbréfaðra áhættuskuldbindinga sé ekki undir 100 talsins í upphafi,
 4. að halda þeim hluta eftir sem er í fyrsta taplagi (e. loss tranche) og, ef nauðsyn krefur, öðrum hlutum með sama eða strangara áhættusniði (e. risk profile) en þeir sem yfirfærðir eða seldir eru til fjárfesta og gjalddagi þeirra er ekki á undan gjalddaga þeirra sem eru yfirfærðir eða seldir til fjárfesta, þannig að það sem haldið er eftir sé samtals eigi minna en 5% af nafnvirði verðbréfuðu áhættuskuldbindinganna, eða
 5. að halda eftir fyrstu áhættuskuldbindingunni í tapstöðu (e. first loss exposure), nemi hún minnst 5% af öllum áhættuskuldbindingum í verðbréfuninni.

Hrein fjárhagsleg hlutdeild er metin í upphafi og skal henni haldið eftir með viðvarandi hætti. Óheimilt er að beita áhættumildun, skortstöðu eða annars konar áhættuvörn til lækkunar vegna eftirhalds á hreinni fjárhagslegri hlutdeild, sbr. a-e-liði 2. mgr. Hrein fjárhagsleg hlutdeild skal ákvarðast af grundvallarfjárhæð (e. notional value) liða utan efnahagsreiknings.

Ekki skal beita kröfum um eftirhald oftar en einu sinni á sömu verðbréfun.

4. gr.

Undanþágur frá skilyrðum 3. greinar.

Ákvæði 3. gr. eiga ekki við ef verðbréfuðu áhættuskuldbindingarnar eru með beinni eða óbeinni ábyrgð eftirfarandi aðila:

 1. ríkisstjórna eða seðlabanka,
 2. héraðs- og sveitarstjórna, staðaryfirvalda eða opinberra aðila innan aðildarríkja,
 3. stofnana, sem fá úthlutað 50% eða lægri áhættuvog, skv. V. kafla reglna um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007, eða
 4. fjölþjóðlegra þróunarbanka.

Þá gilda ákvæði 3. gr. ekki um viðskipti sem byggð eru á skýrri, gagnsærri og aðgengilegri vísitölu, þar sem undirliggjandi viðmiðunareiningar eru eins og þær einingar sem mynda vísitölu eininga og víða eru til viðskipta (e. widely traded), eða eru framseljanleg verðbréf af öðrum toga en verðbréfaðar stöður.

5. gr.

Áreiðanleikakönnun.

Fjármálafyrirtæki skulu geta sýnt fram á að þau hafi yfirgripsmikla þekkingu á og hafi framkvæmt vandaða og ítarlega könnun á fjárfestingum í öllum verðbréfuðum stöðum, áður en þau fjárfestu. Þau skulu innleiða viðmið og verklagsreglur sem ná til veltubókar og viðskipta utan veltubókar sem samræmast áhættusniði þeirra vegna fjárfestinga í verðbréfuðum stöðum.

Fjármálafyrirtæki skulu jafnframt, svo oft sem þurfa þykir, endurmeta fjárfestingar sínar í öllum verðbréfuðum stöðum. Til að svo megi verða skulu fjármálafyrirtæki greina og skrásetja:

 1. upplýsingar birtar skv. 3. gr., af útgefanda eða umsýsluaðila sem tilgreina hreina viðvarandi fjárhagslega hlutdeild sem þeir viðhalda í verðbréfuninni,
 2. áhættueinkenni einstakra, verðbréfaðra staða,
 3. áhættueinkenni undirliggjandi áhættuskuldbindinga verðbréfaðrar stöðu,
 4. orðspor og tapreynslu af fyrri verðbréfunum útgefanda eða umsýsluaðila í viðkomandi flokkum undirliggjandi áhættuskuldbindinga verðbréfaðrar stöðu,
 5. yfirlýsingar og birtar upplýsingar útgefanda eða umsýsluaðila, eða umboðsaðila (e. agent) eða ráðgjafa (e. advisor) þeirra, varðandi áreiðanleikakönnun á verðbréfuðu áhættuskuldbindingunum og, eftir atvikum, á gæðum trygginga vegna verðbréfaðra áhættuskuldbindinga,
 6. aðferðir og hugtök sem virðismat á tryggingum vegna verðbréfaðra áhættuskuldbindinga byggist á, eftir atvikum, og stefnur sem innleiddar eru af útgefanda eða umsýsluaðila til þess að tryggja óhæði matsaðila, og
 7. alla þætti í umgjörð verðbréfunar sem geta haft veruleg áhrif á afkomu verðbréfaðrar stöðu fjármálafyrirtækis, s.s. samningsbundinni forgangsröðun til greiðslu (e. contractual waterfalls) og kveikjum (e. triggers) slíkra greiðslna, eflingu lánshæfis, styrkingu lausafjárstöðu, markaðsvirðiskveikjum og sérstökum, samningsbundnum skilgreiningum á vanefndum.

Fjármálafyrirtæki skulu reglulega framkvæma eigin álagspróf sem taka mið af verðbréfuðum stöðum þeirra. Í því skyni geta fjármálafyrirtæki stuðst við fjárhagslíkön sem lánshæfismatsfyrirtæki (e. ECAI) hafa þróað, að því tilskildu að fjármálafyrirtæki geti sýnt fram á að þau hafi gætt þess, að staðfesta þær forsendur sem við áttu, athugað uppbyggingu líkananna og skilið aðferðafræði, forsendur og niðurstöður líkananna.

6. gr.

Umgjörð áhættustýringar vegna áreiðanleikakönnunar.

Fjármálafyrirtæki, önnur en útgefendur eða umsýsluaðilar, skulu til viðbótar við skyldur skv. 5. gr. koma á viðeigandi formlegu ferli til að fylgjast tímanlega og með viðvarandi hætti með upplýsingum um þróun áhættuskuldbindinga sem liggja til grundvallar verðbréfuðum stöðum.

Í þessu felst m.a. að greina, eftir því sem við á:

 1. tegund áhættuskuldbindingar, 
 2. hlutfall lána sem eru komin í meira en 30, 60 og 90 daga vanskil,
 3. vanskilahlutfall (e. default rate),
 4. hlutfall fyrirframgreiðslu,
 5. skilmálabreytingar,
 6. útlán þar sem gengið er að veði,
 7. tegund veðs og notkun,
 8. tíðnidreifingu lánshæfiseinkunna eða annarra mælikvarða á lánstrausti þvert á undirliggjandi áhættuskuldbindingar, atvinnugreina og landfræðilegrar fjölbreytni (e. geographical diversification), og
 9. tíðnidreifingu lánshlutfalla (e. loan to value ratio) með bilbreiddum sem auðvelda fullnægjandi næmisgreiningu.

Ef undirliggjandi áhættuskuldbindingar eru verðbréfaðar stöður skulu fjármálafyrirtæki ekki aðeins hafa upplýsingar, sem settar eru fram í 2. mgr. þessarar greinar, um þá hluta undirliggjandi verðbréfunar, svo sem nafn útgefanda og lánshæfisgæði, heldur einnig um einkenni og afkomu af þeim söfnum sem eru til grundvallar þessum hlutum verðbréfunar.

Fjármálafyrirtæki skulu framkvæma greiningu skv. 1.-3. mgr. þessarar greinar vegna þátttöku í útgáfu, eða sölutryggingar útgáfu, þriðju aðila hvort sem skuldbindingu, sem myndast vegna þessarar þátttöku eða sölutryggingar, skal haldið á veltubók eða utan hennar.

7. gr.

Viðmið vegna undirliggjandi lánveitinga umsýsluaðila og útgefenda.

Fjármálafyrirtæki sem eru umsýsluaðilar og útgefendur skulu beita sömu viðmiðum vegna lánveitinga sem krafist er skv. 3. lið viðauka V, sbr. 55. gr. A reglna um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007, á verðbréfaðar áhættuskuldbindingar, eins og þeim sem beitt er vegna áhættuskuldbindinga á efnahagsreikningi. Fjármálafyrirtæki sem eru umsýsluaðilar og útgefendur, skulu einnig nota sama verklag vegna verðbréfaðra áhættuskuldbindinga og vegna samþykkis, breytinga, endurnýjunar og endurfjármögnunar útlána.

Fjármálafyrirtæki sem er útgefandi og ekki uppfyllir kröfur 1. mgr. þessarar greinar er óheimilt að beita 2. mgr. 35. gr. reglna nr. 215/2007. Við útreikning á eiginfjárkröfum samkvæmt sömu reglum er slíku fjármálafyrirtæki ennfremur óheimilt að undanskilja verðbréfaðar áhættuskuldbindingar.

8. gr.

Upplýsingaskylda til fjárfesta.

Umsýsluaðilar, útgefendur og upphaflegir lánveitendur skulu greina fjárfestum frá hlutfalli útgáfunnar sem haldið er eftir á grundvelli 3. gr., þar með talið sundurliðuðum upplýsingum skv. a-e-liðum 2. mgr. sömu greinar.

Umsýsluaðilar, útgefendur og upphaflegir lánveitendur skulu tryggja að mögulegir framtíðarfjárfestar hafi greiðan aðgang að öllum viðeigandi upplýsingum að því er varðar:

 1. lánshæfisgæði og afkomu, þ.m.t. vanskilum, vegna einstakra undirliggjandi áhættuskuldbindinga,
 2. sjóðstreymi og tryggingar að baki verðbréfuðum áhættuskuldbindingum, og
 3. þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru í því skyni að framkvæma heildstæð og traust álagspróf á sjóðstreymi og virði þeirra trygginga sem liggja að baki áhættuskuldbindingunum.

Viðeigandi upplýsingar skv. 2. mgr. þessarar greinar skulu miðast við þann dag sem stofnað er til verðbréfunar og síðar, eftir því sem við á, í samræmi við eðli verðbréfunarinnar.

9. gr.

Aðlögun.

Þessum reglum skal beitt á gildandi verðbréfanir eftir 31. desember 2014 ef nýjum undirliggjandi áhættuskuldbindingum er bætt við eða skotið inn í staðinn fyrir aðrar eftir þann dag.

Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að fella tímabundið úr gildi þær kröfur sem um getur í 3. og 4. gr. til að bregðast við viðvarandi lausafjárþurrð á fjármálamarkaði.

10. gr.

Gildistaka.

Með reglum þessum eru tekin upp ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB, um stofnun og rekstur lánastofnana, með áorðnum breytingum samkvæmt tilskipun 2009/111/EB.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 1. mgr. 29. gr. d laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og taka þegar gildi.

Fjármálaeftirlitinu, 30. júní 2014.

Unnur Gunnarsdóttir.

Jón Þór Sturluson.

  B deild - Útgáfud.: 25. júlí 2014