Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 76/2008

Nr. 76/2008 11. júní 2008
LÖG
um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl.

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

1. gr.
Heimild til að stofna opinbert hlutafélag.
    Samgönguráðherra er heimilt að stofna opinbert hlutafélag um rekstur Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Í því skyni er heimilt að leggja til félagsins eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar eftir því sem nánar greinir í lögum þessum. Ytri mörk flugvallarsvæðisins (svæði A), öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli (svæði B) og þróunarsvæðis (svæði C) eru afmörkuð í uppdrætti sem er fylgiskjal með auglýsingu sem forsætisráðherra birtir á grundvelli 1. mgr. 1. gr. laga um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
    Við stofnun félagsins skal allt hlutafé þess vera í eigu íslenska ríkisins og skal sala þess og ráðstöfun óheimil. Ákvæði laga um hlutafélög gilda um félagið ef ekki er kveðið á um annað í lögum þessum.

2. gr.
Forræði á hlutafé ríkisins.
    Samgönguráðherra skal fara með hlut ríkisins í félaginu og framkvæmd laga þessara, sbr. þó 2. mgr. 5. gr. og 7. gr.

3. gr.
Stjórn félagsins.
    Stjórn félagsins skal við stofnun þess skipuð fimm mönnum og jafnmörgum til vara. Þeir skulu kosnir á aðalfundi ár hvert.

4. gr.
Tilgangur félagsins.
    Tilgangur félagsins er að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu Keflavíkurflugvallar sem borgaralegs alþjóðaflugvallar auk hagnýtingar flugvallarsvæðisins í þágu öryggis- og varnartengdrar starfsemi og þjóðlegra skuldbindinga ríkisins. Enn fremur skal félagið annast rekstur, viðhald og uppbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, þ.m.t. rekstur verslana með tollfrjálsar vörur á flugvallarsvæðinu, starfsemi sem er í beinum tengslum við flugrekstur, rekstur flugvalla og flugstöðvar og aðra starfsemi sem nauðsynlegt er að sé innan haftasvæðis flugverndar.
    Félaginu skal vera heimilt að standa að stofnun annarra félaga og fyrirtækja og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum, þ.m.t. er þátttaka í félagi sem ætlað er að annast atvinnuuppbyggingu á nærsvæði flugvallarins. Félaginu skal vera heimilt að gera hvers konar samninga við aðra aðila til að ná tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt. Tilgangi félagsins skal nánar lýst í samþykktum þess.

5. gr.
Samningar ríkisins við félagið.
    Samgönguráðherra er heimilt að gera samninga við félagið um uppbyggingu og rekstur flugvallarsvæðis Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar til að tryggja að uppbygging, rekstur og þjónusta á þessum sviðum sé í samræmi við markmið stjórnvalda og stefnumótun í samgöngumálum á hverjum tíma.
    Utanríkisráðherra er heimilt að gera samning við félagið um not þess af öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og mannvirkjum í eigu Atlantshafsbandalagsins. Í samningnum er heimilt að kveða á um boðleiðir og framkvæmd samskipta við liðsafla Bandaríkjahers, Atlantshafsbandalagsins eða annarra ríkja sem kunna að hagnýta aðstöðuna á öryggissvæðinu í boði íslenskra stjórnvalda.

6. gr.
Þjóðréttarlegar skuldbindingar o.fl.
    Samgönguráðherra er heimilt að fela félaginu að fara með réttindi íslenska ríkisins og annast skuldbindingar þess samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum og samningum við önnur ríki, enda samræmist slíkt tilgangi félagsins. Félaginu er skylt að fara að fyrirmælum hér að lútandi, sem og öðrum fyrirmælum er varða framkvæmd og efndir slíkra samninga og annarra þjóðréttarlegra skuldbindinga.

7. gr.
Öryggis- og varnarmál.
    Félaginu ber í starfsemi sinni að virða og standa við þær þjóðréttarlegu skuldbindingar á sviði öryggis- og varnarmála sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist og kunna síðar að undirgangast og varða flugvallarsvæðið og Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
    Utanríkisráðherra er heimilt að beina fyrirmælum til félagsins er varða hagnýtingu flugvallarsvæðisins í þágu varnartengdrar starfsemi og framkvæmd og efndir alþjóðasamninga og þjóðréttarlegra skuldbindinga ríkisins á sviði öryggis- og varnarmála.

8. gr.
Skipulagsmál.
    Samgönguráðherra skipar sex menn í skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar. Þrír skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu sveitarfélaganna Garðs, Reykjanesbæjar og Sandgerðis. Einn skal skipaður samkvæmt tilnefningu umhverfisráðherra og tveir án tilnefningar og skal annar þeirra gegna formennsku. Ef atkvæði falla jöfn í nefndinni ræður atkvæði formanns úrslitum.
    Félagið kostar og annast gerð deili- og aðalskipulagstillagna fyrir flugvallarsvæðið og leggur fyrir nefndina til afgreiðslu. Samþykki nefndarinnar við deili- eða aðalskipulagstillögu fyrir flugvallarsvæðið telst fullnaðarafgreiðsla málsins á sveitarstjórnarstigi.
    Samgönguráðherra setur nefndinni starfsreglur. Ákvæði skipulagslaga og reglugerða settra samkvæmt þeim eiga að öðru leyti við um störf nefndarinnar eftir því sem við getur átt.
    Utanríkisráðherra fer með yfirstjórn skipulags- og mannvirkjamála á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli en er heimilt að gera þjónustusamning um framkvæmd slíkra verkefna. Utanríkisráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um framkvæmd þessarar málsgreinar í reglugerð.
    Heimilt er skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar vegna flugvallarsvæðis og utanríkisráðherra vegna öryggissvæðis að taka þátt í gerð svæðisskipulags ásamt nærliggjandi sveitarfélögum í samræmi við ákvæði skipulagslaga.
    Við gerð svæðisskipulags á Suðurnesjum samkvæmt skipulagslögum eru hlutaðeigandi skipulagsyfirvöld bundin af samþykktu aðalskipulagi flugvallarsvæðisins.
    Við framkvæmd 2. og 4. mgr. þessarar greinar skulu utanríkisráðherra og skipulagsnefnd skv. 1. mgr. hafa samráð sín á milli.

9. gr.
Lóðamál, innheimta gatnagerðargjalds o.fl.
    Félagið annast úthlutun og innheimtir lóðarleigugjald á flugvallarsvæðinu í samræmi við lóðarleigusamning þess við fjármálaráðuneytið.
    Félagið annast innheimtu gatnagerðargjalds af lóðum og/eða mannvirkjum á flugvallarsvæðinu og ráðstafar því til gatnagerðar þar í samræmi við ákvæði laga um gatnagerðargjald. Félagið skal setja sér samþykkt um gatnagerðargjald sem birt skal í B-deild Stjórnartíðinda. Í samþykktinni skal m.a. kveðið á um álagningu gjaldsins, undanþágur frá því og afslætti, gjalddaga og eindaga, greiðslufyrirkomulag og annað er varðar innheimtu þess.
    Félagið skal fara með heimildir og skyldur sveitarfélags á flugvallarsvæðinu samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, X. kafla vatnalaga, nr. 15/1923 (holræsi), og 8. gr. a laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, og er félaginu heimilt að innheimta gjöld samkvæmt lögunum.
    Ákvarðanir félagsins um álagningu gjalda skv. 2. og 3. mgr. sæta stjórnsýslukæru í samræmi við almennar reglur laga.
    Félaginu er heimilt, að fengnu samþykki samgönguráðherra, að semja við sveitarfélag eða byggðasamlag um að hafa með höndum eitthvert þeirra verkefna sem tilgreind eru í 1., 2. eða 3. mgr.

10. gr.
Gjaldskrá.
    Stjórn félagsins skal setja þjónustugjaldskrá fyrir félagið.
    Félagið skal auglýsa gjaldskrár sínar og efnislegar breytingar á þeim á heimasíðu sinni. Jafnframt skal birta þar uppfærða útgáfu gjaldskráa og samþykkta um gjöld skv. 2. og 3. mgr. 9. gr.

11. gr.
Upphaf rekstrar félagsins.
    Félagið skal hefja rekstur 1. janúar 2009.

12. gr.
Gildistaka og brottfall laga.
    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Með lögum þessum eru frá og með 1. janúar 2009 felld úr gildi lög um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar, nr. 34/2006, og lög um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar, nr. 76/2000, með síðari breytingum.

13. gr.
Brottfall og breyting lagaákvæða.
    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
    1.    Skipulags- og byggingarlög, nr. 73/1997, með síðari breytingum: 61. gr. laganna fellur brott.
    2.    Lög um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum: 
           a.    3. málsl. 1. mgr. 71. gr. a, sbr. 3. gr. laga nr. 34/2006, fellur brott. 
           b.    2. málsl. 1. mgr. 71. gr. b, sbr. 3. gr. laga nr. 34/2006, fellur brott.
    3.    Lög um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli, nr. 176/2006: Á eftir orðinu „fylgiskjali“ í 1. mgr. 1. gr. komi orðin: sem forsætisráðherra birtir með auglýsingu.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Stofnun hlutafélags.
    Á stofnfundi hlutafélags skv. 1. gr., sem haldinn skal fyrir 1. janúar 2009, skipar samgönguráðherra stjórn sem starfar fram að fyrsta aðalfundi, sbr. 3. gr. Á stofnfundi skal leggja fram til afgreiðslu drög að stofnyfirlýsingu og samþykktum fyrir félagið. Í stofnyfirlýsingunni skal mælt fyrir um þau atriði sem áskilið er að fram komi í stofnsamningi samkvæmt lögum um hlutafélög að öðru leyti en því sem getið er um í lögum þessum.
    Samgönguráðherra er heimilt í samráði við fjármálaráðherra að leggja til hlutafélags skv. 1. gr. eignir, búnað, skuldir og skuldbindingar sem tilheyra rekstri Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöð Leifs Eiríkssonar ohf., þ.e. flugstöðina sjálfa ásamt öllu því sem henni fylgir, eignir, viðskiptavild, réttindi, skuldir og skuldbindingar. Fjármálaráðherra er heimilt að leggja til félagsins aðrar eignir ríkisins á flugvallarsvæðinu.
    Meta skal eignir, búnað, réttindi, skuldir og skuldbindingar skv. 2. mgr. þessa ákvæðis og láta leggja mat á hvert stofnhlutafé opinbera hlutafélagsins skuli vera miðað við 1. janúar 2009. Ríkisendurskoðandi skal staðfesta mat á eignum og skuldum félagsins. Heimilt er að stofna félagið með hlutafé að fjárhæð 10 millj. kr. sem greiðist úr ríkissjóði. Þegar endanlegt mat eigna skv. 2. mgr. þessa ákvæðis liggur fyrir skal hlutafé aukið til samræmis á framhaldsstofnfundi og eignir lagðar til félagsins sem stofnhlutafé.
    Eftir að lög um Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar, nr. 34/2006, og lög um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar, nr. 76/2000, falla úr gildi, 1. janúar 2009, sbr. 2. mgr. 12. gr., yfirtekur hlutafélag skv. 1. gr. rekstur og starfsemi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða III, og rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. Ákvæði XIV. kafla laga um hlutafélög gilda ekki um yfirtöku félagsins á Flugstöð Leifs Eiríkssonar ohf. Samhliða yfirtökunni telst Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar lögð niður og starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. slitið, í skilningi 1. mgr. 127. gr. laga um hlutafélög, og réttindi þess og skyldur runnar í heild sinni til hins nýja hlutafélags skv. 1. gr. Stjórn hins nýja félags skal tilkynna hlutafélagaskrá um yfirtökuna í samræmi við ákvæði 128. gr. laga um hlutafélög. Yfirtakan veitir samningsaðilum, sem breytingin varðar, ekki heimild til uppsagnar fyrirliggjandi samningssambanda.

II.
Réttindi starfsmanna.
    Þegar Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar og Flugstöð Leifs Eiríkssonar ohf. verða lagðar niður, frá og með 1. janúar 2009, fer um réttindi og skyldur starfsmanna Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en auk þess gilda lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eftir því sem við á.
    Hlutafélag skv. 1. gr. skal bjóða starfsmönnum Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. störf, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða III.
    Um biðlaunarétt, sem kann að hafa fylgt störfum einstakra starfsmanna Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar, gilda ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

III.
Réttindi starfsmanna flugleiðsöguþjónustu.
    Við niðurlagningu á starfsemi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar 1. janúar 2009 er samgönguráðherra heimilt að fela Flugstoðum ohf., sem fara með flugleiðsöguþjónustu og flugvallarrekstur skv. 1. gr. laga um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands, að fara með þá flugleiðsöguþjónustu sem var áður á hendi Flugmálastjórnar Keflavíkurflugvallar. Hið opinbera hlutafélag skal bjóða störf þeim starfsmönnum sem störfuðu við flugleiðsöguþjónustu hjá Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar. Um réttindi þessara starfsmanna gilda að öðru leyti ákvæði 1. og 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II, eftir því sem við getur átt.

IV.
Lóðamál og innheimta gjalda.
    Þangað til hlutafélag skv. 1. gr. hefur rekstur annast Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar úthlutun lóða og innheimtu gjalda skv. 9. gr.

V.
Skipulags- og mannvirkjamál.
    Þangað til hlutafélag skv. 1. gr. hefur rekstur gegnir Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar því hlutverki á sviði skipulagsmála sem félaginu er falið skv. 8. gr. Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar og síðar hlutafélag skv. 1. gr. annast stjórnsýslu byggingarmála (mannvirkjamála) á flugvallarsvæðinu samkvæmt skipulagslögum uns annað verður ákveðið með lögum.

Gjört í Reykjavík, 11. júní 2008.

Ólafur Ragnar Grímsson.
(L. S.)

Össur Skarphéðinsson.

A deild - Útgáfud.: 18. júní 2008