Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 216/2007

Nr. 216/2007 2. mars 2007
REGLUR
um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum.

1. gr.

Reglur þessar taka til lánveitinga, verðbréfaeignar, eignarhluta og veittra ábyrgða fjármálafyrirtækis vegna einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila svo og annarra skuldbindinga sömu aðila gagnvart fjármálafyrirtækinu, hér eftir nefndar áhættuskuldbindingar, og mats á áhættu vegna slíkra skuldbindinga. Reglurnar taka einnig til samstæðu fjármálafyrirtækis og móður- og dótturfyrirtækja.

2. gr.

Í reglum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

Áhættuskuldbinding: Eignaliðir og liðir utan efnahagsreiknings sem tilgreindir eru í V. kafla reglna Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárkröfu og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, nr. 215/2007. Útlánaígildi viðkomandi liða skal reiknað í samræmi við ákvæði V. kafla sömu reglna. Eignaliðir sem dragast frá við útreikning á eiginfjárgrunni samkvæmt eigin­fjárákvæðum laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki eru undanskildir. Afleiður sem tilgreindar eru í IV. kafla ofangreindra reglna skulu reiknast samkvæmt aðferðum sbr. viðauka III skv. 55. gr. A reglna Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárkröfu og áhættugrunn fjármálafyrirtækja nr. 215/2007.

Eiginfjárgrunnur: Eiginfjárgrunnur samkvæmt eiginfjárákvæðum laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, en þó án eiginfjárþáttar C samkvæmt eiginfjárákvæðum sömu laga.

Fjárhagslega tengdir aðilar:

 1. Tveir eða fleiri einstaklingar eða lögpersónur sem, nema sýnt sé fram á annað, mynda eina áhættu vegna þess að einn þeirra hefur bein eða óbein yfirráð yfir hinum, eða
 2. tveir eða fleiri einstaklingar eða lögpersónur þar sem enginn einn hefur yfirráð yfir hinum, eins og skilgreint er í a. lið, en teljast til sömu áhættu vegna þess að þeir eru svo fjárhagslega tengdir að líkur eru á að ef einn þeirra lendir í fjár­hagserfiðleikum eigi hinn aðilinn eða allir í greiðsluerfiðleikum.

Fjölþjóða þróunarbankar og alþjóðastofnanir: sbr. 14. gr. V. kafla reglna Fjár­málaeftirlitsins um eiginfjárkröfu og áhættugrunn fjármálafyrirtækja.

Fjármálafyrirtæki: Viðskiptabanki, sparisjóður, lánafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki, verð­bréfa­fyrirtæki, verðbréfamiðlun eða rekstrarfélag verðbréfasjóða, sem fengið hefur starfs­leyfi samkvæmt 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Stór áhættuskuldbinding: Áhættuskuldbinding fjármálafyrirtækis vegna einstaks viðskipta­manns eða fjárhagslega tengdra aðila, sem nemur 10% eða meira af eiginfjár­grunni.

3. gr.

Stórar áhættuskuldbindingar vegna einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila mega ekki fara yfir 25% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis, sbr. þó 2. mgr. Teljist einhver hluti viðkomandi áhættuskuldbindingar vera staða í veltubók skal við mat á áhættugrunni fara með þá stöðu sem umframáhættu sbr. ákvæði X. kafla reglna Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárkröfu og áhættugrunn fjármálafyrirtækja.

Áhættuskuldbindingar vegna móðurfélags eða dótturfélags fjármálafyrirtækisins og/eða eins eða fleiri dótturfélaga móðurfélagsins mega ekki fara fram yfir 20% af eigin­fjár­grunni.

Heildarfjárhæð stórra áhættuskuldbindinga má ekki fara yfir 800% af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækis.

Ákvæði 1. og 2. mgr. eiga ekki við um áhættuskuldbindingar vegna fyrirtækja sem mynda samstæðu með hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki og falla undir eftirlit og varúðar­kröfur á samstæðugrundvelli enda sé dreifing áhættugrunns innan samstæðu með fullnægjandi hætti.

4. gr.

Við útreikning hlutfalla samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. er heimilt að undanskilja eftirtalda liði:

 1. Eignaliður sem er krafa á ríki, seðlabanka, alþjóðastofnanir eða fjölþjóða þróunarbanka, sem án tryggingar fengi 0% áhættuvog samkvæmt V. kafla reglna Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárkröfu og áhættugrunn fjármálafyrirtækja,
 2. eignaliður sem er krafa með ábyrgð ríkja, seðlabanka, alþjóðastofnana, fjölþjóða þróunarbanka eða opinberra fyrirtækja og stofnana sem án tryggingar fengi 0% áhættuvog sbr. V. kafla reglna Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárkröfu og áhættu­grunn fjármálafyrirtækja,
 3. aðrar áhættuskuldbindingar sem rekja má til eða eru með ábyrgð ríkja, seðla­banka, alþjóðastofnana, fjölþjóða þróunarbanka eða opinberra fyrirtækja og stofnana sem án tryggingar fengju 0% áhættuvogun sbr. V. kafla reglna Fjár­málaeftirlitsins um eiginfjárkröfu og áhættugrunn fjármálafyrirtækja,
 4. eignaliður sem er krafa á og aðrar áhættuskuldbindingar ríkja eða seðlabanka sem ekki er minnst á í staflið a. enda sé um að ræða kröfur í þarlendri mynt sem fjármagnaðar eru í sömu mynt,
 5. eignaliður og aðrar áhættuskuldbindingar sem tryggðar eru með handveði í skulda­bréfum (e. debt securities) útgefnum af ríkjum, seðlabönkum, alþjóða­stofnunum, fjölþjóða þróunarbönkum, héraðs- og sveitarstjórnum eða opin­berum fyrirtækjum og stofnunum sem myndu fá 0% áhættuvog samkvæmt V. kafla reglna Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárkröfu og áhættugrunn fjármála­fyrirtækja,
 6. eignaliður og aðrar áhættuskuldbindingar sem tryggðar eru með handveði í innstæðum (e. cash deposits) hjá eða innlánsskírteinum (e. certificate of deposits) útgefnum af viðkomandi lánastofnun (e. lending credit institution) eða fjármálafyrirtæki sem er móðurfyrirtæki eða dótturfyrirtæki þess,
 7. eignaliður sem er krafa á og aðrar áhættuskuldbindingar fjármálafyrirtækja sem eru upphaflega til eins árs eða skemmri tíma en eru ekki hluti af eigin fé sömu fjármálafyrirtækja,
 8. víxlar sem eru upphaflega til eins árs eða skemmri tíma og eru sam­þykktir/útgefnir af öðru fjármálafyrirtæki,
 9. sértryggð skuldabréf (e. covered bond) sbr. viðauka VI, 1. hluta, 68.-70. lið í reglum Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárkröfu og áhættugrunn fjármálafyrirtækja,
 10. áhættuskuldbindingar sem eru tryggðar með handveði í verðbréfum öðrum en þeim sem tilgreind eru í staflið e. Verðbréfin þurfa að vera skráð á skipulegum verðbréfamarkaði. Þau skulu metin á markaðsvirði og vera meira virði en áhætturnar sem tryggðar eru. Umframverð sem krafist er skal vera 100%. Þó skal það vera 150% þegar um hlutabréf er að ræða og 50% þegar um er að ræða skuldabréf útgefin af fjármálafyrirtækjum, héraðs- eða sveitarstjórnum öðrum en þeim sem tilgreind eru í staflið e., fjölþjóða þróunarbönkum, annarra en þeirra sem hafa 0% áhættuvog sbr. V. kafla reglna Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárkröfu og áhættugrunn fjármálafyrirtækja. Þegar misræmi er milli eftirstöðvatíma áhættuskuldbindingarinnar og eftirstöðvatíma útlánavarnarinnar skal tryggingin ekki tekin gild. Verðbréf sem eru trygging mega ekki vera hluti af eiginfjárgrunni fjármálafyrirtækja,
 11. kröfur sem tryggðar eru með veði í tilbúnu íbúðarhúsnæði sem lántaki nýtir eða leigir út allt að 50% af fasteignamati Fasteignamats ríkisins eða öðru kerfisbundnu mati sem viðurkennt er af Fjármálaeftirlitinu sbr. 18. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárkröfu og áhættugrunn fjármálafyrirtækja,
 12. áhættuskuldbindingar sem tryggðar eru með veði í viðskiptahúsnæði, sem fellur undir 50% áhættuvog skv. V. kafla reglna Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárkröfu og áhættugrunn, allt að 50% af fasteignamati Fasteignamats ríkisins eða öðru kerfisbundnu mati sem viðurkennt er af Fjármálaeftirlitinu sbr. 18. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárkröfu og áhættugrunn fjármálafyrirtækja,
 13. liðir utan efnahagsreiknings sem bera miðlungs/litla áhættu sbr. 8. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárkröfu og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, að 50% hluta,
 14. liðir utan efnahagsreiknings sem bera áhættu sbr. 8. gr. reglna Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárkröfu og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, enda leiði samningur um lánsheimild eða sambærilega áhættuskuldbindingu við viðskiptamann eða fjár­hags­lega tengda aðila ekki til þess að áhættuskuldbinding vegna viðkomandi aðila fari yfir mörkin sem miðað er við í 3. gr.,
 15. kröfur á héraðs- og sveitarstjórnir innan Evrópska efnahagssvæðisins, aðrar en samkvæmt staflið e, má undanskilja að 80% hluta þegar um er að ræða kröfur sem falla undir 20% áhættuvægi skv. V. kafla reglna Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárkröfu og áhættugrunn fjármálafyrirtækja. Sama á við um ábyrgðir og aðrar áhættuskuldbindingar sömu aðila,
 16. kröfur á fjármálafyrirtæki innan Evrópska efnahagssvæðisins, viðurkenndra verðbréfafyrirtækja utan Evrópska efnahagssvæðisins, skipulegra verðbréfa­markaða og viðurkenndra greiðslujöfnunarstöðva og kröfur með ábyrgð sömu aðila með lánstíma eftir­stöðva að hámarki eitt ár. Kröfur með lánstíma eftir­stöðva yfir einu ári og allt að þremur árum má undanskilja að 80% hluta, en kröfur með lánstíma eftirstöðva yfir þremur árum eða lengur má undanskilja að 50% hluta. Ákvæðin varðandi kröfur með lánstíma eftirstöðva lengri en eitt ár eru háð því skilyrði að kröfurnar séu í formi skuldaskjala sem eru gefin út af ein­hverjum þeirra aðila sem getið er í 1. málslið þessa töluliðar sem eru framseljan­leg á markaði sem er starfræktur af viðurkenndum aðilum og að söluverð þeirra sé daglega skráð,
 17. áhættuskuldbindingar í gjaldeyrisviðskiptum sem verða til í tengslum við eðlilegt uppgjör á 48 klukkustundum eftir greiðslu og áhættur í viðskiptum vegna kaupa og sölu á verðbréfum sem verða til í tengslum við eðlilegt uppgjör á fimm virkum dögum eftir greiðslu verðbréfanna, eða afhendingu þeirra, ef sú dagsetning fer á undan.

Samkvæmt þessari grein flokkast lánaafleiður (e. credit derivatives), sbr. viðauka VIII, 2. hluta reglna Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárkröfu og áhættugrunn fjármálafyrirtækja sem ábyrgð (e. guarantee).

5. gr.

Fari áhættuskuldbindingar yfir þau mörk sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. 3. gr. vegna sérstakra aðstæðna skal það tilkynnt Fjármálaeftirlitinu sem er þá heimilt, ef aðstæður leyfa, að veita hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki tiltekinn frest til að laga sig að gildandi takmörkum.

Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. 3. gr. gilda ákvæði X. kafla reglna Fjármálaeftirlitsins um eiginfjárkröfu og áhættugrunn fjármálafyrirtækja að því er varðar heimildir til að fara yfir tilgreind mörk.

6. gr.

Fjármálafyrirtæki skulu hafa yfir að ráða traustu stjórnunar- og upplýsingakerfi og innra eftirlitskerfi þar sem allar stórar áhættuskuldbindingar og breytingar á þeim eru rekjan­legar þannig að unnt sé að hafa eftirlit með þeim.

7. gr.

Fjármálafyrirtæki skulu senda Fjármálaeftirlitinu eigi sjaldnar en ársfjórðungslega, þ.e. miðað við lok mars, júní, september og desember, skýrslu um stórar áhættu­skuldbindingar einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila á því formi sem það ákveður. Skýrsla samkvæmt 1. málsl. skal hafa borist Fjármálaeftirlitinu eigi síðar en 30 dögum frá uppgjörsdegi. Rekstrarfélög verðbréfasjóða skulu þó einungis skila skýrslu hálfsárslega.

Fjármálafyrirtæki skulu greina verulega samþjöppunaráhættu í hlutfalli af eiginfjárgrunni, sem tengist útgefanda trygginga eða ábyrgða og grípa til viðeigandi ráðstafana til að draga úr slíkri áhættu. Tilkynna skal Fjármálaeftirlitinu reglulega niðurstöður slíkra greininga.

8. gr.

Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 4. mgr. 30. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla þá úr gildi reglur nr. 531/2003 um stórar áhættuskuldbindingar hjá fjármálafyrirtækjum.

Fjármálaeftirlitinu, 2. mars 2007.

Jónas Fr. Jónsson.

Ragnar Hafliðason.

B deild - Útgáfud.: 20. mars 2007