Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 416/2013

Nr. 416/2013 15. apríl 2013
AUGLÝSING
um fólkvanginn Teigarhorn í Djúpavogshreppi.

1. gr.

Um friðlýsinguna.

Umhverfisráðherra hefur ákveðið að tillögu Djúpavogshrepps og að fengnu áliti Umhverfis­stofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands að friðlýsa jörðina Teigarhorn við Berufjörð í Djúpavogshreppi sem fólkvang, skv. 55. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

Jörðin Teigarhorn er þekkt fyrir jarðmyndanir og atvinnu- og menningarsögu. Innan marka jarðarinnar er Weywadthús sem byggt var af Níels P.E. Weywadt sem var faktor í verslun Örums og Wulff á Djúpavogi. Á Teigarhorni var starfrækt ljósmyndastofa Nicoline Weywadt sem var fyrst kvenna til að nema ljósmyndun á Íslandi, en hún lauk námi frá Danmörku árið 1872.

Einnig er innan marka fólkvangsins náttúruvættið á Teigarhorni sem friðlýst er vegna geislasteina (zeólíta) sem þar eru.

Fólkvangurinn er 2010 ha að stærð.

2. gr.

Markmið friðlýsingarinnar.

Markmið með friðlýsingu jarðarinnar er að tryggja útivistarsvæði í fögru umhverfi þar sem gestum gefst tækifæri á að kynnast sérstakri náttúru svæðisins og sögu jarðarinnar Teigarhorns.

3. gr.

Mörk fólkvangsins.

Mörk fólkvangsins eru jarðamörk Teigarhorns og eru þau sýnd á meðfylgjandi hnitsettum uppdrætti í fylgiskjali I.

4. gr.

Umsjón með fólkvanginum.

Umhverfisstofnun hefur umsjón með fólkvanginum samkvæmt 28. gr. laga um nátt­úru­vernd nr. 44/1999. Umhverfisstofnun skal gera samning um daglegan rekstur og umsjón fólkvangsins við Djúpavogshrepp sem umhverfisráðherra staðfestir. Umhverfis­stofnun skal sjá um gerð verndar- og stjórnunaráætlunar fyrir fólkvanginn í samráði við Djúpavogshrepp, sbr. d-lið 6. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

Sérstök stjórn, sem í eiga sæti 4 fulltrúar, 1 fulltrúi Djúpavogshrepps, 1 fulltrúi Þjóð­minja­safns Íslands, 1 fulltrúi Náttúrufræðistofnunar Íslands og 1 fulltrúi Umhverfis­stofnunar, er til ráðgjafar um stefnumörkun fyrir fólkvanginn. Formaður nefndarinnar er fulltrúi Djúpavogshrepps.

5. gr.

Umferð um fólkvanginn.

Almenningi er heimil för um fólkvanginn, enda sé gætt góðrar umgengni. Almenningi er einungis heimilt að hafa hunda í ól í fólkvanginum enda séu þeir í fylgd ábyrgs aðila og undir tryggri stjórn. Undanþágu frá ákvæði þessu skal þó veita vegna þarfahunda meðal annars vegna smalamennsku á Búlandsdal og vegna leitar að mink innan fólkvangsins, enda sé tryggt að ekki sé önnur umferð á svæðinu þegar minkaleit stendur yfir.

Óheimilt er að hafa næturstað innan hins friðlýsta svæðis. Einnig er óheimilt að urða eða henda rusli á víðavangi innan fólkvangsins.

Óheimilt er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega í fólkvanginum, en þó er starfs­mönnum á svæðinu heimil, ef nauðsyn krefur, notkun vélknúinna farartækja vegna starfa við stígagerð og vegna veitumannvirkja innan marka fólkvangsins, enda sé ekki unnt að framkvæma verkið á annan hátt, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 528/2005 um tak­mark­anir á umferð í náttúru Íslands. Sérstök aðgát skal viðhöfð við aksturinn til að draga úr hættu á náttúruspjöllum. Hafa skal fullnægjandi útbúnað til slíks aksturs. Leita skal leiða til að flytja efni og annað sem til þarf á þann hátt að ekki sé þörf á akstri utan vega.

6. gr.

Verndun jarðmyndana.

Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt jarðmyndanir í fólkvanginum. Óheim­ilt er að fjarlægja geislasteina út af svæðinu nema að fengnu leyfi Umhverfis­stofn­unar. Sérstök friðlýsingarákvæði gilda um friðlýsingu geislasteina í landi Teigar­horns, sbr. auglýsingu í Stjórnartíðindum.

7. gr.

Verndun menningarminja.

Óheimilt er að hrófla við menningarminjum eða skemma á annan hátt. Verndun menningarminja innan marka fólkvangsins er í samræmi við lög um menningarminjar nr. 80/2012.

Gamli bærinn á Teigarhorni ásamt lóð umhverfis er í eigu Þjóðminjasafns Íslands og er hann friðaður.

8. gr.

Landnotkun og mannvirkjagerð.

Allar framkvæmdir innan fólkvangsins eru háðar leyfi Djúpavogshrepps, sbr. skipulagslög nr. 123/2010 og lög um mannvirki nr. 160/2010, og Umhverfisstofnunar, sbr. 38. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Framkvæmdir skulu vera í samræmi við samþykkt skipu­lag og verndar- og stjórnunaráætlun, en svæðið skal skipulagt til almennrar útivistar.

Heimilt er að beita búpeningi á Búlandsdal og skulu mörk þar miðast við girðingu í mynni dalsins. Beit er að öðru leyti óheimil innan fólkvangsins nema á afgirtum og ræktuðum túnum. Heimilt er að nytja tún innan jarðarinnar.

Efnistaka er heimil úr malarnámum í grennd við Búlandsá í samræmi við aðalskipulag, en ætíð er óheimilt að taka efni úr árfarvegi Búlandsár svo lífríki í ánni verði ekki raskað með þeim hætti.

Innan jarðarinnar eru tvö skógræktarsvæði. Annars vegar 168 ha skógræktarsvæði skv. samningi 10. febrúar 2003 og hins vegar 183 ha skógræktarsvæði skv. samningi 22. febrúar 2006. Skógræktarsvæðin verða skipulögð sem útivistarsvæði til framtíðar og skal grisjun taka mið af því og reglugerð nr. 583/2000. Frá stofnun fólkvangsins er ræktun og dreifing framandi plöntutegunda óheimil innan marka fólkvangsins í samræmi við reglugerð um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda nr. 583/2000 og skal koma í veg fyrir að framandi tegundir dreifist út fyrir skógræktarsvæðið. Þó er heimilt að viðhalda eldra skógræktarsvæðinu og að rækta þar áfram tegundir sem plantað hefur verið í reitinn fyrir friðlýsingu fólkvangsins.

Innan marka fólkvangsins er bústaður í einkaeigu á eignarlandi alls 4.000 m². Eiganda er heimilt almennt viðhald á húsinu án samþykkis Umhverfisstofnunar. Aðrar framkvæmdir á lóðinni eru háðar samþykki Djúpavogshrepps og Umhverfisstofnunar, sbr. auglýsingu um stofnun fólkvangsins á Teigarhorni í Djúpavogshreppi.

Innan marka fólkvangsins er eignarlóð að stærð 5.184 m², Kápugil. Eiganda er heimilt almennt viðhald á eignum án samþykkis Umhverfisstofnunar. Aðrar framkvæmdir á lóðinni eru háðar samþykki Djúpavogshrepps, sbr. skipulagslög nr. 123/2010 og lög um mannvirki, nr. 160/2010.

Innan fólkvangsins er spennistöð í eigu RARIK og Landsnets á 2 ha svæði samkvæmt lóðarleigusamningi. Eigendum spennistöðvarinnar er heimilt almennt viðhald á eignum.

Innan friðlýsta svæðisins er æðarvarp og gilda ákvæði reglugerðar nr. 212/1996 um friðun tiltekinna villtra fuglategunda, friðlýsingu æðarvarps, fuglamerkingar, hamskurð o.fl.

Í fólkvanginum, undir Stóruskriðugili er vatnsverndarsvæði Djúpavogshrepps.

9. gr.

Veiði og notkun skotvopna.

Innan fólkvangsins eru hreindýraveiðar og veiðar á rjúpu aðeins heimilar á Búlandsdal í samræmi við lög og reglur þar að lútandi. Notkun farartækja við veiðar innan fólk­vangs­ins á Búlandsdal eru óheimilar.

Einnig eru heimilar veiðar á ref og mink, en ætíð í samræmi við lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, verndar- og stjórnunaráætlun og á vegum umsjónar- og rekstraraðila. Skylt er að leita til umsjónaraðila svæðisins um alla notkun skotvopna innan fólkvangsins.

10. gr.

Stangveiði.

Stangveiði er heimil í Búlandsá og sér umsjónaraðili um sölu veiðileyfa.

11. gr.

Refsiákvæði.

Brot gegn friðlýsingu þessari varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, sbr. 75. og 76. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

12. gr.

Gildistaka.

Friðlýsingin öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 15. apríl 2013.

Svandís Svavarsdóttir.

Guðríður Þorvarðardóttir.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)

B deild - Útgáfud.: 2. maí 2013