Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 590/2015

Nr. 590/2015 18. júní 2015

REGLUR
um skipulag, úthlutun og notkun númera, númeraraða og vistfanga á sviði fjarskipta.

I. KAFLI

Markmið og gildissvið.

1. gr.

Markmið.

Markmið þessara reglna og skipulags um notendanúmer er að kveða á um skilvirka úthlutun númera fyrir mismunandi þjónustu. Skipulaginu er í fyrsta lagi ætlað að tryggja fjar­skipta­fyrirtækjum aðgang að númerum fyrir notendur sína og tryggja hverjum notanda númer sem tengist honum einum og gerir öðrum kleift að beina til hans fjarskiptaboðum. Í öðru lagi er skipulaginu ætlað að stuðla að öryggi fjarskipta landsins, rekstraröryggi og sam­stæði neta og að númer og kóðar séu fáanleg fyrir samtengingu neta.

2. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar ná til úthlutunar og notkunar númera, númeraraða, kóða og vistfanga, sem notuð eru í fjarskiptaþjónustu og við samtengingu fjarskiptaneta. Reglurnar ná til aðila sem fengið hafa úthlutað númerum af Póst- og fjarskiptastofnun skv. lögum nr. 81/2003, um fjarskipti.

3. gr.

Skilgreiningar.

Vísað er til skilgreininga í fjarskiptalögum en auk þeirra hafa eftirfarandi orð sérstaka merk­ingu:

Almenn upplýsingaveita: Starfsemi sem felst í upplýsingagjöf í gegnum síma um vörur og/eða þjónustu. Upplýsingar eru almennt veittar öllum notendum talsímaþjónustu er þess óska og aðilum, sem bjóða vörur eða þjónustu í þeim flokkum sem upplýsingaveitan veitir upplýsingar um, stendur þjónusta hennar til boða án mismununar.

Flökkunúmer (óstaðbundin símanúmer): Númer þar sem upphafsstaður er ekki skilgreindur fyrirfram sem heimilisfang heldur sem vistfang (IP tala) á Internetinu. Notandi getur því efnt til uppkalls nánast hvar sem er í heiminum þar sem tenging við Internetið er fyrir hendi og notað til þess ýmsar tækniaðferðir eins og t.d. venjulegan síma eða tölvu.

Forskeyti: Númer sem notandi verður að velja á undan símanúmeri til þess að fá aðgang að þjónustuveitanda.

Landsnúmer: Númer eða kóði 1-, 2ja- eða 3ja-stafa sem Alþjóðafjarskiptasambandið (ITU) hefur úthlutað í samræmi við tilmæli E.164.

Neyðarnúmer: Númer sem eingöngu skal nota til að tilkynna um slys eða biðja um neyðar­hjálp.

Notendanúmer: Númer sem áskrifendur fjarskiptaþjónustu fá úthlutað hjá fjarskiptafyrirtæki vegna tengingar við fjarskiptanet þeirra og hægt er að hringja í eða nota til að sækja fjarskiptaþjónustu frá þjónustuveitendum.

Útlandaforskeyti: Númerið 00 sem notandi verður að velja á undan landsnúmeri til að fá aðgang að útlandaþjónustu.

Yfirgjaldsþjónustunúmer: Númer þar sem veitt er þjónusta sem ber hærra gjald en almenn símaþjónusta vegna virðisaukandi þátta sem bætast við fjarskiptaþjónustuna.

Þjónustunúmer: Fjögurra stafa númer sem veitir aðgang að þjónustu sem tengist fjar­skipta­þjónustu fjarskiptafyrirtækis.

Þjónustuveitandi: Seljandi almennrar fjarskiptaþjónustu sem hefur almenna heimild til reksturs fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu.

II. KAFLI

Almennt um skipan númeramála og umsóknir um númer.

4. gr.

Almennt.

Skipan númeramála samkvæmt þessum reglum byggir m.a. á reglum og tilmælum Alþjóða­fjarskiptasambandsins (ITU) um númer í alþjóðatalsíma og vistföng í gagna­flutnings­netum. Þar er m.a. kveðið á um hámarkslengd númera og um lands- og netkóða. Þar að auki skulu ýmis forskeyti og þjónustunúmer vera í samræmi við tilskipanir ESB, sem lögleiddar hafa verið hér á landi.

Í allri fjarskiptaþjónustu sem sækir skipulag númera og vistfanga til tilmæla ITU skal ein­göngu nota númer, kóða og vistföng sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur úthlutað.

Póst- og fjarskiptastofnun setur fram og uppfærir heildarskipulag á númerum fyrir mis­mun­andi þjónustu og ramma um vistföng í fjarskiptanetum.

Landskóðinn (354) í íslensku númeraröðinni er ætlaður sem auðkenni sem gefa á til kynna ákvörðunarstað símtals.

Úthlutun kóða, númera og númeraraða felur í sér heimild til afnota, en leiðir ekki til eignar­réttar eða varanlegs umráðaréttar á númerum eða númeraröðum.

5. gr.

Umsóknir.

Fyrirtæki sem reka fjarskiptanet og/eða veita fjarskiptaþjónustu og starfa samkvæmt almennri heimild á grundvelli 4. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti, og óska eftir númerum eða kóðum til að nota í fjarskiptaþjónustu, skulu sækja um slíkt til Póst- og fjar­skipta­stofn­unar á þar til gerðu eyðublaði. Í umsókn skal eftirfarandi m.a. koma fram:

 

a)   

Heiti, kennitala og heimilisfang viðkomandi fjarskiptafyrirtækis og nafn, símanúmer og netfang tengiliðs ef það á við.

 

b)

Skilgreining á þeirri þjónustu sem veita á í númerunum.

 

c)

Fjöldi notenda í viðkomandi þjónustu.

 

d)

Lengd númeraraðar/raða sem óskað er eftir.

 

e)

Fjöldi notenda sem reiknað er með að bætist við á næsta heila ári.

 

f)

Ef sótt er um númer og kóða fyrir samtengingu neta skal eftirfarandi jafnframt koma fram í umsókninni:

   

i.

Heiti neta sem á að samtengja.

   

ii.

Í hvaða neti númerið er hýst.

   

iii.

Samtengistaður/staðir.

   

iv.

Gjaldtökuaðferð fyrir þjónustuna.

Póst- og fjarskiptastofnun getur ákveðið að úthlutun einstakra stuttnúmera fari fram að undan­gengnu útboði.

Póst- og fjarskiptastofnun úthlutar fjarskiptafyrirtækjum númeraröðum eftir þörfum þeirra, að svo miklu leyti sem heildarskipulag númera leyfir, sbr. 7. gr. Við úthlutun skal miðað við þarfir fyrirtækisins næsta heila árið, en lengur ef nægjanlegt svigrúm er til þess að mati stofn­unarinnar.

III. KAFLI

Almenn skilyrði fyrir úthlutun númera og skipulag númera.

6. gr.

Almenn skilyrði fyrir úthlutun númera og númeraraða.

Úthlutun er háð því að umsækjandi eigi eða hafi til umráða símstöð sem rekin er hér á landi og uppfylli skilyrði til að gera samtengisamning við a.m.k. eitt starfandi fjarskiptafyrirtæki.

Ef umsækjandi hefur áður fengið úthlutað númerum getur Póst- og fjarskiptastofnun tekið mið af fyrri nýtingu umsækjanda við mat á því hvort úthluta eigi númerum. Jafnframt getur stofnunin tekið mið af fylgni umsækjanda við lög og reglur á fjarskiptamarkaði.

Úthlutuð númer fyrir tal- og farsímaþjónustu má eingöngu nota í fjarskiptaþjónustu á Íslandi. Í því felst m.a. eftirfarandi:

 

a)

Fjarskiptafyrirtæki sem óskar eftir að fá númerum úthlutað samkvæmt reglum þessum skal hafa staðfestu á Íslandi og almenna heimild til reksturs fjar­skipta­þjónustu eða fjarskiptanets samkvæmt fjarskiptalögum.

 

b)

Starfsemi fjarskiptafyrirtækis sem og öll lögskipti sem leiða af notkun númera sem Póst- og fjarskiptastofnun úthlutar samkvæmt fjarskiptalögum og reglum þessum skulu lúta íslenskum lögum og lögsögu.

 

c)

Númer sem úthlutað er úr íslenska númeraskipulaginu skulu standa íslenskum notendum til boða á Íslandi.

7. gr.

Úthlutun og skipulag númera í almennri
talsímaþjónustu, samneti og farsíma.

Umsóknir um númer og númeraraðir skulu að jafnaði afgreiddar í sömu röð og þær berast Póst- og fjarskiptastofnun.

Fjarskiptafyrirtæki skulu greiða gjald fyrir úthlutuð númer og raðir, skv. 14. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun. Nánar er kveðið á um gjaldskyldu í úthlutunarbréfi.

Röðun númera fyrir mismunandi þjónustu skal vera sem hér segir:

  1. Númerið 00 má eingöngu nota sem útlandaforskeyti.
  2. Númerið 112 má eingöngu nota sem neyðarnúmer.
  3. Númeraröð sem byrjar á 116 skal aðeins nota fyrir gjaldfrjálsa þjónustu í félags­legum tilgangi. Til dæmis ýmsa upplýsingaþjónustu, aðstoð eða tilkynn­ingar­síma fyrir almenning. Þó er ekki heimilt að úthluta eða nota númerið 116-112 í neinum tilgangi. Þá skal númerið 116-000 sérstaklega frátekið sem tilkynn­ingar­númer fyrir týnd börn.
  4. Í númerinu 155 skulu veittar upplýsingar um tíma.
  5. Ekki verður um frekari úthlutanir á þriggja stafa stuttnúmerum að ræða.
  6. Fjarskiptafyrirtækjum, sem bjóða upp á forval, eða fast forval, skal úthlutað fjögurra stafa forskeytum. Fyrir þessa þjónustu er notuð röðin 10xx og númerið 1100.
  7. Fjögurra stafa númer sem byrja á 14 eru til úthlutunar fyrir fjarskiptafyrirtæki sem þjónustunúmer í þeim tilgangi að veita upplýsingar tengdar þeirri fjarskiptaþjónustu sem veitt er. Fjarskiptafyrirtæki geta sótt um fjögurra stafa númer sem byrja á 14 til úthlutunar til áskrifenda sinna sem reka almennar upplýsingaveitur, sbr. skil­grein­ingu í 3. gr. Númerum úr þessari röð er hvorki úthlutað til aðila sem hyggjast eingöngu veita upplýsingar um eigin vöru eða þjónustu né til sölu eða móttöku pantana á vöru eða þjónustu.
  8. Fjögurra stafa númer sem byrja á 17 eru til úthlutunar til opinberra aðila/stofnana sem veita þjónustu er varðar almannaheill, s.s. læknisþjónustu, veðurupplýsingar og færð á vegum. Sama rétt hafa aðilar sem gert hafa samning við opinbera aðila um að sinna þjónustunni.
  9. Fjögurra stafa númer sem byrja á 18 eru til úthlutunar fyrir fjarskiptafyrirtæki sem þjónustunúmer í þeim tilgangi að veita símaskrárupplýsingar, sbr. grunnupplýsingar í númera- og vistfangaskrám, og tengda þjónustu.
  10. Númer sem byrja á 4 og 5 skal úthlutað til notkunar í almennri talsímaþjónustu (PSTN og ISDN).
  11. Númeraröð sem byrjar á 49x xxxx er skilgreind sem flökkunúmeraröð til mark­aðs­setningar fyrir flökkuþjónustu, þ.e. netsímaþjónusta sem flytja má milli net­tengi­punkta. Við úthlutun slíkra númera, sbr. 2. mgr. 10. gr. fjarskiptalaga, verður gerður fyrirvari um að ekki sé heimilt að flytja númerin í aðra þjónustu. Flökku­númer má einungis nota í fjarskiptaþjónustu á Íslandi, sbr. yfirlýsingu Póst- og fjar­skipta­stofnunar um netsímaþjónustu frá 3. febrúar 2006.
  12. Fjögurra stafa stuttnúmer sem byrja á 1900 til 1919 eru til ráðstöfunar fyrir SMS þjónustu. Beiðni um nýja þjónustu sem þarfnast sérstaks númers skal senda til Póst- og fjarskiptastofnunar sem tekur ákvörðun um hvar í númeraskipulaginu hún skal vera. Póst- og fjarskiptastofnun birtir lista á heimasíðu stofnunarinnar yfir úthlutaðar númeraraðir og stuttnúmer sem hefur verið úthlutað í samræmi við framangreint.
  13. Almenn símanúmer skulu vera 7 stafa í röðunum 20-99 að undanskilinni röð 3 sem er 9 stafa.
  14. Þegar ekki á að gjaldfæra A-notanda fyrir símtali skal nota 7-stafa númer sem byrja á 800.
  15. Númer sem byrja á 901-905 skal nota fyrir símatorgsþjónustu með yfirgjaldi.
  16. Númer sem byrja á 907-908 skal nota fyrir þjónustu með yfirgjaldi sem krefst mann­legrar íhlutunar við svörun.
  17. Númer sem byrjar á 75 og nota greindarnet skal nota fyrir fundarþjónustu.
  18. Almenningssjálfsölum, sem tekið er yfirgjald fyrir að hringja í, skal gefið 7 stafa númer sem byrjar á 909.
  19. Númer sem byrja á 3, skulu vera 9 stafa löng og skal þeim úthlutað til fyrirtækja sem bjóða viðskiptavinum sínum upp á almenna farsímaþjónustu, þ.m.t. fyrir talhólf notenda í farsímaþjónustu. Óheimilt skal að nota slík númer í virðisaukandi þjónustu.
  20. Númer sem byrja á 6, 7 og 8 skal úthlutað til notkunar í almennri farsímaþjónustu. Óheimilt er að nota slík númer í virðisaukandi þjónustu.
  21. Öll 7 og 9 stafa númer sem eru sérstaklega ætluð til notkunar fyrir símkerfin (kerfis­númer) en ekki fyrir almenna notendur, skulu, eins og önnur símanúmer, skráð hjá Póst- og fjarskiptastofnun og er notkun þeirra háð samþykki stofn­unar­innar.

Yfirgjaldsþjónustu má aðeins veita í númerum sem eru sérstaklega skilgreind sem slík í númeraskipulagi Póst- og fjarskiptastofnunnar. Nánar skal kveðið á um yfirgjaldsþjónustu í sérstakri reglugerð.

8. gr.

Númera- og vistfangaskipulag fyrir gagnaflutningsþjónustu.

Gagnaflutningsnet sem taka mið af ITU tilmælum X.121 skulu nota gagnanetfangskóða eða DNIC (Data Network Identification Code) innan þess sviðs sem ITU hefur úthlutað Íslandi.

Gagnaflutningsnet sem falla undir vistfangaskipulag í samræmi við ITU tilmæli X.400/F.401 skulu nota ADMD (Administration Management Domain) vistföng í samræmi við tilmælin.

Póst- og fjarskiptastofnun heldur skrá yfir netföng (DNIC) og vistföng (ADMD) sem fjar­skipta­fyrirtækjum hefur verið úthlutað.

9. gr.

Númer fyrir skip.

Póst- og fjarskiptastofnun úthlutar skipum og bátum númerum fyrir skipa- og bátastöðvar í sjófarstöðvaþjónustu (Maritime Mobile Service Identities, MMSI). Númerin skulu valin í sam­ræmi við tilmæli ITU E.210. Stofnunin úthlutar einnig notendanúmerum fyrir Inmarsat­þjónustu (Inmarsat Mobile Number, IMN) í samræmi við tilmæli ITU E.215.

10. gr.

Kerfisnúmer og vistföng í fjarskiptanetum.

Samtenging fjarskiptaneta á grundvelli tilmæla ITU og staðla ETSI skal gerð með notkun númera og vistfangaaðferða sem ITU og ETSI hafa skilgreint. Póst- og fjarskiptastofnun annast úthlutun og skráningu á eftirfarandi kóðum:

ISPC (International Signalling Point Code) samkvæmt ITU tilmælum Q.708.

NSPC (National Signalling Point Code) samkvæmt ITU tilmælum Q.708.

MNC (Mobile Network Code) sem er hluti af IMSI (International Mobile Subscriber Identity) samkvæmt ITU tilmælum E.212 og ETSI stöðlum ETS 300 523, 2. útgáfa.

IIN (Issuer Identification Number) samkvæmt tilmælum E.118.

TMNC (TETRA Mobile Network Code) sem er hluti af ITSI (International TETRA Subscriber Identities) samkvæmt ETSI staðli ETS 300 392-1.

Upplýsingar um þessa kóða má fá hjá Póst- og fjarskiptastofnun.

Ef notkun úthlutaðra kóða og vistfanga í fjarskiptanetum er hætt, skal tilkynna það Póst- og fjarskiptastofnun innan mánaðar.

IV. KAFLI

Skilyrði um notkun og breytingar á skipulagi eða notkun.

11. gr.

Skilyrði um notkun númera.

Réttindi til þess að nota númer og númeraraðir eru bundin við nafn og er framsal óheimilt. Þessi regla á þó ekki við í þeim tilfellum þegar um er að ræða einstaka áskrifendur sem flytja símanúmer milli fjarskiptafyrirtækja, sbr. 52. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti og reglur nr. 617/2010, um númera- og þjónustuflutning.

Vísað er til skilyrða í 2. mgr. 10. gr. fjarskiptalaga. Á grundvelli þeirra gilda jafnframt eftir­farandi skilyrði um notkun númera:

 

a)

Óheimilt er að selja, leigja eða framselja á nokkurn hátt númer úr íslenska númera­skipulaginu til þriðja aðila.

 

b)

Fjarskiptafyrirtæki er ábyrgt fyrir réttri notkun númera þ.m.t. að númer séu ekki notuð í öðrum tilgangi en viðkomandi númeraröð hefur verið úthlutað til. Verði þeirri notkun hætt eða hún verður önnur en reglur þessar gera ráð fyrir getur Póst- og fjarskiptastofnun afturkallað úthlutun.

 

c)

Fjarskiptafyrirtæki sem hættir starfsemi sinni ber að skila númerum aftur til Póst- og fjarskiptastofnunar innan mánaðar frá því starfsemi hættir.

Auk ofangreindra skilyrða getur Póst- og fjarskiptastofnun sett frekari skilyrði um notkun til að tryggja rekstraröryggi neta, tryggingu um samstæði neta og samhæfni mismunandi þjón­ustu.

12. gr.

Breytingar á númeraskipulagi og afturköllun kóða,
númera, númeraraða og vistfanga.

Breytingar á skipulagi, sem fela í sér að hópar notenda verða að breyta um númer, skal stofnunin kynna með 2ja ára fyrirvara. Póst- og fjarskiptastofnun bætir ekki notendum eða fjarskiptafyrirtækjum kostnað eða annað fjárhagslegt tjón sem af því hlýst.

Verði notkun númera eða númeraraða ekki í samræmi við lög nr. 81/2003, um fjarskipti, lög nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun, skilyrði almennrar heimildar, reglur þessar eða sérstök skilyrði hlutaðeigandi úthlutunar getur Póst- og fjarskiptastofnun krafist þess að fjarskiptafyrirtæki skili númerum eða númeraröðum aftur inn til stofnunarinnar. Ef aftur­köllun númera skv. þessari grein hefur áhrif á notendur númera mun Póst- og fjar­skipta­stofnun gefa þeim notendum færi á númeraflutningi til annars fjarskiptafyrirtækis.

Póst- og fjarskiptastofnun getur jafnframt afturkallað úthlutun að fullu eða hluta til, ef fjar­skiptafyrirtæki hefur ofmetið þörf sína eða ef númer eða númeraröð hefur ekki verið tekin í notkun innan tiltekins tíma.

Afturköllun á úthlutuðum stuttnúmerum skal tilkynnt viðkomandi aðila með a.m.k. 6. mán­aða fyrirvara.

13. gr.

Skil á númerum og númeraröðum.

Eingöngu er hægt að skila inn númerum til Póst- og fjarskiptastofnunar í heilum 1000 númera blokkum.

V. KAFLI

Upplýsingaskylda, öryggisráðstafanir og bann við misnotkun.

14. gr.

Upplýsingaskylda.

Í samræmi við 4. og 5. gr. laga nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun, getur stofnunin, eftir því sem þurfa þykir, gert þá kröfu að fjarskiptafyrirtæki sem fengið hefur úthlutað númerum geri stofnuninni grein fyrir notkun númera í skýrsluformi með stuðningi nauð­syn­legra gagna. Getur skýrslugjöf þessi m.a. falið í sér eftirfarandi:

 

a)

Skiptingu númera eftir þjónustu sem veitt er í númerunum.

 

b)

Hlutfall virkra númera í notkun.

 

c)

Hlutfall númera sem eru frátekin en ekki í virkri notkun.

 

d)

Hlutfall lausra númera hjá rétthafa.

 

e)

Áætlaða nýtingu úthlutaðra númera næstu þrjú ár.

15. gr.

Skilyrði til að tryggja öryggi fjarskipta eða
rannsóknahagsmuni á meintum lögbrotum.

Póst- og fjarskiptastofnun getur fyrirskipað stöðvun alþjóðlegrar fjarskiptaumferðar, almennt eða að hluta til í tengslum við ákveðin númer þegar slík takmörkun er talin nauðsynleg, viðeigandi og hlutfallsleg ráðstöfun í lýðræðisþjóðfélagi til að tryggja öryggi fjarskipta landsins og til að koma í veg fyrir, rannsaka, koma upp um og ákæra fyrir lögbrot eða fyrir óleyfilega notkun á númerum og rafræna fjarskiptakerfinu.

Skulu slíkar aðgerðir skilyrðislaust tilkynntar fjarskiptayfirvöldum meðlimaríkja ITU, sbr. 35. gr. stjórnarskrár ITU og tilmæli ECC (The Electronic Communications Committee) frá 13. mars 2006 nr. ECC/REC/(05)09.

16. gr.

Óheimil notkun.

Óheimilt er að nota númer í þeim tilgangi að afla fjárhagslegs ávinnings ef engin raun­veru­leg fjarskiptaþjónusta við almenna notendur er þar að baki.

Óheimilt er að tengja símanúmer við sjálfvirkar hringivélar við upphaf eða lúkningu á sím­tölum, nema í eftirfarandi tilvikum:

 

a)

Að uppfylltum skilyrðum um samþykki skv. 46. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti.

 

b)

Þegar um er að ræða notkun tengda neyðar- eða björgunarstarfsemi.

 

c)

Þegar um gjaldfrjálsa svörun er að ræða.

Verði fjarskiptafyrirtæki uppvíst að óleyfilegri notkun númera eða annarri óleyfilegri notkun á rafræna fjarskiptakerfinu getur Póst- og fjarskiptastofnun afturkallað réttindi fyrirtækisins tímabundið eða varanlega í samræmi við ákvæði 73. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti.

17. gr.

Heimild og gildistaka.

Reglur þessar eru settar samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti, og öðlast gildi við birtingu í Stjórnartíðindum. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 450/2008, um skipulag, úthlutun og notkun númera, númeraraða og vistfanga frá 30. apríl 2008.

Póst- og fjarskiptastofnun, 19. júní 2015.

F.h. forstjóra,

Björn Geirsson.

Unnur Kristín Sveinbjarnardóttir.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 3. júlí 2015