Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 37/2007

Nr. 37/2007 17. janúar 2007
REGLUR
um doktorsnám í háskólum samkvæmt 7. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla.

1. gr.

Markmið.

Námi til doktorsprófs við háskóla er ætlað að veita nemendum, sem námið stunda, þekkingu og færni sem gerir þá hæfa til þess að stunda vísindalegar rannsóknir, afla nýrrar þekkingar og gegna störfum þar sem krafist er þjálfunar og færni í að beita vísindal­egum vinnubrögðum.

Heimild sem menntamálaráðherra veitir til handa háskóla til að bjóða nám til doktors­prófs felur í sér að háskólinn uppfylli kröfur og skilyrði sem tilgreind eru í reglum þessum. Nám til doktorsprófs skal jafnframt standast þau viðmið sem sett eru fram í Viðmiðum um æðri menntun og prófgráður, sem menntamálaráðherra gefur út.

2. gr.

Nám til doktorprófs.

Doktorsnám byggir á verkefnislýsingu og náms- og rannsóknaráætlun. Á grundvelli náms- og rannsóknaráætlunar er gerður samningur á milli viðkomandi háskóladeildar og nemanda um fyrirkomulag námsins, réttindi og skyldur nemanda og leiðbeinanda, og ef við á, aðkomu annarra að doktorsnáminu. Þar skal sérstaklega tilgreint hvaða þjónustu doktorsnemi mun njóta meðan á námi hans stendur og með hvaða hætti skal leitast við að tryggja samfellu í náminu.

Leiðbeinendur doktorsnema geta verið fleiri en einn og skal þá hlutverk hvers um sig skilgreint í framangreindum samningi. Skal einn þeirra vera umsjónarkennari doktors­nemans. Umsjónarkennari skal vera fastur starfsmaður viðkomandi skóla.

Leiðbeinendur í doktorsnámi skulu hafa lokið doktorsprófi eða aflað sér sambærilegrar menntunar á viðkomandi eða tengdu fræðasviði og vera viðurkenndir sérfræðingar á því sviði.

Leiðbeinendur skulu hafa birt ritsmíðar sem tengjast verkefni nemenda á vettvangi sem gerir strangar vísindalegar kröfur. Leiðbeinendur skulu hafa sýnt fram á góða ritvirkni og árangur í rannsóknum á fræðasviði sínu.

Að minnsta kosti einn leiðbeinandi doktorsnema skal hafa reynslu af handleiðslu í doktors­námi eða umfangsmikla reynslu af handleiðslu á meistarastigi.

Leiðbeinendur skulu hafa tekið þátt í alþjóðlegu rannsóknasamstarfi og hafa reynslu af öflun sértekna frá viðurkenndum rannsóknasjóðum.

Doktorsnemar skulu taka virkan þátt í því vísindasamfélagi sem doktorsverkefni þeirra tilheyrir.

Doktorsritgerð skal varin opinberlega og birt.

Háskóli gefur út reglur um doktorsnám og birtir opinberlega.

3. gr.

Umsókn um heimild til að taka upp nám til doktorsprófs.

Háskóli sem sækist eftir heimild menntamálaráðherra til að bjóða upp á doktorsnám á tilteknu fræðasviði skal styðja umsóknina gögnum um eftirfarandi:

a.

Hlutverk og markmið háskóla með doktorsnámi.

b.

Skilgreiningu doktorsnáms m.t.t. Viðmiða um æðri menntun og prófgráður sem menntamálaráðherra gefur út.

c.

Heiti prófgráðu og lengd doktorsnáms.

d.

Lýsingu á inntökuskilyrðum og kröfum um viðunandi undirbúning.

e.

Lýsingu á umsóknarferlinu.

f.

Upplýsingar um fyrirkomulag stjórnsýslu um doktorsnám, þ.m.t. um doktorsnefndir, doktorsvarnir og hæfiskilyrði andmælenda.

g.

Viðurkenningu ráðuneytis á viðkomandi fræðasviði.

h.

Stöðu starfsmanna á viðkomandi fræðasviði, rannsóknavirkni og birtingar.

i.

Upplýsingar um skipulag rannsóknastarfsemi á viðkomandi fræðasviði og framtíðar­stefnumörkun.

í.

Upplýsingar um aðstöðu og aðbúnað í fræðilegu tilliti, fjölda kennara á viðkomandi fræðasviði, menntun þeirra og reynslu.

j.

Upplýsingar um tengsl grunn- og framhaldsnáms og fjölda brautskráðra nemenda á meistarastigi síðustu ára.

k.

Stöðu háskólans á viðkomandi fræðasviði, eða undirflokka þess, í alþjóðlegum samanburði. Samstarf við innlendar og erlendar rannsóknastofnanir, háskóla eða fyrirtæki.

l.

Lýsingu á fjármögnun doktorsnáms.

4. gr.

Leyfi til doktorsnáms.

Menntamálaráðherra skipar þrjá óháða og sérfróða einstaklinga í umsagnarnefnd er veitir umsögn um hæfi háskóla til að veita doktorsgráður. Nefndin getur eftir því sem hún telur nauðsynlegt óskað eftir frekari gögnum og upplýsingum en þeim sem skóli leggur fram með umsókn sinni.

Umsagnarnefnd byggir mat sitt á efnisþáttum 3. gr. reglna þessara. Á grundvelli upp­lýsinga sem háskólar leggja fram skal umsagnarnefndin taka saman niðurstöður matsins sem skal studd ítarlegum og málefnalegum rökum.

Leyfi til doktorsnáms er ótímabundið, en menntamálaráðherra getur afturkallað leyfi ef fram kemur við ytra gæðaeftirlit að viðkomandi skóli uppfyllir ekki almenn skilyrði eða ef verulegar breytingar verða á þeim þáttum er varða styrk og getu háskólans á því fræðasviði sem doktorsnámið byggir á.

Menntamálaráðherra tekur ákvörðun um að synja eða heimila háskólum um heimild til að bjóða doktorsnám að fenginni álitsgerð umsagnarnefndar. Heimild háskóla til að bjóða upp á doktorsnám er veitt skriflega og er gefið út sérstakt vottorð um hana.

5. gr.

Gildistími.

Reglur þessar eru settar með vísan til 4. mgr. 7. gr. laga um háskóla nr. 63/2006 og öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 17. janúar 2007.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Guðmundur Árnason.

B deild - Útgáfud.: 19. janúar 2007