1. gr. Skipun nefndarinnar. Undanþágunefnd um bann við beitingu nauðungar skal skipuð þremur einstaklingum sem skulu búa yfir sérþekkingu á mannréttindamálum, þjónustu við fatlað fólk og framkvæmd laga á því sviði. Ráðherra skipar nefndarmenn til fjögurra ára og formann úr þeirra hópi. Varamenn skulu vera jafnmargir og uppfylla sömu kröfur og aðalmenn. Ráðuneytið skal ráða starfsmann til aðstoðar nefndinni. Ráðuneytið skal útvega starfsmanninum starfsaðstöðu og fundaraðstöðu fyrir nefndina. 2. gr. Upphaf máls. Þegar nefndinni berst beiðni um undanþágu frá banni við beitingu nauðungar skal starfsmaður nefndarinnar kanna hvort beiðnin uppfylli skilyrði laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011, og tilkynna nefndinni um hana. Formaður skal boða fund svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en tveimur vikum eftir að beiðni berst. Skal starfsmaður, ásamt formanni, fara yfir beiðni og kalla eftir viðbótargögnum telji þeir þörf á, áður en fundur um málið fer fram. Sé beiðni ábótavant skal svo fljótt sem auðið er gefa þeim sem lagði fram beiðni færi á að lagfæra hana og skila gögnum ef þau vantar og gefa viðkomandi stuttan frest í þeim efnum. Ef ekki er bætt úr innan frestsins getur nefndin vísað beiðni frá nema veigamikil rök mæli með því að taka hana til meðferðar. 3. gr. Andmælaréttur. Starfsmaður skal gera þeim sem beiðni varðar, og eftir atvikum lögráðamanni hans, persónulegum talsmanni eða nánasta aðstandanda, viðvart um framkomna beiðni og gefa honum færi á að koma á framfæri athugasemdum sínum við hana. Athugasemdum skal skilað skriflega en viðkomandi er heimilt að koma á fund nefndarinnar til að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum. 4. gr. Mat á beiðnum. Við mat á beiðni skal nefndin fyrst kanna hvort hún styðjist við undanþáguheimildir 12. gr. laga nr. 88/2011. Sé tilgangur hennar annar en þar greinir skal vísa henni frá. Uppfylli beiðni skilyrði 12. gr. skal nefndin taka eftirfarandi atriði til athugunar: Hvort leitað hafi verið allra annarra leiða sem ekki fela í sér nauðung. Menntun og reynslu þeirra sem bera faglega ábyrgð á framkvæmd nauðungar. Hvort nauðung gagnvart hinum fatlaða einstaklingi geti komið niður á öðrum einstaklingum sem búa á sama heimili. Að nauðung sú sem sótt er um að beitt verði gangi ekki lengra en nauðsynlegt telst til þess að tilgangi hennar verði náð.
Lúti beiðni að því að beita líkamlegri nauðung skal nefndin ganga úr skugga um að heilsu viðkomandi verði ekki hætta búin vegna beitingu nauðungarinnar. 5. gr. Tilkynning um ákvörðun nefndarinnar. Nefndin skal taka ákvörðun svo fljótt sem auðið er eftir að öll gögn hafa borist henni. Þegar nefndin hefur afgreitt beiðni skal tilkynna niðurstöðu hennar forstöðumanni eða þjónustuveitanda og hinum fatlaða einstaklingi, lögráðamanni, persónulegum talsmanni eða nánasta aðstandanda. Fallist nefndin á beiðni um undanþágu skal jafnframt leiðbeina um rétt til að skjóta ákvörðun til dómstóla og tilkynna réttindagæslumanni á svæðinu um ákvörðun nefndarinnar. 6. gr. Þagnarskylda. Nefndarmenn skulu gæta þagnarskyldu um þau atvik sem þeim verða kunn í starfinu og leynt eiga að fara vegna persónulegra hagsmuna hins fatlaða einstaklings og almannahagsmuna. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi. 7. gr. Gildistaka. Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 4. mgr. 15. gr. laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011, með síðari breytingum, tekur þegar gildi. Velferðarráðuneytinu, 6. nóvember 2012. Guðbjartur Hannesson. Sveinn Magnússon. |