Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1266/2013

Nr. 1266/2013 9. desember 2013
REGLUR
um aðfaranám að háskólanámi.

I. KAFLI

Almennt.

1. gr.

Aðfaranám er ætlað þeim nemendum sem hyggja á háskólanám en fullnægja ekki inntökuskilyrðum um stúdentspróf. Aðfaranám er einnig ætlað þeim nemendum sem lokið hafa námi á framhaldsskólastigi en þurfa að bæta við sig þekkingu áður en til náms á háskólastigi kemur.

Viðurkenndum háskóla er heimilt samkvæmt 4. mgr. 19. gr. laga um háskóla nr. 63/2006 að bjóða upp á aðfaranám en námið skal skipulagt í samráði við mennta- og menn­ingar­mála­ráðuneyti.

Háskóli sem hyggst bjóða upp á aðfaranám skal gera tillögur til ráðuneytisins um fyrir­komu­lag, samhengi og inntak náms í samræmi við aðalnámskrá framhaldskóla, einkum varðandi þrepasetningu og umfang. Ráðuneytið veitir leiðsögn við tillögugerðina.

Háskóla er heimilt að gera samning við viðurkenndan skóla á framhaldsskólastigi til að annast aðfaranám en námið er eftir sem áður á ábyrgð viðkomandi háskóla.

Aðfaranám miðar að því að undirbúa nemendur undir háskólanám á Íslandi en tryggir ekki sjálfkrafa aðgang að öllu námi á háskólastigi við íslenska háskóla. Einstakir háskólar eða háskóladeildir geta sett sérstök inntökuskilyrði á tilteknar námsbrautir. Skóli sem býður upp á aðfaranám skal upplýsa nemendur sem stefna á inngöngu í háskóla um þennan rétt einstakra háskóla og háskóladeilda.

II. KAFLI

Námsframboð og prófgráður.

2. gr.

Aðfaranám er ætlað nemendum 25 ára og eldri. Undanþága frá reglu um aldur er einungis veitt ef nemandi hefur áður lokið prófi á framhaldsskólastigi, svo sem iðnnámi eða stúdentsprófi, og þarf að bæta við sig þekkingu áður en nemandi hefur nám á háskóla­stigi.

3. gr.

Til þess að hefja aðfaranám þarf nemandi að hafa lokið að minnsta kosti 140 fram­haldsskólaeiningum. Hluti þeirra eininga geta verið metnar til raunfærni af þar til bærum aðilum samkvæmt lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008. Samkvæmt aðal­námskrá framhaldskóla veitir öll vinna nemenda í fullu námi 60 framhalds­skóla­einingar á einu skólaári eða 30 einingar á önn. Aðfaranám skal skipulagt þannig að nemandi í fullu námi skuli að jafnaði ljúka því á tveimur önnum. Veitt er undanþága frá þessu viðmiði ef nemandi hefur áður lokið prófi í iðngrein, sbr. 4. gr.

4. gr.

Aðfaranám skal skipulagt sem 60 framhaldsskólaeiningar til viðbótar fyrra námi. Aðfara­námið ásamt fyrra námi skal mynda 200 eininga heild sem lýtur kröfum um kjarna­greinar til stúdentsprófs. Námið skal byggt á hæfniþrepum sem lýst er í aðal­námskrá framhaldsskóla auk aðgangsviðmiða viðkomandi háskóla.

Undanþága frá ofangreindu skipulagi aðfaranáms til viðbótar fyrra námi er veitt ef nemandi hefur áður lokið prófi í iðngrein og þarf að bæta við sig þekkingu áður en til náms á háskólastigi kemur. Þá er heimilt að skipuleggja aðfaranám sem allt að 120 framhaldsskólaeiningar til viðbótar fyrra námi. Námið skal byggt á hæfniþrepum sem lýst er í aðalnámskrá framhaldsskóla auk aðgangsviðmiða viðkomandi háskóla.

5. gr.

Skóli sem annast námið gefur út prófskírteini til staðfestingar á námslokum nemanda úr aðfaranámi. Á prófskírteini skal koma fram merki skóla og heiti og upplýsingar um nám nemanda í aðfaranámi, fyrra námi og raunfærnimati. Þá skal tilgreina heiti námsloka og námsbrautar. Einnig skal tilgreina uppröðun námsins á hæfniþrep í samræmi við aðalnámskrá framhaldsskóla, einstakar námsgreinar og áfangaheiti og einkunnir áfanga. Prófskírteinið skal vera dagsett, stimplað og undirritað.

III. KAFLI

Gildistaka.

6. gr.

Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt 4. mgr. 19. gr. laga um háskóla, nr. 63/2006, með áorðnum breytingum, öðlast þegar gildi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 9. desember 2013.

Illugi Gunnarsson.

Ásta Magnúsdóttir.

B deild - Útgáfud.: 9. janúar 2014