Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 190/2011

Nr. 190/2011 24. febrúar 2011
REGLUGERÐ
um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur á lögbýlum.

1. gr.

Markmið.

Markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki skal við það miðað að fjárhagslegur stuðningur við greinina nýtist sem best til að lækka vöruverð til neytenda og að greinin geti þróast þannig að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi mjólkurframleiðenda og unnt sé að nýta framleiðsluaðstöðuna með eðlilegum hætti.

Reglugerð þessi gildir ekki um eigendaskipti að lögbýlum með greiðslumarki.

2. gr.

Skilgreiningar.

Greiðslumark lögbýlis: Tiltekið magn mjólkur mælt í lítrum sem ákveðið er fyrir hvert lögbýli og veitir rétt til beingreiðslu úr ríkissjóði.

Markaður: Fyrirkomulag viðskipta þar sem boðið er til sölu eða leitað er eftir kaupum á greiðslumarki mjólkur.

Jafnvægismagn: Magn sem getur gengið kaupum og sölum hverju sinni á markaðsdegi við jafnvægisverði.

Jafnvægisverð: Það verð sem myndast þegar framboðið magn er jafnt og eftirspurt magn eða lægsta verð sem jafnvægismagn getur verið selt og keypt á.

Lögbýli: Er í reglugerð þessari skilgreint samkvæmt 2. gr. jarðalaga nr. 81/2004.

3. gr.

Markaðsfyrirkomulag.

Matvælastofnun skal annast markað fyrir greiðslumark mjólkur eftir nánari fyrirmælum í þessari reglugerð. Öll aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur falla undir ákvæði þessarar reglugerðar og eru önnur aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur á milli lögbýla óheimil hvort sem um er að ræða sölu eða gjafir. Undir reglugerð þessa fellur þar með talið flutningur á greiðslumarki milli lögbýla í eigu sömu eigenda.

4. gr.

Aðilaskipti innan jarða.

Þrátt fyrir ákvæði þessarar reglugerðar er Matvælastofnun heimilt að staðfesta aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur, án þess að viðskiptin hafi verið gerð á markaði skv. 5. gr., þegar aðilaskiptin að greiðslumarki fara fram milli aðila innan sama lögbýlis. Matvælastofnun er með sama hætti heimilt að staðfesta sölu á greiðslumarki frá einu lögbýli til annars lögbýlis innan sömu jarðatorfu (tvíbýlis eða margbýlisjarðar, sbr. ákvæði landskiptalaga nr. 46/1941), þótt skipt hafi verið með landskiptum að hluta til, enda sé salan til þess fallin að auðvelda kynslóðaskipti og að öðru leyti hagfelld. Beiðni um aðilaskipti samkvæmt þessari málsgrein skal fylgja umsögn héraðsráðunautar.

5. gr

Markaðsframkvæmd.

Markaður fyrir greiðslumark mjólkur skal haldinn tvisvar á ári; þann 1. apríl og þann 1. nóvember. Beri þessar dagsetningar upp á laugardag eða sunnudag færist markaðsdagur til næstkomandi mánudags. Seljanda er einungis heimilt að bjóða til kaups á aprílmarkaði það magn greiðslumarks, sem hann hefur ekki þegar nýtt innan verðlagsársins fyrir innlegg í afurðastöð.

Þeir sem óska eftir að kaupa eða selja greiðslumark á markaðnum skulu skila inn til Matvælastofnunar tilboðum í lokuðu umslagi sem skulu tilgreina nafn og kennitölu tilboðsaðila, heimili og lögbýlisnúmer, netfang, ef það er fyrir hendi og það magn og verð greiðslumarks, sem boðið er til sölu eða leitað er eftir kaupum á. Tilboðin skulu hafa borist til Matvælastofnunar eigi síðar en þann 25. mars þegar markaður er haldinn 1. apríl og þann 25. október þegar markaður er haldinn 1. nóvember.

Einungis er heimilt að skila inn einu tilboði um kaup eða sölu fyrir hvert lögbýli og af sama aðila og skal óheimilt að bjóða fram mismunandi verð í sama tilboði. Matvæla­stofnun skal merkja tilboð þegar það berst frá viðkomandi aðila og staðfesta móttöku þess. Óheimilt er aðilum að gefa upp magn og verð sem tiltekið er í tilboðunum, sem Matvælastofnun opnar á markaðsdegi samkvæmt þessari grein. Sé það gert skal þeim tilboðum vikið til hliðar.

Til að tilboð sé gilt skal fylgja staðfesting um eignarhald að lögbýlinu. Sé um leiguábúð að ræða skal seljandi skila vottfestri yfirlýsingu frá mótaðila (jarðareiganda/leiguliða) um samþykki sölu. Þá skal seljandi, sem er eigandi lögbýlis, leggja fram þinglýsingarvottorð fyrir það lögbýli sem greiðslumark er selt frá og skriflegt, þinglýst samþykki allra veðhafa fyrir sölunni. Framangreindum gögnum skal skilað með tilboði til Matvæla­stofnunar.

Sé tilboði tekið skulu seljendur greiðslumarks skila inn nýju þinglýsingarvottorði og einnig er Matvælastofnun heimilt að krefja um frekari upplýsingar og gögn ef stofnunin telur tilefni til þess innan tímamarka sem hún ákveður. Kauptilboðum skal fylgja ábyrgðaryfirlýsing banka, sparisjóðs eða vátryggingafélags þar sem fram kemur að viðkom­andi ábyrgðarveitandi tryggi að tilboðsgjafi geti staðið við tilboð sitt. Einnig er heimilt að leggja fram með kauptilboði eða fyrir upphaf markaðsdags staðgreiðslu fyrir andvirði greiðslumarksins í formi yfirstrikaðrar ávísunar útgefinnar af banka. Kaupandi skal inna af hendi staðgreiðslu fyrir andvirði greiðslumarksins fyrsta virka dag næsta mánaðar eftir opnun tilboða.

6. gr.

Markaðsframkvæmd, jafnvægisverð og jafnvægismagn.

Við opnun tilboða, skráir Matvælastofnun magn og verð á hverju tilboði um kaup eða sölu. Við flokkun tilboða um sölu skal þeim raðað upp eftir hækkandi verði við hvert innfært tilboð. Kauptilboðum skal raðað upp eftir lækkandi verði við hvert innfært tilboð á sama hátt.

Náist ekki fullt jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar greiðslumarks skiptist greiðslu­mark sem selt verður hlutfallslega milli kaupenda í samræmi við magn hvers tilboðs­gjafa. Jafnvægisverð er það verð sem myndast þegar framboðið magn er jafnt og eftir­spurt magn eða lægsta verð sem jafnvægismagn getur verið selt og keypt á. Jafnvægis­magn er framboðið magn greiðslumarks, sem getur gengið kaupum og sölum á markaðnum hverju sinni á jafnvægisverði.

Greiðslumarki sem boðið er til sölu á hærra verði en jafnvægisverði skal vísað frá markaði og á sama hátt kauptilboðum sem eru lægri en jafnvægisverð, sbr. þó ákvæði 7. gr. um sölu á sérskráðu greiðslumarki lögbýla í leiguábúð á forræði leiguliða.

Öll viðskipti sem fara fram á viðkomandi markaðsdegi skulu fara fram á því jafnvægis­verði sem markaðurinn gefur í það sinn.

7. gr.

Aðilaskipti að greiðslumarki.

Aðilaskipti að greiðslumarki, sem uppfylla skilyrði um jafnvægisverð og jafnvægismagn skv. 6. gr. eru án takmörkunar þegar í hlut á eigandi jarðar sem jafnframt er ábúandi. Sé ábúandi lögbýlis hins vegar annar en eigandi/eigendur þess þarf samþykki beggja/allra fyrir ráðstöfun greiðslumarks frá lögbýli. Leiguliða er heimilt að kaupa greiðslumark á lögbýli á markaði og skal það sérstaklega skráð á nafn hans.

Leiguliða er heimilt að selja sérskráð greiðslumark án samþykkis jarðareiganda. Skal hann þá bjóða það fram á markaði, sbr. 5. gr. Sé um ábúðarlok að ræða skal það boðið fram á næsta mögulega markaðsdegi. Ábúandi skal senda staðfesta tilkynningu þar um til jarðareiganda, sem skal á sannanlegan hátt hafa borist honum 10 dögum fyrir opnun markaðar. Jarðareigandi á rétt til að kaupa það á jafnvægisverði til og með 20. dags eftir að markaður fer fram. Skal hann eigi síðar en þá tilkynna Matvælastofnun um þá ákvörðun sína. Matvælastofnun tilkynnir jarðareiganda um áformað sölumagn og jafnvægisverð þegar opnun tilboða fer fram. Nýti jarðareigandi þessa heimild skal Matvælastofnun gefa þeim söluaðilum sem eiga sölutilboð hærri en jafnvægisverð, kost á sölu á því magni sem um ræðir í réttri röð miðað við hækkandi verð á jafnvægisverði. Skal heildargreiðslumark til ráðstöfunar á þeim markaði, sem fer fram, minnkað hlutfallslega án þess að raska jafnvægisverði, náist ekki jöfnuður á þennan hátt.

8. gr.

Ákvörðun um viðskipti, gildistaka tilboða, réttaráhrif o.fl.

Tilboð gerð um kaup eða sölu á greiðslumarki eru bindandi á markaðsdegi. Kaup- eða sölutilboð má draga til baka hvenær sem er innan hvers markaðstímabils, sem hefst að loknum hverjum markaðsdegi og stendur fram að þeim næsta.

Aðilaskipti að greiðslumarki sem fara fram á markaði í nóvember skulu taka gildi frá og með 1. janúar á næsta verðlagsári á eftir. Aðilaskipti sem fara fram á markaði í apríl skulu taka gildi frá og með 1. janúar á yfirstandandi verðlagsári. Greiðslumark sem flyst á milli aðila á þennan hátt skal taka sömu hlutfallsbreytingum og heildargreiðslumark gerir við ákvörðun á heildargreiðslumarki hvers árs. Aðilaskipti að greiðslumarki taka ekki gildi fyrr en staðfesting Matvælastofnunar liggur fyrir.

Við aðilaskipti að greiðslumarki á markaði í apríl skal seljandi endurgreiða A-greiðslur vegna yfirstandandi verðlagsárs sem svara til þess magns sem selt er. Matvælastofnun skal draga fjárhæð þessara greiðslna frá söluverði við frágang viðskipta og ráðstafa til endurúthlutunar sem beingreiðslum.

Matvælastofnun er heimilt að birta yfirlit yfir viðskipti með greiðslumark og verð á því. Upplýsingar sem þannig eru birtar skal ekki vera hægt að rekja til einstakra aðila.

9. gr.

Kæruheimild.

Ágreiningi um ákvörðun á greiðslumarki lögbýlis, skráningu á greiðslumarki og stjórnvalds­ákvarðanir um önnur atriði sem varða aðilaskipti og markaðsskipulag samkvæmt reglugerð þessari, er heimilt að kæra til sjávarútvegs- og landbúnaðar­ráðherra.

10. gr.

Viðurlög.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt 82. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Með mál út af brotum skal farið að hætti sakamála.

11. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verð­lagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast gildi við birt­ingu. Við gildistöku hennar fellur úr gildi reglugerð nr. 430/2010 um markaðs­fyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur á lögbýlum, með áorðnum breytingum.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 24. febrúar 2011.

Jón Bjarnason.

Sigríður Norðmann.

B deild - Útgáfud.: 2. mars 2011